Yfirlit yfir Perúferðina.
Ferðasaga af einstaka göngum er í vinnslu núna í 2014
Stórbrotið ævintýri í
Perú
Stórfengleg ferð til Perú í Suður-Ameríku er að baki 29 Toppfara dagana 15. mars - 7. apríl 2011. Ferðin var farin á vegum Ítferða og undir leiðsögn Sæmundar fararstjóra sem sniðið hafði dagskránna eftir könnnunarleiðangur um landið fyrir þremur árum síðan... og bar hún þess sannarlega merki; metnaðarfull og krefjandi ferð þar sem hver dagur var nýttur til að kynnast bæði landi og þjóð í fjórum ólíkum gönguferðumr á víð og dreif um landið ásamt ýmsum skoðunarferðum í alls kyns byggðum og óbyggðum...
Veðrið lék við okkur alla daga í skoðunarferðunum og í byggð en í tjaldferðunum var almennt þurrt fyrri part dags og skúrir og heilu demburnar þegar leið á daginn með tilheyrandi bleytu í tjaldstað á hverju kvöldi enda vorum við að mestu að ganga uppi í fjöllunum í kringum 3000+ m hæð þar sem lægst var farið í 2.100 m og hæst upp 5.822 m með alls 135 km að baki (óstaðfestar tölur - sjá síðar nákvæma tölfræði).
Inkaslóðin var
fyrsta gönguferðin þar sem farið var á fjórum dögum um dali og
fjöll, skörð og gil um einstakar rústir og menjar
... og endað í týndu borginni Machu Picchu en engin leið er að fanga dýrðina sem sá endastaður bauð okkur upp á...
Slík var dulmögnunin í þessum einstaka fjallasal með snarbröttum hlíðum á alla kanta og beljandi stórfljótið sem engu eirði lengst niðri á láglendinu... Hvernig komust menn eiginlega hingað hér áður fyrr...?
Í dýpsta gljúfri í heimi, Colca Canyon gengum við snarbrattar hamrahlíðar niður í dalsbotn og gistum hjá heimamönnum í fábrotnustu herbergjum sem um gat með moldargólfum og verkfærin hangandi á veggjunum... en þeim allra bestu... og skelltum okkur í sund áður en við klifum gljúfrið aftur upp í byggð í 2ja daga gönguferð sem endaði í þorpi sem varla gat verið af okkar heimi...
Þarna hrjáði magasýking oog fleiri pestir þriðjung hópsins eftir Inkaslóðina en það kom ekki í veg fyrir bros á nánast hverju andliti gegnum þykkt og þunnt alla leiðina til enda...
Á fjallið El Misti í 5.822 m hæð stefndum við alls 22 manns ótrauð þrátt fyrir hæðarveiki af ýmstum stærðargráðum í Inkaferðinni og annan lasleika af ýmsum tegundum... og uppskárum sætasta sigurinn á toppnum sem gafst í ferðinni... en þó skyggði þar á að Ágústa þurfti frá að hverfa vegna hæðarveiki í efstu tjaldbúðum, auk þess sem sjö manns höfðu þurft að sitja eftir í byggð vegna veikinda, meiðsla og annarra orsaka.
Þessi 2ja daga fjallganga var afskaplega krefjandi þar sem súrefnið þynntist með hverjum hundrað metranum upp á við en veðrið lék við okkur allan tímann og þetta var eina skiptið sem við fengum þurran tjaldstað og það í efstu tjaldbúðum ferðarinnar í 4.550 m hæð enda var sungið og trallað, hlegið og fíflasta af einskærri háfjalla-gleði um kvöldið... áður en "martraðarkenndur" bardaginn við fjallið hófst alla leið á tindinn um nóttina...
Farið var í línum gegnum glerharða snjóskafla frá 5.500 hæð sem var ekki til að einfalda málin þegar hvert fótmál var orðið meðvitað átak í þunna loftinu og 150 m hækkun upp á hæsta tind orðið nánast óyfirstíganlega mikið...
...Já, hvert skref... hver einasta hreyfing var krefjandi og engin leið að lýsa líðaninni nema upplifa hana... en allir sýndu aðdáunarverða þrautsegju og gáfu ekki eftir alla þessa nánast óendanlega löngu leið að manni fannst í súrefnisskortinum... Þarna sló reynslumikið og samstöðukennt Toppfara-hjartað án efa í einum takti og viðkomandi einstaklingum sannarlega rétt lýst með þessari óbifanlegu staðfestu. Í hreinskilni sagt (af fullri hófsemi og auðmýkt!) skal það fullyrt hér að það er án efa fágætt ef ekki einstakt, já með ólíkindum að slíkur fjöldi skyldi ná allur alla leið upp í viðlíka hæð og þessa - 5.822 m (5.830 mælt) - án þess að þurfa frá að hverfa.
Uppskeran var í
takt við erfiðið... og
sigurtilfinning
þeim mun sterkari fyrir vikið Flestir án lyfja alla leið á tindinn þar sem þeir vildu sjá hvað líkaminn þolir í þessari hæð en nokkrir urðu að gefa það eftir þegar þeir fundu fyrir einkennum á leiðinni upp (eða höfðu fengið einkenni í fyrri göngum á Inkaslóðinni), á meðan einhverjir tóku hin ýmsu hæðarveikilyf fyrirbyggjandi, jafnvel allan tímann frá upphafi Perúferðarinnar þar sem við vorum meira og minna að ganga í mikilli hæð og vel yfirr 3000+ m. Það
virtust hins vegar ekki vera nein merkjanleg tengsl milli líkamlegs
forms og þess hvort hæðin kallaði á hjálparlyf eða ekki til að sigra
hæðina eða tindinn enda var það aukaatriði... sigurinn var okkar
allra og afrekið jafn stórt hvort sem menn fóru þetta lyfjalausir
eða með því að gefa ekki eftir þegar þeim leið sem verst því
sannarlega var það aðdáunarverð frammistaða.
Eftir Misti-afrekið fengum við tvo góða hvíldardaga í Lima en ferðuðumst svo til norðurhluta Perú og tókum síðustu gönguferðina í fjóra daga um Cordilleira Blanca fjöllin í Andesfjallgarðinum þar sem gengið var svokallaða Santa Cruz leið yfir fjallgarðinn um skarð og gljúfur af stærðargráðu sem við höfðum flest aldrei kynnst áður... og var þessi ganga efst á listanum hjá sumum eftir ferðina.
Fjallasýnin var stórkostleg og svo áhrifamikil að þess gætti sálrænt meðal vor næsta sólarhringinn á eftir í fölskvalaustri gleði og kátínu sem aldrei fyrr í ferðinni... enda fengum við einstaklega fallegt veður í skarðinu í tæplega 5000 m hæð (4.750 m) þar sem hvítu tindarnir blöstu við okkur allan hringinn í fegurð sem var ekkert skrítið að við vorum ölvuð af sólarhringinn á eftir...
Síðasta göngudaginn fórum við svo með sól í sinni eins og alltaf alla leið sem var alveg í takt við sólina þennan dag úr fjöllunum niður í byggð um gil sem skarst eins og hnífsblað gegnum fjallgarðinn og slógum þar með lokapunktinn á ógleymanlegt ferðalag á framandi slóðum sem reynt hafði verulega á líkama en ekki síður sál... En andi afmælisbarns dagsins, hins fimmtuga Kára, sveif yfir vötnunum og var í sama anda og Áslaugar sem átt hafði afmæli á fyrsta göngudegi ferðarinnar... nefnilega að ekkert gat skyggt á gleðina og þakklætið sem réð ríkjum ferðina á enda þrátt fyrir strembið ferðalag og krefjandi aðstæður. Upp úr stendur stórkostlegt gönguævintýri og mikilfenglegt afrek sem án efa veitir okkur dýrmæta reynslu og dýpt og vonandi auðmýkt fyrir því sem við höfum og getum og ekki síður því sem við fengum og gáfum hvert öðru í þessari ferð... við erum sannarlega ríkari en áður en við lögðum af stað... Haf þökk allir sem einn leiðangursmaður fyrir hverja þá hjálparhönd sem veitt var gegnum þetta ævintýri því sannarlega er svona ferð ekki möguleg nema gegnum þennan einstaka anda, hjálpsemi, jákvæðni, þakklæti, bjartsýni, ósérhlífni og samstöðu sem einkennir þennan fjallgönguklúbb.
Nánari ferðasaga og myndir í vinnslu en sjá myndir félaganna á
fésbókinni og fleiri myndasíðum - sjá tengla síðar. |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|