Tindferð 188
Miðfell og Dagmálafell
Þingvallafjöll 1 og 2
sunnudaginn 5. janúar 2020

Miðfell og Dagmálafell
Þingvallafjöll 1 og 2 af 33

Alls fóru 27 manns á fyrstu tvö Þingvallafjöllin á árinu...
í gullinni vetrarsól og snjóhríð inni á milli sunnudaginn 5. janúar
í fyrstu göngu ársins 2020...

--------------------------------------------------------------

Árið 2020 byjaði með hvelli... illviðri dögum saman...
og það leit strax út fyrir að þurfa að grípa veðurglugga þegar þeir kæmu fyrir ef marka mátti langtímaspárnar...

Við lögðum því í hann sunnudaginn 5. janúar
á tvö saklaus fell við Þingvallavatn sem gengin hafa verið tvisvar í klúbbnum á þriðjudagskvöldum...
í stað dagsgöngu á laugardeginum á Hrútafjöll sem við höfum ekki farið á áður en gerðum ráð fyrir að væri ekki bílfært að...

Sjá hér Arnarfell vinstra megin og Miðfell og Dagmálafell hægra megin...
lúrandi við austurbakka Þingvallavatns...

Sjá Arnarvatn hér austan megin vatnsins...
mjög fallegt fjall og einhver sérstakur andi yfir því... það verður helst gengið á þriðjudegi...

Áður en gangan hófst kallaði þjálfari þá til sem luku við áskoranir ársins 2019...

Ókunnar slóðir einn á ferð
Alls luku fjögur manns við hana; Björn Matt., Davíð, Ísleifur og Jóhanna Fríða
og hlaut Ísleifur árgjald að verðmæti 20.000 kr í klúbbnum fyrir flottasta listann og sérstakasta fjallið.
Aukavinningur, tindferð að verðmæti 3000/5000 var ákveðið að færu til allra
en þess skal getið að Jóhanna Fríða var sú eina sem fór fleiri en tólf ókunnar slóðir á árinu
alls 14 stykki sem var vel af sér vikið og var alltaf að gefa henni aukavinning :-)
Allir þátttakendur fengu sérmerktan bjór merktur Ókunnar slóðir á eigin vegum með ljósmynd frá Ísleifi af Fagraskógarfjalli
og þeim stendur til boða að fá merkingu áskorunarinnar á bol

Ferðasögur þátttakenda eru veisla.... við mælum með að skoða hér:

http://fjallgongur.is/askoranir_allar_fra_upphafi/okunnar_slodir_2019.htm

 

Hvalfjarðarfjöllin tólf
Alls luku þrír við hana; Bjarni, Biggi og Örn
og hlutu þeir báðir árgjald í klúbbnum að verðmæti 20.000 kr.sem þeir geta gefið öðrum (ekki nýta sjálfir)
sérmerktan bjór með Hvalfjarðarfjöllunum tólf með ljósmynd fr´ra

http://fjallgongur.is/askoranir_allar_fra_upphafi/12_tindar_hvalfjardar_2019.htm

 

Tólf fjöll á tólf dögum
Eingöngu þrjár luku við þau; Bára, Sigríður Lár. og Súsanna
og þar sem þær voru eingöngu tvær fyrir utan þjálfara sem kláruðu þetta
ákváðum við að gefa þeim hálft árgjald hvorri
að verðmæti 10.000 kr sem þæt geta nýtt fyrir sjálfa sig.

http://fjallgongur.is/askoranir_allar_fra_upphafi/12_fjoll_12_dogum_040519_150519.htm

 

Páskaæfingafimman
Alls luku sjö manns við hana;
Bára, Biggi, Helga Björk, Herdís, Olgeir, Sigga Lár., Súsanna
og var hefðbundin tindferð í vinning að verðmæti 3000/5000 sem Olgeir og Sigga hlutu fyrir svölustu fimmuna
en Súsanna fékk líka tindferð að verðmæti 3000/5000 fyrir mjög flotta fimmu þar sem hún fór í fimm ólíkar göngur
án þess að stíga upp í bíl anna hvort heiman frá sér eða úr bústaðnum sem gaf þjálfari hugmynd að áskorun ársins 2021 :-)

http://fjallgongur.is/askoranir_allar_fra_upphafi/5_fjalla_paska_askorun_130419_220419.htm

Þátttakendur í Ókunnum slóðum einir á ferð og Hvalfjarðarfjöllunu tólf fengu sérmerktan Toppfarabjór
sem Jóngeir merkingarstjóri Toppfara gerði fyrir okkur :-)

...  og þeim stendur og til boða að fá merkingu á bol, buff
eða álíka með textanum "Tólf ókunnar slóðir einn á ferð 2019" og "Hvalfjarðarfjöllin 12 og nöfn þeirra í röð"
gegn vægu gjaldi - sjá síðar sérstakan merkingardag fyrir Toppfara :-)

Frábær frammistaða !

Og verður aftur verðlaunaafhending með þeim sem ekki náðu að mæta þennan sunnudag
í næstu göngu... sem átti að vera þriðjudaginn 7. janúar...
en þá gekk illviðri yfir landið og illfært varð á höfuðborgarsvæðinu svo lítið varð um æfingu (þrjú á Helgafelli í Mosó)...
en vonandi næst það á Drottningu og Stóra Kóngsfelli taka tvö þriðjudaginn 12. janúar...

Loks var lagt af stað kl. 11:14... mjög skrítin tímasetning... svona langt liðið á daginn...
en það var vel þegið af öllum... að mæta við Össur kl. 10:00 á sunnudagsmorgni og grípa smá veðurglugga...

Það gekk á með éljum þennan dag... sólin skein að hluta og það sást vel til heiðs himins...
milli þess sem illúðleg skýin full af éljum gengu yfir land og láð allt í kring...

Snjóföl yfir öllu og stöku skaflar og hitastig rétt undir núlli svo það var ekki broddafæri strax...

Dalene komin til Íslands frá 3ja mánaða dvöl með Birni Matt í Suður-Afríku í sól og hita...
mikill munur á dagsbirgu og veðri hér og þar...
eflaust mikil viðbrigði eins og hún lýsti... við lofuðum henni stórkostlegu þakklæti þegar vorið færi að koma...
af þeirri tilfinningu vildi maður ekki missa... harkalegur veturinn er þess virði...
til að upplifa þakklætið fyrir íslenska vorið og sumarið...

Arnarfellið í baksýn og Súsanna með íslenska fánann sem alltaf er svo hátíðlegt í göngunum okkar...

Stór hópur á ferð... alls 27 manns og samt komust ekki allir sem ætla að ná þessum Þingvallafjöllum öllum
en við mælum eindregið með því að mæta sem best til að safna sem fæstum fjöllum sem menn eiga þá eftir á eigin vegum...

Útsýnið af þessum lágu fellum er frábært um leið og maður er kominn eitthvað áleiðis upp...

Hér Lyngdalsheiðin og vegurinn yfir hana... núna meðfram báðum Reyðarbörmum sunnan við þá
en gamli vegurinn sem við keyrðum alltaf fyrstu árin þegar við fórum á Kálfstindana var alltaf á milli þeirra...

Reyðarbarmarnir báðir eru á dagskrá á þriðjudagskveldi á árinu eins og fleiri Þingvallafjöll...

Steinar Ríkharðsson mætti í sína fyrstu göngu með hópnum þennan dag...
hann er vinur Davíðs og ætlar Þingvallafjöllin öll og hugsanlega Laugaveginn á einum degi :-)

Mosinn ísaður... svo fallegt alltaf á veturna...

Brekkur beggja fella eru aflíðandi og færar öllum... brúnirnar eru fallegar til vesturs að vatninu...

Þarna skall éljagangur og þá breyttist tilveran snarlega í hríðarveður...

Skyggni breyttist og hver gekk undir sinni hettu með skíðagleraugu ef þau voru meðferðis...
en tilveruréttur þeirra hefur aldeilis minnt á sig í fjórðu göngunni í voru...
Hvalfellið... Þyrill... Gildalshnúkur... Miðfell og Dagmálafell... og svo Helgafellið í Mosó á þriðjudegi...
fimmtu göngunni í röð þar sem vel reynir á búnað og mótstöðu gegn erfiðu veðri...

... en þó varla hér á Miðfelli og Dagmálafelli þar sem éljagangurinn stóð stutt yfir og gaf ekki mikinn vind né barning...

Hér áðum við þar sem gott skjól gafst og menn fengu sér nesti...
og þjálfari fór yfir fjallahringinn eins og hann lagði sig til norðausturs að suðri...
fullt af spennandi fjöllum sem mjög gaman verður að bæta smám saman á Þingvallafjallalista ársins...

Fljótlega eftir að éljagangurinn skall á...

... rofaði til og aftur kom heiður himinn...

Þá var vel þegið að njóta útsýnisins yfir fjallahring Þingvallavatns sem blasti við hvítur og glitrandi...

Við vorum á efsta tindi Miðfells... efsta punkti dagsins í 336 m hæð...

Mastur sem Skúli Júl hjá Wildboys og Fjallhress tók þátt í að reisa hér á árum áður þegar hann vann hjá Símanum...
skemmtilegt :-)

Sólin ætlaði varla að koma upp... fannst það líklega ekki taka því...
en mikið svakalega munar um að fá smá allsherjar dagsbirtu þó stutt sé á hverjum degi...

Ansi úfið til suðurs og til fjalla af og til... éljagangurinn fór hratt yfir með sín dimmu ský...

Öðru hvoru mændum við til suðurs og sáum stundum Kálfstindana, Hrútafjöll og Reyðarbarmana í norðaustri...
en alltaf herjuðu skýin á þau að hluta...

Nær á Reyðarbarmana...
fyrstu ár Toppfara lá Lyngdalsheiðarvegurinn milli Reyðarbarmanna og við horfðum á þessi lágu fell
og vissum að einn daginn myndum við bæta þeim í safnið... að það yrði ekki fyrr en árið 2020 hefði maður aldrei trúað...
enda höfum við ofta en einu sinni sett þau á dagskrá á þriðjudegi... en alltaf hafa þau vikið fyrir breytingum á dagskránni greyin...
nú fá þau loksins að komast á lista Toppfara...

Það leit út fyrir broddafæri niður af Miðfelli og öftustu menn skelltu sér á naglana til að þurfa ekki að gæta hvers skrefs...

Vel þegið fyrirbæri... þökk sé Antoni Toppfara sem fyrstur allra dreif í að kaupa þetta til landsins
og svo fylgdu útivistarbúðirnar á eftir og nú er þetta fastur hluti af tilveru útivistar á Íslandi...

Búrfell í Grímsnesi... jú, við vorum sammála því að það ætti að vera hluti Þingvallafjalla...
það er á dagskrá á þriðjudegi eins og mörg önnur fjöll í áskoruninni...

Nú teygðist mikið úr hópnum þar sem farið var greitt eftir malarveginum sem liggur þvert yfir þessi fell...
líklega þegar mastrið var reist... heilmikil spjöll á þessum fjöllum en þýðir lítið að syrgja það nú...

Þetta var aukabunga á Miðfelli... við vorum ekki enn farin að sjá í Dagmálafellið...

Milli Miðfells og Dagmálafells er lítið skarð kallað Borgarskarð...
hér framundan og Dagmálafell framundan...

Hér þurfti smá leit að betra færi ef menn voru ekki komnir á keðjurnar...

Orkan og heilunin á svona göngu...
í svona mýkt... lágstemmdri birtu... tærum litum... ferskum vindum... kærleiksríkum félagsskap...
er gulls ígildi...

Birtan leikur stórt hlutverk á þessum dimmasta tíma ársins... eins gott að sjá og meta það fallega sem hann býður upp á...
til að lifa af og njóta meðan á því stendur... ekki þreyja... heldur njóta...

Dalene hin suðurafríska er sterkur göngumaður og lætur sig hafa þetta allt...
harðneskjuna, kuldann, vindinn... og nýtur þess í botn...

Víðáttan... ekki sjálfgefið... tærleikurinn... ekki sjálfgefið... ferska loftið... ekki sjálfgefið...

Þetta var sem betur fer talsvert upp og niður...
þjálfarar áttu svolítið erfitt með að bjóða ekki upp á meiri göngu en þetta...
en allir voru þakklátir og þáðu svona stutta og létta göngu í byrjun ársins milli illviðra
sem herja nú dögum og líklega vikum saman næstu vikurnar...

Töfrandi augnablik í svona göngu eru óteljandi... ómetanlegt með öllu...

Litið til baka... Miðfellið að baki og nú stödd á Dagmálafelli sem mældist 281 m hátt að þessu sinni...

Við vildum fá sem mestu út úr þessari göngu
og fórum því eftir öllum fellunum enda í enda og stefndum alla leið að ströndum Þingvallafjalla...

Gullfallegt þegar litið var til baka... Miðfellið og svo fjær Kálfstindar og félagar...
og nú sást aðeins í Þjófahnúk og Hrafnabjörg... gaman að sjá verkefni ársins allt í kring...

Ármannsfellið og svo lágu fellin við Sandkluftavatn... öll á þriðjudagsæfingum á árinu...
þetta verður skemmtilegt verkefni.... :-)

Allir vel búnir og að njóta veðursins þrátt fyrir allt... dauðfegnir að komast á fjall á fyrstu helgi ársins...

Nú var stefnt fram á Þingvallavatnsbrúnirnar...

Í fyrri ferðum beygðum við hér til hægri niður að brúnunum sem liggja ofan við sumarhúsabyggðina vestan megin
en nú skyldi farið alla leið að vatninu sunnan megin...

Það var vel þess virði... þarna gafst fegursti birtukafli dagsins...

Sólin tók að skína og gylla allt...

Kraftur sólarinnar var vel áþreifanlegur á svona stund... þegar geislar hennar tóku að skína á allt...
þá varð allt svo fallegt... betra... hlýrra... yfirstíganlegra... léttara... skemmtilegra... hægt að halda endalaust áfram...

Sólin er magnaðasta fyrirbæri náttúrunnar... vatnið númer tvö... eða öfugt...
bæði tvö það mikilvægast og besta sem við gefum beðið um í lífinu...

En hún staldraði stutt við... rétt skein til okkar á örfáum mínútum...

Það var eins gott að nýta þau augnablik til hins ítrasta...

Njóta töfranna sem skullu þarna á okkur og er engan veginn hægt að lýsa... verður að upplifast á staðnum...

Takk sól... fyrir allt... fyrir að gera okkur kleift að lifa af á þessari jörð...

Hvílíkt gull sem sló á hópinn...
það var ekki annað hægt en taka mynd með geislana á hópnum enda var blámi himinsins svo heilandi
að það var þess virði að grípa stundina...

Vetrarsólarhiminblámahópmyndin:

Efri; Elísa, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Ágústa, Steinar Ríkharðs., Biggi, Ásmundur, Steinar Adolfs, Hafrún, Karen Rut
Björn Matt, Dalene, Jón Steingríms, Agnar og Ólafur Vignir.
Neðri: Kolbeinn, Björgólfur, Jórunn Atla, Inga Guðrún, Bjarnþóra, Örn, Valla, Stefán, Bjarni, Helga Björk, Batman og Súsanna.

Það dimmdi jafn skjótt og sólin kom...
dimm él hrönnuðust upp í vestri og stefndu yfir vatnið og beint til okkar...

Skyndilega hvarf útsýnið til hins enda Þingvallavatns...

Sjá hér bláan himininn í austri og svo hvernig éljagangurinn gekk yfir frá vestri...

Skollið á hér...

Þetta var samt saklaus éljagangur og beit ekki vel í...
það þurfti ekki endilega að rífa upp skíðagleraugun þó sumir gerðu það...
hitastigið og vindurinn var ekki það mikill eins og í fyrri göngum vetursins...
en það er samt mikilvægt að hafa þau alltaf í bakpokanum því svona éljagangur getur verið ansi hatrammur..

Vetrarhríðaréljagangshópmyndin:

Hér átti að vera aðalhópmyndastaður ferðarinnar... nú í miðjum éljagangi...
sem var í stakasta lagi og lúmskt skemmtilegt eftir vetrarsólarhiminblámahópmyndina innan við hálftíma áður :-)

Svo gekk þessi éljagangur yfir... og það sást aftur til fjalla hinum megin vatnsins... Lambhagi þarna kúlulaga...
hann er á dagskrá á þriðjudegi með Ölfuvatnsfjöllunum og Gildruklettum...

Dásamlegt að fá svona breytilegt veður en samt það saklaust að það var hægt að njóta alls...

Hjarta dagsins... þau eru orðin ansi mörg steinhjörtun... alltaf fellur maður fyrir þeim...

Það eru talsverðar bungur utan í fellunum vestan megin áður en komið er niður í fjörur Þingvallavatns...

Við áttum eftir að lækka okkur niður af þeim og margir komnir úr broddunum en það kom ekki að sök...
snjórinn var bljúgur og gaf hald niður...

Falleg sveitin á Þingvöllum... leyndir staðir sem fáir koma á...
sumarhúsaeigendur svæðisins vita hversu mikil perla þetta svæði er á eigin skinni...
vonandi ná þeir að halda í og njóta þessa svæðis áfram... því þó fáir fái að njóta þess á sama hátt og þeir...
þá einhvern veginn svífur vellíðan þeirra og væntumþykja gagnvart staðnum yfir öllu svæðinu
og skilar sér óbeint í betri Þingvöllum en ella...

Nú var gengið eftir báðum fellum til baka í brakandi færi og dásemdarspjalli...

... samveru og gefandi umræðum... eða íhugun og hugleiðslu ef maður vill... forréttindi...

Þessi húfa hjá Ágústu er tær snilld... gefur ágætis veganesti fyrir heilann til að fara að hugsa...
þjálfari er með nokkrar hugmyndir...
best að klára eina því þær verða sko fleiri en ein prjónahúfan sem hún ætlar að gera...
og þá verður sko hætt að vera með buff á höfðinu... bara prjónahúfur í höfuðið á fjalli :-)

Önnur mjög skemmtileg húfa sem gefur líka innblástur... íslensku fánalitirnir hjá Agnari...
verðum við kannski að prjóna öll svona þegar Ísland keppir á EM í sumar ? ... er það ekki.... er það ekki...? :-)

Björn bauð í áttræðisafmælið sitt í göngunni laugardaginn 18. janúar...
og mikið var rætt um skemmtiatriði í veislunni sem byrjuðu strax að skapast í göngunni...

Stórkostlegir litir og birta... það er þess virði að drífa sig út þó veðrið sé rysjótt... og njóta hvers skrefs...
því útiveran er alltaf léttari og meira gefandi en glugginn segir til um...

Við lögðum bílunum við endann á Miðfelli en NB það er fínt bílastæði þegar bílarnir eru margir innar á þessum afleggjara á vinstri hönd við Miðfellið... við þorðum ekki að fara lengra inn á ef það yrði ófært hvort eð er það...

Nesti númer tvö við bílana... það tók því ekki að borða aftur í göngunni...
þetta var stutt en laggóð og mjög vel þegin útivera á sunnudegi...

Skafrenningur og hálka á leið í bæinn...
þakklát með fallegan og sérlega notalegan dag á þessum fyrsta degi af mörgum á Þingvöllum árið 2020...

Alls 8,5 km á 3:18 - 3:22 klst. upp í 336 m á Miðfelli og 281 á Dagmálafelli með alls 401 m hækkun úr 148 m hæð.

Leiðin á korti...  mjög þétt sumarhúsabyggð er sunnan fellanna og svo stöku bústaðir við strendur vatnsins að vestan...

Leiðin fjær á afstöðumynd á korti... það verður sérlega gaman að fylla inn í þetta kort smám saman
en svæðið er það stórt að það þarf að minnka myndina enn meira eða svæðisskipta yfirlitsmyndinni sem verður líklga lendingin :-)

Hrútafjöll enduðu á að frestast fram á vor og Búrfell á Þingvöllum er næst á dagskrá ef veður leyfir :-)

Sjá myndband af ferðinni í heild:
https://www.youtube.com/watch?v=mr8nPl9wneI&t=6s
 

Sjá slóðina á wikiloc:
https://www.wikiloc.com/mountaineering-trails/thingvallafjoll-12-midfell-og-dagmalafell-050120-45303233

 

 


 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir