Tindferð 201
Laugavegurinn á einni nóttu
föstudagssíðdegi 26. júní til laugardagsmorguns 27. júní 2020

Laugavegurinn á einni nóttu
ofurganga ársins

Laugavegurinn á einum degi... einni nóttu réttara sagt... alein í heiminum...
55 km á 19 klst... alls 2.083 m hækkun og 2.479 m lækkun...
það næst erfiðasta sem klúbburinn hefur gert hingað til... algerlega ólýsanleg upplifun...

... gengið úr Landmannalaugum kl 16:41 á föstudagssíðdegi,
gengið inn í kvöldið og sumarbjarta nóttina inn í morguninn fram að hádegi í Þórsmörk...
um kvöldið vorum við í Hrafntinnuskeri... um miðnætti í Álftavatni... um nótt í Hvanngili...
snemma morguns í Emstrum... lent í Þórsmörk rétt fyrir hádegi á laugardegi kl. 11:42...

... blankalogn, hálfskýjað og óvenju hlýtt... þröngur veðurgluggi...
rigningarvottur við brottför en svo létti til og við rifum okkur úr fötunum...
lygilega hlýtt og bjart um blánóttina...
bókstaflega engin nótt í göldrótti birtu allan tímann...
gátum alltaf borðað úti á palli við skálana í mildri næturkyrrðinni...

... sólin settist á jökultungunum... og kom upp á söndunum... sól og blíða niður í Þórsmörk...
og svo skýjað aftur og rigningardroparnir mættir þegar við keyrðum heim
eftir útlenska "kaldan-eftir- fjallgöngu-stemningu" í tvo tíma á pallinum í Húsadal... ótrúlegt...
þröngur veðurgluggi en alveg sérsniðinn fyrir okkur...

... ógleymanlega gaman og krefjandi í senn... vorum að dóla og njóta en samt vel innan tímamarka...
allir á sama róli í gönguhraða sem var framar vonum...
enginn í vandræðum og aldrei merkjanleg uppgjöf eða mikil þreyta...
gleði, bros og hlátur bókstaflega alla leiðina...
mórallinn einstaklega góður alla ferðina sem var ekki sjálfgefið...

... ein af tíu fegurstu gönguleiðum í heimi án efa...
vorum við virkilega á öllum þessum fallegu stöðum síðasta sólarhring?
... náttúruorkuhleðsla á heims mælikvarða...
aðdáunarvert afrek.... upplifun sem líkist engu öðru...
við mælum með þessu við alla þaulæfða og reynslumikla fjallgöngumenn...

-------------------------------

Ferðasaga hefst:

Veðurspáin var mild... lygn... hlý... eins friðsæl og hægt var að biðja um...
og veðurglugginn það þröngur að hann nánast elti okkur frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk...

Landmannalaugar hér að ofan...
rigning beggja vegna til 18:00 á föstudegi og aftur kl. 15:00 á laugardegi...

Hrafntinnusker... víðsjárverðasti staðurinn á leiðinni... hér vildum við helst ekki vera í slæmu veðri...
og helst ekki í þoku heldur... þar sem það yrði komið kvöld hér...

Veðurglugginn aðeins lengra inn í nóttina og laugardaginn...

Þórsmörkin... þar vildum við lenda í ágætis veðri og ekki enda í rigningu...
svo við gætum notið þess að enda gönguna fallega og vel...

Veðurglugginn enn lengra inn í nóttina og laugardaginn
sem hentaði okkur vel þar sem við vorum að ganga til Þórsmerkur...

Vindaspáin var mjög góð... það var mikill friður með logninu sem ríkti alla þessa göngu...

Hitinn var óvenju mikill þessa nótt...

Úrkoman var engin...

... úrkomubeltin áttu að fara yfir svæðið um svipað leyti og gangan hæfist...
og mæta aftur á svæðið um það leyti sem við enduðum gönguna...

Skýjahuluspáin var sannarlega með okkur...

Skýjahulan klukkan 18:00 á föstudagskvöld...
þá ætluðum við að leggja af stað frá Landmannalaugum en vorum búin á ganga í tæpa 1,5 klst...

... á miðnætti... þarna vorum við í Álftavatni...

... klukkan sex á laugardagsmorguninn... nýlögð af stað frá Emstrum...

... á hádegi á laugardag... lent í Þórsmörk...

Veðurspáin rættist nánast hundrað prósent...

Þetta gat ekki verið hagstæðara... og þetta rættist :-)

Handfarangur kvenþjálfarans...
var ekki að nenna að stilla þessu upp en dreif í því og vissi að þetta yrði dýrmæt heimild...

Nesti:
Þrjár kókómjólk, ein diet-kók, tvær vatnsflöskur, rækjusamloka, steiktur kjúklingur í ræmum með grænmetissalati í sitthvoru boxinu,
kleinupoki og eitt snickers...

Lexían:
Þetta var allt of mikið nesti... það er gott að hafa sitt hvort að borða fyrir þrjá stóra nestispásur;
í Hrafntinnuskeri, Álftavatni og Emstrum.
Ég kom með helminginn af kjúklingnum og sallatinu til baka.
Kókómjólkin reyndist vel sem og kókið, snickersið var ekki borðað og lítið af kleinunum
en það var samt gott að hafa sætindin þegar leið á.

Fatnaðurinn:
Vatnsheldir belgvettlingar frá Dórukoti (vega ekkert en muna öllu ef það er bleyta eða vindur), vara vettlingar, varasokkar x2, ullarpils, ullarpeysa, hlífðarjakki, hlífðarbuxur, varastuttermabolur.

Lexían:
Myndi vera með þetta allt aftur, nýtti flest og myndi aldrei vilja ekki vera með þennan aukafatnað meðferðis ef veðrið yrði erfitt.

Annar farangur:
Hleðslubatterí sem ég notaði, vararafhlöður sem ég notaði, sjúkrabúnaður sem ég notaði (Inga Guðrún skar sig á fingri á leiðinni í bílinn í upphafi ferðar), lesgleraugu (jebb, maður er orðinn nærblindur), skildi bókina eftir í bílnum en var með kortið.

Lexían:
Vaðskórnir voru allt of þungir þegar þeir voru orðnir blautir svo næst mun ég nota létta crocco-skó úr Rúmfatalagernum með bandi yfir, þeir eru alltaf léttir þó þeir blotni og geta hangið utan á bakpokanum. Vaðskórnir héngu blautir utan á bakpokum eða ofan í hjá öllum og voru almennt of þungir og sumir láku bleytu inn í annan farangur. Crocco-skór eru eina vitið, afsakið herra vaðskór... Notaði allt annað sem ég var með :-)

Kortið sem þjálfari var með og bókin um Laugaveginn eftir Leif Þorsteinsson og Guðjón Ó. Magnússon...
gott rit til undirbúnings þó við værum að fara þessa leið í sjötta sinn í lífinu...

Lýsingin á Laugavegsleiðinni gæti verið heill doðrantur stærri og viðameiri en þessi fallega bók og maður myndi lesa hverja setningu með áfergju svo það er pottþétt markaður fyrir mjög ítarlega bók um þessa gönguleið :-)

Við studdumst líka við góða lýsingu á leiðinni frá vefsíðu Laugavegshlaupsins www.marathon.is

... og Gunnar plastaði kortin frá þeim sem var gott að rýna í á leiðinni...

Þegar þreytan sagði til sín og leið á gönguna þá var gott að vera ekki með flóknar tölur að tala um og geta bara horft á kortið...
því stundum misminnti manni... mig minnti t.d. að síðasti leggurinn væri 17 km og næst síðasti 16 km... og ruglaði þessu stöðugt í göngunni þar til ég sá daginn eftir að leggirnir voru 16 km og svo 17 km og var steinhissa... hafði samt skrifað þetta og planað í þaula...
svona sagði þreytan til sín á einhverjum skrítnum tímapunktum / stöðum :-)

Við lögðum af stað úr bænum kl. 12:00 í stað kl. 14:00 þar sem allir komust þá og þannig náðum við okkur í tvo aukatíma til öryggis og lögðum tæpum 1,5 klst. fyrr af stað í gönguna en við ætluðum... og lentum rúmum tveimur tímum fyrr í Þórsmörk en við ætluðum sem var frábært og hentaði eftir á mjög vel :-) ... en við hefðum ekki viljað vera fyrr á ferðinni NB að mati okkar þjálfara... best að vera um miðja nótt á söndunum og upplifa morguninn í Emstrum og láta þreytuna ekki ná yfirtökum á sér á síðasta og erfiðasta kaflanum frá Emstrum niður í Þórsmörk þar sem dagurinn var að vakna og líkaminn vaknaði þá með og hélst vakandi fram að lokum göngunnar... þetta var þaulhugsað frá fyrri skipulagningu með Toppfara þessa löngu dagsferð enda lá mikil vinna á bak við pælingar og skipulag þessarar göngu þar sem huga þurfti að mjög mörgum atriðum eins og þeir einir þekkja sem skipuleggja svona flókna ferð...

Mörgum fannst tímaskipulagið ekki endilega það besta á sólarhringnum
og almennt þegar þessi ferð var rædd þá vildu flestir frekar leggja af stað snemma morguns eða allavega fyrr um daginn en við gerðum
en það þýðir að nóttin leggst á síðasta legg leiðarinnar sem er erfiðast því það er nógu erfitt að ganga þreyttur síðasta legginn svo nóttin bætist ekki ofan á það líka... og það er ekkert spennandi að lenda eftir þessa stórkostlegu leið um miðja nótt eða eldsnemma morguns í Þórsmörk
og hafa veitingastaðinn ekki opinn og allt í ládeyðu næturinnar...

Eina atriðið sem ekki fékk að halda sér í upphaflegu skipulegi þessarar þolraunar var að taka áætlunarrútuna frá BSÍ á hádegi og lenda þannig seinnipartinn í Landmannalaugum og leggja þá af stað - og taka svo áætlunarrútuna eftir hádegið frá Þórsmörk. Sökum Covid-19 samdráttar í ferðaþjónustu lögðust svona margar fastar rútuferðir niður hjá Trek og í staðinn var bara ein ferð á dag til Lauga og Þórsmerkur sem hentaði okkur ekki því þá var engin ferð upp í Landmannalaugar frá hádegi.

Því var það erfiðara fyrir þá sem nýttu sér okkar ferðaplan til að fara þessa sömu leið síðar þetta sumar, að koma sér til og frá á hentugasta tímanum þannig að ferðin yrði sem skemmtilegust... og því var það okkur mikið lán að við enduðum á að þiggja boð Matta um að leigja sprinter og keyra og sækja okkur í þessari ferð og eftir á að hyggja er það fyrirkomulag sem við myndum alltaf vilja.
En ef hópurinn er lítill þá er það fjárhagslega óhagkvæmt að leigja heilan bíl og bílstjóra og því henta áætlunarrútan vel... vonandi rætist úr því næsta sumar fyrir þá sem vilja nýta þær.

Kosturinn við að hafa trússara er hins vegar ótvíræður sá að hafa bíl til vara ef einhver þarf að hætta í Emstrum (það vill enginn hætta í Álftavatni :-)) og þar er hægt að hafa aukaskó og aukafatnað í stað þess að halda á því alla leiðina - og eins er hægt að henda af sér aukafarangri og þurfa ekki að halda á honum alla leiðina niður í Þórsmörk.

Áning í Hrauneyjum þar sem við hittum á Gylfa og Lilju Sesselju og fjölskyldu...
hamborgari, franskar og kók... orkuhleðsla af bestu gerð :-)

Atli Viðar gestur, Kolbeinn, Bjarni, Örn, Hafrún, Bjarnþóra, Matti bílstjóri...

Davíð, Arnar, Vilhjálmur og Bjarni...

Gylfi, Anna Lilja, Þorsteinn Ingi og Lilja Sesselja...

Leiðangursmenn utan við Hrauneyjar:

Efri: Örn, Arnar, Kolbeinn, Davíð, Atli Viðar gestur, Matti bílstjóri, Vilhjálmur, Þorsteinn Ingi aðstoðarbílstjóri,
Gylfi bílstjóri, Lilja Sesselja og Anna Lilja aðstoðarbílstjóri.

Neðri: Bára, Bjarni, Gunnar, Inga Guðrún, Bjarnþóra og Hafrún.

Aksturinn upp eftir gekk vel... við vorum um tvo tíma í Hrauneyjar... og um klukkutíma í Landmannalaugar...
og það var smávegis rigning á leiðinni... en svo fallegt engu að síður... og skyggni...

Mikill snjór á hálendinu þetta vorið... en þó minna í fjöllunum en við áttum von á...

Sjá snjóinn sem búið er að ýta af veginum eftir skarðið að Landmannalaugum...

Það var frekar kuldalegt og allt mjög blautt í Landmannalaugum... mjög sérstakt...
tjaldstæðið við Landmannalaugar var ekki fýsilegt enda voru tjöldin mjög fá...

Ekkert sérlega hlýlegt á þessum tímapunkti...
við höfðum aldrei séð þennan stað svona fámennan í mörg ár...
þrátt fyrir að vera hér á hverju ári í ágúst og september...

Inga Guðrún var að rífa miðana af nýjum vettlingum á leið út úr húsi þegar hún skar sig
og við urðum að pakka fingrinum vel inn svo það hætti að blæða og hún kæmist í gegnum gönguna án vandræða...
það gekk vel og hún rúllaði þessari göngu upp með skorinn fingurinn...

Græjunin var hér við bílinn... menn fóru á wc... skildu smá farangur eftir í bílnum eftir bílferðina sem var gott að geta gert...
og hefði ekki verið í boði ef við hefðum tekið áætlunarrútuna...

Hópurinn kominn að skálanum...

Hópmynd hér tekin af Matta bílstjóra...
en svo föttuðum við að Lilja Sesselja var í skálanum að græja sig svo við tókum aðra við húsin...

Alls 13 manns... happatala ekki spurning...
eftir á að hyggja hefðum við vel getað verið um 20 manns af því við gengum um nóttina og það var enginn á ferli nema við...
það var gott að vita fyrir næstu ferð... því okkur þjálfara langaði strax aftur að ári...
og við mælum sannarlega með þessu við alla vana fjallgöngumenn... þetta var einstök upplifun...

Örn, Gunnar, Hafrún, Arnar, Vilhjálmur, Gunnar, Davíð, Bjarnþóra, Atli Viðar gestur, Inga Guðrún, Kolbeinn, Lilja Sesselja og Bára...
... sporgöngumenn... hugrekki... elja...
en fyrst og fremst frábærir ferðafélagar þar sem vel reyndi á og hvergi bar skugga á samskipti eða annað alla ferðina...

Jebb... við vorum að fara að ganga Laugaveginn í einum rykk... á einum degi... eða einni nóttu í raun...
það var loksins komið að þessu... eftir undirbúning frá því haustið 2019...

Leiðin frá Laugavegshlaupinu á www.marathon.is

Kortið hans Gunnars...

Við hugsuðum leiðina í fjórum hlutum... og þremur megin hvíldarstöðum... það var sálrænt mjög gott...
því þannig vorum við bara að fara að ganga 10-17 km í senn... í raun tvær langar þriðjudagsæfingar upp á 10 km og 12 km...
og svo tvær hefðbundnar tindferðir upp á 16 km og 17
km...
eins og við ræddum á miðri leið til að sefa okkur :-)

Svona var áætlunin hjá þjálfurum í undirbúningnum:

"Alls 55 km á 20 klst miðað við 3 - 5 km/klst með hléum
Brottför kl. 18:00 á föstudag - lending kl. 14:00 á laugardag

Áætluð skipting leiðar - sálrænt best að taka leiðina í áföngum:

1. Landmannalaugar - Hrafntinnusker: 10 km:
Um 4 klst. ganga. Lending um kl. 22:00. Matarhlé 30 mín. Lagt af stað kl. 22:30.

2. Hrafntinnusker - Álftavatn: 12 km:
Um 3 klst. ganga. Lending um kl. 01:30. Matarhlé í 30 mín. Lagt af stað kl. 02:00.

3. Álftavatn (Hvanngil 4 km) - Emstrur: 16 km:
Um 6 klst. ganga. Lending um kl. 08:00. Matarhlé í 30 mín. Lagt af stað kl. 8:30

4. Emstrur - Þórsmörk: 17 km:
Um 5 klst. Lending um kl. 14:00. Matarhlé í 30 mín við Kápu fyrir Þröngánna.

Höfum þá 1,5 klst. til að borða, skála og viðra ferðina áður en rútan fer kl. 16:00 :-)

Styttri hvíldir teknar á milli leggja eftir landslagi, veðri og stemningu.
"

Við lögðum loksins... af stað kl. 16:42 föstudaginn 26. júní 2020...
... sjá bleytuna á svæðinu... lítið þornað undan snjónum sem hopaði hratt en skildi eftir sig mikið af bleytu...
þetta var það sem skálavörðurinn meinti þegar hún sagði að allt væri mjög blautt á svæðinu
en ekki endilega fullt af snjó í einu af nokkrum símtölum þjálfara við þau dagana fram að ferð...

Beint í Laugahraunið gullfallega, svipmikla og úfna...

Sjá skaflana liggjandi utan í hraunjaðrinum við skálann...

Sums staðar voru skaflarnir ansi miklir á leiðinni en alveg horfnir á öðrum stöðum eftir legu út frá sól og vindi...

Veðrið batnaði um leið og við lögðum af stað... dumbungur og dropar í lofti þegar lagt var af stað... en svo þurrt...
og það var alveg logn og hlýtt...

Sjá Jökulgilið þaðan sem við komum í sögulegu ferðinni í fyrra...

Sjá hér framundan Vondugil þaðan sem við munum koma niður um í lok ágúst á Hellismannaleið frá Landmannahelli að Landmannalaugum... vonandi í sama glirtandi fallega veðrinu og öll hin árin í okkar árlegu "Fjöllin að Fjallabaki" - göngunni okkar sem alltaf trónir á toppnum eða næstum því þar þegar árið er liðið...

Sjá söfnunina hér... í tímaröð þar sem það er ekki sjens að geta raðað ferðunum eftir gæðum...
þær eru allar svo kyngimagnaðar:

http://fjallgongur.is/fjollin_ad_fjallabaki_fra_upphafi.htm

Suðurnámurnar... á þær ætlum við að ganga með smá útúrdúr af Hellismannaleiðinni
en þær hafa togað okkur til sín árum saman og skreyta Frostastaðavatn hinum megin þegar keyrt er til Landmannalauga...

Góður stígurinn upp eftir...
en skaflar hér og þar og sjáanlegur slóði á honum alls staðar svo það var ekki hægt að villast...

Harður snjór og ekki blautur... það var allt með okkur þessa nótt... áhyggjur af snjófarganinu voru óþarfar...
það var í raun betra að hafa allan þennan snjó því hann lá yfir gil sem við hefðum annars þurft að fara niður og upp um
en fórum í staðinn á snjóbrúm yfir...

Bláhnúkur... eitt af fegurstu fjöllunum á þessu svæði...
hann var sá fyrsti sem við gengum á í verkefninu "Fjöllin að Fjallabaki"...
númer eitt af átta fjöllum þann ágúst dag árið 2014...

http://fjallgongur.is/tindur121_fjallabak1_8tindar_290815.htm

Alvöru konur í þessari ferð... Inga Guðrún og Lilja Sesselja hér... og framar voru Bjarnþóra og Hafrún...
fimm konur og átta karlmenn í þessari ferð...
þjálfari var sérlega ánægður með frammistöðu kvenþjóðarinnar sem hefur alltaf staðið sig svo vel með strákunum í okkar ferðum...

Brennisteinsalda... svo óskaplega falleg... með alla mögulega liti í sér...

... hér nutum við þess að ganga... tókum myndir og horfðum í allar áttir...

Þessi ganga var eins og hver önnur tindferð... með útsýnisstoppum... myndatökum... hópþéttingum... löngum matarpásum...
endalausum hópmyndum... brandara- og sögustundum... en samt náðum við að fara alla þessa leið án þess að gista á milli...
það kom okkur virkilega á óvart því við héldum einhvern veginn að við myndum arka stöðugt áfram þegar á hólminn væri komið...
og sumir héldu að við ætluðum að hlaupa nánast og alls ekki taka myndir... en það var aldeilis ekki...
við dóluðum okkur þegar það hentaði... og gengum rösklega áfram þegar það hentaði...
og sóttust furðu vel þessir 55 kílómetrar...

Útsýnið til baka yfir Laugahraun og Landmannalaugar... og Norðurnámurnar og mynni Jökulgils þar sem við komum loksins gangandi út gilið í ljósaskiptunum eftir stórkostlegan dag í fyrra á Hábarm, Grænahrygg, Hrygginn milli gilja og loks yfir Jökulgilskvíslina átján sinnum í ljósaskiptunum þar sem myrkrið skall á um leið og við komumst loksins í rútuna... þeirri göngu gleymum við aldrei...
en hún trónir á topp þremur hjá þjálfurum yfir bestu ferðina á þessu svæði... þó mjög erfitt sé að velja...

http://fjallgongur.is/tindur175_habarmur_ofl_fjfj6_010919.htm

Einstaklega fallegur staður hér... söguleg mynd tekin hér í fyrstu Laugavegsgöngu hópsins árið 2008:

... jebb...aðeins minni snjór síðar að sumri...
svona leit þetta út án snjóskaflanna þann 8. ágúst árið 2008...

Bláhnúkur... ægifögur leið er upp á hann og svo niður hérna megin um gilin gegnum hraunin til baka...
fjölskylduvæn og mjög flott leið...

Snjórinn lék óvænt aukahlutverk í þessari göngu og var mun fallegri og léttari yfirferðar en við áttum von á...

Þetta útsýni er alltaf jafn áhrifamikil...

Gestur ferðarinnar hann Atli vildi endilega taka hópmyndina svo Báran væri með...
það var nú a bavel þegið :-)

Frábært fólk og mjög góðir félagar...

Við vorum í hífandi góðu skapi...

... loksins lögð af stað og veðrið lék við okkur...

Strákarnir komnir í stuttbuxurnar og Gunnar hélst í þeim alla ferðina
en Davíð gafst upp á einhverjum tímapunkti yfir nóttina :-)

Bara leiðin upp í Hrafntinnusker er veisla... hvað þá öll leiðin...

Litið til baka... Brennisteinsalda vinstra megin og Bláhnúkur hægra megin...
allt að verða gullið með sólinni sem var að brjótast í gegnum skýin...

Háalda hér í vestri... við erum að spá í að ganga á hana árið 2021 eða 2022
í árlegu "Fjöllin að Fjallabaki - söfnunarferðinni" í lok ágúst...

Brennisteinsalda og Suðurnámur...

Framundan var heiðin upp í Hrafntinnusker...

Við komumst varla úr sporunum það var svo margt að horfa á og dást að...

Kynjamyndir um allt... teiknimyndapersónur og dýr...

Það létti sífellt til eins og spáin sagði til um...

... og þokan lyfti sér með okkur alla leiðina nánast...

... það var með ólíkindum að upplifa það...

Erlendir ferðamenn á stangli...

Svo kom sólin óhindruð og þá varð svo fallegt...

Háalda og Suðurnámur... Gunnar og Inga Guðrún...

Snjórinn gat ekki verið betri þennan sólarhring...

Fjöllin að koma undan snjónum smám saman... Suðurnámur þarna í fjarska... og smá endi af Háöldu...
Jökulgilskvíslini rennandi hægra megin í horninu frá Landmannalaugum...

Magnað að sjá þetta svona... eins og vatn liggjandi milli fjallanna...

Já... tekið endalaust af myndum...

Mynd frá Bjarnþóru, takk :-)

Öðlingar og afreksfólk í þessari ferð... og ekkert minna...

Þokan framundan... en hún hélt áfram að lyfta sér...

Það var ótrúlegur friður á þessum kafla...

... þokan ofan okkar eins og mild sæng en við með skyggni niður um allt...
algert logn og hlýtt...

Hér búin að lyfta sér verulega...

Hér jókst snjómagnið...

... sem var ekkert verra því þá jöfnuðust út öll gil og brekkur upp og niður...

Jarðhitinn...

Hér stoppuðum við dágóða stund og upplifðum rjúkandi hitann upp úr jörðinni...

Þessir snjóhellar... þessi dýjamosi... þessi harðgerði svarti sandur...

Magnað...

Erfitt að halda áfram...

Rjúkandi upp úr jörðinni...

Takk fyrir okkur...

Aftur komin á autt...

Þetta voru skaflar af og til...

... og litirnir áfram fjölbreyttir þó komið væri svona hátt upp...

Sjá harða skaflana...

Sumar stikurnar orðnar snjólausar en aðrar á kafi í snjó...

Veðrið var þannig að þetta var allt svo saklaust í logninu og hitanum...
 eins og þetta getur verið hættulegur staður að vera á í hráslaga og blindaþoku...

Skær birta gegnum þokuna...

Sólin var næstum því að komast í gegn...

Allt í einu vorum við komin að skálanum í Hrafntinnuskeri...
það var svo góð tilfinning... kaflinn sem við höfðum mestar áhyggjur af var að baki án þess að finna nokkuð fyrir honum
heldur þvert á móti búin að njóta kyrrðarinnar sem hann bauð upp á handa okkur alein í heiminum...

Litið til baka á vörðurnar...

Fyrsti formlegi nestis- áningarstaður af þremur í göngunni... Hrafntinnusker....

Alls 10,5 km að baki á 3:19 klst.

Örn mældi þennan fyrsta legg 10,45 km á 3:17 fremstu menn og öftustu voru þá skv. þessu úri 10,55 km á 3:19 klst.

Klukkan var 20:01 um kvöld þegar við lentum í Hrafntinnuskeri
og því ekki á ókristilegum tíma til að fá að snæða við skálann...

Það hlýtt og lygnt að við borðuðum bara úti á palli... en það var á mörkunum og betra að klæða sig í ullinia eða úlpuna samt.. .
Við fundum ekki skálaverðina þrátt fyrir mikla leit en hittum á tvo menn inni í mjög hlýjum skálanum sem ætluðu að gista þar um nóttina...

Menn voru með margs konar nesti... samlokur, kjöt, sallöt, bakkelsi...

Hér byrjuðum við að skoða kortið sem Gunnar kom með þetta og hann hafði plastað af Maraþon síðu Laugavegshlaupsins...
gott að skoða það og spá í þetta saman...

Davíð hélt dagbók í göngunni...

Eflaust margt merkilegt sem hann skrifaði þar sem gleymist annars...
Hann var ennþá í stuttbuxunum sem segir allt um hversu gott veðrið var...
NB í Hrafntinnuskeri þar sem flestir hafa frekar hráslagalegar minningar af takk fyrir :-)

Skálinn mjög notalegur og mjög hlýr...
það var eiginlega varasamt að fara inn í hann því þá langaði mann ekki aftur út... svo notalegt eitthvað :-)

Hann er skírður í höfuðið á Höskuldi Jónssyni fyrrverandi ráðuneytisstjóri og forstjóri ÁTVR
sem lést fyrr á þessu ári...

Höskuldur var forseti Ferðafélags Íslands frá árinu 1985 til 1994 og mjög virkur í því starfi sem fararstjóri o.m.fl.

Blessuð sé minning Höskuldar Jónssonar...

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/21/andlat_hoskuldur_jonsson_fv_forstjori_atvr/

Jebb... veður eru válynd í Hrafntinnuskeri... og skálarnir enn á kafi í snjó að hluta... hér skálavarðahúsið sjálft...

Góða veðrið læddist um skálann og sólin var ekki langt undan...
hún virtist vera að segja okkur að við hefðum farið svo hratt upp fyrsta kaflann...
að hún ætti fullt í fangi með að ná okkur en myndi ekki gefast upp...

Við tókum okkur góðan tíma í nestið...
áætlaður tími hverrar matarpásu við skálana var 30 mínútur sem við vissum að væri frekar vel í lagt
miðað við ráð þeirra sem farið hafa Laugaveginn á einum degi og mæla með því að stoppa ekki lengi til að detta ekki úr gírnum...
en við brutum þetta ráð í raun... létum líðan og aðstæður ráða og vorum yfirleitt lengur en 30 mín...

Við lögðum af stað kl. 20:36... eftir 36 mín matarpásu... og tókum dressmann á þetta til að koma okkur í gírinn...

Framundan sama dýrðin í logni og þessum sjaldgæfu hlýjindum á þessum stað í rúmlega 1.000 m hæð...

Jökultungurnar sjálfar næsta verkefni með sínum magrglitu giljum, hæstu fjöllum leiðarinnar á vinstri hönd
og stórkostlegu útsýni niður að Álftavatni í hinum endanum..

... og tilfinningin var notaleg því nú var bara verið að lækka sig smám saman...

... með jú smá upp og niðurbrekkum sem áttu reyndar eftir að vera ansi drjúgar alla leiðina niður í Þórsmörk
og eru vanmetnar ef á heildina er litið og sagt að "eina alvöru brekkan sé upp í Hrafntinnusker"... :-)
... það fannst okkur allavega eftir á að hyggja :-)

Takk fyrir okkur Hrafntinnusker !

Örn fann þetta skírteini á leiðinni...
og við skildum það eftir hjá skálavörðunum í Álftavatni í þeirri von að viðkomandi hefði verið á gangi fyrr um daginn
og gist þar nóttina sem var framundan... því það virtist ekki hafa legið þarna lengi en aldrei að vita samt...

Sólin var alveg að ná okkur...

Minningaskjöldur um Svavar S. Tómasson sem lést hér í sorglegu snjósleðaslysi vorið 2014...

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/14/madurinn_sem_lest_vid_hrafntinnusker/

Sólin var komin upp á heiðarnar með okkur... og byrjaði að skína á efstu tinda...

Hún var í óða önn að vinna á þokunni sem lá yfir öllu...

Ótrúlegur munur þegar geislar hennar náðu í gegn...

Sterkir djúpir litir í landslaginu...

Hún var samt að setjast svo hún var ekki til mikilla stórræðna næstu klukkutímana...

... en samt enn á lofti og við fengum notið hennar alveg til miðnættis en skv. gps
þá settist hún nákvæmlega kl. 00:00 föstudaginn 26. júní...
og reis kl. 03:00 laugardaginn 27. júní...

Það munaði 1 mínútu milli daga... helgina á undan sem eru sólstöður...
þá reis hún kl. 02:56 og settist kl. 00:01 svo það munar litlu milli þessara tveggja helga...

Helgin á eftir sest hún kl. 23:52 og rís kl. 3:12 svo það munar meiru á milli síðustu helgar í júní og fyrstu helgar í júlí
heldur en milli tveggja helga í júní...

Þannig að ef maður vill fara Laugaveginn svona yfir nóttina þá eru síðustu tvær helgar í júní bjartastar
og skiptir nánast engu hvor er, en það er aðeins farið að styttast dagurinn í júlí...

Friðurinn sést líklega vel á þessari mynd...

Takk snjór... fyrir að létta okkur heilmikið bröltið upp og niður öll gilin í Jökultungunum...

Þetta var ansi saklaust til að byrja með og greiðfært...

Mjúku og ávölu Reykjafjöllin vinstra megin á þessum kafla svo falleg í hásumarsbirtunni...

Snjólínan óðum að hörfa...

Snjórinn var minni en við héldum almennt og mun greiðfærari en við áttum von á...

Stutt fatastopp, myndatökustopp, landslagsstopp og hópurinn þéttur reglulega ofan á matarpásurnar...
veðrið var svo milt og gott að við bara urðum að njóta númer eitt... og ganga númer tvö...

Allt að gerast... sumarið er að vinna í þessu...

Háskerðingur birtist smám saman...

... fjallshlíðarnar í kring að verða gular af sól...

Þetta var yndislegt...

Útsýnið allt að opnast...

Stutt í að sjá fjöllin í kring...

Háskerðingur vildi greinilega kasta kveðju og þakka fyrir síðast í lygilega fallegri ferð árið 2018...

Þarna stóðum við árið 2018 og fullyrðum enn að ofan af þessum tindi sé fegursta útsýni sem gefst af fjallstindi á Íslandi...
bendið okkur á annað flottara og metum það saman... bara gaman að spá í þetta og alltaf erfitt að fullyrða um svona hluti í raun :-)

tp://fjallgongur.is/tindur160_haskerdingur_250818.htm

Gilin á þessum kafla eru varasöm á snjóbrúm...
við vorum meðvituð um það en komumst að því að við vorum það snemma á ferðinni að litlar líkur voru á að þær gæfu sig...

Lækurinn hér að koma undan snjónum í einu gilinu...

Við fórum samt varlega... sem einn hópur og pössuðum að allir kæmust klakklaust yfir...

Óhugnanlegt banaslysið hjá erlenda ferðamanninum í Sveinsgili sumarið 2016 er okkur enn í fersku minni
og minnti okkur óþyrmilega á það á hverju ári hversu vandlega þarf að fara yfir snjóbrýr með rennandi ár undir...

https://www.visir.is/g/2016371056d

Hinum megin við snjóbrúna...

Gilið ofar... mikið snjómagn ofan í þessu gili...

Samræðurnar og samveran í þessari göngu var ómetanlegt...
Laugavegshlauparar ferðarinnar voru fimm... Atli Viðar, Bára, Gunnar, Vilhjálmur og Örn...
  og við rifjuðum stöðugt upp hlaupin okkar þessa mögnuðun leið...
upplifunina... áskorunina... erfiðleikana... sigurinn...

Ótrúlega fallegt þrátt fyrir snjó og þokuslæðing...


Mynd frá Bjarnþóru... takk :-)

... og landið á fullu að ná sumrinu...

Litið til baka...

Áin rennandi milli skaflanna í einu gilinu... þetta voru svo miklir töfrar...

Stundum var stutt í auða jörð...

... og skaflarnir farnir að þynnast...

Jarðhitinn hjálpaði til...

Hér eins og á svo mörgum öðrum stöðum stöldruðum við lengi við og upplifðum fegurðina...

Litirnir...

Þessi skaflhellir  var fallegur...

... götóttur...

Sjá hann fjær...

Davíð prófaði að ganga á jaðrinum og stinga stöfunum í gegn... hann var gallharður þessi skafl...

En á endanum urðum við að halda áfram...

Brot í snjónum... ef maður skyldi nú taka upp á að fara hér árlega á einum degi / nóttu...
þá væri gaman að bera þessi snjóalög saman milli ára og sjá hvort skaflarnir séu misjafnir milli ára...

Auð jörð lengi vel á milli...

Svartihryggur að koma undan þokunni...

Mjög fallegur þessi kafli á leiðinni...

Hryggurinn leirkenndi og ljósi sem hefur oft gefið svo fallegar myndir í gegnum árin...

Fossinn sem rennur niður brekkurnar litlu sunnar
en við vorum nokkur sem skutumst smá aukakrók þangað til að sjá..

Litið til baka frá fossinum...

Hér varð birtan einstaklega falleg...

Lækjargilið... gæti grenjað að hafa ekki tekið lengra myndband niðri í því...

Þokan að hverfa...

Ofan við fossinn...

Gilið upp eftir...

Oft svolítið mál að hlaupa hér í Laugavegshlaupinu...
leirinn er sleipur og blautur og maður er á hlaupaskóm...

Mynd tekin út gilið... í endanum er fossinn...

Snjórinn ekki langt undan en hann leikur svo sem stórt hlutverk á þessari gönguleið fram á haustið yfirleitt...

Útsýnið ofan af hryggnum....

Ofan við gilið...

Skyndilega fengum við bláan himininn yfir okkur...

... og útsýnið til allra átta opnaðist óskert...

Ótrúlega fallegt og hlýjir litirnir...

Nú blasti Álftavatn við í allri sinni dýrð... við stóðum agndofa...

Svarti hryggur...
hann gefur mikinn svip á svæðið og tekur athyglina frá Háskerðingi sem er hæstur en innar á svæðinu...

Hvílíkt útsýni !

Hópmynd ferðarinnar:

Hafrún, Inga Guðrún, Arnar, Bjarnþóra, Gunnar, Vilhjálmur, Davíð, Bjarni, Atli gestur, Örn, Kolbeinn og Lilja Sesselja
en Bára tók mynd og Batman var í bænum og skildi ekki hvers vegna hann fékk ekki að koma með :-)

Dýptin, umfangið og fegurðin fangast engan veginn á ljósmyndum...
maður verður að vera á staðnum...

Mynd frá Bjarnþóru með skýrari litum... takk :-)

Skýin lyftust upp um metra á hverri sekúndu núna...

Allt varð bjart og skýrt... fossinn og gilið sem hafði heillað okkur ofar...

Upplifunin að fá þetta útsýni úr litríku fjöllunum niður á svört og  mosagræn fjöllin... jöklana...
og árnar sem renna til sjávar um allt... er engu lík og alltaf jafn áhrifamikil sama hversu oft maður kemur hérna...

Laufafellið og félagar... þangað verðum við að fara að hundskast upp :-)

Blessaður vertu Svarti hryggur...

Sérstakir... ólíkir... magnaðir heimar...

Gulu fjöllin... og svo grænu fjöllin...

Háskerðingur skýlaus og snjóugur upp í topp vinstra megin... Svarti hryggur hægra megin...

Reykjafjöllin ofan slóðarinnar í fjarska...

Gilið neðan við Svarta hrygg...

Sólin að setjast og senda gullna geisla á skýin...

Síðasti kaflinn úr fjöllunum niður að brekkunni ofan við Álftavatn...

Heiðin ofan við brekkuna...

Mýrdalsjökull og fjöllin nær heita líklega Útigönguhöfði 980 m (ekki sá sami og á Fimmvörðuhálsi)
og Ófæruhöfði 901 m.

Það var ekki hægt annað en fyllast orku við að ganga hér niður með þessa fegurð í fanginu...

Meira að segja blómin sem lifa hér við harðneskjulear aðstæður voru litríkar og í stíl við stórfengleikann á svæðinu...

Hópmynd tvö með Álftavatns-útsýnið baksviðs...

Kolbeinn, Örn, Atli gestur, Bjarni, Hafrún, Davíð, Bjarnþóra, Inga Guðrún, Arnar, Gunnar, Lilja Sesselja, Vilhjálmur
og Bára tók mynd.

Fjöllin á þessu svæði skulu öll vera gengin í klúbbnum næstu árin... þjálfarar eru farnir að vinna í þessu...
og fyrsta verður Stóra og Litla Grænafjall sem eru næst Krók suðvestan megin við Álftavatn...
en Hattfell, Stóra súla, Stórkonufell, Torfatindar, Illasúla, Útigönguhöfðar, Sáta, Útigönguhöfði, Ófæruhöfði o.fl.
bíða í röðum eftir okkur næstu árin :-)

Brekkan niður hér var misgóð þetta kvöld... stundum svo grýtt og illa farin eftir leysingar af vetrinum
að erfitt var að sjá að hér ætti að vera stígur... tók því miður ekki mynd af þessum erfðu köflum en þetta voru grjótálar eftir skaflana,
stundum illa skorið og djúpt svo Laugavegshlaupurunum hraus hugur við að hlauparar ársins 2020 gætu fótað sig öruglega hér niður...
en það reyndist svo vera þegar á reyndi því á þessum þremur vikum sem liðu frá okkar göngu og að Laugavegshlaupinu
þá lagaðist slóðinn mikið, þökk öllum þeim göngumönnum sem gengu á því tímabili hér niður :-)

Við hugsuðum til Jórunnar Atla Toppfara sem ætlaði með okkur þessa ferð og hafði undirbúið sig samviskusamlega mánuðum saman eins og við en komst svo ekki þessari síðari varahelgi vegna afmælis hjá manninum sínum... en hún fékk nasaþefinn af utanvegahlaupum þegar hún fór að taka tímamælingar á fjöllin með okkur síðasta haust eftir einhverjar fyrri tilraunir... og komst að því að hún er afbragðs utanvegahlaupari...

... prófaði að keppa í Volcano Trail Run hlaupinu frá Húsadal um Valahnúka og Þórsmerkursvæðið síðasta haust, stóð sig svo vel þar að það var ekki aftur snúið... fór í Náttúruhlaupin og endaði á að skrá sig í Laugavegshlaupið sem hún svo kláraði á tímanum 6 klst. og 51 mínútu !

Vá vel gert !

Magnað afrek hjá henni... konu sem byrjar að utanvegahlaupa skipulega haustið 2019 !

https://timataka.net/laugavegshlaup2020/urslit/?race=1&cat=f

Neðar var stígurinn mjög góður...

Grashagakvíslin hér framundan... vaðið er talsvert neðar...
en Örn greip færis á að fara yfir á snjóbrú úr því allt þetta snjómagn var yfir henni ennþá...
... sem var mjög skrítinn gjörningur...

... og það gekk vel...  hnausþykkt yfir henni og saklaust undir...

Litið til baka áður en farið var yfir ána...

Yfir miðri á...

Ekkert mál.... stórmerkilegt að þvera þessa á á snjóbrú... aldrei vitað annað eins fannst okkur...

Snjólálarnir ofar hinum megin...

Þar með lauk snjókafla þessarar ferðar almennt...
smá í giljunum við Hvanngil reyndar og Emstrur jú líka en varla til að tala um...

Sjá Grashagakvíslina neðar...

Stóra súla og félagar framundan...

Nú vorum við komin í svarta og græna heiminn...

... og við tók straujun á sléttlendi til Álftavatns...

Laufafellið... það var að nálgast miðnætti og því það var búið að breiða smá skýjasæng yfir sig fyrir nóttina...
mikill friður var á þessum kafla...

Svo bjart hins vegar að við fundum ekkert fyrir því að það væri að koma miðnætti...

Hann er drjúgur spottinn frá Grashagakvísl að Álftavatni og rífur alltaf aðeins í þolgæðin...

Nóg af vatni á leiðinni um Laugaveginn... það þarf ekki að bera mikið vatn...
nóg ein flaska í bakpokanum og fylla svo alltaf á í lækjunum...

Svo fallegt...

... litirnir og fegurðin á þessari leið er svo mikil
að það er á við eina allsherjar heilsumeðferð að ganga þennan Laugaveg á einum degi á hverju ári...

... meira að segja smáatriðin sem fáir taka eftir voru á heimsmælikvarða...

... jafnt hið smáa sem hið stóra...

Skálinn við Álftavatn...

Nokkrar minni sprænur á leiðinni að hoppa yfir...

Glæsileg húsakynnin hjá FÍ sem hafa verið bætt heilmikið síðustu ár...

... nýjasta er kaffihúsið sem selur heita og kalda drykki sem er aldeilis vel þegið af göngumönnum
en var ekki komið í gagnið þessa helgi og hefði hvort eð er ekki verið opið á þessum tíma sólarhringsins...

Skiltin hafa líka verið uppfærð síðustu ár varðandi skálana og leiðina sjálfa... virkilega vel gert...

Lent við Álftavatn kl. 23:58... búin með 23,2 km á 7:15 klst...

Leggur tvo frá Hrafntinnuskeri í Álftavatn mældist 11,84 km á 3:18 klst. skv gps hjá Erni
en hann mældi hvern legg fyrir sig sér í þessari ferð og lét stóra gps-tækið mæla heildarvegalengdina.

Við gerðum ráð fyrir að ganga 12 km á 3 klst. þennan legg og vorum því 18 mín lengur en við áætluðum...

Skálavörðurinn við Álftavatn og gestur hans... Arnar þekkti Þengil og spjallaði heilmikið við hann...
þau voru hin almennilegustu og leyfðu okkur að borða við einn skálann á pallinum þó það væri komið miðnætti...

... og Þengill átti eftir að reynast okkur dýrmætur örlagavaldur mikill síðar í ferðinni...

Nokkrir að gista hér þessa nótt... erlendir ferðamenn og íslensk fjölskylda...
að ganga Laugaveginn eins og við þessa fyrstu helgi sumarsins á þessari gönguleið...

Tjaldstæðið nær vatninu...

Skiltið við Álftavatn...

Litla og Stóra Grænafjall eitt af fjöllunum sem skreyta sýnina til norðvesturs frá Álftavatni...
þar upp áttum við eftir að ganga síðar um sumarið í ágúst...

Kaffihúsið og skálavarðahúsið...

Leiðin framundan...
við hefðum átt að taka svipaða mynd af skiltunum í Hrafntinnuskeri og Landmannalaugum..

Leiðin að baki...

Hér fengum við að borða á miðnættinu og fara á wc...

Nesti kvenþjálfarans... steiktur kjúklingur og grænmetissalat...
þetta átti svo að vera líka nestið í Emstrum en lexían var sú að vera með þrjú ólík nesti á þessum þremur stöðum...
og því endaði maður á að borða meira kleinur og kex í Emstrum... og rækjusamlokan í Hrafntinnuskeri var algert æði...
þrjú ólík nesti eru lexían kvenþjálfarans fyrir þá sem fara svona ofurgöngu um Laugaveginn eða annað svipað...

Kolbeinn var með primus og hitaði vatn eins og fleiri gerðu... hann bauð fararstjóranum í kaffi sem var vel þegið :-)

Þeir sem voru með primus voru fegnir því og nutu þess að fá sér heitt kaffi, bollasúpu eða álíka...
sem var til eftirbreytni og skipti máli til að fá notalegra nesti og tilbreytingu...

Stóra Grænafjall.. svo nálægt... Illasúla litla strítan vinstra megin...
Torfatindar hægra megin og Brattháls vinstra megin...
... við eigum eftir að ganga á öll þessi fjöll næstu árin...

Eftir mjög notalega og frekar langa nestispásu var haldið áfram...

Pásan tók því 40 mínútur og var vel varið...

Við lögðum af stað frá Álftavatni nákvæmlega kl. 00:38 um nóttina...

Strax frá Álftavatnsskála þarf að vaða... líklega ná menn oft að stikla hér yfir...
en annars þarf að fara að skilgreina þetta vað sem eitt af föstum vöðum gönguleiðarinnar...
ekki sjens að stikla hér yfir...

Nafn á þessari kvísl vantar á kortum sýnist okkur... við kölluðum hana Álftavatnskvísl til aðgreiningar...
en það má endilega láta okkur vita rétta nafnið á þessari kvísl til að setja hér inn :-)

Við neyddumst til að fara í vaðskóna sem var eiginlega það eina "erfiða" í þessari göngu...
þ.e. það var alltaf svolítið vesen... best að geta bara haldið áfram og gengið...

... en um leið var þetta tilbreyting og braut upp gönguna... var hvíld og hressing fyrir fæturna...
svo það er spurning hvort þetta sé ekki bara gott í raun :-)

Inga Guðrún fékk lánaða vaðskóna hennar Bjarnþóru þar sem skorni puttinn hennar þoldi ekki að græja þrönga vaðskó...
Bjarnþóra gekk því berfætt yfir að eigin ósk enda mikill sjósundsmaður...
konan sú er alger ofurkona og vílar ekkert fyrir sér... jákvæð, gefandi, björt og þakklát öllum stundum...

Sólin nýsest... á miðnætti á slaginu settist hún... birtan einstaklega falleg og friðurinn áþreifanlegur...

Við vissum að Bratthálskvísl væri stuttu eftir Álftavatnskvíslina... og ákváðum að prófa að ganga á vaðskónum á milli...
en það var ekki hægt á þessum dæmigerðu vaðskóm enda lítil höggþétting í botninum á þeim...
og gáfumst því upp á miðri leið og fórum aftur í gönguskóna... til þess eins að þurfa aftur að fara í vaðskóna stuttu síðar...

 Þeir sem voru á crocco-skónum úr Rúmfatalagernum voru í góðum málum... en ekki við hin í hámenntuðu vaðskónum...
sem urðu þung af bleytu eftir fyrsta vaðið... fylltust af grjóti og sandi sem var erfitt að tæma á milli...
sem bleyttu bakpokann á milli vaða...
crocco-skórnir hins vegar voru alltaf léttir, þurrir, með mun mýkri botn til varnar grjótinu í ánu og grjótið festist ekki við þá...
hér með verðum við alltaf með crocco-skó sem vaðskó í okkar ferðum :-)

Brekkan sem var ekki hægt að ganga niður um á vaðskónum en var í lagi á crocco...

Við vorum að lenda í ríki Stóru súlu...

Komin að Bratthálskvíslinni...

Ekkert mál að vaða og bara hressandi...

Það var eitthvað lúmskt gott við að vaða berfættur og frískast upp við vesenið í kringum það
þó það væri líka tafsamt og orkufrekt...

Svona skilti voru reglulega á leiðinni en stundum var ósamræmi í vegalengdunum...

Stóra súla... við byrjuðum strax að kokka göngu á þetta glæsilega fjall
sem líklega stelur senunni meira en nokkurt annað á Laugavegsleiðinni...

Kaflinn frá Bratthálskvísl að Hvanngili er alltaf í uppáhaldi þjálfara...
það eru einhver vatnaskil þarna sem eru góð fyrir sálinu...
eða kannski er það bara þessi stutta vegalengd milli skála sem er svona notaleg...

Skafl sem fyllti vel upp í gilið ofan við Hvanngil...

Snjórinn áfram þéttur og harður...

Laufafellið ennþá í sólinni virtist vera... þó klukkan væri meira en eitt um nóttina...
það reis það hátt að sólin skein ennþá á það...

Minni birta samt um blánóttina þó við tækjum ekki eftir því eins og sést á lélegri snerpu í sumum ljósmyndunum...

Kynjaverur um allt í landinu...

Mýrdalsjökull, Smáfjöll, Stórkonufell og Stórasúla...

Skaflarnir glerhörðu smám saman að gefa eftir sumrinu...

... eins og í þessu lækjargili...

Sjá hvernig snjórinn hefur nýlega legið í þessu gili og gróðurinn er að þorna smám saman...

Með Stórkonufell og Stóru súlu í baksýn...

Komin í Hvanngil... notalegur skálastaður... með Hvanngilshnausa fyrir ofan...

Hvassir og glæsilegir eru Hvanngilshnausarnir...

Smá göngubrú yfir kvíslina sem væri áhugavert að vita hvort menn kalli Hvanngilskvísl ?

... en nafnlaus er hún á korti...

Hér eiga Laugavegshlauparar minningar um snögga wc ferð í miðju hlaupi...
sum okkar notalega gistingu í gegnum árin...
meðal annars í fyrstu ferð Toppfara um Laugaveginn á tveimur dögum
þar sem Hvanngil er þá um miðja vegu með sitt hvora 27 kílómetrana hvorn daginn frá Landmannalaugum niður í Þórsmörk...

http://www.fjallgongur.is/tindur14_laugavegur_080808.htm

Við áðum hér stuttlega og menn fóru á wc... nánast ekkert líf á staðnum frekar en í hinum skálunum...
skrítið að vera á þessum stöðum með engin eða örfá tjöld og enginn á fótum...
... sjá hvernig það er verið að gera við hurðirnar á salerninu til enda...

Þarna kom smá syfja yfir kvenþjálfarann... eini syfjupunkturinn í ferðinni hjá henni...

... við vorum jú um miðja nótt þarna... búin með 28 kílómetra á tæpum níu og hálfum klukkutíma...

Stóra gps-ið sagði aðeins hógværari og marktækari sögu hvað varðaði vegalengdina...
tæpir 27 km og NB klukkan var 02:09 um nóttina...

Skrítið að vera þarna um miðja nótt en við á göngu í logni og hita og góðum fílingi...
að spjalla á fullu og spá og spekúlera...

Framundan var Kaldaklofskvís og Bláfjallakvíslin... Stórkonufell hér að stela senunni...

Kaldaklofskvíslin er beljandi jökulfljót sem oft hefur reynt á sum okkar við akstur yfir hana á þessum stað...
og átti eftir að halda einum erlendum ferðamanni föstum í henni í bíl í heila klukkustund síðar um sumarið
sem segir margt um hversu erfit fljót þetta erog hversu mikið stórfljót það getur orðið í vatnavöxtum:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/08/05/a_thaki_bilsins_i_tvaer_klukkustundir/

En Kaldaklofskvísl er til vandræða á hverju sumri oftar en einu sinni þó það rati ekki alltaf í fjölmiðla:

https://www.visir.is/g/2019190929656/bjorgudu-ferdamanni-sem-keyrdi-ut-i-kaldaklofskvisl

Yfir hana er fínasta göngubrú... en jeppar þurfa sem sé að tækla hana sjálfir...

Yfirleitt mórauð jökulá en fjöldi tærra lindar- og bergvatnsáa renna í hana úr öllum áttum á leiðinni...

Öll svona skilti svo vel þegin... sagan er svo dýrmæt...

Eftir Kaldaklofskvísina tekur Bláfjallakvíslin við stuttu síðar... en hana þarf að vaða gangandi...

Hún reyndist erfiðasta áin sem við óðum þessa nótt... og það var betra að leiðast tveir eða þrír saman...

... og flestir gerðu það að ráðleggingum þjálfara...

Lilja Sesselja og Gunnar hér...
hafa marga ausuna sopið í klúbbnum og eru þaulvanir og reynslumiklir Toppfarar til margra ára... 

Enn einu sinni að skola vaðskóna... koma þeim fyrir... þurrka fæturna... klæða sig í og úr skónum... þessi vöð voru vesen...
en hvíld og hressing um leið fyrir fæturna sem mikið mæddi á...

Við tóku sandarnir sem svo kallast... frá Bláfjallakvísl niður í Botna eða Emstrur...
eini kaflinn þar sem leyfa mætti sér að nota orðið einhæfni eða tilbreytingaleysi...
á þessari samt mögnuðu leið með svartan sandinn og grænu fjöllin allt í kring... og jöklana enn ofar...

Veturinn ennþá að sleppa alveg tökunum... smá frost í bleytunni hér...
sem var í ósamræmi við hitann sem ríkti þennan sólarhringinn... enda vann hann eflaust mikið á þessum klaka..

Við þéttum oft hópinn og skiptumst á skemmtisögum... reynslusögum... vangaveltum um fjallasýnina... bröndurum...
og alls kyns annarri vitleysu sem fór að flæða í svefngalsanum...

Við fengum samviskubit yfir að ganga bara jeppaslóðann um sandana horfandi á gönguleiðina rétt sunnar...
og færðum okkur á endanum yfir á hana...

... en lentum þá með þennan lækjarfarveg á milli og gengum meðfram honum til að finna góða leið yfir...

... og stikluðum hér yfir... og enduðum á að komast ekki á gönguslóðina fyrr en við brúnna
þar sem við hefðum þá hvort eð er getað bara klárað bílslóðina...

... og biðjum því þá sem vilja feta í þessi fótspor að elta alls ekki þessa leið
heldur ganga bílveginn alla leið að Emstrubrúnni... eins og Laugavegshlauparar gera
og eflaust líka göngumenn ef bílaumferðin er ekki mikil á daginn þarna um...

Stórkonufell... þjálfarar mændu á það með framtíðargöngu Toppfara í huga á það...
hingað munum við koma og ganga á alla tinda fyrr en síðar...

Smá vöðun áður en Innri Emstruáin tók við á brú...

Innri Emstruá...
það var sérlega gefandi að sjá hana koma rennandi niður þetta svæði og sameinast Markarfljóti
ofan af Stóra Grænafjalli síðar þetta sögulega sumar...

Stórbrotið gljúfur og ógnvænlegt...

Kvíslin að mæta í fljótið...

Þá vitum við það...
að koma keyrandi að Stórkonufelli og ganga á það þýðir akstur annað hvort um Emstrur eða Álftavatn...

Meira að segja skaflar hér... á miðjum söndunum...

Útigönguhöfðar... og skarðið meðfram þeim að Hattfelli framundan...

Stórkonufell... sjáumst síðar og þá uppi á tindunum þínum...

Í stórkostlegri ferð þann 15. ágúst þetta sumar á Litla og Stóra Grænafjall ákváðu þjálfarar
að safna smám saman skipulega þessum fjöllum sem skreyta Laugavegsleiðina næstu árin í byrjun ágúst
og þar með þá þetta fjall ásamt Stóru súlu, Illusúlu, Hattfell, Brattháls, Torfatinda, Útigönguhöfðar o.fl...
... það verður meira en lítið spennandi...

Skarðið við Útigönguhöfða...

Litið til baka... farið að birta af degi... einstakt andrúmsloft...

Útigönguhöfðar...

Skarðið framundan...

Sérstakur skaflinn í skarðinu...

Mynstrið...

... breyttist eftir því hvar í skaflinn maður leit...

Litið til baka...

Framundan... síðari kaflinn að Emstrum...
þessi kafli reyndi vel á þar sem okkur fannst svo stutt eftir í Botna þegar hingað var komið en svo var aldeilis ekki...

... en falleg er hún hér í skarðinu sjálfu...

... sérstaklega af því skyndilega kemur Hattfell í ljós...

Hey... það er uppgönguleið þarna hægra megin... nema þar sé torfær kafli sem ekki sést héðan...

Kvenþjálfara minnti að það væri vað einvers staðar hér en þau eru ekki nefnd á nafn í lýsingum á gönguleiðinni né í Laugavegshlaupinu...
og hinir mundu ekki eftir þessum lækjarasprænum...
við spáðum heilmikið í þetta og enginn kannaðist við vað á þessum slóðum nema báran...

Er þetta sýnin yfir á Grænufjöllin og Illusúlu ? .... með Bratthálskrók þá þennan lengst til hægri af þessum þremur...
ekki viss hvert þessi mynd beinist... en mjög líklega...

Tvíbaka og Tuddi hér...

Sólin að koma upp og skýin að þynnast yfir í heiðan himinn smám saman...

Jebb... hérna var þessi lækur sem kvenþjálfari mundi eftir að hafa lent í vandræðum með að að haldast þurr yfir
eftir að hafa farið í þurra skó og sokka eftir Bláfjallakvíslina í Laugavegshlaupinu...

Dagrenningin sem við upplifðum á þessum kafla var með ólíkindum og náðist ekki nægilega vel á mynd...

Nú var að finna þurra leið yfir...

Mynstrið í skaflinum...

Hlutföllin miðað við skóna... þetta var alvöru listaverk...

Kominn blár himinn yfir öllu og dagurinn skyndilega mættur með hvílíkri fegurð...

Fremstu menn komnir yfir án þess að hika...

Þetta var besta leiðin yfir...

Inga Guðrún sneri við og leist ekkert á þetta...

... en neyddist til að fara eins og hinir hér yfir :-)
... enda ekkert mál ef menn voru í gönguskóm þar sem allir alvöru gönguskór þola vel smá bleytu
ef maður er snöggur að stíga ofan í og upp úr vatninu í skónum :-)

Tindfjallajökull... að koma í ljós...

Hvílíkur morgun !

Litið til baka...

Við gengum inn í daginn á þessum kafla sem gaf ólýsanlega upplifun sem gleymist aldrei...

Búin með 38 kílómetra... á rúmum 12 klukkustundum...

Allt varð smám saman svo gyllt og fallegt...

Útigönguhöfðar og Stórkonufell þegar litið var til baka...

Tuddi svo fagur í morgunsárinu...

Hattfellið... virtist frekar greiðfært upp en lýsingar nokkurra Toppfara af göngu á það eru ekki kræsilegar
og lýsa miklum bratta í grasi svo erfitt er að fóta sig efst... og nánast ófært alveg upp á efsta tind...

Einstakur kafli þar sem dagurinn tók skyndilega yfir allt...

Tindfjallajökull og Ýmir snjólaus frá þessu sjónarhorni...

Hattfellið að taka á sig það sjónarhorn sem maður þekkir best...

Tuddi...

Fegurðin...

Leiðin var ennþá talverð niður í Emstrur...
gps-tækin sögðu okkur það... 2,5 km eða svo...
 en við trúðum þeim ekki og héldum að við værum að verða komin...

Birtan ef sólin fékk að taka yfir beint á móti myndavélinni...

Vonbrigðin hér voru erfið... við vorum ekki komin...
annað eins af söndum beið okkar hinum megin við þessa hæð eins og frá skarðinu við Hattfellið:-)

Jæja... þá var ekkert annað í stöðunni en að klára þetta bara...
og við bara hlógum í okkur kjark og orku :-)

... og örkuðum af stað... sannfærð um að Emstrur hlytu þá að vera hinum megin við þessar sandöldur...

Leirinn ofan á snjónum... allt brakandi hart viðkomu...

Akstursleiðin milli Álftavatns og Emstra / Botna með snjóinn yfir sér á köflum ennþá
en hann átti eftir að reynast Matta bílstjóra þrautin þyngri á leið til baka síðar um morguninn...

Loksins ! ... Emstrur voru framundan hinum megin við ásinn...

Markarfljótsgljúfur með Tindfjallajökul í baksýn...

Kaflaskil á leiðinni... sandarnir að baki og mýkra landslag framundan...
meiri gróður sem endar á ilmandi skógi Þórsmerkur...

Skálarnir í Emstrum... svo kærkomin sýn...
og þegar við sáum sprinterinn hans Matta sást þá tók feginleikurinn yfir...
honum tókst að komast upp eftir...

Nú var bara fjórði og síðasti kaflinn eftir niður í Þórsmörk...

Við lentum í Emstrum klukkan 5:36 að morgni til...

Búin með 41 kílómetra... á tæpum 13 klukkustundum...

Þennan þriðja legg leiðarinnar vorum við 17,08 km á 4:51 klst.
en við áætluðum þennan legg 16 km á 6 klst. og vorum því rúmlega 1 klst fljótari en við áttum von á...

Síðasta formlega nestispásan af þremur...
 en við áttum eftir að taka eina góða á miðri leið við Þórsmerkur...

Afgangurinn af nestinu... eða sætindin borðuð... kaffi hitað... súpa... pastasallat...

Matti bílstjóri var vakandi... hafði lent í skálanum undir miðnætti... sofið í fjóra tíma... var vaknaður áður en við lentum...
og hafði áhyggjur af bakaleiðinni þar sem dagurinn mýkti slóðann og hann taldi talsverðar líkur á að festa bílinn...
sem og gerðist...

Kolbeinn gaf okkur staup á línuna sem var á alveg réttum tímapunkti takk fyrir...

Gajol takk, mjög gott ! :-)

Dásamleg og söguleg mynd  ! :-)

Ha syfjuð ? ... nautsj ! Davíð barðist reyndar aðeins við syfju síðasta kaflann og dottaði í pásum eins og fleiri niður í Þórsmörk
en það væri mjög áhugavert ef þátttakendur í þessari ferð myndu skrifa sína ferðasögu af þessari upplifun og hvernig það var að ganga alla þessa leið... og vera blátt áfram og hreinskilinn... þetta var jú erfitt og reyndi á...
en hvernig gerði það það hjá hverjum og einum var eflaust misjafnt...
það væri gaman að vita hversu ólík þessi upplifun var milli manna...

Af fésbókinni:

"Matti keyrði okkur upp í Landmannalaugar... kom þessum sprinter á betri dekkjum upp í Emstrur með mikilli lagni og þolinmæði...
svaf þar í örfáa klukkutíma... var vaknaður upp úr fimm þegar við mættum á svæðið kl. 5:36...og lenti í hrakningum við að koma honum aftur niður eftir... en fékk kærkomna aðstoð hjá Þengli, skálaverði í Álftavatni sem dró hann úr skaflinum...

... kom svo til okkar í Húsadal á hárréttum tíma og tókst á heimleið að losa bílinn með lagni úr Krossá þegar hann festist þar með okkur tólf göngumennina svo úrvinda að við hefðum aldrei orðið að gagni ef hlutirnir hefðu farið á versta veg... takk fyrir okkur Matti... þökk sé þér var þessi ferð sögulegri, skemmtilegri og léttari en ella... "

Lagt af stað eftir 38 mínútna pásu...
sjá hvernig úrið telur áfram vegalengd þó við séum stopp (fyrir utan að fara á wc og vesenast við skálann)...
Þetta er ástæðan fyrir því að stóru gps-tækin eru marktækari en úrin hvað varðar vegalengdir í göngunum....

Síðasti leggur leiðarinnar framundan... frá Emstrum í Þórsmörk alls 17 kílómetrar...
... klukkan 06:16 um morguninn...

Hver staður með sína fegurð... niðurleiðin frá Emstrur alltaf svo falleg...

Takk Emstrur... og takk Matti...
fyrir að taka svona mjúklega (Emstrur) og vinalega (Matti)  á móti okkur
og hressa okkur við fyrir síðasta kaflann...

Sjá grænu tjöldin....
 en þau eru víst alltaf uppi og það voru einhverjir sofandi í einhverjum þeirra skildist okkur...

Það var mikil orka í loftinu þegar þessi leggur hófst...
dagurinn mættur og birtan svo falleg og sólin komin hátt á loft í raun...

Það var því ekki hægt að vera syfjaður eða þreyttur í allri þessari sól...

Ef eitthvað er þá hefði annað staup líklega bara gert þetta enn skemmtilegra :-)

Sjá brotna göngubrúna... en margar svona skemmdir voru á leiðinni eftir veturinn sem við létum skálaverðina vita af...

Flestir skildu smá farangur eftir í bílnum hjá Matta og sumir skiptu um skó og fóru í léttari...
þeir sögðu það hafa skipt miklu og við gátum vel ímyndað okkur það sem vorum í sömu skónum alla leiðina...
kvenþjálfarinn ráðlagði mönnum að skilja ullarpeysur og úlpur eftir því sólin væri að fara að steikja okkur þennan síðasta kafla
og við værum að fara niður á láglendið í meiri hita almennt... menn ætluðu ekki að trúa þessu og vildu vera í þessum hlýju yfirhöfnum...
en voru komnir úr þeim korteri seinna í sólinni... og það átti bara eftir að hitna... en svo reyndar dró aðeins ský fyrir þegar leið á morguninn og þá læddist að manni efi um réttmæti þess að skilja ullina eftir í bílnum... en það varð aldrei svalt og því reyndi ekki á það... en réttmætar áhyggjur samt að skilja aldrei við þennan búnað þó "bara 17 km" séu eftir þennan síðasta legg...

Emstrugljúfrið framundan...

Talsvert brölt hér niður í lausasandi og grjóti svo vanda þurfti hvar átti að stíga...

Gljúfur Fremri Emstruárinnar...

Upptök hennar eru í Entujökli sem er skriðjökull í Mýrdalsjökli...

Svo fallegir litir hér... og af öðrum meiði en líparítfjöllin á Landmannalaugasvæðinu...
eða hálendismosagrænan á söndunum...

Sólin tók að baða syðri veggi gljúfursins...

Búið að setja handrið hér og áltröppur... mikill munur frá köðlunum í leirbrekkunum hér áður fyrr...

Niður gljúfrið...

Vá !

Hvílík stórbrotin fegurð og einstakt að vera einmitt þarna á þessum tímapunkti
þegar sólargeislarnir skinu á vegginn...

Við vorum dolfallin... þetta var svo fallegt...

Sjá báðar brýrnar yfir þetta þrönga gljúfur...

Ógnvekjandi straumur og kraftur...

Síðari brúin utan í berginu... jarðfall á henni eftir veturinn...

Við urðum að treysta henni en það hvarflaði alveg að manni efi um hvort henni væri treystandi...

Litið til baka... svo fallegur staður...

Talsvert jarðfall... við þorðum ekkert að gera nema ganga yfir þetta... 
en hefðum við aðrar aðstæður lagfært þetta með því að sópa þessu niður af brúnni...
en við vorum of ósofin til þess að þora að standa í slíkum óvenjulegheitum með engan nálægt ef eitthvað kæmi fyrir...

Ekki spennandi að detta hér niður...

Stígurinn eftir brúna...

Litið til baka...

Birkið svo duglegt... vex hvar sem er... það kann þetta svo sannarlega...

Hvar var betra að vera en nákvæmlega þarna á þessum stað á þessari stundu ?

Komin upp úr gljúfrinu með Entujökulinn í seilingarfjarlægð..

Stutt eftir... bara rúmlega tugur af rúmlega fimm... það var ekkert ! :-)

Heiðskírt orðið, mjög hlýtt og sama lognið og ríkt hafði alla gönguna...

Við tóku gilin upp úr ríki Emstruárinnar upp á ásana sem svo biðu okkar...

Gruggug var hún...

Bergvatnskvíslirnar sem runnu niður í Emstruánna... snjóbrýr líka hér að þrjóskast við en ekki sterkar..

Stiklað yfir...

Upp úr gljúfrasvæðinu...

Litið til baka að jöklinum...

Önnur brekka eftir ennþá :-)

Loksins komin upp og framundan léttur kafli niður í Þórsmörk en þó nokkrar brekkur áfram samt...

Tindfjallajökullinn...

Einstakur andi í göngunni og allir í góðum málum...

Allt svo mjúkt, bjart, hlýtt og viðráðanlegt og við vorum farin að fagna því að þetta var að takast...

Einhyrningur mættur á svæðið !

Stutt í skaflana þrátt fyrir að vera komin svona niður af hálendinu...

Bless og takk fyrir okkur Hattfell !

Eyjafjallajökull að koma í ljós í öllu sínu veldi...

Menn búnir að stilla sér upp fyrir kvenþjálfarann sem tafðist á þessum kafla við að kjósa um
kjarasamning Félags Íslenskra Hjúkrunarfræðinga en kosningatíminn rann út á hádegi :-)

Magnað !

Við vorum komin niður í spriklandi sumarið...

Einhyrningur svo flottur alltaf hreint og Tindur í Tindfjallajökli og svo Ýmir hæstur í jöklinum...

Bára, Kolbeinn, Örn, Gunnar, Hafrún, Lilja Sesselja, Davíð, Inga Guðrún, Bjarnþóra, Bjarni, Vilhjálmur, Arnar
en Atli Viðar gestur tók mynd.

Hattfellið í nærmynd... mjög fallegt fjall frá þessu sjónarhorni !

Rjúpnafell að koma í ljós og fjallshryggirnir í Þórsmörk með gilin nær...

Svo fallegt landslag...

Til að vera alveg hreinskilin þá fóru morgunverkin að banka á dyrnar hjá flestum á þessum kafla
enda margir reglusamir með þau verk... segi ekki meir...
en ráð að vera með wc-pappír og plastpoka í bakpokanum og velja stað af kostgæfni
því smám saman fór einn og einn afsíðis á þessum kafla frá Emstrum til Þórsmerkur
og engin leið að bíða með þessi verk þar til í Húsadal væri komið...

Fyrsti sem við hittum frá því við gengum frá Landmannalaugum... erlendur ferðamaður á leið upp eftir...

Ferðamennirnir sem koma til Íslands eru aðdáunarverðir....
og flestir meira afreksfólk en við í útiveru og fjallgöngum...

Bjarnþóra og Bára stóðu í stórræðum og drógust marg sinnis aftur úr á þessum kafla...
Bjarnþóra að reyna að vera í sambandi við Matta bílstjóra sem lét vita að hann væri búinn að festa bílinn
og gæti ekki losað hann nema með hjálp - hann var í engu símasambandi en gat sent skilaboð í gegnum netið...

Bára hringdi í Hálendisvaktina sem var hvergi nálægt og hefði þurft að keyra frá Landmannalaugum sem var allt of langur akstur...
og hringdi þá í Neyðarlínuna 112 og lenti á Guðmundi sem var skálavörður í Hornbjargsvita árið 2014 þegar Toppfara gistu þar forðum daga í sögulegri ferð en þjálfarar höfðu hitt hann í fimmtugs afmæli í fyrra og spjallað heilmikið við hann þá... eftir gott spjall við hann og ógleymanlega alúð gagnvart stöðu okkar gaf hann okkur samband við lögregluna á Hvolsvelli í von um að þeir væru staddir nálægt Matta og gætu rétt honum hjálparhönd... svo reyndist ekki vera... en þeir gáfu okkur upp símanúmer heimamanns á Hvolsvelli sem væri vanur að draga erlenda ferðamenn upp úr ófærð og tæki greiðslu fyrir... ekki væri samt víst að sá maður væri til taks strax og það tæki hann tíma að keyra upp eftir...

Við ákváðum að hugsa aðeins málið og þá datt okkur í hug að hringja í Álftavatns skálaverðina
því þar höfðum við einmitt séð stóran jeppi sem væri líklega á vegum skálavarða
en hann virtist vera það stór að hann gæti hugsanlega keyrt niður í Botna og dregið sprinterinn upp...

Ég náði hins vegar ekki sambandi við Álftavatn og hringdi þá í skálavörðinn í Landmannalaugum og bað þau um að hafa samband við Álftavatn í gegnum talstöð ef það væri möguleiki og biðja þau um að keyra niður á Emstruveg til að hjálpa Matta. Eftir stutta stund hringdi skálavörðurinn í Laugum aftur í okkur og bað um nákvæma lýsingu á staðsetningu Matta því hann Þengill sem var gestur skálavarðarins í Álftavatni ætlaði að keyra niður eftir og hjálpa honum...

Þengill fékk nákvæma staðarlýsingu og brunaði víst á engum tíma frá Álftavatni niður í Emstrur
og aðstoðaði Matta með miklum myndarbrag...

Vá hvílíkur bjargvættur þessi Þengill ! ... við gleymum aldrei hans örlagaríka þætti í þessari ferð takk fyrir !

... og NB við þurfum að senda honum þakklætisvott frá okkur takk fyrir !

Öll þessi símtöl gengu á meðan við gengum þennan kafla...

... og það var varla að við Bjarnþóra tækjum eftir landslaginu...

En síðasta símtalið sem var það örlagaríkasta... og kom Þengli hinum góða inn í málið... var tekið í þessari pásu hér...
þar sem menn lögðu sig smávegis og nærðust í síðasta sinn á göngunni sjálfri...

Myndin frá Matta... hér var sprinterinn fastur...

... þrátt fyrir að Matti hefði sérstaklega fengið stærri dekk á bílinn hjá leigunni fyrir ferðina...

Snjórinn mýktist þegar leið á daginn og varð of gljúpur...

Ástandið á veginum neðar...

Á leið inn í Þórsmörk varð óhapp hjá einni rútunni inn eftir og Matti tók þessa mynd...

En aftur í gönguna... hér urðum við rólegri og treystum því að Þengli tækist að hjálpa Matta...

Tindfjallajökull og Einhyrningur...

Bjarnþóra hélt áfram sambandi við Matta og fékk að vita að þeir væru að berjast við snjóinn...

Kjarrið að taka á móti okkur og endanlega segja skilið við hrjóstrugt hálendið...

Alltaf jafn áhrifamikið að ganga svona inn í gróðurvinina Þórsmörk...

... inn í ilmandi kjarrið og finna mildina sem fylgir þessum dásamlega stað...

Litið til baka með Einhyrning fallegan í fjarska...

Gróðurinn ekki kominn í fullan blóma ennþá...

Skógurinn við brúna orðinn ansi hávaxinn...

Kápa... martröð Laugavegshlauparanna... og göngumanna á einum degi...
en samt var þetta ekkert mál og bara smá tilbreyting...

Útsýnið um leið og við hækkuðum okkur...

Til hálendisins...

Tindfjöll í Þórsmörk... svo glæsileg... við verðum að ganga á þau bráðlega...

Rjúpnafell... það er á vinnulistanum líka !

Tindfjallajökull með sólargeislana á líparítinu sem einmitt kemur á óvart þegar nær dregur síðla sumars
og maður sér að Ýmir og Ýma eru í björtum litum...

Niður af Kápunni... nú var bara Þröngáin eftir og smá skógur inn í Húsadal...

Leiðin niður Kápu... í "gamla daga" var kaflinn hér niður í brattri lausamöl þar sem erfitt var að fóta sig hlaupandi...
hvar ætli sá kafli sé núna ? ... allavega einhvers staðar annars staðar en þegar við hlupum Laugaveginn hér áður fyrr...
nú var hún öll gróðri vaxin og ávöl og saklaus... allt öðruvísi...

Fínn slóði alla leiðina um Kápu... allt önnur upplifun en minningar af Laugavegshlaupinu...

Komin að Þröngá... þetta leit mjög vel út !
... síðasta áhyggjuefni leiðarinnar var vaðið yfir Þröngá... dauðþreytt og orkulítil...
en við vorum mun ferskari og orkumeiri en við áttum von á að við yrðum á þessum kafla...

Þessi ganga var einn lærdómur frá A til Ö !

Ásýndin upp eftir ánni...

Enn einu sinni í vaðskóna...

Fyrra vaðið sem var lítið og grunnt og ekki aðaláin...

Aðaláin... tókum ekki ljósmynd né myndband á leið hér yfir...
menn fóru leiðandi hvort annað tveir og tveir saman flestir...

Saklaus áin eftir nóttina...

Fótaþurrkun í síðasta sinn þennan sólarhringinn...

Enn ein stundin þar sem við sátum bara og spjölluðum og nutum þess að vera til á þessari göngu...
ekkert stress né flýtir eins og við héldum að við yrðum... bara að njóta og spjalla... allan tímann...

... og jafnvel dotta þegar tími gafst til ! :-)

Jæja... við gerðum þetta ! ... drífum okkur í einn kaldan að fagna takk fyrir !

Dj. snillinga eruð þið !

Við tók slóðinn í gegnum skóginn niður í Húsadal...

Staðan á þessum kafla... maður var svo óþolinmóður að klára þetta :-)

Klukkan 11:06... 54,1 km búinn á 18:22 klst...

Góðir stígarnir...

... en æji... svolítið eftir ennþá...

Skyndilega sáum við Matta keyra niður Fljótshlíðina hinum megin við Markarfljótið...

... og vorum dauðfegin að hann var laus úr skaflinum...
nú þurfti hann bara að komast yfir Krossána...
... áhyggjuefnin voru aldrei alveg búin ! :-) :-) :-)

Þórsmörkin svo falleg...

Þessi útsýnisstaður afvegaleiddi okkur aldeilis...
kvenþjálfari horfði á skilti vísa leiðina til vinstri niður í skóginn sem á stóð "Þórsmörk"
og taldi það vera að meina Langadal og hneykslaðist á því að hvergi fengi Húsadalur sitt skilti...
og fór Örn líka framhjá því án þess að átta sig á að þetta væri jú einmitt leiðin niður í Húsadal og kallaðist víst "Þórsmörk"...
líklega er skilti svo neðar á slóðanum sem vísar á Langadal annars vegar og Húsadal hins vegar :-) :-) :-)

Við vorum því fljótlega komin ranga leið frá útsýnisstaðnum og reyndum að finna rétta leið
... álpuðumst eitthvað um á stígum en svo tók Gunnar bara beina stefnu að Húsadal gegnum eitthvurt dalverpi
sem vonandi myndi leiða okkur í Húsadal...

... sem það og gerði eftir smá útúrdúr sem skrifast á smá heilaþreytu eftir sólarhringsvöku og ekki sjens að okkur dytti í hug að gagnrýna fararstjórann sem hafði leitt gönguna í alla þessa klukkutíma og var ekki alveg í sama kæruleysinu og við hin allan tímann :-)

Við vorum loksins komin... þetta var í alvörunni búið... mjög sérstakt að sjá húsin... svipuð tilfinning og í Laugavegshlaupinu...
húsin sögðu nefnilega að nú mættum við stoppa og hvílast...

Dásamlegt að lenda hér og það rétt undir hádegi... líf og fjör á staðnum og notalegt andrúmsloft...

Fagnaðarlætin leyndu sér ekki og við tóku fagnaðaróp og hlátrasköll og hamingjuóskir og sigurtilfinning !

Hvílíkur ógnarsigur !

Þetta tókst með mun meiri ágætum en við áttum von á... enginn í sérstökum vandræðum alla leiðina...
allir að skiptast á að vera fremstir og aftastir... enginn áberandi aftast... gönguhraðinn mun jafnari og rólegri en við áttum von á... pásurnar mun lengri og fleiri en við áttum von á... afslöppunin og rólegheitin mun meiri en við áttum von á... myndatökur og að njóta útsýnisins mun meira en við áttum von á...

Eftir á að hyggja var þetta bara eins og hver önnur tindferð...
nema bara við gengum 55 km á 19 klukkukstundum með öllu...
... eða í raun tæpum 13 klukkukstundum gangandi + 6+ klukkustundum í pásum... ótrúlegt !

Alls 55,3 - 57,2 km á 19:04 klst. upp í 1.068 m hæð
með alls 2.083 m hækkun alls úr 603 m upphafshæð og 209 m endahæð.

Lagt af stað kl. 16:42 á föstudegi og lent á laugardagsmorgni kl. 11:50.

Göngutími alls 12:51 klst.
Stopptími alls 6:13 klst.

Lagt af stað frá Reykjavík kl. 12:00 á hádegi á föstudegi.
Heimkoma í Reykjavík seinnipart laugardags kl. 16:30.

Leggur 1 af 4:
Landmannalaugar - Hrafntinnusker: 10,5 km á 3:17 klst.
Matarpása í Hrafntinnuskeri í 38 mínútur.

Leggur 2 af 4:
Hrafntinnusker - Álftavatn: 11,8 km á 3:18 klst.
Matarpása í Álftavatni í 40 mín.

Leggur 3 af 4:
Álftavatn - Emstrur: 17,1 km á 4:51 klst.
Matarpása í Emstrum í 38 mín.

Leggur 4 af 4:
Emstrur - Þórsmörk: 17,7 km á 5:30 klst.
Skálað og fagnað í 2 klst. áður en lagt var af stað til Reykjavíkur.

Ofurkonurnar 3 af 5 sem fóru þetta af stakri yfirvegun og einbeitingu, magnað stelpur !

Jebb... við gerðum þetta... 55 km til Landmannalauga á einni langri nóttu...

Það var sko skálað og viðrað og spáð og spekúlerað og fagnað og planað og hlegið og klappað...

Dýrmætar tvær klukkkustundir í ekta fjallgöngu-skála-eftir-göngu-partý-stemningu
þar sem við virkilega gátum hvílt okkur og viðrað ferðina í algerri sæluvímu...

Mikilvægur hluti af því að gera þetta er að leyfa sér einmitt þetta...

Við mælum sérstaklega með svona stund og að gefa sér lágmark 2 tíma til þess...
ekki flýta sér í bæinn eða í náttstað... gefa sér tíma til að vera í Þórsmörk eftir gönguna...
ekki fara í sturtu eða heita pottinn því þá hefði þreytan tekið yfir líklega því líkaminn vildi örugglega hvílast og sofna aðeins...
best að vera bara í göngugallanum og leyfa göngunni að meltast og ljúka í rólegheitunum allur hópurinn saman...

Lilja Sesselja bætti um betur og gekk með fjölskyldunni sinni yfir í Langadal og brúnna yfir Krossá í bílinn
en þetta voru rúmir 2 kílómetrar til viðbótar þessum 55 km... sem segir allt um hvers lags ofurkona hún er... vel gert !

Við enduðum inni að borða franskar með seinni kalda drykknum eftir gönguna
þar sem Matti bílstjóri fékk loksins eitthvað gott að borða eftir stanslausa vinnu við að keyra til og frá upp á hálendið í Laugar - Emstrur
og svo Húsadal og aftur til Reykjavíkur... það var langtum meira en að segja það !

Hvað voru þetta margir kílómetrar í akstri Matti ?

Loksins komum við okkur af stað heim... klukkan 13:55... þarna féllu fyrstu rigningardroparnir sem við áttum von á að kæmu...
veðurspáin stóðst eins og stafur í bók...
við virkilega nýttum þennan veðurglugga eins vel og hægt var...

Dagana á eftir var kaldara og meiri vindur... við vorum einstaklega heppin...

Gunnar bar þessa hrafntinnu með í bakpokanum nánast alla leiðina takk fyrir ! :-)

Matti keyrði okkur eins og herforingi í bæinn... eftir svefnlitla nótt í Emstrum...

... og okkur tókst að festa okkur í smá tíma í miðri ánni... en reynsla og lagni Matta kom okkur upp úr þessum hjólförum þarna...
og við gátum slakað aftur á... en við hefðum ekki verið til stórræðna ef eitthvað hefði reynt á
svona dauðþreytt og vel vökvuð eftir gönguna :-)...

Rútan var ennþá föst í ánni...

Ástandið á leiðinni heim... loksins fengum við að sofa smá :-)

Þjálfararnir... :-)

Örn hélt sér að mestu vakandi bílstjóranum til samlætis en hér náði Bjarnþóra mynd af honum dottandi :-)

þegar í bæinn kom þurftu menn að keyra á sínum bílum frá Össur og heim... Bjarni alla leið heim á Skagann... þjálfarar og einhverjir fleiri mættu beint á kjörstað og kusu Guðna forseta í annað sinn... það var sérstakt að  mæta í kjörklefann, þekkjandi annan hvern mann í Grafarvoginum að vinna við kosningarnar... og reyna að segja fólki að útgangurinn á manni væri af því maður væri að koma beint úr göngu um Laugaveginn á einum degi... maður sleppti því helst ef maður gat... en þetta skildist mis vel :-) :-)


Þið eruð snillingar elsku Arnar, Atli Viðar, Bjarni, Bjarnþóra, Davíð, Gunnar, Hafrún, Inga Guðrún,
Lilja Sesselja, Kolbeinn, Vilhjálmur...

Til hamingju elskurnar með þetta magnaða afrek...
... takk fyrir akstur og snilldaraðstoð Matti og Gylfi...
sannarlega afrek út af fyrir sig að berjast gegnum ófærðina upp eftir og niður eftir frá Emstrum á sprinternum
og losa fastan bílinn í miðri Krossá með tólf þreytta göngumenn í farteskinu :-)

... takk fyrir langa miðnæturgöngu um slóðir sem enginn staður í heiminum jafnast á við
hvað varðar fjölbreytni, litasamsetningu, formgerð, jarðsögu, stórfengleik...
og sambland jökla, eldfjalla, vatnsfalla og ótal fjallstinda á einum og sama staðnum...

Virkilega vel gert !

#Laugavegurinnáeinumdegi #TakkÍsland #Icelandisopen #Laugavegur #volcanotrail

Myndaband um ferðina hér:
https://www.youtube.com/watch?v=xnJxfDZS9io&t=72s

Tölfræðin aftur hér því hún segir svo mikið:

Alls 55,3 - 57,2 km á 19:04 klst. upp í 1.068 m hæð
með alls 2.083 m hækkun alls úr 603 m upphafshæð og 209 m endahæð.

Lagt af stað kl. 16:42 á föstudegi og lent á laugardagsmorgni kl. 11:50.

Göngutími alls 12:51 klst.
Stopptími alls 6:13 klst.

Lagt af stað frá Reykjavík kl. 12:00 á hádegi á föstudegi.
Heimkoma í Reykjavík seinnipart laugardags kl. 16:30.

Leggur 1 af 4:
Landmannalaugar - Hrafntinnusker: 10,5 km á 3:17 klst.
Matarpása í Hrafntinnuskeri í 38 mínútur.

Leggur 2 af 4:
Hrafntinnusker - Álftavatn: 11,8 km á 3:18 klst.
Matarpása í Álftavatni í 40 mín.

Leggur 3 af 4:
Álftavatn - Emstrur: 17,1 km á 4:51 klst.
Matarpása í Emstrum í 38 mín.

Leggur 4 af 4:
Emstrur - Þórsmörk: 17,7 km á 5:30 klst.
Skálað og fagnað í 2 klst. áður en lagt var af stað til Reykjavíkur.

 

-------------------------------------------

Lexíurnar eftir ferðina...

Þjálfari sendi leiðangursmönnum nokkrar spurningar tveimur mánuðum eftir ferðina og hér eru svörin:

 

1. Hver var upplifun þín af ferðinni ?

Arnar: Frábær ! Fullkominn endir á fáránlegum vetri.

Bára: Ólýsanleg, langaði strax aftur og var með söknuð í marga daga á eftir. Ánægjulegast var hversu samhentur hópurinn var og allir í takt allan tímann, enginn í vandræðum og allir í góðu formi fyrir þetta. Mjög gefandi að rifja upp öll Laugavegshlaupin á leiðinni, minningarnar streymdu fram á hverjum stað og eru greinilega þarna allar.

Davíð: Upplifunin af ferðinni var heilt yfir litið mjög góð.

Hafrún: Þessi áskorun varð til þess að ég skráði mig í Toppfara haustið 2019.
Mín upplifun af ferðinni var mjög góð, hópurinn mátulega stór og allir mjög hjálplegir og tillitssamir. Mér fannst ég mjög örugg undir ykkar leiðsögn og naut hverrar stundar í þessu magnaða umhverfi. Mér fannst stoppin okkar vel tímasett og mátulega löng, ég kveið aðeins næturstoppunum vegna þess hversu fljótt manni getur kólnað.

Kolbeinn: Að skipulagning og ferðatími var einstaklega flottur. Ferðin skemmtilega í alla staði og ógleymanleg. 

Lilja Sesselja: Upplifun mín af ferðinni var góð og mjög jákvæð í alla staði, mér fannst allt ganga upp, veðrið, fólkið, leiðin. Allir voru svo rólegir og afslappaðir, hjálplegir.

Vilhjálmur: Mjög góð og ógleymanleg.

Örn: Mjög jákvæð og skemmtileg upplifun. Eitthvað sem ég væri til í að gera aftur. Léttari en ég átti von á. Tímasetningin fullkomin.

 

2. Hvaða búnaður var hárréttur og hvaða búnaður var ekki í lagi/óþarfi í göngunni?

Arnar: Tók lítið með ? var fyrst og fremst ánægður með vaðskóna og að geta skipt yfir í léttari skó í Emstrum.

Bára: Vaðskórnir voru of þungir, söfnuðu sandi í sig og bleyttu bakpokann þó þeir héngu utan á honum. Tek næst crocco-skór úr Rúmfatalagernum, þeir eru mun léttari og þurrir. Varavettlingar og varasokkar mikilvægir. Fékk blöðru á tána, spurning að vera í utanvegaskóm frekar en gönguskóm þó það reyni á í snjónum.

Davíð: Skóbúnaður (millistífir leðurgönguskór) voru helst til þungir og stífir.
Sennilega hefði verið betra að vera í léttari skóm. Annar búnaður var, held ég, mjög góður.

Hafrún: Ég var í léttum Hoka gönguskóm og hlaupabuxum og fannst það mjög þægilegt. Það kom mér á óvart hvað þetta var lítið mál, hvorki hælsæri, nuddsár né þreyta á sjálfri göngunni. Ég skipti yfir í utanvegahlaupaskó í Emstrum og skipti bakpokanum mínum út fyrir minni poka, þannig að síðasta spölinn bar ég nánast ekkert nema drykki og smá nesti.

Kolbeinn: Ekki breyta neinu sambandi við búnað, því að maður veit aldrei með veður og í  hverju maður getur lent í. 

Lilja Sesselja: Ég var með akkúrat þar sem þurfti og nánast engan óþarfa (miðað við veðurspá og árstíma hverju væri hægt að eiga von á). Auka léttir skór með í pokanum var frábært. Nestið var gott og lystugt allan tímann. Ég passaði mig að skipta naslinu niður í 4 poka einn fyrir hvern legg, svo ég þyrfti ekki að hugsa hvort ég væri að klára það. Gott að hafa vatnspokann til að vera ekki að stoppa til að drekka. Ég passaði mjög vel upp á þyngdina á pokanum, vildi ekki hafa of mikið af dóti aukalega, þannig að ég tæmdi allan óþarfa úr áður en ég fór.

Vilhjálmur: Búnaðurinn sem ég var með var fullnægjandi, notaði reyndar ekki regnbuxurnar og ullarnærföt, en að öðru leyti passaði þetta nokkuð vel.

Örn: Mögulega vera í léttari skóm, var farin að nudda í kúluna síðasta legginn. Ekki breyta öðru í búnaði, vil vera búin undir hvað sem er.

 

3. Hvað myndir þú gera öðruvísi næst?

Arnar: Dettur ekkert í hug ! Alveg til í upplifa þetta eins aftur.

Bára: Taka minna af nesti, borðaði mun minna en ég átti von á. Hafa ólíkt nesti í þremur nestispásunum þannig að það sé tilbreyting í hverri pásu af þessum þremur. Væri gott að vera í léttari skóm síðasta hlutann eins og margir gerðu og það er hægt er það er trússari á miðri leið eða í Emstrum eins og við vorum með.

Davíð: Ég myndi vera í léttari skóm næst.

Hafrún: Að fá heitt kaffi/kakóí hverju stoppi var frábært og þakka ég Kolbeini og Bjarnþóru fyrir að hafa tekið með lítinn prímus og leyfa okkur hinum að njóta. Ég tek minn klárlega með í næstu ferð (fékk frá dóttur minni í afmælisgjöf í sumar). Ég var aðeins óviss með nestisþörfina en var með mátulega mikið, fannst ég borða minna en ég hélt að ég myndi gera, átti því smá afgang. Ég var með kjúkling og sæta kartöflu en annars voru það flatkökur, kex, hnetur og orkustykki.

Kolbeinn: Skipta um skó á miðri leið en ekki víst og taka minna nesti. 

Lilja Sesselja: Ég myndi fara fyrr í léttu skóna, hinir voru orðnir svo þungir og blautir eftir snjóinn.

Vilhjálmur: Ég er bara ekki viss.

Örn: Vera í léttari skóm.

 

4. Hvað var erfiðast í göngunni?

Arnar: Bjóst mjög oft við að sjá Emstrur handan við næstu hæð!

Bára: Óþreyjan eftir Emstrum síðasta kaflann á söndunum, hélt alltaf að við vorum komin en þá var þetta bara næsta hæð.

Davíð: Það erfiðasta í göngunni var að vaka yfir heila nótt.

Hafrún: Það sem ég myndi vilja gera öðruvísi næst er að sofa nóttina áður í nágrenni við Landmannalaugar og stytta þann tíma sem maður þarf að vaka, því það var það erfiða við þessa ferð.

Kolbeinn: Ekki neitt eitt sem var erfiðara en annað.

Lilja Sesselja: Snjórinn, fannst mér erfiðastur, þegar hann er svona að bráðna þá verður hann svo óþjáll að ganga á og líkamsstaðan verri.

Vilhjálmur:  Ég veit ekki hvað skal segja, þetta var mjög þægileg ganga, en ég reiknaði kannski ekki með svona miklum snjó.

Örn: Ekkert þannig séð. 

 

5. Hvað var léttara en þú áttir von á ?

Arnar: Fyrsti kaflinn upp í Hrafntinnusker.

Bára: Heiðin upp í Hrafntinnuskeri var friðsælli, hlýrri og saklausari en ég átti von á en finnst hún alltaf smá ógnvænleg. Vöðin voru saklausari en ég átti von á. Að ganga um miðja nótt var léttara en ég átti von á, fundum lítið fyrir því að það væri nótt. Þreyta og syfja var mun minni ég hélt.  Stemningin og orkan í hópnum var mun betri en ég þorði að vona, allir glaðir og samhentir allan tímann og aldrei neikvæð samskipti eða vandamál.

Davíð: Það var mun auðveldara að ganga þessa ca. 55 km en ég átti von á.

Hafrún: Það kom mér á óvart hversu hress ég var daginn eftir, fann ekki fyrir neinum eymslum eða þreytu.

Kolbeinn: Léttara að vaða yfir árnar en ég átti von á og oft þægilegt að fara í kaldar árnar.

Lilja Sesselja: Að vaka svona lengi án vandræða.

Vilhjálmur: Hvað tíminn leið hratt og það er kannski vegan þess að allir voru hressir og kátir og maður gleymdi hvað tímanum leið.

Örn: Það var léttara að vaka en ég átti von á og ganga yfir nóttina.

 

6. Hvað kom á óvart í göngunni ?

Arnar: Hafði aldrei gengið þetta né komið í Landmannalaugar þannig að allt kom gleðilega á óvart.

Bára: Hvað við gengum í raun eins og í venjulegri dagsgöngu, vorum að stoppa, njóta, taka myndir og spjalla og taka góðar pásur en samt náðum við þessu innan tímamarka, kom virkilega á óvart. Einnig hversu léttara þetta var en ég átti von á, aldrei kom úrvinda kafli eða mikill þreytukafli í raun.

Davíð: Það kom á óvart hversu áfallalaust ferðin gekk hjá öllum.

Hafrún: Mér fannst magnað að ganga inn í nóttina og svo aftur inn í daginn.

Kolbeinn: Þetta reyndist minna mál en ég átti von á. 

Lilja Sesselja: Hvað gangan var auðveld.

Vilhjálmur: Ég veit ekki, ég þekkti snæðið nokkuð vel, hef komið þarna nokkrum sinnum, bæði að sumri og vetri,
svo landslagið var mér ekki framandi.

Örn: Hvað þetta var létt.

 

7. Hvaða kafli var skemmtilegastur og hvaða kafli var sístur í göngunni ?

Arnar: Þrátt fyrir að vera erfiðust er leiðin niður í Emstrur skemmtilegust í minningunni ! Enginn sístur.

Bára: Að fá kvöldsólina uppi á Jökultungunum og horfa niður að Álftavatni á öll fjöllin. Morgunsólin skínandi á veggina í Emstrugljúfrinu var eitthvað alveg nýtt á þessari leið. Síðasti kaflinn að Emstrum sístur en samt svo fallegur í morgunsólinni.

Davíð: Það var kannski leiðinlegast að ganga sandana eftir Álftavatn, hjá Emstrum og þar. Skemmtilegast var kannski að ganga hjá Háskerðingi og sjá yfir svæðið hjá Álftavatni.

Hafrún:

Kolbeinn: Skemmtilegast var að koma og sjá Álftavatn um miðja nótt - sístur var að labba eftir sandinum. 

Lilja Sesselja: Kaflinn frá Emstrum er skemmtilegastur, hann er svo fjölbreyttur og fallegur. Frá Hrafntinnuskeri er svona kannski sístur en þá aðallega vegna þess hvað hann er eyðilegur en samt með sinn sjarma.

Vilhjálmur: Gangan niður í mörk var flott, að koma niður í allan gróðurinn og einnig þegar við vorum komin niður í Emstrur og dagurinn var að ganga í garð. Ætli kaflinn upp að Stórahver hafi ekki verið sístur, enda var veðrið verst þar.

Örn: Það var enginn í raun, allir leggirnir hafa sinn sjarma. Mjög flott að sjá yfir Álftavatnið og svo er ólík leið yfir sandana, kannski var hún síst frá Bláfjallakvísl yfir í Emstrur en samt voru þar falleg fjöll að horfa á.

 

8. Hvað telur þú mikilvægt þegar farin er svona ofurganga?

Arnar: Fyrir mig var það að hafa hausinn rétt stilltann.

Bára: Fara í langar göngur áður, prófa allan búnað áður, vera jákvæður og einbeittur fyrir verkefnið, láta ekki smámuni slá sig út af laginu, vera hjálpsamur og samstilltur við aðra í hópnum og njóta augnabliksins allan tímann.

Davíð: Það er mikilvægt að æfa sig fyrir svona göngu og þekkja sín takmörk til að minnka líkur á uppgjöf á miðri leið.
Nauðsynlegt að vera búinn að prófa að ganga a.m.k. 30 km göngu fyrr, helst lengri.

Hafrún:

Kolbeinn: Mikilvægast að æfa vel fyrir svona göngu. 

Lilja Sesselja: Að vera vel undirbúin andlega jafnt sem líkamlega, vera jákvæður gagnvart öllum aðstæðum sem kynnu að koma upp.

Vilhjálmur: Að hafa gott skipulag/farastjórn, búnað fyrir kulda og vosbúð og nægt nesti.

Örn: Að undibúa sig vel, það er mjög mikilvægt. Vera jákvæður sama hvað og taka því sem að höndum ber.

 

9. Langar þig aftur í svona ofurgöngu ?

Arnar: Já, klárlega. Næst kemur Guðrún með og þá verður toppnum endanlega náð.

Bára: Get ekki beðið eftir næstu göngu, þetta var engu öðru líkt og snerti aðra strengi hjá manni en allar aðrar ferðir hafa gert.

Davíð: Mig langar svo sannarlega aftur í svona ofurgöngu.

Hafrún: Mér fannst magnað að ganga inn í nóttina og svo aftur inn í daginn. Mæli klárlega með að prófa þessa gerð af Laugavegsgöngu.Takk fyrir þessa frábæru ferð, bíð spennt eftir áskorun fyrir 2021.

Kolbeinn: Já færi aftur, þetta var einstök upplifun. Takk fyrir einstaklega flotta og skemmtilega göngu. 

Lilja Sesselja: Já, en ekki Laugaveginn aftur, ég vil fjölbreytni. Prófa fleiri staði og aðrar gönguleiðir sem eru svona langar eða lengri. Mér fannst hópurinn frábær í þessari ferð, allir svo samstilltir og svona frekar jafnlynt fólk sem skiptir máli í svona langri ferð :-)

Vilhjálmur: Já þetta var mjög skemmtileg ganga ótrúlega heppin með veður og félagsskapurinn frábær (engar uppákomur).
En það er kannski ekki hægt að ætlast til að þetta gangi svona vel upp aftur..

Örn: Já, klárlega, bæði þessa leið og aðrar sambærilegar.

Sjá frásögn Hafrúnar sem samfelldan texta hér undir reynslusögur félaganna:

http://www.fjallgongur.is/reynslusogur_klubbfelaga/laugavegurinn_1_degi_hafrun_johannesd_250620.htm

Leiðangursmenn eru hvattir til að senda mér sína ferðasögu sem samfelldan texta og hann fer á vefsíðuna undir reynslusögur !

http://www.fjallgongur.is/ferdasogur_felaganna.htm

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir