Tindur 43 - Ljósufjöll laugardaginn 28. ágúst 2010

Litadýrð í Ljósufjöllum


Efri frá vinstri: Leifur, Rósa, Örn, Guðjón Pétur, Áslaug, Hermann, Stefán A., Dóra, Jón Júlíus, Halldór, Heiðrún, Ásta Þ., Arnar, Guðrún Helga, Björgvin, Hanna, Sigga Sig og Steinunn.
Neðri frá vinstri: Vallý, Svala, Snædís, Gerður, Helga Bj., Ágústa, Kristín Gunda, Ingi, Sæmundur, Lilja K., Inga, Ásta H., og Brynja.
Alls 33 Toppfarar að meðtaldri Báru sem tók mynd.

Þrír hæstu tindar í Ljósufjöllum og þeir hæstu á Snæfellsnesi fyrir utan jökulinn, Gráni, Bleikur og Miðtindur voru gengnir laugardaginn 28. ágúst með óskertu útsýni allan hringinn...

Við vorum ljónheppin með veður, skyggni og útsýni í algerri heiðskíru og litadýrðin með ólíkindum á ægifagurri gönguleið þar sem farið var frá Svarfhóli upp eftir hrygg hins ljósgrá Grána og þaðan á gulbleikan Bleik og loks rauðan Miðtindinn og eftir hrygg hans sem skipti litum frá rauðu, gráu, hvítu og endaði á mosagróinum klettahrygg niður í "Ljósufjallaurð" í suðri.

Einstök gleði Toppfara var við völd frá fyrsta skrefi til þess síðasta þar sem Ásta þórarins var borin síðustu kílómetrana í hlátrasköllum eftir misstig snemma á niðurleið... af göngufélögum sem voru bláir í framan af berjaáti og hlátursköstum... sem ætluðu aldrei að linna þó komið væri niður í bílana...

Flottari dagur á fjöllum gefst ekki...

Lagt var af stað frá sumarhúsabyggð við Svarfhól þar sem við fengum áningu fyrir bílana hjá einum bústaðaeiganda á staðnum.

Þar sem gengið var austan megin við Kleifá fengum við eingöngu litið Valafoss með Hrafnafoss og Hamarfoss neðar og var hann vatnslítill eins og Íslandið allt eftir fádæma þurrt og sólríkt sumar og mildan vetur...

Ljósufjöllin t.d. með öllu snjólaus sem ekki hefur verið algengt hingað til.

Þegar komið var upp af hjöllunum við fossinn blöstu Ljósufjöllin við okkur skýlaus og litrík og maður tók andann á lofti... enn einu sinni var veður og skyggni sem galdur á göngudegi hópsins og fjöllin sem ALLTAF eru í skýjunum... þó heiðskírt sé í veðri og allir aðrir tindar skýlausir eins og í nóvember 2009 á Hóls- og Tröllatindum... m. a. s. líka þegar við ókum þennan morguninn upp á Snæfellsnes... sviptu skyndilega af sér öllu þegar við stóðum fyrir framan þau...

Flest okkar voru að því sjá Ljósufjöllin í fyrsta sinn "tandurhrein"... og hvílík litaveisla á árstíma og veðurtíð sem hreinsað hefur burt allan kulda og skilið eftir hlýja liti frá fjallsrótum til hæstu tinda...

Snæfellsnesið var allt skýlaust að jöklinum sjálfum...

Elliðatindar hér og Hóls- og Tröllatindar í baksýn þeirra Steinunnar og Siggu Sig.

Morgunverður...neibb, nýtt nafn komið á þetta... "forrétturinn" snæddur í grýttri en þurri mosalund með ylinn af morgunsólinni og ofurhlaup í umræðunni þar sem nokkrir Íslendingar hlupu þennan dag kringum Mont Blanc - http://www.ultratrailmb.com/accueil.php

Brátt tók grýtið við og gróður hvarf með öllu en litadýrðin hélt sér í kyngimögnuðu landslagi...

Leifur, Lilja K., Rósa, Hanna, Sigga Sig., Björgin J., Ágústa, Hermann... hvílíkur gönguhraði á þessu fólki...

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/6/E_wI_KKf5sM

Gengið var upp á fjallsrótarhrygg Grána að fjöllunum með háskýin yfir himninum í stíl við línurnar í landslaginu á jörðu niðri.

Þetta var drjúgur hryggur sem gaf frábært útsýni til beggja hliða.

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/5/CXunRxH-Ozc

Krefjandi fjallshlíðar Grána tóku við... grýttar, brattar og torsóttar í lausagrjóti sínu...

Grjótið glumdi..
taugarnar titruðu...
hjartað hamaðist...
en sálin söng...

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/4/pc7DLn4svJk

Svala, Heiðrún og Vallý með austurhluta Snæfellsnes í baksýn...

Þessi kafli reyndi verulega á og minnti óþyrmilega á Baulu sem í bratta sínum og lausagrjóti fær öruggustu menn til að efast um haldfestu
en um leið komast að því að í lausagrjótinu fer maður aldrei langt niður með hrúgunni...

Á Grána í 1.006 m hæð var aðalréttur borinn fram og voru sumir með heilu skrokkana í nesti... ;-)
Líklega dugar ekkert minna fjallgageitum sem æða um firndindi öllum stundum...

Gjólan var nöpur á Grána og örkuðum við strax af stað eftir matinn á Bleik... sá var ekki eins ógreiðfær og gekk uppgangan vel upp í 1.047 m hæð og nýju útsýni yfir á Miðtind og Botna-Skyrtunnu í norðri.

Það var einstakt að fá þetta skyggni og geta loksins áttað sig á landslaginu á öllu svæðinu óskert.

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/3/hfL4b_7Cc8o

Útsýnið af Bleik til vesturs var litaveisla...

Eingöngu Miðtindur var eftir... rautt hraunið á efsta tindi eftir gulbleikt grjótið á Bleik og grátt grýtið á Grána...

Snilldar-nafngiftir hjá Ara Trausta en mikið langaði manni að kalla Miðtind "Rauð"... eða jafnvel að Botna-Skyrtunn fengið það nafn frekar.

Örn hafði augastað á góðri uppleið og var hún mun greiðfærari en áhorfðist úr fjarska sem gjarnan er reyndin þegar horft er beint á brekkurnar.

Litið til baka í suðaustur ofan að brekku Miðtinds... fjallshlíðar Bleiks með Hafursfellið í fjarska vinsta megin
og
Löngufjörur Snæfellsness þarna niðri...

Rauðhraunið alla leið upp á Miðtind...

Ásta Henriks með Hest vinstra megin og Skyrtunnu hægra megin í fjarska.

Og enn lengra voru jöklarnir á Vesturlandi með Hrútaborg og Tröllakirkjur og fleiri fjöll.

Miðtindur rúmaði með engu móti allan hópinn og þurftum við að feta okkur um hann í tindavímunni...


Sigga Sig, Heiðrún og Áslaug sem allar eru með margar ólíkar hörkugöngur í bakpokanum...

Útsýnið var magnað í allar áttir, hér til suðausturs að Bleik og Hafursfelli.

Litadýrðin vestan megin við Miðtind tók svo við með Snæfellsnesið útbreitt fyrir framan okkur.

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/2/5vBs0JPVYC0

Það var engan veginn pláss fyrir okkur á toppnum... menn þurftu að fara varlega og fóta sig rólega með tindinum og niður hinum megin... þetta var alvöru toppur með stórkostlegu útsýni í allar áttir um höf, vötn, lönd, fjöll og jökla... eins og fleiri fagrir tindar í fótaminni þeirra sem þarna klöngruðust...

Rauðakúla, Hreggnasi, Kattareyra, Írafell, Gullkista, Draugadalur og Háskaskarð í fjarska nær... þetta hafa verið alvöru nafngiftarmenn þarna  Snæfellsnesi forðum daga... slóðir sem við verðum einhvern daginn að dóla okkur um á góðum degi...

Fjær risu svo Elliðatindar (nóv.2011) og Hóls- og Tröllatindar (nóv.2009) og svo Helgrindur (feb.2009) og Snæfellsjökull (mars.2008 og apríl.2010).

Við tóku fjölbreyttir litir Miðtinds vestan megin þar sem halda mátti að klæðskeri þeirra hafi ekki getað ákveðið hvaða lit hann ætlaði að velja og skellt þeim öllum saman eins og bútasaumi...

Ásta Henriks, Sigga Sig og Áslaug Melax... þrjár af kjarnahópi Toppfara sem mætt hafa á nánast allar æfingar og tindferðir frá því þær byrjuðu í klúbbnum og hafa því efni á því að fagna hverri áskoruninni á fætur annarri á fjöllum með bros á vör og gleði í hjarta...

Landslagið var sem málverk.

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/1/cp5-KE_uC7s

Örn ákvað að fara ekki beinustu leið niður af Miðtindi þó greiðfær væri brekkan og freistandi til skriðuhlaupa... heldur þræða mosagróinn hrygginn í vestri og færði það okkur enn fleiri liti í safn ferðarinnar.

Útsýnið til suðurs niður að "Kötlum Ljósufjalla" og "Ljósufjallaurð" með mosagróinn hrygg Miðtinds hægra megin og gráan hrygg Grána vinstra megin sem við höfðum þrætt á uppleiðinni.

33 Toppfarar máttu sín lítils í mikilfengleik Ljósufjalla...

Arnar, Heiðrún, Brynja, Kristín Gunda, Gerður og Björn.

Sigga Sig., Steinunn, Ingi, Björgvin, Hanna og Leifur.

Hryggur Miðtinds sem breyttist úr rauðu yfir í bleikt yfir í hvítt yfir í grátt yfir í svart yfir í grænt...

"Mjúk og hlý" leið eftir harðneskju Grána og Bleiks...

Ásta Þórarins var svo óheppin að misstíga sig á þessum kafla og fékk strax góðan vafning frá Inga og verkjalyf frá Báru og faglegt eftirlit hjá Kristínu Gundu og þurfti þar með að bíta á jaxlinn og harka af sér alla leið til baka að bílunum.

Eftirrétturinn snæddur í hlýrri sólinni og sms-sambandi við Wildboys sem voru minntir á að
það væru laus pláss á
Haustfagnaðinn eða árshátíð Toppfara 2. október...

"Ljósufjallaurðin" var fögur en grýtt og torsótt fyrir haltrandi konu...

...en við héldum hópinn aftast og fórum þetta ölvuð fjallafegurðinni í gleði, hlátri og gríni sem aldrei fyrr...

Dóra tók við bakpokanum hennar Ástu af Inga og Áslaugu sem höfðu fyrr létt á henni með og þetta gekk vel þrátt fyrir allt,
eins og alltaf þegar hópurinn sýna viðlíka samheldni og æðruleysi og þennan dag.

Dóra, Áslaug, Inga Lilja, Björgvin, Björn, Heiðrún, Vallý, Svala, Stefán A., Gerður, Ásta Þ., Guðrún Helga, Arnar og Helga Björns.

Við komumst að því að Toppfarar eiga sína eigin wildboys... Stefán Alfreðs og Sæmundur brugðu á leik fyrir stelpurnar sem ærðust eins og grúppíur þegar þeir drógu upp sólgleraugun og greiddu hárið...

... og skríkjandi grúppíurnar mynduðu goðin sín eins og á fréttamannafundi ;-)
og jú, með
litrík Ljósufjöllin í baksýn...

Miðtindur, Bleikur og Gráni með Heiðrúnu, Steinunni, Brynju, Birni og Inga í forgrunni.

Pása til að þétta hópinn og fækka fötum í steikjandi sólinni.

Örn, Hermann, Leifur, Halldór, Rósa og Björgvin.

Vesturnágrannar Ljósufjalla sem eru komin á framtíðardagskránna.

Inga Lilja, Guðjón Pétur, Ásta Þ., Björn, Heiðrún og Svala.

Fjöllin minntu á teiknimynd.

Gerður, Stefán Alfreðs, Ásta Þ. og Sæmundur.

Þetta var ótrúlega drjúgur kafli... rúmlega 7 km grýtt leið en smám saman tóku berin við með lyngi, mosa og grasi... og við hættum að vera blá í framan af hlátri og urðum blá af berjum...

http://www.youtube.com/user/BaraKetils?feature=mhum#p/u/0/FcQ1uCccDoo

Bílarnir í augsýn og veðurblíðan með ólíkindum þó komið væri að kvöldmatarleyti... 

Svona dagar eru dýrmætir og engum datt í hug að flýta sér frá honum...

Takk fyrir glæsilegar móttökur Ljósufjöll... 

Fyrstu menn voru ekki lengi að ná í bílana af malarstæðinu fjær
en talsvert skildi á milli fremstu og öftustu manna vegna tafsamrar niðurgöngu þó við héldum hópinn að mestu.


Hanna, Lilja K., Guðjón Pétur, Ingi, Heiðrýn og Ásta Þ.

"Skál" fyrir þrautsegju og gleði gegnum galdrafengrar slóðir á gullnum degi...


Hafursfell í baksýn.

..."í hlátursköstum sem aldrei ætluðu að linna þó komið væri að bílunum"...

Tindarnir þrír á prófílnum sjást vel með Miðtind hæstan mældan 1.067 m skv. gps.

Alls voru gengnir 16,8 km á 8:10 - 8:19 klst. upp á 1.005 m, 1.047 m og 1.067 m háa tinda með alls hækkun upp á 1.600 m skv. gps.

Fullkominn dagur á fjöllum... eins og alltaf ;-)

Sjá allar myndir þjálfara úr ferðinni á myndasíða tindferða Toppfara:  http://www.picasaweb.com/Toppfarar 

Jarðfræði Ljósufjalla á veraldarvefnum:
http://www.fva.is/harpa/fva/verknema/hjalmur/jardfr.html
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=12882
http://www.nams.is/dagsins/jardfraedi/jardfraedi.pdf

 


 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir