Tindur nr 8 - Baula 26. janúar 2008
Tindur
nr. 8 var
genginn laugardaginn 26. janúar og mættu
14 manns
ásamt eðal-fjallaleiðsögumönnunum þeim Guðjóni og Jóni Gauta. Sannkallað vetrarævintýri í dúnmjúkum snjó allt upp í um eins metra dýpt og krefjandi færi. Gengið í sköflum upp í klof á stundum og langdregin leiðin að fjallsrótum.
Veður var ágætt eða
hálfskýjað, stöku él, lygnt en vindur á köflum ofan hlíða, SV8
og hitinn frá -1°C við bílana niður í -7,4°C á toppnum. Neðri frá vinstri: Halldóra Þ., Guðjón, Soffía Rósa, Ingi H. Efri frá vinstri: Hjörleifur, Jón Gauti, Roar, Alda, Guðjón, Íris Ósk, Örn, Þorbjörg, Hilma, Gylfi Þór, Karl A. og Bára bak við myndavélina. |
|
Lagt
var af stað úr bænum upp úr kl. 8:00 og stoppað í Hyrnunni í
Borgarnesi þar sem Akurnesingarnir, Guðjón og Ingi sameinuðust
hópnum. Þar sem óveður geysaði deginum á undan og veðurspá morgunsins og seinniparts laugardagsins vísaði á skafrenning og þungt færi var afráðið að ferðast eingöngu á jeppum í þetta skiptið og fór leiðangurinn á fimm slíkum með þjóðvegi 1 að afleggjara nr. 60 í Norðurárdal að Bröttubrekku vestan við Baulu. |
|
Þegar
komið var á áfangastað voru
snjóruðningstæki
að athafna sig á svæðinu og vandfundið bílastæði fyrir flota
göngumanna. Guðjón göslaðist í snjósköflunum við veginn í leit að bílastæðinu undir snjónum en merkja mátti að þar væri keðjuskiptistæði skv. skilti við veginn. Jón Gauti sporaði svo út slóða fyrir hina til að leggja bílunum í röð. Vetrarævintýrið var hafið... bílarnir áttu bágt með að komast að Baulurótum rétt eins og við þegar við komum okkur loks af stað um kl. 10:45, hálffrosin á fingrunum eftir bindingar og klæðningar og aðrar græjingar... Hitinn um -1°C skv mæli Roars. |
|
Í
fyrsta skipti í vetrarferðunum okkar notuðum við
snjóýli
sem leiðsögumennirnir komu með og hver og einn batt utan um sig. Hér prófar Guðjón hvern ýli fyrir sig til að tryggja að allir myndu finnast ef við lentum í snjóflóði sem var jú, ekki svo galinn möguleiki í öllu þessu snjófargi, þó Baulan sjálf væri hálf nakin og veðursorfin upp eftir í hæðinni fyrir ofan okkar. Ljóst var að ef um greinanlega snjóflóðahættu væri að ræða myndum við snúa við, en fjallið úr fjarlægð lofaði góðu sem fyrr segir. |
|
Jón
Gauti, Hilma, Soffía og Alda rétt að byrja
barninginn
við snjóskaflana...
Kaflinn frá bílunum og að Baulurótum tók 1:24 klst á um 2 km leið og var anzi þungur. Lengsti kaflinn hingað til að fjallsrótum tinds tímalega séð í þessu vetrarfæri. Strákarnir skiptust á að ryðja fyrir hópinn snjóbrautina og var hvert skref krefjandi á köflum þrátt fyrir að snjórinn væri léttur og mjúkur... þetta varð að óendanlega mörgum hnélyftum þann daginn. |
|
Á
endanum fórum við að skiptast á að vera fremst til að kynnast
sporum undanfaranna
og var síðast kaflinn þannig farinn.
Alda tók fyrst að sér snjóruðninginn og svo Örn, Hilma og Guðjón, en líklegast ekki fleiri? Þetta virtist endalaust upp hóla og börð og Baulan ennþá lengst í burtu. |
|
Öðru
hvoru gekk á með
hryðjum og snjóéli
en þessi hópur er öllu vanur og fannst veðrið hið ágætasta enda
tiltölulega lygnt og friðsælt í þessum lága fjallasal. Soffía hér, Þorbjörg, Hilma, Hjörleifur og Guðjón. Menn höfðu átt misjafnan sólarhring fyrir þessa göngu og bæði Hjörleifur og Guðjón, leiðsögumaður höfðu komið til landsins um nóttina vegna veðurtafa á flugi og voru fremur framlágir svona inni í sér sjálfsagt þó ekki sæist það utan á þeim. |
|
Vaskir
göngugarpar klára hér kaflann upp að
útsýnispalli
náttúrunnar
að Baulu. Með í för voru broddar og ísexir, skóflur, snjóflóðaýlir og snjóflóðaleitarstangir til öryggis, en dagurinn varð betri en sá búnaður gaf tilefni til og eingöngu notast við ísaxirnar í lokin á tindinum. Skyndilega blasti Baula við fyrir framan okkur og varla ský á toppnum. Við sem vorum búin að ganga heillengi og áttum enn dulítinn kafla eftir... og svo þessar líka bröttu brekkur þarna upp... úff, sem betur fer ekki á kafi í snjó. Eftir snjóbarninginn vorum við bara farin að hlakka til að ganga upp þessar brekkur. |
|
Soffía sendi þessa vísu eftir gönguna en hún býr svo vel að eiga býli í Norðurárdal þaðan sem hún hefur stefnt á Bauluna árum saman eins og fleiri í hópnum: Baula yfir Borgarfirði býsna fögur gnæfir hún Gangan löng , en engin byrði og öll við upp á efstu brún.
Soffia "bóndi í Norðurárdal." |
|
Hilma,
Halldóra Þ., Guðjón leiðsögumaður og Guðjón Akurnesingur. Mikið spjallað og fíflast á göngunni enda lítið annað hægt í stöðunni með snjóflygsurnar fuðrandi upp eftir manni á snjóbreiðunum. Ekkert þó í líkingu við Grænland þar sem Guðjón hefur gengið og ágætis samanburður svona til að sljákka aðeins sjálfsvorkunninni. |
|
Jón
Gauti leiðir hér flokkinn upp að öxlinni norðvestan við Baulu þaðan
sem gengið var upp. Sólin leit stuttlega við öðru hvoru og þá birti upp umhverfis eins og verða vill að vetri til þegar snjór er yfir öllu og sólin kíkir við. Lengi vel var gluggi yfir Norðurárdalnum og norður eftir fjalllendinu vestan megin og gullfallegt að líta þangað. |
|
Þorbjörg,
Roar, Hjörleifur og félagar að klára öxlina. Bjart til suðvesturs að sólarglugganum... |
|
...
en mun
dimmara
yfir Bauluhlíðum sjálfum til norðausturs. Skaflarnir voru anzi djúpir á stundum og mikilvægt að slóða vel út í hverju skrefi með því að feta ekki bara næsta spor, heldur þjappa á milli svo smám saman myndaðist braut sem hægði um fyrir þeim sem á eftir komu... Þessi ruðningur nýttist svo vel í bakaleiðinni þegar menn voru orðnir framlágir, klukkan margt og farið að skyggja. |
|
Við
fjallsrætur tókum við
nestispásu
áður lagt var á brattann og var þetta eitt af þessum agalega hlýju
og notalegu matarhléum í vetur þið vitið... eða þ. e. a. s. alls
ekki... þar sem manni kólnaði strax og náði engri slökun fyrir hægum
næðingi og bítandi frosti.
Matnum bara skóflað ofan í maga og drykkur með án nokkurrar nautnar. En nauðsynleg pása til að fylla á tankinn því framundan var ekkert nema upp í mót, urð og grjót, ekkert nema upp í mót... |
|
Baulan
sjálf var aðeins
mýkri
yfirferðar en ella í stórgrýttu landslagi umvöfðu sorfinni snjófönn
og því kannski ekki eins torsótt og að sumri til...
En samt þung ganga þar sem fenntar glufur og holur leyndust í öðru hverju skrefi og grjótið var ennþá laust í sér þrátt fyrir frostið, þar sem enginn var jarðvegurinn til að binda það klakaböndum. |
|
. Soffía, Íris Ósk?, Alda Og Roar? feta sig hér upp. |
|
Rifjuð var upp vísan Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson sem Íris Ósk sendi í haust eftir Syðstu Súlu: Urð og grjót. Upp í mót. Ekkert nema urð og grjót. Klífa skriður. Skríða kletta. Velta niður. Vera að detta. Hrufla sig á hverjum steini. Halda, að sárið nái beini. Finna, hvernig hjartað berst, holdið merst og tungan skerst... |
|
Þessi
orð hefðu altjent geta verið samin á Baulu. Því svona gat á að líta hópinn sem göslaðist þarna upp og féll við í hinu og þessu skrefinu og rak sig niður á lausagrjóti án fyrirvara. Þetta var krefjandi ganga í hverju skrefi... Guðjón hér í forgrunni og fast á eftir Soffía, Roar, Hilma? og Halldóra Þ. |
|
Óskaplega
fallegt útsýni gaf til suðvesturs og norðvesturs, en skýin húktu
yfir til austurs. Karl hér fremstur og félagarnir neðar í bratta sem við giskuðum á að væri milli 45 og 50° en fróðlegt væri að vita hann í raun. |
|
Þar
sem grjótið var
laust í
sér var betra að ganga á snjóflákunum og geta þannig stjórnað hverju
skrefi. Örn og félagar. |
|
Fallegir
litir vetrarins sem fyrr...
hvítur, bleikur, brúnn ljósblár og gulur þegar sólin skín. |
|
Halldóra
Þ., Guðjón, Hjörleifur, Hilma, Ingi og Alda staldra við í einni
pásunni. Neðar hafði gengið á með hryðjum og nokkrir því sett upp sólgleraugu eða skíðagleraugu. Í hvössum vindi og skafrenningi munar um að hafa skíðagleraugu þó þau geti truflað jafnvægisskynið og takmarkað sjónsviðið eins og sumum fannst. |
|
Jón Gauti tók hér þverskurð á snjóskaflinn ofarlega í Baulu eða svokallað skóflupróf til að kanna með snjóflóðahættu. Hann skar út ferning með stafnum og skoðaði lagskiptinguna en skv. Leifi Erni Svavarssyni, fjallaleiðsögumanni er hætta á snjóflóði..:
Heimild: Leifur Örn Svavarsson (pistill, bls. 170 -172) í bókinni "Gengið í óbyggðum" eftir Jón Gauta Jónsson (2004). Reykjavík: Almenna bókafélagið. |
|
. Svarta gengið á Baulu: Örn Guðjón Roar Gylfi Þór. |
|
Snjórinn
harðnaði þegar nær dró tindinum og var þá öllum skipað að pakka
saman stöfum og notast við
ísaxirnar
til stuðnings. Þetta létti róðurinn þar sem brattinn hafði aukist aðeins og gott að styðja sig við styttri exina og svo höndina hinum megin. Aldrei kallaði færið á broddanotkun og var grjótið haldgott þó laust væri og uppferðin gekk ótrúlega greiðlega. |
|
Efst
var sem oft áður gengið inn í
þokuna
og skyggnið versnaði. Hópurinn gekk þó vel þéttur alla leið upp og gaf hvergi eftir. |
|
Þarna
vorum við komin upp hrygginn. Skyndilega blöstu hamrarnir við hinum megin og var snarbratt niður. Baulan er sérkennilega flöt og strítulaga um leið. Í mikilli þoku hefði verið auðvelt að ganga fram af væri maður arkandi varúðarlaust í eigin þönkum, en fyrstu menn vöruðu hina við. Gengið var utan í hryggnum suðvestan með og snjóhengjurnar á vinstri hönd á brúninni. Þokan slík að landshættir sjást ekki á mynd. |
|
. Gylfi Þór, Roar, Karl, Alda og Hjörleifur hér á síðustu metrunum... Þetta var loksins komið. |
|
Jón
Gauti og Guðjón Akurnesingur ganga hér fyrstir hægra megin (sunnan)
á hryggnum en sjá má glitta í
toppinn
og hamrana niður með til vinstri (norðan megin). Eflaust stórkostlegt landslag í góðu veðri... ... hingað þarf að fara að sumri til, það er nokkuð ljóst. |
|
Tindinum var náð eftir 4:07 klst göngu upp 934 m með 803 m hækkun skv gps. Anzi vel af sér vikið miðað við veður og færi verður að segja... Mikil var gleðin á toppnum og kafnaði ekkert í snjókomu og vindi eftir fremur erfiða uppgöngu. Húrrahrópin skullu keik inn í þokuna. Sest var aðeins niður, menn nestuðu sig og hvíldu fætur. Hitinn á toppnum var -7,37°C skv mæli Roars, ekki beint borðstofuhiti... |
|
Þ E I R S E M V O R U Í T O P P F Í L Í N G I Á B A U L U. . . | |
Alda, metnaðarfull fjallakona með meiru. |
Guðjón, fjallaleiðsögumaður og sannkallaður engill á fjöllum. |
Guðjón Pétur, vaskur göngumaður sem fáir eiga roð í. |
Gylfi Þór, reynslubolti og skemmtilegur félagi. |
Halldóra Þ. sem tekið hefur alla tindana í vetur og hlífir sér hvergi. |
Hilma sem var að byrja í klúbbnum og tók sinn fyrsta tind í vetraraðstæðum í janúar án þess að blikna. |
Hjörleifur sem gefur aldrei eftir sama hvað. |
Ingólfur, góður fengur fyrir fjallgöngu-klúbbinn frá fyrsta degi. |
Íris Ósk,tinda-höfðingi fjall-gönguklúbbsins sem sigrað hefur alla tindana. |
Jón Gauti fjallaleiðsögumaður, fróður maður sem gott er að hafa með í óbyggðum. |
Karl, kominn aftur í hópinn, lætur sig hafa það orðalaust og stefnir hátt. |
Roar, vanur fjallamaður á ferð og einstaklega góður ferðafélagi. |
Soffía Rósa með ómetanlega jákvæðan anda sem skiptir sköpum á fjöllum. |
Þorbjörg, fjallakona með langa reynslu, góðan anda og einstakan kraft. |
...og
loks þjálfararnir, Örn og Bára... Örn sem leggur í hann hvert sem er en skilar sér alltaf á endanum alla leið... Bára sem vill helzt fara ótroðnar slóðir... En fyrst og fremst
þjálfarar sem eru þakklátir klúbbmeðlimum fyrir koma með sér
að sigra fjöll og tinda og þeim sem eru okkur reynslumeiri að leyfa
okkur að leiða sig á fjöll með harðri eða mjúkri hendi... |
|
. Í tindagleðinni á Baulu: Efri frá vinstri: Hilma, Íris Ósk, Jón Gauti, Alda, Roar, Örn, Guðjón, Gylfi Þór og Karl. Neðri frá visntri: Þorbjörg, Ingi, Soffía, Bára, Hjörleifur og Halldóra Þ. |
|
. Stelpurnar búa sig undir niðurgönguna útlítandi eins og geimfarar; Alda, íris Ósk, Þorbjörg og Soffía |
|
. Og strákarnir alveg eins, að reyna að spjalla í rokinu í leiðinni; Ingi, Örn og Guðjón. |
|
. Þokan var þétt efst sem var synd þar sem Baulan var stundum auð fyrir sjónum okkar þennan dag, en oft líka skýjuð á toppnum eins og þessar mínútur þegar við toppuðum. |
|
. Heldur jók í vindinn þarna til að byrja með og vorum við farin að hafa áhyggjur af því að vindurinn sem átti að blása seinnipartinn væri mættur á svæðið, fyrr á hálendinu eins og veðurfræðin segir. Svo reyndist þó ekki vera því þegar neðar dró var orðið lygnt og friðsælt. |
|
. Gengið var eilítið sunnar en á leiðinni upp og var brattinn síður minna krefjandi á niðurleiðinni. Niður sóttum við þó skjótar á hann en upp og gekk mun betur en þjálfarar og leiðsögumenn höfðu haldið.
|
|
. Fljótlega skánaði skyggnið og fjallendið í kring kom í ljós. |
|
Engan veginn er hægt að mynda bratta Bauluhlíða frekar en í fyrri ferðum, en hér fóta menn sig niður á góðum hraða, hvergi bangnir. | |
. Brekkupása í boði Baulu. Halldóra Þ. í símanum þar sem hún var komin í vandræði vegna vaktar sem beið hennar kl. 18:00 um kvöldið og klukkan orðin allt of margt. Ingi fyllir á vatnstankinn en þetta var langur dagur og nauðsynlegt að hafa nóg að drekka, þó þjálfararnir sjálfir væru ekki manna samviskusamastir með það í þetta skiptið. |
|
. Örn, Þorbjörg, Ingi, Jón Gauti og fleiri á góðri niðurleið. Frábærar myndir í þessari ferð eins og alltaf, eða 185 stk og ekki nógu margar eins og vanalega! Fjallganga og önnur útivera í óbyggðum felur í sér óteljandi gullin augnablik, sama hvenær, hvernig eða hvar er gengið... Myndavélin nær bara brotabroti af þeim.
|
|
Niður
Bauluhlíðar fóru flissandi krakkagemlingar sem
renndu
sér á afturendanum eftir snjóbrekkunum. Við vorum dauðfegin að geta hvílt aðeins þreytta fætur sem höfðu klofað yfir snjóskafla klukkustundum saman. Jón Gauti var nefnilega tekinn á orðinu þegar hann sagði að við hefðum ekkert notað afturendann klukkustundum saman á göngunni þennan dag... |
|
. Rennibrautin á enda... Hilma, Karl, Örn og Þorbjörg. Andinn frískaðist við þessar náttúrulegu rennibrautir... ... og skrokkurinn endurnærðist greinilega í leiðinni. |
|
. Pása og umræður við fjallsræturnar. Brattar hlíðar Baulu að baki bæði upp og niður Eftir var kaflinn að bílunum yfir snævi þakta hóla og hæðir. |
|
Baulan núna t. d. auð á toppnum... svindl... en bara góð ástæða til að þurfa að fara aftur... Skyldi vera erfiðara að ganga hana að sumri til? Lofthræðslan gerði allavega ekki vart við sig á þessum degi svo þjálfari viti til og lék þar sjálfsagt hlutverk lélegt skyggni, dempun snævar og eitthvað minna skrið á lausagrjóti en í brakandi sumarhita. Það var umhugsunarvert að sumir sem gengið höfðu á Baulu áður lýstu ekki yfr miklum áhuga að ganga hana aftur og sögðu pass við þessari ferð. |
|
. Síðasta kaflann fór að snjóa um tíma, en þarna var farið að skyggja eins og myndin ber með sér enda klukkan 17:11 og sólsetur kl. 16:53.
|
|
. Enn ein rennibrautin í viðbót við skríkjandi fagnaðarlæti og fíflagang. Sumir renndu sér meira en aðrir og fengu ekki nóg. |
|
. Komin niður á veg aftur rétt fyrir kl. 17:30. Fórum í stuttan snjóflóðaýlisleik þar sem slökkt var á öllum ýlum nema einum og Jón Gauti leitaði að þessum eina með skynjaranum. Ekki tókst það þó sem skyldi en svo hrökk tækið í gang og virkaði vel eftir það... fór einhvern mannamun en ekkert persónulegt... Græjur sem nauðsynlegar eru við aðstæður eins og þennan dag, en á þær þarf að læra og æfa sig á notkun eins og með aðra hluti. |
|
Guðjón og Jón Gauti hér að sýna okkur virkni snjóflóðaýlanna í lokin. Göngunni lauk eftir 6:47 klst, 9,9 km upp 934 m háan tind (skv. Landmælingum Ísl.) með hækkun upp á 803 m. Ferðin varð því mikið lengri en áætlað var, en bara ógleymanlegri fyrir vikið... Sannkölluð vetrarferð þar sem lagt var af stað í myrkri frá Reykjavík og ekið af stað í rökkri frá Bröttubrekku. Varla hægt að nýta dagsbirtuna betur en þetta. Flestir eflaust þreyttir í skrokknum og jafnvel með harðsperrur...En allir reynslunni ríkari á sál og líkama... Fyrirtaks æfing fyrir Hvannadalshnúk sem reyndi vel á bæði styrk og þol á langri göngu og þéttum bratta. Þeir sem toppuðu þennan dag mega vera stoltir... |
|
GPS-próflíllinn
frá Roar: Tölur nokkurn veginn í samræmi við gps þjálfara. Yfirleitt sýnir ekkert tæki nákvæmlega sömu tölur þar sem ekki eru alltaf sömu tungl í sambandi við tækin og grunnstilling á hæð ekki sú sama. Stundum munar miklu sem á ekki að gerast og engin skýring á því, en yfirleitt munar litlu eins og hér. |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|