Tindur 12 - Hvannadalshnúkur 3. maí 2008


Fáni
Toppfara vígður á Öræfajökli... en þó ekki á toppnum í þetta sinn...

Öræfajökull var genginn laugardaginn 3. maí af 21 toppfara og fjallaleiðsögumönnunum Guðjóni, Jóni Gauta og Stefáni. Komist var upp í 1.562 m hæð og gengið í 8:30 klst. 14,1 km. Snúið var við vegna veðurs þar sem fyrirséð var af hendi leiðsögumanna að veður færi versnandi þegar ofar drægi, en þá var hópurinn búinn að ganga nokkurn spöl í sterkum hliðarvindi og hagléli.

Langflestir í hópi Toppfara voru ekki mjög sáttir við þessa ákvörðun og hefðu viljað ganga lengra þó fyrirséð væri að tindurinn yrði ekki toppaður, þar sem reynsla hópsins er orðin mjög mikil og menn vanir að ganga við erfiðar aðstæður í langan tíma.

Þessi ákvörðun var hins vegar erfið eins og alltaf fyrir leiðsögumenn, ein sú erfiðasta sem hægt er að taka á fjöllum og tekin fyrir hönd leiðangursins í heild þar sem rúmlega 50 manns voru á göngu undir ábyrgð þeirra.

Þar sem hópurinn á sér langa sögu með fjallaleiðsögumönnum sínum var úrlausn Guðjóns leiðsögumanns á endaslepptri göngu kærkomin fyrir hópinn en hún fólst í göngu á skriðjökli með tilheyrandi fræðslu um fyrirbærið og svo kennslu í notkun brodda og ísaxa og loks ísklifri þar sem við fengum að spreyta okkur á því að smokra okkur upp ísvegg í línu með brodda og ísaxir í báðum höndum að vopni.

Þessi viðbót sem helmingur hópsins tók þátt í toppaði auðvitað alla hnúka á Vatnajökulsvæðinu svo þegar kvöldið rann á meðlimi hópsins með tilheyrandi freyðivíni og öðrum kolvetnum í fljótandi formi... hlátrasköllum sem aldrei fyrr.. og skínandi gleði og hamingju... í góðri samveru sem varði heila helgi í sveitinni... þá gátu menn ekki verið sælli með ferðina í heild.

Þarna gistum við saman í fyrsta skipti og þjöppuðumst saman sem aldrei fyrr þar til upp úr stóð að fátt toppar skemmtilega samveru og stemmningu í góðra vina hópi.

Það fullkomnaði svo kvöldið að Guðjón Og Jón Gauti þáðu kvöldmatarboðið og tóku þátt í gleðinni með okkur fram eftir nóttu...

Harðsperrur ferðarinnar enduðu því í andlitinu af hlátri... olnboganum af kolvetnahleðslu... og jú kálfum af ísklifri hjá sumum svo þetta var ágætis tilbreyting frá hefðbundnum harðsperrum af fjallgöngum...

Forföllin sem einkenndu þessa ferð voru með ólíkindum en flest stefndu 29 manns á hnúkinn og því voru átta manns sem á endanum skiluðu sér ekki í gönguna. Kannski vildi rjúpuandi hópsins hafa þá með þegar tindi Íslands er náð...

Einhverjir í hópnum stefna auðvitað á hnúkinn síðar á árinu en tekin var sú ákvörðun fyrir hópinn í heild að setja hnúkinn á dagskrá að ári í maí 2009. Fjallaleiðsögumönnum okkar var tilkynnt að þeir kæmust ekki upp með annað en að koma okkur alla leið eins og þeirra er von og vísa þó það taki fleiri en eina tilraun...

Ferðasagan í heild:

Lagt var af stað úr bænum upp úr kl. 14:00 og var veðrið sólríkt og gott.

Aksturinn gekk vel en við vorum komin í rigningu og súld á Kirkjubæjarklaustri eins og spáin sagði fyrir um.

Annar þjálfari hópsins, Örn, forfallaðist eins og fleiri í ferðinni en kvaddi sitt fólk og var hugur okkar með öllum þeim sem ekki komust með í ferðina að sinni.

Hótel Skaftafell í Freysnesi sem nú heyrir undir Fosshótelin.

Við fengum herbergi á víð og dreif um fimm byggingar hótelsins en þó flestir með einhverja kringum sig.

Frábærar móttökur voru á hótelinu, mjög góð aðstaða, herbergin eins og best var á kosið, toppmatur og þjónustan til fyrirmyndar í alla staði.

Þau fengu þakkarbréf frá þjálfara fyrir hönd hópsins eftir ferðina.

Eitt af því sem vel var gert af hendi hótelsins var kjarngóð og næringarrík pastaveisla með tveimur tegundum af sósum, grænmeti og hvítlauksbrauði sem beið okkar við komu, en hún hafði verið pöntuð sérstaklega fyrir hópinn.
Eftir kvöldmat hittu leiðsögumennirnir okkur, afhentu búnaðinn og ræddu síðustu plön morgunsins.

Afráðið var að leggja í hann kl. 5:00 og voru allir vongóðir um að komast alla leið á tindinn.

Fórum snemma að sofa og flestir sváfu vært í lok vinnuvikunnar eftir langt ferðalag.

Þetta kvöld urðu enn ein forföllin er Þórunn snarveiktist af flensunni sem var búin að ganga síðustu vikur og fóru þau Guðmundur í bæinn um morguninn, því miður.

Vaknað milli kl. þrjú og fjögur, morgunmatur og allt græjað fyrir gönguna.

Orðið bjart en þungskýjað og blautt úti.

 

Með í för þennan dag voru aðrir hópar á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna sem voru sameinaðir í einn leiðangur.

Samtals 56 manns undir stjórn sjö leiðsögumanna og var Jón Gauti í forsvari fyrir hópnum í heild.

Í ljósi atburða vikuna áður þegar leiðsögumaður féll ofan í sprungu og fleiri í raun síðustu dagana á undan, var farið vel yfir þá öryggisventla sem leiðsögumennirnir hafa um sig og tíndi Jón Gauti upp úr bakpokanum sínum allt sitt hafurtask til að menn gætu séð hvernig þeir búa sig undir gönguna á Hvannadalshnúk.

Maður sannfærðist endanlega um það að þessir fjallaleiðsögumenn eru sko göldróttir þarna sem hann tíndi endalaust upp úr pokanum eins og Mary Poppins og maður beið bara eftir standlampanum þegar hann loks hætti...

Lagt var af stað kl. 5:30 í mildu og lygnu veðri og fremur hlýju eða um 7°C.

 

Gengið var upp Sandfellsheiðina og farið hver á sínum hraða svo það dreifðist vel úr þessum fjölmenna hópi.
Sandfellið fól í sér nokkuð mikla hækkun svona í byrjun en ekki fundum við mikið fyrir henni eftir göngur síðustu mánuðin.

 

 

Sjá hallann hérna á mynd, undirlag Sandfellsins og skýjafarið snemma morguns.

Lækjarstopp og fyllt á brúsa áður en farið yrði ofar þar sem ekki meira vatn gafst.

Hér fór að rigna og allir voru komnir í regngallann áður en lagt var af stað... sumir í anzi hæpnum regnfötum svo ekki sé meira sagt á hæsta tindi landsins þar sem allra veðra er von...

Gengið upp fallega leið að klettum þar sem áning tvö var, en fróðlegt væri að fá nafnið á þessum stað...
Nesti og hvíld í hlýjum og mjúkum sætum íslenska mosans.
Fljótlega eftir pásuna tók snjórinn við og umhverfið hvítnaði.

Snjórinn var blautur en vel fær og dýpkaði ekki fyrr en ofar.

 

Guðjón hér með nokkra í slagtogi á myndarlegu róli.
Jón Gauti með toppfarana sína allt um kring og fleiri galvaska hnúksfara á góðu spjalli.

Þarna þyngdist færið og við urðum að ganga í halaröð ofan í spor næsta manns svo snjórinn færi ekki ofan í skóna, en við höfðum verið að spara legghlífarnar til að kófsvitna ekki í þeim hita sem var þennan dag strax í upphafi göngunnar.

Áning þrjú þar sem allir borðuðu vel, klæddu sig betur, fóru á salernið og reimuðu á sig beltið góða fyrir línuna.

Jón Gauti mokaði þetta fínasta salerni fyrir okkur ofar í hlíðinni sem var jafn óskaplega vel þegið og á Eyjafjallajökli fyrir mánuði síðan.

Ennþá var veðrið nokkuð gott en þoka þó yfir og ekki útsýni.

Hitinn skv. Roar var 3°C þegar myndin er tekin.

Aðeins kom snjókoma  og svo birta gegnum skýin af sólinni, en annars þoka og milt veður.
Hver og einn settur í línu og leiðsögumenn fóru vel yfir öryggisatriðin og viðbrögð við sprunguóhöppum.
Gengið af stað upp jökulinn í góðu færi og á rólegum og viðráðanlegum gönguhraða fyrir alla, en þó dróst á milli fremstu og öftustu manna.

Okkar hópur fór fremst og hefði viljað ganga hraðar í sínu uppsprengda formi sem vildi auðvitað blómstra á hæsta tindi landsins... en skynsemin var með í för leiðsögumanna, þetta var löng ganga í heild og nauðsynlegt að halda leiðangrinum nokkuð þéttum saman.

Það er erfitt er að taka myndir þegar gengið er í línu því það er ekki rúm fyrir myndastopp svona almennt, en myndefnið var til staðar og tókst að grípa nokkur falleg augnablik.
Þokan hér farin að læðast um en veðrið enn gott og öðru hvoru sást upp til himins og niður á jörð.
Helga Björns hélt Guðjóni og Inga uppteknum við að hlaupa á eftir hanskanum hennar sem fauk af stað öðru hvoru og var þetta karlmannlega björgunarverkefni kærkomið fyrir þá stráka sem fengu lítið út úr hægaganginum í línunni...

Smám saman fór vindurinn að blása meira og haglél dundi á okkur úr suðaustri en truflaði mann ekki þar sem það var á hlið og fötin öll orðin reynslumikil.

Hitinn fór kaldast niður í -1,3°C á jöklinum skv. hitamæli Roars.

Leiðsögumenn ráða hér ráðum sínum og er klukkan þarna 10:52.

Ha? Snúa við? Vegna hvurs? Veðurs? Þetta er ekkert veður!? Ég er ekki einu sinni búin að klæða mig í lúffurnar?  Hjölli er ekki einu sinni kominn með lambhúshettuna á höfuðið!?

Ekki datt nokkru okkar í hug að þeir væru að taka ákvörðun um að snúa við nema þeir sem heyrðu ráðagerðir.

Við urðum hreinskilningslega steinhissa og mörg svekkt þegar okkur var tilkynnt þessi ákvörðun, en auðvitað réðu leiðsögumenn ferðinni, það er þeirra hlutverk. Þeir gjörþekkja aðstæður þarna og vissu fyrir víst að veðrið færi bara versnandi með hækkandi hæð.

 

Flest okkar hefðu viljað halda áfram og áttu sannarlega inni fyrir því í skrokknum og huganum.

Sumir varla búnir að setja upp vetrarbúnaðinn og reynslan síðustu mánuði sínu verri en þetta veður... Syðsta Súla, Skarðsheiðin, Ármannsfell... og jafnvel Kerhólakambur, Baula, Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull á tímabili.

Menn skeggræddu þetta á niðurleiðinni og eftir á að hyggja hefði hugsanlega verið sniðugt fyir okkar hóp að slá þó hæðarmet og fara hærra en Eyjafjallajökull en fyrst og fremst að fá að vera sér leiðangur í engu slagtogi við aðra.

Ekkert okkar datt hæðarmetið þó í hug fyrr en síðar og kannski hefði slíkt hvort eð er ekki verið mögulegt þar sem leiðsögumennirnir báru ábyrgð á leiðangrinum í heild og hefðu aldrei getað hleypt sumum lengra inn í veðrið.

Þjálfari lét leiðsögumenn vita að hópurinn væri almennt fremur svekktur yfir þessum málalyktum á Hvannadalshnúksgöngunni og brást Guðjón Marteins hið snarasta við því með hugmynd um að framkvæma það sem rætt hafði verið áður við þjálfara um spennandi nýja tegund af útiveru fyrir hópinn... nefnilega göngu á skriðjökli og æfingu í ísklifri.

