Tindur nr. 9 - Ármannsfell 16. febrúar 2008
| 
             
 
            
             Veðrið var það erfiðasta í tindferðunum til þessa eða rok og rigning og allir fljótlega hundblautir svo ferðinni lauk í 710 m hæð um 1,1 km frá tindinum (764 m hæð) og úr varð 9,4 (8,1) km ganga á 3:50 (3:44) klst. Afráðið var að snúa til baka þar sem menn voru orðnir blautir og kaldir og þegar sokkar voru undnir og hellt úr skóm við bílana í ferðalok, skjálfti í mönnum og fingur hvítir... var ljóst að það var eins gott að við snerum við... Þetta var eiginlega hvorki hollt né gott og varla nokkur skynsemi í því að ganga klukkustundum saman í grenjandi rigningu og vindi... nema jú sem mikilvægt innlegg í reynslubankann um þetta mannskaðaveður sem íslenskt slagviðri raunverulega er í rúmlega 700 m hæð nálægt frostmarki. Hetjur dagsins sem létu hafa sig út í eina umferð í þvottavél náttúrunnar af svæsnara taginu og voru langflottust fyrir vikið: Grétar Jón, Guðjón Pétur, Halldóra Á., Örn, Jón Ingi, Guðbrandur, Þorleifur, Helga Bj., Soffía Rósa, Íris ósk og Bára bak við myndavélina.  | 
          
            
             Lagt 
            var af stað úr bænum upp úr kl. 8:30 og ekið Þingvallaveginn og 
            þaðan um Kaldadalsveg, þjóðveg 52 að Ármannsfelli.Fljótlega á Kaldadalsvegi varð leiðin þungfær fyrir þá sem ekki voru vel dekkjaðir og festist bíll þjálfara fyrst í brekkunni sunnan við Ármannsfellið en var losaður snarlega af ferðafélögunum. Sjá mynd með Ármannsfell í baksýn. Áfram var stefnt í austur með Ármannsfelli að Sandvatnshlíðunum norðan Sandkluftavatns en löngu áður en að þeim stað var komið, hafði bíll þjálfara fest sig aftur.  | 
          
            
             Hann var því skilinn eftir, en þá tók Þorleifur við 
            og festi sinn fljótlega og sat blýfastur.Nokkrar tilraunir voru gerðar til að losa bílinn með því að moka undan dekkjum, ýta honum og draga með bíl Guðjóns en ekkert kom til. Guðjón festi sinn fljótlega við þessa tilburði og þá þurfti að ýta honum af stað aftur og losa reipið... Loks losnaði um flækjuna með því að ýta bíl Þorleifs um leið og Guðjón dró hann og þá kom þetta loksins... enda allir komnir út að ýta. Það var því ljóst að lengra kæmumst við ekki þann daginn á bílunum.  | 
          
            
             Björgunarliðið 
            sem ýtti Þorleifi úr vör eftir barninginn.
            Strákarnir voru í essinu sínu enda er svona jeppasafarí voða gaman í snjónum. Kannski samt ekki það heppilegasta að bleyta sig og þreyta þegar okkar beið nú fjallgangan sjálf, en hluti af ævintýrinu og ekkert nema gaman. Þar sem ekki tókst að koma bílunum lengra en þetta var afráðið að ganga á Ármannsfellið að sunnan sem þýddi lítið eitt brattari uppgöngu en styttri aðkomu að tindinum en þarna reiknaði þjálfari þó ekki með Stórkonugili sem átti eftir að lengja gönguna þegar veðrið var sem verst.  | 
          
            
             Lagt 
            var að stað gangandi kl. 10:14 í blíðskaparveðri, logni og um 4°C.
            
            Gengið var upp með Bolabás og var færið gott, jarðvegur blautur og meyr, snjóskaflar þó talsvert þungir á köflum og leynt djúpir. Kjarrið skreytti fjallsrætur og svo tóku skriðurnar við, klettar aðeins og loks snjóbungur að mestu.  | 
          
            
             Hópurinn 
            gekk þetta nokkuð greitt og var hækkunin talsverð á stuttum tíma.Við hófum gönguna í 183 m hæð og vorum komin í 550 m um klukkustund síðar. Mjög lágskýjað var þennan dag og neðstu rætur Ármannsfells það eina sem var í augsýn frá Þingvöllum. Þokan læstist um okkur mjög fljótlega og ekkert útsýni gafst nema rétt í upphafi niður að Þingvöllum til suðurs.  | 
          
            
            ![]() Fljótlega fór að rigna og loftið kólnaði með vaxandi hæð um leið og vindur fór að blása meira en var þó í bakið á uppleiðinni. Nokkrir voru með vatnsheldar hlífar yfir bakpokunum sínum sem reyndist hið mesta þarfaþing og var ein af lexíunum sem við hin lærðum í þessari ferð, þetta ER búnaður sem skiptir sköpum í svona veðri! Allt rennblotnaði í bakpokunum hjá þeim sem ekki voru með bakpokahlífar, þ. á . m. þjálfarar sem ekki hafa komið sér upp slíkum græjum, en að öllum líkindum þarf ekki nema einn svona dag til þess að maður brenni sig...  | 
          
            
             Á 
            einni brúninni á uppgönguleiðinni; Halldóra Á., Soffía Rósa, Íris 
            Ósk, Guðbrandur, Grétar Jón, Þorleifur, Helga Bj., Örn og ofar eru 
            Guðjón og Jón Ingi.Þeim sem varð kalt í bílastandinu í upphafi ferðar var orðið vel heitt á þessari uppgöngu, en þeir sem ekki voru orðnir blautir á þessum kafla urðu það fljótlega eftir þetta þar sem rigningin laumaði sér lymskulega upp um göngumenn þegar ofar dró.  | 
          
            
             Sem 
            fyrr segir á það eftir að koma flestum á óvart sem gengið hafa í 
            vetur hve sterkir þeir eru orðnir í þessari útiveru og fjallamennsku 
            við krefjandi aðstæður, þegar 
            sumarið gengur í garð og aðstæður verða snöggtum léttari svona 
            almennt.Ganga í þoku og kulda, þungu færi, rigningu og roki klukkustundum saman reynir á þar sem tilgangurinn verður hálf óljós, engin kennileiti að sjá, ómögulegt að átta sig eða skynja hve mikið er eftir eða að baki nema af korti eða gps. Þjálfarar gengu eftir gps og höfðu ekki farið á fjallið áður nema í barnæsku svo úr litlu var að moða nema litla kortinu á gps skjánum og jú, kortinu í höfðinu eftir minni frá því að skoða Ármannsfellið á kortum kvöldið áður. Guðjón var reyndar með kort á sér sem kom sér vel síðar en þjálfarar höfðu skilið sitt óvart eftir í bílaveseninu fyrir gönguna.  | 
          
            
             Hópurinn 
            þéttur og vel lá á mönnum, mikið spjallað og ráðagerðir næstu mánuði 
            ræddar.
             | 
          
            
             Helga 
            Björns, Grétar Jón, Íris Ósk og Jón Ingi í léttum gír.Hér vorum við enn á uppleið sem reyndist hin viðráðanlegasta og tók ekkert í.  | 
          
            
             Þokan 
            farin að þéttast og snjór að þyngjast. | 
          
            
             .Sporin okkar á Ármannsfelli. Blautur snjór yfir mölinni í rigningunni.  | 
          
            
             Einstaka 
            klettamyndir í sjónmáli en annars ósköp lítið að dást að á leiðinni.Uppi beið berangursleg brúnin til suðurs, umlukin þoku og útsýnislaus en þá voru langar leiðir eftir að tindinum í einsleitu umhverfi mosa, grjóts og snjóskafla. Myndirnar voru eftir þessu, þokukenndar og síðar móðugar af bleytu þegar ofar dró og á niðurleiðinni.  | 
          
            
            ![]() Skyndilega gengum við fram á syðri brún Stórkonugils en þjálfari vissi svo sem af því gili af kortaskoðun deginum áður, en ekki hvarflaði að honum að þar færi svo mikilfenglegur fjötur um fót. Þarna voru menn farnir að lengja eftir tindinum þar sem stefnt var að því að nesta sig þar í skjóli frá rokinu og því var þessi fyrirstaða vonbrigði. Þegar þetta óendanlega langdregna og djúpa gil blasti við okkur, fór þjálfari skyndilega að efast um rétt mat sitt á staðsetningunni og var svo heppin að Guðjón var með sitt gps sem hann kveikti á og gat staðfest sömu staðsetningu og átt.  | 
          
            
             Ljóst 
            var að við þurftum að sneiða fyrir gilið og því var gengið í norðvestur 
            nokkuð langan kafla með tindinn í norðaustri.Þarna voru menn orðnir blautir sumir hverjir, jafnvel þrekaðir án þess að nefna það? eins og vant er við upphaf ofkælingar. Fyrstu einkenni eru gjarnan að menn draga sig í hlé, verða fámálli og fara svo að dragast aftur úr. Aðrir voru í fínu standi, þurrir og til í slaginn áfram. Öðru hvoru var hópurinn þéttur og misjafn kraftur í mönnum með að halda áfram. Guðjón giskaði á allt að klukkutíma viðbótar göngutúr og þegar gengið var í nokkrar mínútur í viðbót og vel teygðist úr hópnum strax svo eingöngu 100 metrar voru í höfn á tiltölulega löngum tíma, var ljóst að menn voru í misjöfnu ásigkomulagi og ágiskun Guðjóns var rétt.  | 
          
            
             Þá 
            var tekin sú ákvörðun að taka nestistíma og meta stöðu mála eftir 
            það, þar sem erfiðasti kaflinn var eftir hvort sem gengið yrði að 
            tindinum eður ei, þ. e. a. s. bakaleiðin beið okkar í mótvindi og 
            regni sem getur hreinlega verið hættulegt séu menn þá þegar mjög 
            kaldir og þrekaðir, sérstaklega ef sú ganga tefst af einhverjum 
            orsökum eða menn villast.Í þessum kalda og hráslagalega nestistíma var ákvörðunin rædd um að snúa við en þjálfari giskaði á að um helmingur vildi snúa við þó ekki væru fleiri en Jón Ingi búnir að játa sig gegnblautan. Fleiri tóku þá undir með Jóni Inga og er slík hreinskilni mikilvæg á stundu sem þessari. Þegar gengið var á þá sem virtust áfjáðastir í að ganga alla leið, var ljóst af viðbrögðum þeirra að flestir í hópnum voru komnir á að snúa við þó ekki hefðu þeir haft orð á því.  | 
          
            
             Bára 
            hafði látið sér detta í hug fyrr á göngunni að annar þjálfaranna sneri við með 
            Jón Inga sem var klárlega blautastur allra, en Örn taldi það ekki 
            viturlegt á þessari stundu og það var sannarlega rétt; slíkur 
            viðskilnaður hefði ekki verið skynsamur miðað við aðstæður þar sem 
            tveir á ferð var ekki góður kostur né að hafa færri í hinum hópnum.Þjálfari tók því þá ákvörðun að snúa við eftir nestið og væru einhverjir ósáttir við þá ákvörðun á þeim tímapunkti var þeirri skoðun snúið á hvolf þegar göngumenn komust á leiðarenda, hraktir og kaldir margir hverjir, rennandi blautir í fætur flestir, orðnir stirðir af kulda nokkrir, jafnvel með skjálfta og dofnar tær. Sumir voru þó þurrari en aðrir og jafnvel ekkert blautir undir hlífðarfatnaði né í fæturna og var merkilegt að þrír þurru skóna hétu allir Meindl svo langt sem það nú nær í jafn litlu úrtaki.  | 
          
            
             Þjálfari 
            tók "go-to" stefnuna til baka beinustu leið að bílunum og vildi ekki 
            trakka sig til baka þar sem það hefði þýtt mun lengri leið því við 
            höfðum gengið í svolítinn boga með fyrirstöðu gilsins. Staðan var 
            metin svo af þjálfara að mikilvægast var að komast sem fyrst í minni 
            kulda með lækkandi hæð og rólegri vindi fyrir þá sem voru farnir að 
            þreytast og orðnir kaldir.Slík ákvörðun getur verið óheppileg þar sem leiðin er ekki þekkt og hindranir geta orðið á vegi manns sem flækja málin (rétt eins og Stórkonugil var óvænt hindrun á leiðinni á tindinn). Þá er einnig gott að ganga í sporin til baka og vera þannig öruggur með að rata á bakaleiðinni, en þjálfari mat ástandið engu að síður þannig að mikilvægast væri að ganga greitt og beint niður af fjallinu sem fyrst í minni vind og minni kulda.  | 
          
            
             Hann 
            arkaði því fremur hratt til baka og vissi vel að það 
            reyndi á en 
            kosturinn var sá að með því héldust menn heitir svo lengi sem 
            kraftar gerðu þeim það kleift að fara geyst.Þetta gekk sem betur fer vel, leiðin greið og vorum við fljótlega komin í lægri hæð, meira skjól og minni þoku. Þegar niðurhlíðarnar komu í ljós tók þjálfari ákvörðun um að lækka hópinn niður þær í stað þess að þvera þær til að eltast við beinustu gps-leiðina að bílunum þar sem mikilvægast var að ná sem fyrst skjóli og hlýjindum við fjallsrætur, þó það þýddi aukakrók á jörðu niðri. Það var ekki mikil innistæða í hópnum fyrir eitthvurt klöngur eða skáskriður í þungu færi, best að renna sér bara sem beinast niður og njóta þess.  | 
          
            
             Í 
            fyrstu sýndist þessi aukakrókur vera lítill, við gengum lítið eitt 
            lengra vestur niður af fjallinu, hryggurinn frá 
            Almannagjá lá inn á Ármannsfellið og höfðum við gengið á honum á 
            uppleiðinni svo þá var ekki tiltökumál að fara vestan við hann. Mun 
            léttara yrði þá að ganga eftir veginum en að þvera hlíðarnar að 
            bílunum en þetta þýddi á endanum samt mun lengri leið að bílunum en sýndist í 
            fyrstu því Sleðaásinn er talsverður krókur.Guðbrandur lagði þá til að bílstjórarnir fjórir gengju á undan hópnum til að ná í bílana sem var fyrirtakshugmynd. Þannig gátu þeir flýtt för og hinir gengið hægar niður á veg og eftir honum til móts við bílana. Þetta gerðum við sem á eftir komum, fengum okkur nesti við veginn og röltum svo af stað þar sem okkur kólnaði fljótt.  | 
          
            
            ![]() Myndir: Hér renndu menn sér niður síðustu brekkurnar sem var gaman sem endranær og þægileg hvíld frá þungu snjóskaflafæri. Myndavélin orðin rennandi blaut eins og aðrir en stóð sig vel eins og önnur hörkutól í ferðinni og kláraði sitt gegnum regndropana eins og hinir. Fljótlega sáum við svo bílana þar sem þeir komu til móts við okkur og það voru anzi blautir toppfarar margir hverjir sem skiptu um föt þarna eins og hægt var og komu sér fyrir í bílunum eftir vaskan göngudag... Í heild varð þetta 9,4 km (bílstjórarnir) eða 8,1 (hinir) km ganga, í 3:50 til 3:44 klst upp í 710 m hæð með hækkun upp á 527 m. 
 Frábær og lærdómsrík ganga sem reyndi vel á hópinn. Hóp sem var eins og klettur við krefjandi aðstæður og sneri þéttur bökum saman þegar á þurfi að halda. Pant fara með slíku fólki upp á fjöll allan ársins hring og lenda í ævintýrum...  | 
          
            
            ![]() Lexíur dagsins: 
 Lexíur dagsins eru eins og aðrar lexíur í lífinu, stöðugur lærdómur til frekari afreka en ekki tilefni til eftirsjár eða ásakana. Það er ekkert gaman að lifa stöðugt eftir annarra manna lexíum og ráðleggingum, fróðlegast að reyna þær sumar hverjar allavega af eigin raun innan skynsemismarka og eftirminnilegast að komast klakklaust gegnum þær. Slíkur lærdómur ristir dýpra en nokkur annar og veldur að margir leita í hann krappann aftur og aftur af eigin raun, sterkari í hvert sinn.  | 
          
| 
					 
 Við erum á toppnum... 
	hvar ert þú? 
  |