Þessi hugdetta fór vel í hluta af hópnum sem alls ekki var búinn að fá nægju sína af degi sem þessu og úr varð að hugmyndin var framkvæmd síðar um daginn.

Niðurleiðin gekk svo vel.

Fljótlega var bjartara umhorfs og útsýnið stórfenglegt.

Sólin skein í heiði og við köstuðum af okkur klæðunum með lækkandi metrunum.

Salernið góða fyrir ofan hádegisstaðinn af hendi Jóns Gauta.
Hérna fórum við úr línunum og nærðumst aðeins.

Dásamlegt veður og maður mændi með eftirsjá upp eftir jöklinum...

Eigum við ekki fara aftur upp og sjá hvort við komumst lengra Guðjón?...

Nei, æji, ok, ég skil, ekki hægt...

Sumir voru sko alveg til í það...

Við vorum eins og suðandi krakkar...

Hópmyndir voru teknar af okkur í báðar áttir, þessi vestur yfir láglendið og fáninn okkar vígður á mótsagnarkenndan hátt þar sem við vorum sannarlega ekki á toppnum í annað sinn í tindferðunum okkar tólf sem eru að baki. Kannski á svona að því er virðist hrokafull fullyrðing um að "við séum á toppnum... hvar ert þú?" ...ekki skilið annað en að vera  skellt kylliflatri í neðri hlíðum hæsta tinds Íslands...

Í setningunni felst hins vegar áskorun og ekkert annað... hún er oft besta leiðin til þess að fá menn til þess að taka af skarið og skella sér af stað... starfsemi fjallgönguklúbbsins snýst um þjálfun og það þarf að skora á menn til þess að fá þá með... fyrsta skrefið er það stærsta...

Fátt jafnast á við það að taka áskorunum og standast þær eins og mýmargir innan hópsins hafa gert hingað til með því að ganga hærra, lengra og hraðar en nokkru sinni í lífi sínu...

Efri frá vinstri: Herdís Dröfn, Ásta, Hjörleifur, Grétar Jón, Stefán Heimir, Íris Ósk, Þorbjörg, Kristín Gunda, Helga Björns., Þorleifur, Rannveig og Guðjón marteins, fjallaleiðsögumaður.

Neðri frá vinstri: Stefán, fjallaleiðsögumaður, Stefán Jóns., Guðmundur Ólafur, Guðbrandur, Jón Gauti, fjallaleiðsögumaður, Guðjón Pétur, Ingi, Heiða, Kári, Bára, Roar og Halldóra Þórarins...

"Auðvitað skipti það ekki aðal máli í raun hvort við færum á tindinn eða ekki, við áttum alveg eins von á að komast ekki frekar en margir aðrir sem reyna við hnúkinn ár hvert".

"Það sem fyrst og fremst skorti var að menn fyndu á eigin skinni að það var veðrið sem sneri okkur við.  Eftir öll veðravítin síðustu mánuði (þó það sé alltaf gott veður í göngunum okkar ;) ) þá var gangan á Öræfajökli ein sú viðráðanlegasta hingað til".

"Þessir leiðsögumenn höfðu hingað til dregið okkur áfram í krefjandi veðri og aðstæðum sem við höfum sjóast heilmikið af síðustu mánuði og því var eðlilegt að við þyrftum hærri þröskuld til þess að stöðvast á en ella".

"Ég var ekki einu sinni farinn að nota allan búnaðinn minn... ekki búinn að setja upp lambhúshettuna, vettlingana, hettuna, skíðagleraugun..."

Svona voru pælingar manna á niðurleiðinni og fram eftir kveldi.

Við þessu var þó ekkert að gera í það sinnið. Leiðangurinn í heild réði ferðinni og dæmin höfðu sannað síðustu vikur að öryggi er það mikilvægasta á fjöllum og engu skyldi fórnað fyrir það.

Gullfallegt veður og landslag Öræfajökuls.
Jón Gauti

Stefán Heimir

Þorleifur

Grétar Jón

Þorbjörg

Á einum af þessum góðu stundum sem gefast til dýrmætra samskipta á niðurleiðinni.

 

Aftur komin að klettinum góða og áð stutta stund í hita og svita.
Nú fór sólin að steikja okkur fyrir alvöru...
Litið til baka upp eftir hryggnum... ætli hann beri nafn?
Fækkað fötum og drukkið til móts við svitann sem rann stríðum straumum undan sólinni og hitanum.
Það var sumar á Sandfelli laugardaginn 3. maí 2008 þó ekki næði það alla leið upp í 2.000 m metra...
Hver öðlingurinn á fætur öðrum að koma hér niður fellið...

Stefán Heimir, Guðjón Marteins. leiðsögumaður, Þorleifur, Grétar Jón og Stefán leiðsögumaður.

Þessi kafli var notalegur á spjalli um heima og geima... Mont Blanc...  Laugaveginn, Grænland, börnin okkar og útiverumöguleika þeirra þar sem þau sitja uppi með eirðarlaust fjallafólk sem foreldra...

 

Niður komum við kl. 14:00 eftir 8:30 klst. langa göngu 14,1 km upp í 1.562 m hæð með hækkun upp á
1.461 m
...

Veðrið slíkt að allt svekkelsi gufaði upp og það var gaman að lifa... hluti af hópnum ætlaði á Svínafellsjökulinn með strákunum og þá var nú allt orðið gott.

Klapp á bakið allan hringinn í lokin og menn þökkuðu fyrir góða og trausta leiðsögn.

Veðrið á bílastæðinu kl. 14:20...  Rúmlega 9°C hiti skv. hitamæli Roars.

Átti maður að fara með á skriðjökulinn og í ísklifrið....?

Eða eigum við að fara í sund?...

Hvað með að vera á táslunum á grasbalanum við hótelið og fá sér einn svellkaldan...?

Eða fleygja sér undir sæng stutta stund eftir góða sturtu því svitinn hafði sko storknað á manni þennan dag...?

Hver og einn gerði upp hug sinn og sumir vissu vel hvað þeir vildu. Þjálfari skellti sér með í aukaferðina til að taka myndir og viðurkennir alveg að hún var ekki að nenna þessu...

Hún sá hins vegar ekki eftir því... þetta var meira ævintýri en nokkurt okkar grunaði.

Fyrst var farið á hótelið og svo beint að Svínafellsjökli þar sem við gengum að rótum skriðjökulsins rétt handan við malarhólana.

Allir með brodda, belti og ísexi...

Umhverfið ólýsanlega fallegt og heimur skriðjökulsins annar en okkar...

Svona túr er víst fyrst og fremst farinn með erlenda ferðamenn en vá, Íslendingarnir eru verulega sviknir af að missa af þessari ægifagurri náttúru jökulsins sem beið okkar þetta síðdegi.

Þjálfari syrgði þegar á hólminn var komið að hópurinn skyldi ekki allur stíga þessi spor á jöklinum sem við gerðum... þau voru öðruvísi en önnur, framandi og lærdómsrík.

 

Við vorum sum sé átta sem fórum þennan leiðangur:

Þorbjörg, Ingi, Þorleifur, Kristín Gunda, Stefán Heimir, Roar, Grétar Jón...

og Íris Ósk sem naut aðstoðar við að láta á sig broddana þetta augnablik og Bára bak við myndavélina...

... ásamt fjallaleiðsögumönnum dagsins sem voru skiljanlega í mismiklu stuði fyrir þennan krók og þekktu sumir þessa skrítnu Toppfara ekkert.

Fyrst var að læra að ganga á broddum og treysta þeim í halla.

Sjá allt um hana í umfjöllun um tind 7 - Kerhólakamb þar sem farið er yfir reglurnar um broddanotkun eftir kennslu Guðjóns og Jóns Gauta.

Strákarnir fræddu okkur um allt mögulegt í lífríki skriðjökulsins og við brodduðumst áfram inn eftir klóm hans þar til þær urðu svo sverar að nokkurra metra djúpar brekkur gáfust á milli klónna til ísklifurs.
Hér undirbúa strákarnir línurnar tvær sem við fengum að spreyta okkur á.

Myndirnar sýna ekki vel þann halla sem við upplifðum í klifrinu en svona lagað er líka mjög huglægt og erfitt að lýsa eða mynda nema vera á staðnum.

Hver og einn fór svo eina ferð upp og eina niður.

Við lærðum að skella lárétt broddunum vel í ísinn, sökkva smærri ísöxum í hvorri hendi ofan á ísinn og klifra þannig upp vegginn með línuna til öryggis við fall.

Ingi og Guðjón Pétur fóru fyrstir enda aðal hvatamenn  fyrir því að þiggja leiðangurinn yfirleitt en þeir fengu lítinn sem engan stuðning frá þjálfara í þeim efnum sem dauðsá auðvitað eftir því eftir á.
Svo fóru hinir hver á eftir öðrum en okkur leist nú ekki á blikuna þegar Ingi kom fyrstur niður alblóðugur á hnúunum...

Það var sum sé betra að vera með vettlinga...

Þjálfari var til mikillar fyrirmyndar og sýndi engan ótta... eða hummm, var það öfugt?... æji, jú...

...en sigraðist á óttanum og lét sig hafa það...

Þetta var hægt... maður datt ekki..." ég gat klifrað þarna upp"... það tók jú í, kálfar og læri titruðu af skelfingu... en vá hvað þetta var gaman og gott að takast á við það sem skelfir án þess að skaðast.

Sjá ísinn kristaltæran þarna á nærmyndinni.

 

(mynd frá Guðjóni Pétri)

Kristín Gunda var alger klifurköttur og ein af nokkrum sem gerðu þetta án þess að taka feilspor af óöryggi.

Hér búin að sleppa höndunum á niðurleiðinni og nýtur stuðnings línunnar meðan hún bakkar.

 

(mynd frá Guðjóni Pétri)

 

Kyngimagnað

umhverfið

nær og fjær

í náttúrulegum stíl...

 

Ein

 af

 gullfallegum

og

mögnuðum

myndum

þessa

fjallgönguklúbbs

sem

njóta

sín

betur

 í

stærri

upplausn

hér

til

sýnis.

Jón Gauti útskýrir hér eðlisfræðina bak við svarta sandinn sem ekki hitnar í sólinni og bræðir ísinn undir, eins og ætla mætti, heldur einangrar hann vel svo eftir standa þessir sandstöplar á víð og dreif um jökulinn þar sem allt í kring bráðnar.

Sjá sömu umræðu á tindi 4 - Heklu þar sem svartur vikurinn einangrar á sama hátt.

Södd og sæl að loknu góðu dagsverki.

Lærdómur sem gaf mikið og gleymist ei.

Svona ferð þarf hópurinn í heild að fara í einn daginn.

Ærslafyllstu Toppfararnir (Grétar Jón, Þorleifur, Íris Ósk, Þorbjörg) fóru svo upp að Svartafossi til að fullkomna daginn fyrir sjálfum sér, en hinir fleygðu sér undir sturtu í staðinn fyrir foss og sturtuðu í leiðinni niður einhverjum fljótandi kolvetnum..

Þeir sem ekki fóru á skriðjökulinn höfðu kosið að setjast í grasið eftir Öræfajökul og svala þorstanum í sólinni, fara í sturtu og hvílast jafnvel.

Þrjú keyrðu í bæinn eftir gönguna, Guðbrandur, Rannveig og Halldóra Þórarins  og því voru 19 manns endanlega eftir á laugardagskvöldinu í Freysnesi.

Þarna hófst hláturinn sem ekki stöðvaðist fyrr en svefninn tók völdin rétt eftir miðnætti.

Andrúmsloftið var einstakt...og við Helga gengum á hlátrasköllin sem glumdu úr herbergi Ástu og Herdísar í útihúsunum sem hluti af hópnum gisti í.

Mönnum var tíðrætt um afdrif göngunar og ljóst að flestir hefðu viljað ganga lengra og hærra en okkur gafst í þetta sinn, en um leið vorum við sæl með daginn í heild og hugmyndir fóru að kvikna um að endurtaka leikinn að ári og ekki gefast upp fyrr en tindinum yrði náð.

Þá var að flytja veigarnar sem Þorleifur og Grétar Jón báru ábyrgð á yfir í kokteilpartýið sem búið var að bjóða okkur í hjá Þorbjörgu og Írisi Ósk.

 

Þar beið okkar freyðandi vín, gleði og glaumur og við héldum áfram að hlæja úr okkur lungun sem ekki fengu að blása nógu skart á hnúknum.

Við skáluðum fyrir öllum og öllu og gerðum okkur grein fyrir því að ferðin í heild sem samvera heila helgi var meira gefandi fyrir hópinn en nokkur tindur.

Íris Ósk stakk upp á því að bjóða fjallaleiðsögumönnunum okkar kærkomnu í mat þar sem nokkrir höfðu farið í bæinn og því voru afgangs sæti í matnum og jafnvel gistingu.

Þjálfari hringdi í strákana og átti von á penni afþökkun, en nei, þeir voru bara hinir ánægðustu og þakklátir fyrir gott boð.

Þegar þeir létu svo sjá sig í dyragættinni á partýinu hjá Þorbjörgu og Írisi Ósk var þeim fagnað sem kóngum. Kannski leist þeim ekkert á blikuna...

Tæplega tuttugu Toppfarar búnir að hella í sig í klukkutíma eða tvo með fljótandi adrenalínið í æðunum sem búið var að byggja upp fyrir hnúkinn, þannig að það flaut þá bara yfir barma sína þetta kvöld...

Fljótlega var Jón Gauti kominn í vinnuna nánast og sat uppi með einn Toppfarann í fanginu... sem óskaði eftir því að ganga á hnúkinn seinna um kvöldið, það gengi nú ekki snúa svona við... það væri sko lygnt á nóttunni og við gætum þetta alveg...

Þá fóru sögur af fleiri göngum en Öræfajökli þetta kvöld og státaði Halldóra Ásgeirs t. d. af því að hafa gengið einsömul á Kristínartinda þennan dag í fallegu veðri þar sem hún lét hnúkinn bíða um sinn.

Það var með hana eins og fleiri... það vantaði þetta fólk í hnúksgöngu morgunsins og spyrja má hvort andi hópsins hafi hreinlega alls ekki fundist viðeigandi að toppa við öll þessi forföll og tekið af okkur veðurvöldin...

 

Volg og afskaplega mjúk mættum við svo í matinn og fengum þessa dýrindismáltíð... þriggja rétta með súpu, lambakjöti og ís...

Þjálfara þykir mjög vænt um þau orð sem féllu í garð okkar Arnar þetta kvöld...

Skemmtinefndin var auðvitað búin að hugsa fyrir kvöldinu og mætti með Partý-spilið sem sló í gegn...

Keppnisandinn ríkti og menn brilleruðu við gátur og verkefni andans.

Það er flókin spurning í sjálfu sér hver vann...

Flestir komnir í háttinn fyrir tvö en morguninn eftir fóru Guðjón Pétur, Guðmundur Ólafur, Ingi og Stefán Heimir í morgungöngu sem endaði í vindhviðum sem ekki var stætt í.

Starfsmaður hótelisins varaði okkur við.. búið var að loka þjóðveginum austur vegna hvassviðris og vindurinn var 17 - 24 m/sek vestur til Reykjavíkur...

Við kæmumst kannski ekki í bæinn?

 

Morgunmaturinn var í sama toppklassa og annað á hótelinu en síðustu menn flýttu sér að ljúka við hann til að koma sér í bæinn á undan veðrinu.

Þakklát vorum við hótel Skaftafelli fyrir frábæra þjónustu og létum þau vita af því þegar við fórum.

Toppfararnir tóku sitt fyrsta skref saman heila helgi í gistingu og glaumi fram á nótt sem toppaði auðvitað allt annað í sögu klúbbsins.

Toppurinn var því félagslegur í þetta sinnið og harðsperrurnar til komnar af hlátri...

Jeminn einasti, skemmtilegra gat þetta ekki hafa verið.

Takk öll sömul fyrir góðar stundir í Öræfasveit...

Við pöntum nú þegar 32 sæti á Hvannadalshnúk 21. - 23. maí (uppstigningardagur fram á laugardag)...

... og förum auðvitað með englunum okkar, Guðjóni og Jón Gauta alla leið...

Í úfnum skýjum sunnudagsins á Vatnajökli má lesa ef vel er að gáð... "sjáumst að ári...".

... og hann veifaði...

Sjá myndasafnið úr ferðinni á myndasíðu Toppfara þar sem viðbótar-klifurmyndir frá Guðjóni eru í sérmöppu.

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir