Tindferð 217
Botnaskyrtunna og Ljósufjöll
Snæfellsnesi
laugardaginn 6. mars 2021

Botnaskyrtunna
snúið við af Ljósufjöllum
og slys í bakaleiðinni af Botnaskyrtunnu

Laugardaginn 6. mars var lagt af stað á fjall örlagarík ferð fyrir Lindu og Siggu Lár sem runnu niður bröttustu brekkuna á Botnaskyrtunnu og slösuðust á ökkla svo þær þurftu aðstoð björgunarsveita og þyrlu til að komast til byggða... Agnar, Bjarni, Kolbeinn, Þorleifur og Örn héldu kyrru fyrir með stelpunum meðan hópurinn kom sér sjálfur til baka en Bára kom á móti þeim eftir að hafa fylgt Arngrími til baka ofan af Ljósufjöllum þar sem vöðvakrampar hömluðu hans för fyrr um daginn...

Upp úr stendur samheldnin og hjálpsemin í hópnum þennan örlagaríka laugardag og hversu vel búnir menn voru alls kyns neyðarbúnaði sem skipti sköpum... álteppi, verkjalyf, prímus, teygjubindi, aukaföt, aukanesti, hleðslubatterí fyrir símann og síðast en ekki síst húmorinn sem hjálpaði án efa mikið til að komast í gegnum þessa lífsreynslu... jú og líkamlegt og andlegt formið á öllum hópnum í heild sem stóð sterkur í gegnum þetta og skilaði sér óhikað til baka eftir mjög erfiðan dag þar sem endað var í rökkri og svo myrkri með 1,5 klst. akstur í bæinn...

Þjálfarar þakka öllum sem lögðu sitt af mörkum til að hlúa að stelpunum þar til björgunarsveitirnar komu en ferðin reyndi vel á alla þar sem slysið varð við fjallsrætur Botnaskyrtunnu eftir 10,5 km göngu þar sem nánast annað eins í vegalengd var framundan til baka í dvínandi skyggni og vaxandi þoku... en síðustu menn, fimmenningarnir sem héldu kyrru fyrir og hlúðu að stelpunum gengu þessa vegalengd í myrkri og rigningu síðasta hlutann en skiluðu sér samt brosandi og heilir til byggða...

Okkur hefur verið tíðrætt um slys á fjöllum í vetur og líklega hafði alvarlega slysið á Móskarðahnúkum fyrr í vetur þar áhrif, enda mikilvægt að læra af öllum óhöppum án þess að benda fingri á fólk eða dæma... en óvarleg og ónærgætin umræða eftir það slys hreyfði ekki síður við okkur og minnti óþyrmilega á hversu aðgát í nærveru sálar er mikilvægt öllum stundum... sérstaklega þegar einstaklingar liggja í sárum eftir slys og vilja sjálfir læra af óhappinu en sitja undir óvæginni umræðu á samfélagsmiðlum sem þeir hafa ekki bolmagn til að verjast eða taka almennilega þátt í...

Dæmið ekki og þér verðið ekki dæmdir... sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum... hættu að einblína á flísina í augum náungans og taktu eftir bjálkanum í eigin auga... það er auðvelt að vera vitur eftir á... aðgát skal höfð í nærveru sálar...

Lærum svo lengi sem við lifum... en verum fyrst og fremst góð hvert við annað... alltaf...

Heilunar- og batakveðjur til Lindu og Siggu Lár... hugur okkar er hjá þeim og við vonum innilega að þær nái sér fljótt og vel og komist á fjöll með okkur sem fyrst... sem og Ásta Jóns sem ökklabrotnaði í lok október í fyrra á Selfjalli og hefur staðið í ströngu við að láta beinin gróa vel fyrir áframhaldandi ævintýri á fjöllum... já, þið getið þetta stelpur... við bíðum eftir ykkur... þið eruð langflottastar !

Ferðasagan hér:

Það var rigningarsúld í Reykjavík þegar við lögðum af stað þennan laugardag út á Snæfellsnes... og það hélt áfram að rigna eftir öllu nesinu... alla leið að fjallsrótum... við skildum ekkert í þessu veðri því sól var í kortunum og það átti að vera bjart og fallegt þennan dag... jú, kannski voru síðustu spár orðnar skýjaðar að mestu en það átti sannarlega ekki að vera rigning...

Spáin deginum áður... sól og milt veður...

... ekki rigning...

... orðið skýjað en það átti að sjást aðeins til sólar...

Við lögðum bílunum á sama stað og við vorum sérstaklega beðin um að gera síðast þegar við gengum á þessu svæði... af sumarhúsaeigendum á svæðinu í ágúst árið 2010... og vorum grunlaus um að aðrir eigendur á svæðinu vildu ekki að gönguhópar kæmu inn á þeirra svæði til að leggja upp í fjöllin... en þjálfarar leituðu ítarlega að símanúmeri á bæjunum í kring til að fá leyfi bónda til að leggja bílunum eins og við gerum alltaf... en engir eigendur voru skráðir með síma á þessu svæði... allt virtist komið í eyði á bæjunum næst Ljósufjöllum... og eingöngu sumarhúsaeigendur á svæðinu en engan var að sjá um morguninn við húsin sem við gátum spurt um hentugasta bílastæðið... svo við pössuðum okkur að leggja þar sem við vorum beðin um að vera síðast...

Þoka og rigningarsúld alla leiðina upp eftir en hlýtt, lygnt og kyrrlátt veður... Sandra sneri fljótlega við hér þar sem hún hafði verið að kljást við veikindi og leið ekki vel og kom hún sér sjálf til baka í bílinn og keyrði heim... en hún hefur verið mjög dugleg að mæta í allan vetur og sumar og er í toppformi svo við treystum því að hún frískist sem fyrst og komi sterk inn fljótlega aftur...

Ekkert skyggni og færi mjúkt og saklaust...

Ofar tók snjórinn alfarið við og skyggni var ekkert... Örn sem fremsti maður sá á köflum ekkert fram fyrir sig og við reyndum að sjá landslagið fyrir framan okkur... en þetta minnti okkur á góða aðferð Róberts jöklaleiðsögumanns hjá Asgard Beyond á 3ja tinda göngunni á þrjá hæstu tinda landsins í öræfajökli (Sveinstind, Snæbreið og Hvannadalshnúk)... sem henti aukaendanum á línunni sinni fram fyrir sig til að sjá hvar hann lenti og þannig gat hann séð hvernig landið lá... en þjálfarar hafa lent í þessu áður og gengið sjóveikir í svona snjóblindu á Okinu og þetta er mjög erfitt í lengri tíma... hundarnir eru einnig góð leið til að sjá hvar landið liggur og loftið tekur við...

Heilmikið landslag er í fjallsrótum Ljósufjalla og þjálfarar voru búnir að liggja yfir kortunum við að finna bestu leiðina yfir á Botnaskyrtunnu sem er vestan megin við Miðtind yfir háls þar og svo niður í dæld og aftur upp á Botnaskyrtunnuna... en þessi háls liggur vestan við Miðtind sem er hæsti tindur Ljósufjalla og þegar við vorum komin ansi nálægt honum og ennþá á leiðinni að hálsinum þá freistuðumst við til að byrja á því að fara upp á Miðtind í Ljósufjöllum... í stað þess að halda áætlun og stefna fyrst á Botnaskyrtunnuna... en þarna voru hefðum við betur haldið ferðaáætluninni... lexía númer 1... því Ljósufjöllin áttu eingöngu að vera aukatindur í bakaleiðinni af Botnaskyrtunnunni ef tími og aðstæður leyfðu enda ekki sjálfgefið að ná þessum tindum á hávetri...

Mjög góð stemning í hópnum þennan dag... allir glaðir og tilbúnir í alvöru ferð... sumir nýbúnir að fara hörku jöklabroddaferð á Heiðarhorn og Skarðshyrnu í Skarðsheiðinni rúmri viku áður á fimmtudegi... Bjarni, Marta, Fanney og Sigga Lár hér... öll þrjú nema Marta voru í þeirri ferð þar sem við æfðum ágætlega broddanotkun og lærðum heilmikið um hversu mikilvægt það er að kunna á sína brodda, vera öruggur í að setja þá á sig og ganga þá til... Sigga Lár keypti sér nýja brodda eftir þessa ferð á Skarðsheiðinni þar sem hún var ekki nægilega ánægð með sína gömlu og gætti hún þess sérstaklega að fara vel yfir broddana og máta þá vel á skóna sína svo hún var sérstaklega vel undirbúin í þessari ferð...

Ásarnir sem ganga niður úr Ljósufjöllum eru nokkrir og þó nokkuð háir... við þveruðum allavega þrjá...

Þar sem þessi ferð átti að vera góð jöklabrodda- og ísaxaræfing og lagt var upp með að allir væru búnir að kynna sér notkun þessa búnaðar áður... bað þjálfari menn að skilja keðjubroddana eftir heima til að spara burð þar sem við myndum frekar fara í jöklabroddana snemma.... en á þessum kafla voru nokkrir sem tekið höfðu þá með komnir á keðjurnar þar sem stundum var smá svell undir mjúkum snjónum...

... og lexía 2 í þessari ferð var því sú að sleppa ekki keðjubroddunum þó maður taki jöklabroddana með... stundum er færi þannig að það er gott að vera á þeim en ekki komin tími á að fara í jöklabroddana ennþá... keðjubroddarnir eru algert þarfaþing að mati okkar og líklega allra sem á annað borð ganga á fjöll allan ársins hring að einhverju ráði en ekki bara stöku ferð...

Bára þjálfari lánaði Örnu keðjubroddana sína þar sem hún hafði runnið á svelli neðar á heiðinni og meitt sig á annarri hendinni þannig að hún bólgnaði upp og var aum við beitingu á ísexinni... en hún rann stöðugt til í þessu færi og komst að því að sólarnir á skónum hennar væru orðnir of sleipir og kominn tími á að endurnýja þá... lexía 3 þrjú því sú að passa að skipta um sóla eða gönguskó þegar þeir fara að renna óvenju mikið en þetta er eilífðarverkefni þar sem skórnir eru í stöðugri notkun og maður kemt ekki að því að sólinn sé orðinn sléttur fyrr en maður fer að renna óvenju mikið og stundum er þetta tilfallandi eftir veðri og færð...

Við héldum því beinustu leið hér upp að Miðtindi í stað þess að krækja fljótlega til vesturs inn að Botnaskyrtunnu...

Hrikalegt landslag Ljósufjalla sást aðeins í gegnum þokuna...

Agnar og Þorleifur ætluðu að krækja sér hér upp og fara upp hrygginn en hættu fljótlega við enda leyna svona brekkur á sér í harðnandi færi um leið og komið er ofar... og þjálfarar tóku þá ákvörðun eftir reynsluna af slysinu þennan dag að hér með verði allir sem eru í ferðum á okkar vegum að fylgja leiðarvali fararstjóra og ekki taka sig út úr hópnum og fara aðrar leiðir... eins og margir hafa oft gert í okkar ferðum og okkur þykir bara gaman að því, enda margir sterkir og öruggir göngumenn í klúbbnum... en ástæðan er sú að ef þeir sem fara aðrar og áhættusamari leiðir en hópurinn lenda svo í slysi þá setur það ferð allra hinna í uppnám og skyndilega snýst ferðin um björgun þeirra sem slasast og því að skipta hópnum í tvennt þar sem bíða þarf með hinum slösuðu eftir björgun annars vegar og fara með allan hópinn til byggða hins vegar.

Það er því ekki sanngjarnt gagnvart hópnum að einhverjir fari áhættusamari leiðir og stofni þannig allir ferðinni í hættu... hundfúlt... já, við erum sko sammála því... en ævintýramenn klúbbsins eru bara hvattir til að fara í sérferðir þar sem þeir geta klöngrast og valið spennandi leiðir sem þjálfarar velja ekki fyrir hópinn í heild...  þetta er því lexía 4 í ferðinni þó hún hafi í raun ekki komið við sögu í þessari ferð per se...

Leiðin upp á Miðtind er nokkuð þétt og aðeins krókótt eftir hrygg þar sem bratt er til beggja hliða á köflum... fyrsta brekkan var tekin hér í mjúkum snjó til að byrja með en fljótlega harðnaði færið ofar svo þegar við komum upp á sjálfan hrygginn var ljóst að allir þyrftu að fara í jöklabrodda... en þarna uppi var ekki mikið pláss... hvað þá fyrir 27 manns öll í einu að klæða sig í brodda sem flestir gera ekki oft á hverjum vetri... lexía 5 því sú og ein sú mikilvægasta í ferðinni að fara í jöklabroddana á góðum stað á láglendi áður en lagt er í brekkurnar svo allir hafi nægt svigrúm til að athafna sig... það var jú snarbratt til beggja hliða af þessum hrygg og alls ekki góðar aðstæður til að klæða sig í öryggisbúnað sem skiptir miklu máli að sér réttilega og nægilega fast settur á...

Þessi þrengsli þýddu að allir kúldruðust við að festa á sig broddana og ná í ísexina og pakka niður stöfunum... og þrengslin voru slík að Örn lagði fljótlega af stað upp eftir hryggnum til að gefa hinum meira pláss og þeim sem voru tilbúnir að leggja af stað á eftir honum að kanna aðstæður... en lexía 6 hér er sú að þjálfarar fara alltaf yfir notkun jöklabrodda og ísexi þegar við förum í þennan búnað en þarna leyfðu þrengslin það ekki og því varð ekkert úr því... og þó menn hafi átt að "lesa heima" og flestir "vanir" þessum búnaði þá voru sumir að fara í jöklabrodda í einum af sínum fyrstum skiptum í lífinu og jafnvel langt síðan síðast,þar sem þetta var önnur ferðin í vetur þar sem þörf hefur verið á jöklabroddum svo það hefðu allir þurft smá upprifjun og yfirferð á hvernig skal bera sig að við göngu á jöklabroddum með ísexi í hönd...


Brekkan niður til baka... ágætis snjór í henni sem gaf hald en svellað undir...

Örn sneri fljótlega við af hryggnum og sagði leiðina engan veginn örugga og lengra yrði ekki farið á Ljósufjöll þennan dag... þökk sé honum að taka þessa ákvörðun sem er alltaf erfið og alltaf tekin undir úrtölum og gagnrýnisröddum sem vilja halda áfram... lexía 7 því sú að þó ákvörðunin sé erfið og henti alls ekki þá skal alltaf taka hana og snúa við rétt undir tindinum ef aðstæður kalla á slíka ákvörðun...

Þarna skiluðu þeir sér til baka sem fóru með Erni upp og áður en við lögðum af stað niður sömu brekkuna og við komum upp fór Bára þjálfari snöggvast yfir helstu reglurnar um jöklabroddana en það var á hundavaði og með sýnikennslu þar sem ekki allir sáu vel til hennar... lexía 6 því enn við lýði hér... og við hefðum í raun átt að taka þessa yfirferð niðri þegar við vorum komin á láglendið í þokunni... og þjálfarar eru sannfærðir um að Bára hefði farið yfir þetta á Botnaskyrtunnu áður en lagt var af stað niður hana... en úr því varð ekki eins og lesa má hér síðar...

Þegar niður af Miðtindi var komið réðu þjálfarar ráðum sínum og voru tvístígandi með að halda áfram á Botnaskyrtunnu eða snúa til baka... það er sérlega erfitt sem fararstjóri að gefa fólki göngu í þoku og engu skyggni allan tímann og ná ekki einu sinni tindinum... og því ákváðu þjálfarar að halda áfram yfir á Botnaskyrtunnu þó minnihluti hópsins rétti upp hönd við spurninguna um hvort menn vildu halda áfram á Botnaskyrtunnu eða snúa við... margir voru hikandi og vildu ekkert endilega snúa við heldur... en þegar ljóst var að eingöngu rúmlega kílómetri væri í efsta tind á Botnaskyrtunnu voru fleiri jákvæðir á að halda áfram og ná þessari Botnaskyrtunnu sem átti nú eini sinni að vera aðaltindur dagsins... það er líka hlutverk fararstjóra að hafa metnaðinn og eljuna til að klára verkefnið og gefa ekki auðveldlega eftir og snúa við þó mann sér farnir að tvístíga og myndu samþykkja fegnir að snúa við... en þetta er vandmeðfarið og erfið lína að feta sig eftir...

Fljótlega á kaflanum yfir á Botnaskyrtunnu er Arngrímur kominn í mikil vandræði og fær slæma vöðvakrampa ítrekað í bæði lærin... hann tefst mikið og á erfitt með að ganga í takt við hópinn... Jón Bragason leiðsögumaður á Austurlandi gefur honum Kalíumtöflur og Arngrímur var búinn að vera duglegur að drekka og borða en svona krampar eru afleiðing af þjálfunarleysi eða vökvaskorti eða steinefnaskorti og oft sambland af þessu þrennu að einhverju leyti... hugsanlega hefði dugað ef Arngrímur hefði fengið lengri hvíld áður en haldið var áfram en við vorum búin að ganga rólega og stoppa oft og veðrið bauð ekki upp á að við héldum mikið oftar kyrru fyrir...

Margrét Birgis stakk upp á verkjatöflum sem Bára gaf Arngrími og á þessum tímapunkti var höndin á Örnu orðin bólgin svo Bára vafði hana með teygjubindi og hafði áhyggjur af því að hún væri handarbrotin þó hún gæti hreyft höndina af fenginni reynslu af bátsbeinsbroti hjá Erni eftir fallið ofan af Dagmálafelli hér um árið þar sem hann fór reyndar ekki á slysó fyrr en nokkru vikum eftir slysið og reyndist þá brotinn...

Á þessum tímapunkti voru þjálfarar næstum því búnir að snúa við með hópinn þar sem Arngrímur var augljóslega þjáður og Arna komin með teygjubindi um höndina sína en Arna tók ekki í mál að snúa við og þar sem það var svo stutt í Botnaskyrtunnu ákváðum við að þrjóskast við og klára þetta... hópurinn lagði af stað en fljótlega var ljóst að Arngrímur var engin veginn að ná að fylgja hópnum svo Bára ákvað að snúa við með hann án þess að stoppa hópinn enn og aftur heldur hringdi bara í Örn og lét hann vita og gaf honum því í raun aldrei tækifæri til að ákveða hvort allur hópurinn hefði átt að snúa við... Bára gerði þetta hins vegar viljandi og fann hvernig hún var að svíkja Örnu og fleiri sem hefðu líklega snúið við með henni... en hugsunin var einmitt sú að með því að gera þetta svona yrði ekki fjöldaflótti úr hópnum... enda hefðu allir þeir sem snúið hefðu við séð eftir því  þar sem hópurinn fékk stórkostlega upplifun á Botnaskyrtunnu og allir sögðu eftir á að þeir hefðu ekki viljað missa af þeirri upplifun...

En lexía 8 er hér... þjálfarar ætla ekki að skipta hópnum upp almennt í okkar ferðum þar sem það veikir báða hópa og ógnar öryggi beggja hópa í raun því ef óhapp, veikindi eða rötunarvandræði verða öðru hvoru megin þá munar um að vera einn sem fararstjóri frekar en tveir að kljást við aðstæðurnar og málin eru mjög fljót að flækjast... einnig er það hluti af þessari lexíu að Bára gaf Erni ekki tækifæri til að meta hvort hann ætti að halda árfam einn með allan hópinn á framandi leið á leið upp tind sem við þjálfarar höfum aldrei farið á áður í engu skyggni með misvana leiðangursmenn innan hópsins...

Lexía 9 er svo í framhaldi af þessu... þjálfarar ætla eingöngu að hleypa þeim með í dagsferðirnar sem hafa verið að mæta á þriðjudögum svo þeir getið metið formið á þeim... OG hér með hleypum við eingöngu fólki í lengri og meira krefjandi gönguferðirnar sem hefur verið að mæta á þriðjudögum OG farið í styttri dagsgöngur annað hvort með okkur eða öðrum eða á eigin vegum... þannig er sanngirni gætt gagnvart þeim sem æfa vel og mæta vel undirbúnir í dagsferðirnar... enda ekki sanngjarnt að allur leiðangurinn líði fyrir það að einhver mætir illa undirbúinn til leiks... þessi lexía átti líka vel við í fyrstu Þvert yfir Ísland - göngunni í lok janúar þar sem við lentum í myrkri síðasta kaflann og gengum þjóðveginn í bílana í stað þess að fara gönguleiðina sjálfa...

Svo næst munum við snúa við með hópinn ef einhver lendir í vandræðum og dregst mikið aftur úr nema viðkomandi geti komið sér sjálfur til baka... og vera með varaplan í Þvert yfir Ísland - göngunum þar sem menn munu þurfa að láta sækja sig á miðri leið ef þeir lenda í vandræðum svo allur hópurinn sé ekki að tefjast óþarflega mikið...

Fljótlega eftir að Bára og Arngrímur urðu ein og voru búin með ásinn frá Ljósufjöllum fóru þau úr jöklabroddunum og fengu sér smá nesti áður en haldið var áfram niður eftir... skyndilega birti til og sólin lét aðeins sjá sig... okkur varð hugsað til hópsins og vonuðum að þau væru að fá þetta sama góðan veður sem þarna skall skyndilega á... eða í raun létti bara þokunni og allt varð svo bjart og auðvelt skyndilega í stað þess að vera þungt og erfitt...

Á sama tímapunkti gerðist þetta hjá hópnum... hann var lagður af stað upp Botnaskyrtunnuna og fékk bláan himin....

Sýnin til vesturs að tindunum sem rísa vestan við Ljósufjöllin...

Örninn lítur til baka... hópurinn að koma upp Botnaskyrtunnu með Miðtind á Ljósufjöllum hér skýlausan skyndilega... og tindinn Bleik í Ljósufjöllum vinstra megin... upplifunin var engu lík... að ganga í þoku 10,5 km langa leið og sjá ekkert nema nánasta umhverfi og upplifa svo skýjunum svipt svona af fjöllunum allt í kring...

Skarðið þar sem hópurinn kom vestan við Miðtind... sorglega stutt frá staðnum þar sem Bára og Arngrímur sneru við...

Dældin milli skarðsins og Botnaskyrtunnu þarna niðri og neðan við þessa brún er brekkan þar sem stelpurnar runnu niður...

Allir á jöklabroddum en á myndum sést að örfáir voru komnir með stafina í hönd og búnir að pakka niður ísexinni... sem er skiljanlegt á láglendinu sem var á milli tindana... en reglan er sú að vera alltaf með ísexi í hönd þegar gengið er á jöklabroddum í brekku... og því er hér komin lexía númer 10... að alltaf vera með ísexina í hönd þegar gengið er á jöklabroddum í brekkum.... pössum þetta öll næst... að muna að pakka stöfunum niður þegar brekkurnar byrja... en þetta er samt tvíbent því þegar fólk sem er mjög vant stöfunum sínum fær skyndilega eina lága ísexi í hönd þá minnkar jafnvægið mikið og líkur á að detta aukast umtalsvert... svo það eru margar hliðar á þessu sbr. umræða síðar...

Allt að opnast... vestari tindarnir...

Færið krefjandi á harðfenni með klakahröngli ofan á...

Á sömu mínútunni (ljósmyndir þjálfara raða þessu í tímaröð með sekúndu-nákvæmni)... voru Bára og Arngrímur stödd hér... í síðustu brekkunni ofan af stóra  og fyrsta fjallsrananum í Ljósufjöllum...

Útsýnið til Breiðafjarðar með Drápuhlíðarfjall þarna niðri... við eigum það alltaf eftir...

Kyngimögnuð stemning... gleðin glumdi og menn áttu ekki til orð... svona upplifun er engu lík... að fá allt í einu alla dýrðina í fangið sem umlukin var þoku allan tímann...

Fjallið Hestur til austurs... þar eigum við magnaðar minningar:
http://www.fjallgongur.is/tindur127_hestur_030416.htm

og í skýjunum á þessum tímapunkti hægra megin við hann eru Skyrtunna, Snjófjöll og Svartitindur...
þar sem við eigum líka minningar af krefjandi og ægifagurri ferð:
http://www.fjallgongur.is/tindur92_skyrtunna_ofl_010513.htm

Fjalllendið norðaustan megin á Snæfellsnesi... þarna einhvers staðar eru Hallkellsstaðahlíð þar sem við hefjum Vatnaleiðina í vor...

Álftafjörður og Eyrarfjall hægra megin (ekki það sama og okkar vestan við Bjarnarhafnarfjall) samt NB...

Drápuhlíðarfjall þarna niðri... ljóst af líparíti ekki síður en af sólargeislunum... hér upp er leiðin á Botnaskyrtunnu norðan megin... við skulum taka þessa leið næst... fara sömu leið og björgunarsveitirnar og þá verða Linda og Sigga Lár að vera með...

Vestari hluti Ljósufjalla ef menn kjósa að láta vestari tindana tilheyra þeim... Kattareyra meðal nafna á þeim...

Á þessum tímapunkti voru Bára og Arngrímur komin á heiðina og það var byrjað að dimma aftur yfir...

En samt ennþá gott skyggni alla leið til sjávar...

Litið upp eftir... við skynjuðum sólina sem hinir voru að fá...

Geislunin einhvern veginn smitaðist alla leið yfir fjallgarðinn og niður til okkar...

Síðustu menn skila sér upp en menn gáfu sér góðan tíma til að ganga upp og um allan gígbarminn á Botnaskyrtunnu...

Færið á Botnaskyrtunnu sést vel hér... myljandi klakahröngl ofan á harðfenni...

Magnaður útsýnisstaður... þegar Bára þjálfari hitti hópinn á niðurleið síðar um daginn... þá geislaði af þeim eins og engum öðrum... það var þessum stað að þakka... þessari fádæma fegurð sem fæst ofan af fjallstindi eins og þessum... með allan heiminn að manni finnst í fanginu sínu...

Skýin léku sér við tindana og sýndu glöggt að þau réðu ferðinni... það var enginn að segja þeim hvort þau ættu að fara eða vera...

Hópmynd af fólki sem átti svo sannarlega skilið að fá þessa uppskeru eftir erfiða uppleið í þoku og rigningarsúld allan daginn....

Magnað að fá svona verðlaun í lokin...

Efri:
Björgólfur, Ragneiður, Ásmundur, Linda, Agnar, Sigga Lár, Ása, Jón Bragason gestur,, Silla, Marta, ?,  Fanney, Þórkatla, Vilhjálmur.

Neðri:
Kolbeinn, Siggi, Arna, Margrét Birgis, Sigrún Eðvalds., Bjarni, Helga Rún, Þorleifur, Gulla og Jóhanna D.

Örn tók mynd - alls 25 manns en Bára og Arngrímur og Sandra snúin fyrr við.

Batman var eini hundur ferðarinnar.

Hvílíkur staður... hvílík stund... hvílík fegurð... hvílík upplifun...

Mynd frá Þorleifi... Örninn að farinn að huga að niðurleiðinni... enda langur vegur til baka heim á leið... hann hringdi í Báru og gaf skýrslu um stórkostlegan tind og útsýni... það var virkilega skemmtilegt símtal... þjálfarar voru svo glaðir að leiðangursmenn skyldu fá alla þessa fegurð út úr ferðinni... því aldrei skyldi maður vilja bjóða fólki upp á ferð í erfiðu veðri og engu skyggni og engan tind heldur... þetta var sannarlega sætur sigur á erfiðri ferð...

Áður en Örn lagði af stað niður voru einhverjir lagðir af stað á undan... hér er því lexía númer 11... ekki leggja af stað á undan fararstjóra nema í samráði við hann því það fylgja alltaf aðrir á eftir og skyndilega er hluti af hópnum farinn... þetta gerist oft í okkar ferðum og hefur stundum spillt fyrir að ná að fara aðra leið til baka eða ná hópmynd á mergjuðum stað en mest um vert er að þetta getur ógnað öryggi og haft áhrif á endanlegt leiðarval...

Það gerði það samt ekki í þessu tilfelli því þegar komið var að erfiðustu brekkunni niður af Botnaskyrtunnu var Örn kominn fremstur og réð ferðinni og valdi að fara sömu leið niður og komið var upp í þokunni fyrr um daginn... niður bröttu brekkuna þar sem stelpurnar renna af stað... meira aflíðandi leið var hins vegar lengra til vinstri þar sem hægt var hugsanlega að halda smá hæð utan í norðurhlíð Miðtinds... lexía 12 því hér að velja alltaf mest aflíðandi leið niður þar sem niðurgönguleiðir á jöklabroddum eru krefjandi og slysgjarnar með meiru... þó vel hafi gengið að fara upp því það er slysahættuminna en að fara niður...

Hér eru menn í góðum málum ennþá og leiðin aflíðandi ofan af Botnaskyrtunnu en neðar kemur smá brún og brött brekka niður sem endar í dæld og allt á kafi í snjó svo hvergi var í raun áhætta við þessa leið nema brattinn... engir gljúfur né klettar sem hægt var að fara fram af né grjót sem hægt var að rekast í og dæld sem myndi alltaf stoppa menn ef þeir rynnu af stað... þetta var því ekta brekka sem myndi henta fyrir ísaxarbremsuæfingu...

Á þessum tímapunkti rennur Sigga Lár af stað niður brekkuna sem liggur neðst í Botnaskyrtunnu áður en dældin tekur við og svo ásinn milli fjalla við Miðtind Ljósufjalla... hún rennur framhjá Erni og fremstu mönnum og Örn fer til hennar þegar hún er komin niður en þegar hann er að huga að Siggu kemur Linda rennandi líka niður... og ljóst er að báðar hafa slasast á ökkla...

Þó nokkrir sáu stelpurnar ekki renna niður og einhverjir héldu að þær hefðu rennt sér niður viljandi... að sögn Agnars vildu einhverjir fara meira aflíðandi leiðina sem var lengra til vinstri og missa þannig minna hæð og sáu fyrir sér að stelpurnar sem voru að renna sér myndu bara hitta á hópinn þar... algerlega grunlaus um að það var slys... lýsingar manna eins og alltaf þegar slys verða eru ólíkar og stundum óljósar að hluta og stundum passa hlutirnir ekki þegar lýsingar eru bornar saman...

Hér er greinagóð lýsing Gullu af slysinu
sem hún lýsir fyrir Siggu á lokaða fb-hóp Toppfara:

"Linda var nýlögð af stað niður þegar hún varð greinilega óörugg og settist. Við kölluðum til hennar að taka hlífina af öxinni sinni sem hún gerði og þú (Sigga Lár) kallaðir til hennar hvort þú ættir að vera á undan sem hún vildi. Þú fórst því vinstra megin til hliðar við hana og stóðst augnablik þar og ég held að þú hafir verið að lagfæra þig eitthvað þegar allt í einu er bara eins og fótunum sé kippti undan þér og þú skutlast einhvern veginn niður. Þú náðir að snúa þér og nota exina aðeins þegar þú varst komin um hálfa leið niður kannski en misstir hana annað hvort eða slepptir henni og veifaðir svo þegar þú stoppaðir neðst. Lindu var greinilega um og ó þegar þetta gerðist og var eitthvað að mjaka sér en rann þá jafn skyndilega af stað og setti fæturnar fyrir sig (annan eða báða, ég sá það ekki vel). Þá snerist hún á hlið og rann á fleygiferð niður, snerist í hring á leiðinni og missti bæði staf og exi."

Linda staðfesti þessa lýsingu og sagði þessu rétt lýst af Gullu.

Lexíurnar hér eru nokkrar:

13 lexían í þessari ferð sú að það er best er að vera alltaf algerlega mættur í brekkunar þegar gengið er um brattar brekkur á jöklabroddum og með ísexi í hönd.  Vera mættur þannig að maður er stöðugt viðbúinn því að þurfa að beita ísaxarbremsu ef maður skyldi renna af stað. Þannig skal maður venja sig á að þegar maður er kominn á broddana og með ísexina í hönd á göngu á láglendinu að grípa þá öðruhvoru í ísexina eins og maður sé að fara að beita bremsunni, þ.e. hægri hendi með breiða skaftið að sér og beitta skaftið fram (fer þá inn í ísinn) í axlarhæð og neðri endinn með vinstri hendinni við mjaðmakambinn, hafa exina þétt upp að líkamanum og ímynda sér að maður noti svo hnén til að stöðva sig ásamt ísexinni og lyfta alltaf upp fótunum þannig að broddarnir rekist hvergi í ísinn. Mikilvægasta reglan ef maður rennur af stað niður brekku á jöklabroddum er að passa að vera á maganum en ekki á bakinu til að geta passað að láta broddana hvergi snerta jörðina því þá kemur mikið högg á ökklanna sem yfirleitt brotnar og líkaminn byrjar an endasendast niður brekkuna og slæst til eða frá þar sem broddarnir gefa snögt viðnám í ísnum svo líkaminn breytir stöðugt um stefnu og maður hefur enga stjórn á líkamanum. Næst mikilvægast er svo að reyna að stöðva sig með ísexinni sbr. nánari reglur um ísaxarbremsu. Ef maður er ekki með exi í hönd þá er eina ráðið að stöðva sig með olnbogunum og hnjánum. Að lokum skal tekið fram að það er ekki ráðlegt að vera með stóra hluti hangandi framan á sér svo maður geti runnið á maganum en ekki bakinu niður svona brekku, stórir vatnsbrúsar eða bakpoki sem maður heldur á fyrir aðra manneskju eru dæmi um hluti sem eiga ekki að vera framan á manni þegar farið er niður svona brekku.

Lexía 14 er sú að þegar maður stendur í brekku á jöklabroddunum þá má maður ekki setjast því þá flytur maður þungann af fótunum og þ.a.l. frá broddunum sem eru það eina sem halda manni á ísnum og yfir á afturendann sem er yfirleitt klæddur í sleipan útivistarfatnað sem virkar eins og sleði þannig að það aukast mjög líkurnar á að renna af stað ef maður er sestur í ísaða brekku á broddunum.

Lexía 15 er sú að allur búnaður þarf að vera réttur og tilbúinn til notkunar, hlífin á ekki að vera á ísexinni og broddarnir verða að vera rétt festir á skóna og þéttir á skónum þannig að þeir renni ekkert til en á þetta reyndi á Heiðarhorni rúmri viku áður og tók heilmikinn tíma að lagfæra en leystist þar að lokum (ekki vandamál í þessari ferð hér samt).

Lexía 16 er sú að æfa vel göngu á jöklabroddum og ísaxarbremsu reglulega og alltaf í byrjun hvers vetrar. Þjálfarar eru að spá í hvort það þurfi að vera sérstök æfing fyrir fyrstu vetrarferðina eða jafnvel hafa námskeið sem menn verðar þá að mæta á. Þetta er auðveldara að segja en framkvæma því oft vantar aðstöðu til æfinga, færi, verður og fjall og t.d. ekkert færi til að æfa ísaxarbremsu nema efst í fjöllunum eins og þennan dag því nú er láglendið og öll lægri fjöll snjólaus... en það er yfirleitt hægt að finna brekkur í Bláfjöllum samt og vegurinn þangað upp eftir yfirleitt opinn og því hægt að komast í talsverða hæð til að ná æfingu (500 m). Í þessu tilfelli voru bæði Linda og Sigga Lár báðar nýbúnar að vera í göngum þar sem jöklabroddar og ísexi var notað svo þær voru í raun komnar í þennan vetrargír, Linda hafði að sögn margsinnis æft ísaxarbremsu á alla vegu í gegnum árin, Sigga var níu dögum áður búin að vera með okkur á Heiðarhorni þar sem við fórum vel yfir þetta og hún spáði sérstaklega mikið í þennan öryggisbúnað fyrir þessa ferð svo undirbúningur þeirra var góður.

Lexía 17 er sú að þetta slys sýnir því vel hvernig þetta getur gerst hjá öllum óháð fyrri undirbúningi. Líklega þurfum við að æfa betur erfiðar brekkur þannig að okkur sé það tamt að fara varlega í þær, vera algerlega mættur í brekkuna, ekki óöruggur og tilbúinn í ísaxarbremsu ef á þarf að halda. Það er okkar reynsla samt að ísaxarbremsa hljómar vel og er auðvelt á æfingu þar sem snjórinn er oft mýkri og allar aðstæður viðráðanlegar og maður er í gírnum og viðbúinn að beita henni - en svo þegar maður rennur fyrirvaralaust af stað, þá er erfitt að fara skyndilega að beita exinni þegar maður er strax kominn á ógnarhraða niður og hlífðarfötin eru eins og sleði sem auka hraðann grimmt í rennslinu.

Lexía 18 er því vangavelta... hlífðarfatnaðurinn hentar sérlega illa þegar maður rennur af stað niður ísaða brekku, fatnaðurinn reykur hraðann mjög hratt og virkar eins og sleði. Er ekki spurning að hanna útivistarföt sem eru ekki svona sleip ? Er ráð að klæða sig hreinlega í ull að ofan og neðan áður en farið er í svona brekkur þannig að ullin dragi úr hraðanum á ísnum ef maður skyldi renna ? Ja, það er alveg spurning ! Þjálfarar eru alvarlega að spá í að prjóna sérstakar ullarbuxur til að fara í fyrir svona brekkur... og pakka niður jakkanum og vera í ullarpeysunni yst... það myndi án efa draga úr hraðanum...

Nú annað ráð er að sleppa bara svona brekkum... við höfum verið að gera það frá því slysið var á Skessuhorni árið 2009... en það versta er að þessar brekkur eru bara um allt... maður kemst ekki hjá þeim ef maður er á annað borð að ganga á fjöll að vetri til...

Svo er endalaust hægt að spá... á að vera með bandið á ísexinni vafið um handlegginn... ísexin hennar Siggu Lár slóst í andlitið á henni og hún fleygði henni frá sér í kjölfarið til varnar... o.s.frv...

Önnur vangavelta fær einnig að vera lexía... nr. 19; það að fara í jöklabrodda er almennt örlagaríkt því þar með aukast mjög líkurnar á að maður ökklabrotni ef maður rennur af stað niður brekkur (frekar en að renna á keðjubroddum eða engum broddum). Þetta er þekkt tölfræði innan fjallamennskunnar. Líkurnar á að detta almennt í göngunni aukast einnig talsvert við að taka stafina af fólki og láta það fá lága ísexi í hönd og ekkert í hina höndina. Þar með er EKKI veri að segja að menn eigi ekki að vera í þessum búnaði, eingöngu að með því að fara í hann, þá eykst fallhættan þar með og ökklabrotshættan þar með líka.

Þeir sem eru mjög háðir stöfunum sínum og vanir að hafa þá til að halda jafnvægi og styða sig í brekkum, líður oft illa að missa þá og þurfa að halda á einni ísexi í annarri hendi, þeir verða jafnvægislausari þar með og eiga stundum í erfiðleikum að fóta sig örugglega. Þar með er NB ekki sagt að ísexinnar sé ekki þörf, hún er bókstaflega nauðsynleg þegar gengið er í snjóbrekkum enda duga stafirnir oft ekki þá til að ná taki í ísnum og geta þeir þá beinlínis verið hættulegir þar sem menn stinga þeim niður og þeir renna til á ísnum (og þar með aukinm fallhætta af stöfunum NB) og með tímanum finnur maður hversu gott er að hafa ísexina í ísuðum brekkum við vissar aðstæður. Það er engu að síður staðreynd að um leið og brekkan kallar ekki á ísexi heldur frekar á góðan stuðning til jafnvægis, þá er fallhættan meiri þar sem óvanir eru ekki komnir með lag á að nýta exina til jafnvægis og þá vantar stafina í báðar hendur til stuðnings... fallhættan þar með aukin...

Lausnin við þessu er m. a. sú að hver og einn æfi sig oft í þessum búnaði, fari oft að vetri til á jöklabroddana með ísexi í hönd og æfi notkun þessa búnaðar... en það er auðvelt að segja einmitt þetta... allt annað að framkvæma það... önnur lausn er að æfa sérstaklega jafnvægið og venja sig á að vera ekki alltaf með stafina í göngum, vera þannig ekki of háður stöfunum... mæta t. d. alltaf bara í löngu ferðirnar með stafina en ekki á þriðjudagsæfingarnar og venja sig þannig á að halda jafnvægi á fótunum og eingöngu með því að styðja sig við landslagið með hendinni eða með exi... þriðja lausnin er sú að forðast brekkur þar sem nota þarf þennan búnað og sú fjórða að sleppa honum alveg með því að sniðganga fjalllendi að vetri til eftir fremsta megni... það versta er að það eru alltaf einhverjar brekkur...

Já, þetta er margslungið... því að þó að þetta sé nauðsynlegur öryggisbúnaður í öllum snjóbrekkum að vetri til, þá er það okkar niðurstaða og án efa þeirra leiðsögumanna sem fara mikið með fólk á fjöll þar sem misvanir göngumenn eru skyndilega komnir á jöklabrodda og með ísexi í hönd - að bara við þessa einföldu öryggisaðgerð, að láta fólk fara í jöklabrodda og taka ísexi í hönd og pakka niður stöfunum - þá ertu búinn að auka slysahættuna töluvert og því nauðsynlegt að brýna þetta vel fyrir öllum fyrir allar vetrarferðir og í hvert sinn sem farið er á jöklabroddana... að gæta að jafnvæginu, fallhættunni og ekki láta broddana snerta jöfðina ef þeir renna af stað... alger lykilatriði...

Óraunsæ, ósanngjörn og ómálefnaleg umræðan á netmiðlum í vetur og svo oft áður í gegnum árin gegn keðjubroddunum hefur t. d. aldrei litið til þessa sjónarhorns og sama hversu vel þetta hljómar að "allir eigi að vera á jöklabroddum og með ísexi á fjöllum að vetri til" þá er málið einfaldlega flóknara en svo, það er í mörg horn að líta og það er staðreynd að það getur reynst örlagaríkt að setja fólk í þennan búnað, sérstaklega ef það er óöruggt án göngustafanna sinna þó það sé algerlega nauðsynlegt við vissar aðstæður.

Meðan á öllu þessu stóð gengu Bára og Arngrímur grunlaus með öllu niður heiðina... yfir margar snjóbrýr og alls kyns svellbunka því leiðin um heiðina var varasöm í þessu færi...

En fegurðin var mikil...

Vorið var áþreifanlegt...

Íshjarta á hvolfi... á þessum tímapunkti hringdi Örn í Bára og lét hana vita af slysinu sem var algert áfall...

Í lýsingum hópsins hlupu Örn og Agnar í sitthvora áttina upp í hlíðarnar til að ná símasambandi og komust báðir í samband við Neyðarlínuna sem fékk nákvæma staðsetningu á slysstaðnum með gps-hnitunum... hér er því lexía nr. 20 sú að það er gott að þekkja gps-hnitin í tækinu sínu og kunna að gefa þau upp ef maður þarf að hringja í Neyðarlínuna... þetta er annars vegar lengdargráðan norður (N) sem er á Íslandi og segir með 7 stafa tölu hversu langt norður við erum og hins vegar lengdargráðan suður (S) sem er sunnan við miðbaug... og svo breiddargráðan vestur (W) sem er á Íslandi eða austur (A) sem er ekki á Íslandi og táknar þá vestan eða austan við Greenwich í Bretlandi og sú lína frá norðri til suðurs. þetta eru því tvær tölur sem eru 8 stafa langar, fyrst bókstafurinn N sem dæmi og svo gráðan  og svo tveggja stafa tala sem eru mínúturnar og svo þriggja stafa talan sem eru sekúndurnar:

Hver einasti gps-punktur á því sína tölu...

Örn merkti slysstaðinn með nöfnum stelpnanna "SiggaLinda" og gps-hnitin á þeim stað voru eftirfarandi:

N64°66.152´
W22°34.374´

Sjá hér Vísindavefinn:
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64288#

Hér eru mjög góðar leiðbeiningar fyrir alla til að nota gps-tækið sitt... við þurfum svo að fá námskeið í gps-rötun !
http://www.jonas.is/kennslubok-i-gps-fyrir-thig-og-mig/

Og hér:
https://whitneyschev.com/leer-coordenadas-gps-como-46c66c0e-2a688d2

Eftir þetta símtal var Bára þjálfari friðlaus með öllu og átti erfitt með að vera að dóla sér niður eftir með Arngrími...

Hún fór strax að huga að því að snúa við um leið og Arngrímur væri kominn í höfn og aðstoða hópinn á leið niður eftir þar sem ljóst var að einhverjir yrðu eftir með hinum slösuðu og hópurinn yrði að koma sér niður eftir á eigin vegum eða með Erni eftir því hverjir væru á slysstað áfram...

Þegar við komum fram á brúnina þar sem bílarnir blasa við sendi Bára Arngrím einan síðasta spölinn niður eftir og sneri við upp eftir aftur á móti hópnum...

Ein að fara sína þriðju ferð um þessar slóðir mat hún landslagið og spáði í hvar væri best að fara með hópinn til baka án þess að lenda í vandræðum eða auka slysahættu því allt í einu voru allar þessar tjarnir og lækir og snjóbrýr og klakabunkar slysagildrur sem hentuðu ekki mjög þreyttum og óþreyjufullum hópi fólks sem hafði upplifað slys lengst uppi í fjöllunum og þyrfti að koma sér til byggða dauðþreytt og jafnvel orkulítið og örmagna eftir daginn... og það í myrkri því degi var verulega tekið að halla og stutt í rökkrið að manni fannst... þarna ákvað hún því að fara lengra til vinstri eða austar á leið með hópinn niður eftir og gera ráð fyrir að lenda í algeru myrkri þar sem ekki væri fýsilegt að menn fengju erfiðar brekkur, mikinn klaka, tjarnir, veikar snjóbrýr eða slysagildrur á leið sinni...

Á meðan á slysstað... Örn vafði strax ökklann á Siggu Lár með teygjubindi þaulvanur slíkum vafningi fyrir sig og íþróttasynina og var hún var mjög þakklát fyrir þann vafning því hún gat svo farið í skóna sína og notað þá sem hlíf og sem spelku meðan beðið var björgunar... Gulla hjfr. og ljósmóðir vafði ökklann á Linda einnig af stakri fagmennsku... Sigga Lár var með álteppi og eins Siggi sem nú komu að góðum notum og einangruðu mjög hina slösuðu... sessur frá fleiri en einum voru settar undir stelpurnar til að einangra frá jörðinni... o.s.frv... en það reynir virkilega á að vera með neyðarbúnað þegar slys verða á fjöllum og þá er neyðarskýli í raun það besta...

Bjarni var með sterk verkjalyf sem komu að góðum notum og Kolbeinn var með prímus sem hitaði "milljón dollara kaffið" sem skipti sköpum í hitastjórnun og andlegri líðan... en það vantaði neyðarskýlið... þjálfarar eiga bara eitt og það er eins manns... og Bára var með það... en þeir eru með tvö álteppi á mann og bæði með almennan lágmarks neyðarbúnað (verkjalyf, plástra, teygjubindi, sárabindi, kælipoka, hitapúða, brunagrisjur, fatla, íþróttatape, blöðruplástur o.fl...

Hér er því lexía númer 21 sem er mjög mikilvæg og undirstrikar vel hversu mikilvægt það er að ALLIR séu með lágmarksneyðarbúnað og hversu mikilvægt það sé að þjálfarar séu með allan slíkan búnað báðir.

Neyðarbúnaður allra í fjallgöngum:

Álteppi/álpoka, verkjalyf, plástrar (litla og stóra), sáragrisjur, sárabindi, teygjubindi, hitapúða (hand-warmers), íþróttatape (duck-tape), blöðruplástra (secon skiin) og svo fleira ef menn eru fararstjórar eins og neyðarskýli o.fl.

Menn skiptust á að liggja hjá stelpunum og halda á þeim hita og þarna skiptu álteppin algerlega sköpum.

Ef meiðsli á slysstað eru ekki lífsógnandi þá er ofkæling líklega hættulegasta ógnin meðan beðið er...
Hér er því komin lexía nr.
22... að hindra ofkælingu á slysstað þar til björgun berst og þarna stóð hópurinn sig einstaklega vel.

Hitatapið er mest frá líkama niður í jörð nema vindurinn sé þeim mun meiri:
Setja undir líkamann sessur, tóma bakpoka eða álíka til að einangra hitann milli líkama og jarðar.
Nota álpoka eða álteppi eða plastpoka til að vefja utan um hina slösuðu.
Nota líkamshitann frá hinum óslösuðu með því að skiptast á að leggjast hjá hinum slösuðu og á meðan hreyfa hinir sig (grafa t.d. skýli eða sinna öðrum hlutverkum og svo borða til að viðhalda brennslu og hita í líkamanu með hitaeiningum matarins.
Hægt er að nota hund sem hitagjafa með því að koma honum fyrir á góðum stað við sig, sérstaklega ef maður er einn á ferð og eru til dæmi um að þetta hafi skipt sköpum á Íslandi og eitt dæmi af mörgum um hversu gott er að hafa hund með sér á fjalli.
E
innig er hægt að nota plastpokana sem margir eru með innan í bakpokunum sínum sem einangrun því þeir einangra eins og álteppi og eru vatnsheldir og vindheldir.
Þá eru oft sessur í bakinu á sumum bakpokum sem hægt er að taka út og nota til einangrunar.

 í slysinu okkar á Skessuhorni árið 2009 raðaði Jón Gauti okkur í þrjá hópa þar sem einn hópurinn borðaði... annar mokaði snjóhús og hélt sér þannig mjög heitum... og loks lagðist þriðji hópurinn við hliðina á Siggu Sig sem þá lá meðvitundarlaus með höfuðáverka í snjónum... eftir að hafa mokað mættu menn heitir af vinnu við hliðina á Siggu... kólnuðu þar við kyrrsetuna... fengu sér svo að borða þegar þeir voru leystir af... og fóru svo að moka... og aftur til Siggu... já, lærdómurinn úr þeirri ferð var mjög mikill... ens og í þessari...

http://www.fjallgongur.is/tindur21_skessuhorn_280309.htm

Hópurinn beið í 2,5 klst. eftir björgunarsveitarmönnunum og á slíkum tíma reynir vel á andlegt atgervi allra... allar tilfinningar og hugsanir sækja á og strákarnir voru að sögn stelpnanna sérlega flinkir í að slá á létta strengi og margir milljón dollara brandarar voru sagðir meðan á biðinni stóð... hver og einn með sína styrkleika og allir léttir í sinni en þarna lagði Þorleifur ekki síst fram sinn einstaka húmor og æðruleysi sem við njótum öll alltaf góðs af í öllum okkar ferðum... þar fer maður sem lætur ekkert slá sig út af laginu og er strax byrjaður að reita af sér brandara þegar mest á móti blæs...

Lexía nr. 23 er því sú að sama hvað á gengur er mikilvægt að halda lundinni léttri, slá á létta strengi og sjá hið kómíska við aðstæðurnar, benda á það jákvæða, hvetjaog hughreysta hina slösuðu og aðra á slysstað áfram og beina uppgjöf eða neikvæðum hugsunum markvisst í burtu því hugarfarið ræður bókstaflega öllu... jákvætt og létt andrúmsloft... hlátur og bros eru án efa heilandi og orkugefandi og draga án efa úr afleiðingum meiðsla og veikinda við þessar aðstæður...

Síminn hjá Erni varð fljótt rafmagnslaus þar sem hann hafði farið að taka ljósmyndir og myndbönd eftir að Bára sneri við en hún sér almennt um slíkt í göngunum þar sem Örn er upptekinn við rötun... en eftir símtöl við Neyðarlínuna og við Báru oftar en einu sinni varð síminn hans rafmagnslaus... og þá reyndi á að aðrir væru með síma sem virkaði og auka hleðslurafhlöðu en Agnar sá um samskiptin við björgunarsveitirnar og við Báru eftir að ekki náðist lengur í Örn og skipti þarna öllu máli að hans sími virkaði allan tímann því það var líka mikilvægt að heyra í þeim eftir að þeir voru fimm lagðir af stað einir til byggða eftir að björgunarsveitin var farin, myrkur skollið á og úrkoma...

Bára var með hleðslurafhlöðu fyrir tvo síma í bakpokanum sínum (þar sem hún tæmir iðulega símann við myndatökur) og lexía nr. 24 því sú að allir séu með hleðslurafhlöðu fyrir símann sinn, því ef halda þarf kyrru fyrir og kalla á hjálp er lykilatriði að vera ekki með rafmagnslausan síma og ekki sjálfgefið að einhver annar sé með næga hleðslu á símanum sínum... sérstaklega ef maður er einn á ferð eða fáir saman og enginn annar með aukarafhlöður... á þetta hefur reynt mjög oft í slysum á Íslandi...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Það var ólýsanlegur léttir þegar björgunarsveitarmennirnir komu á staðinn að sögn þeirra sem biðu á slysstaðnum... en Agnar var í stöðugu sambandi við þá, þekkti nokkra þeirra og gekk hann á móti þeim til að lóðsa þá á slysstaðinn en þeir voru með gps-punktana sem voru gefnir upp við símtalið til Neyðarlínunnar og gátu þannig staðsett hópinn mjög vel... Lexía nr 25 því sú að það er gott að hafa einhvern sem treystir sér til að lóðsa björgunarsveitina inn á staðinn til að flýta fyrir... takk kærlega Agnar :-)


Mynd frá Siggu Lár ?

Handtökin voru fumlaus... ökklarnir settir í spelkur og stelpunum komið fyrir í buggý-bílnum...
stemningin var vinaleg og létt... en við fengum síðar að vita að það hefðu fleiri björgunarsveitarmenn viljað fara í þetta útkall en fóru og menn voru ánægðir að ná að prófa nýjustu græjurnar, buggýbílinn og fjórhjólin sem nýttust vel í þessu slysi svo samviskubitið sem hrjáði okkur linaðist mikið við að heyra þetta... en okkur fannst og finnst það langt í frá sjálfgefið að menn komi alla leið upp í fjöllin til að aðstoða okkur vegna óhapps sem rekja mátti til þess að við hefðum nú bara getað verið í bænum eða á Esjunni...
Lexía nr. 26 er því sú að allir styrki björgunarsveitirnar markvisst og gerist "vinir" þeirra með mánaðarlegri greiðslu... þannig leggjum við okkar í púkkið til að þessi ómetanlega þjónusta sé virkilega í boði þegar maður lendir í slysi uppi í óbyggðunum...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Á leið niður fjalllendið að staðnum þar sem þyrlan gat lent... valt buggý-bílinn... sem jók enn á ævintýrið hjá stelpunum...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Sjá staðsetninguna úr þyrlunni...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Holrúm gaf sig í snjónum og þess vegna valt bíllinn...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Mynd frá Berserkjum af gps-punktinum sem strákarnir gáfu Neyðarlínunni upp um staðsetningu hópsins...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Þetta var björgunarsveitin Berserkir, Klakkur og Lífsbjörg sem komu að þessari björgun og svo Landhelgisgæslan á þyrlunni... hjartansþakkir elsku afreksmenn og öðlingar... án ykkar hefði verið mjög erfitt að koma stelpunum til byggða klakklaust...


Mynd frá fb-síðu Berserkja Stykkishólmi.

Staðsetning þyrlunnar í lendunum neðan við hlíðar Botnaskyrtunnu og Ljósufjalla...


Mynd frá Siggu Lár.

Ferðin með þyrlunni tók einhverjar mínútur... og var sérkennileg upplifun að sögn stelpnanna... þær voru komnar til Reykjavíkur meðan við vorum enn á fjalli... og búnar í röntgen-myndatöku þegar síðustu menn skiluðu sér niður til byggða...

Meðan á björgunaraðgerðinni stóð var Bára gangandi upp eftir aftur... og hér komin upp á hryggina sem renna niður af Ljósufjöllum og skildi ekkert í því að vera ekki búin að sjá hópinn ennþá... heyrði þyrluna sveima yfir... líklega á þessum tímapunkti að fara með stelpurnar niður eftir... og hún farin að velta því fyrir sér hvort hópurinn hefði farið framhjá henni og orðið viðskila... hún ákvað að ganga upp að beygjunni að Botnaskyrtunnu við Ljósufjöllin og fara svo til baka þar sem hópurinn hlyti þá að hafa farið framhjá...

En þar sem hún var í þessum vangaveltum heyrðist skyndilega mannamál... og þarna voru þau... ótrúlega falleg sjón... hópurinn samankominn niðri við ásinn... Bára kallaði til þeirra hvort allt væri í lagi og það var yndislegt að fá svarið... jú allt í lagi með alla... þau báru sig ótrúlega vel og virtust í góðum málum... allir ölvaðir af gleði yfir tindinum á Botnaskyrtunnu og miður sín um leið yfir slysinu... en brosið og gleðin var augljós... að var enginn í vandræðum en Bára hafði átt von á því að menn væru misvel á sig komnir og sumir orðnir örmagna eða mjög þreyttir og ekki í ástandi til að fara alla þessa leið til baka... en það var aldeilis ekki... ótrúlega gott ástandið á öllum í hópnum... magnað alveg !

Lexía nr. 27 því hér... fólk á almennt meira inni en það heldur þegar á reynir og hefur orku til að koma sér til byggða og bjarga sér þrátt fyrir mjög langan og krefjandi dag þegar það skiptir máli... þreytan kemur svo seinna... þegar hugurinn leyfir henni að komast að...

Björgólfur hafði tekið af sér fararstjórn til baka og Vilhjálmur að passa síðasta mann... Helga Rún og fleiri voru með slóðin a frá því fyrr um daginn í gps-tækinu sínu og því vorum við í góðum málum með rötun... Bára hélt sama arkinu niður eftir og hún var búin að vera í á leið upp eftir... se var líklega heldur hratt fyrir suma í hópnum en allir samt sammála því að halda vel áfram og fara rösklega niður efitr því þetta væri það margir kílómetrar og það var að skella á myrkur...

Bára reyndi að halda sig vinstra megin við gps-slóðirnar frá því fyrr um daginn til að sniðganga snjóbrýrnar, lækina, tjarnirnar, hólana og brekkurnar... og fór of langt frá slóðinni til austurs þannig að leiðin lengdist líklega um 1 kílómetra eða svo... þreytan var farin að segja til sín og heilanum fannst þetta ekki vera svona langt... úrið sagði henni að fara lengra til hægri en stóra tækið að fara lengra til vinstri... og hún fór eftir stóra tækinu en ruglaðist þar sem annað beindist norður en hitt eftir göngustefnu... þarna var þreytan farin að segja til sín og það að vera ekki vön því að elta gps í göngunum... þessi austurleið var jú ekki eins slysahættuleg en hún var alveg erfið og bauð upp á þýft landslag í staðinn og ógreiðfært á köflum...  lexía þjálfara hér því nr. 28... að þó það sé gott að vera svona verkaskipt sem fararstjórar hópsins þar sem Örn sér m. a. um rötun o.fl. og Bára um myndatökur og sýnikennslu o.fl. þá getum við bæði lent í að vera skyndilega ein á ferð og ekki með hitt með og þá þarf Bára að vera örugg í rötun og Örn meðvitaður um að fara yfir öryggisatriði eins og broddanotkun og ísexina...

Á allir þessari leið hefði hún viljað ná að ræða meira við alla um daginn, bæði jákvæðu upplifunina sem menn voru augljóslega algerlega hífaðir eftir af tindi Botnaskyrtunnu og sögðust aldrei hafa viljað missa af... en ekki síður upplifunina af slysinu en hún gaf sér lítinn tíma til að spjalla þar sem hún var upptekin við að rata..

Þegar hópurinn kom niður stakk Jón Bragason upp á því að allir fengju sér að borða í Hyrnunni í Borgarnesi og viðruðu daginn saman... það var frábær hugmynd enda alltaf gott að tala saman eftir svona atburð þar sem mikilvægt er að fara yfir ólíka upplifun og vangaveltur... Bára var hikandi að fara með þó hún hefði þurfti og viljað það... eitthvað fékk hana til að vilja bíða eftir strákunum þar sem þeir voru nú gangandi þreyttir fimm saman í myrkrinu alla þessa leið og það var komin rigning... auk þess þurfti hundurinn Batman að fá þá far með öðrum bíl sem hefði verið vesen... hún bara varð að bíða eftir síðasta manni niður... en samt var svo gott að fara með hópnum og viðra ferðina betur því hún hafði ekki spjallað nægilega við menn á leið niður... Lexía nr. 29 því hér að það er dýrmætt að viðra svona atburð saman áður en allir fara heim sem nánast allir gerðu á heimleið... takk Jón Bragason :-)

Meðan síðustu menn keyrðu í burtu kom eigandinn að bænum Kleifárvöllum á staðinn, ekki bóndinn á bænum heldur höfuðborgarbúi sem á núna býlið og var ekki sáttur við förin sem myndast höfðu eftir bílana á staðnum og reiðin hans var eðlileg. Bára var miður sín, baðst marg sinnis afsökunar og bauðst til að laga þetta eða greiða fyrir lagfæringar á þessu. Hún sagðist hafa 1,5 klst. til að laga jarðveginn og hefði verkfæri til þess þar sem hún ætlaði að bíða eftir strákunum og þarna var útséð með að hún þurfti ekki lengur að velja hvort hún færi í Borgarnes með hópnum eða biði eftir strákunum... þetta var gott verkefni... að slétta úr jarðveginum með ísexina að vopni... Vilhjálmur bauðst til að hjálpa henni en hún afþakkaði það ákveðin, það var mikilvægast að allir kæmu sér til baka heim á leið eftir mjög langan og erfiðan dag...

 

Þetta var þolinmæðisverk sem tók langan tíma en það var eitthvað heilandi og gott við þetta... mýkti skelfdan hugann sem var í sjokki yfir þessu slysi... sálin fann að hún var varla að geta lifað af annað slys í fjallgönguklúbbnum eftir reynsluna af Skessuhornsslysinu árið 2009... og hugsanir um að hætta með fjallgönguklúbbinn sóttu mikið á... og því var eitthvað heilandi við að lagfæra það sem betur mátti fara því það var eðlilegt að staðarhaldari væri ekki sáttur, förin voru djúp í gljúpum jarðveginum og mjög leiðinlegt að skilja eftir sig svona för... eftir rúma klukkustund við þetta bjástur tók hún þessa mynd af ástandinu... búin að slétta vel úr förunum... en lexía nr. 30 er hér... ef við náum ekki í neinn á svæðinu við fjallsrætur þá verðum við að leggja bílunum við þjóðveginn og ganga þaðan... það sagði staðarhaldarinn að menn gerðu þegar þeir færu á Ljósufjöll, það hefði ekki munað mjög miklu í vegalengd, við sáum reyndar engan stað við þjóðveginn til að leggja bílunum og þurfum að skoða vel hvað við gerum næst þegar við göngum þarna upp eftir...

Því miður er það þróun mála frá því við byrjuðum með fjallgönguklúbbinn árið 2007 að það er sífellt erfiðara að fá að leggja bílum við fjallsrætur... við höfum alltaf lagt metnað okkar í að hringja í bónda og fá leyfi til að koma á svæðið og spyrja hvar við megum skilja bílana eftir... og án undantekingar fáum við jákvætt og hjálpsamt viðmót, bændur boðnir og búnir til að leyfa okkur að koma og bjóða okkur meira að segja iðulega bæjarhlaðið til að leggja sem við erum stundum feimin að fá að þiggja... gefa okkur gjarnan ráð og hafa sumir meira að segja kíkt eftir okkur og gefið okkur góðgæti að lokinni göngu... en sífellt oftar er enginn skráður með síma á svæðinu eins og í tilfelli... og sífellt oftar eru höfuðborgarbúar orðnir eigendur að landinu við fjallsrætur sem þýðir að þessi liðlegheit sem bændurnir í okkar ferðum heyra sögunni til og eru almennt ekki í boði hjá landeigendum innan höfuðborgarbúanna því miður... þetta á því líklega eftir að vera vaxandi vandamál næstu árin... og ekki hjálpar C19 til þar sem lítið eða ekkert má sameinast í bíla...

 

Eftir rúmlega klukkutíma lagfæringar á veginum settist Bára inn í bíl og hringdi í Lindu og Siggu Lár og náði í Siggu... þær voru í röntgenmyndatöku og ekki vitað með útkomuna... og þegar hún leggur símanum frá sér... sá hún ljós uppi í hlíðinni... strákarnir voru að leið niður síðustu brekkuna... magnað... allir sprækir að sjá og hressir í viðmóti... ekki áberandi þreytu að sjá á þeim... afreksmenn með meiru allir með tölu !

En... þrír bílanna voru ennþá innan við svæðið þar sem Bára var nýbúin að laga allt saman... og það þurfti að draga bílinn hans Kolbeins upp úr grasdældinni... og óvíst var hvort bíllinn hans Þorleifs kæmist þarna inn eftir þetta gekk samt allt vel og við lagfærðum svo veginn eftir þessa þrjá bíla en það var þá bara eftir þeirra för en ekki úti í kanti eða annars staðar og gekk þetta vel...

Bára var útbýuð í drullu þegar heim var komið... leirsletturnar upp í andliti og hári og alls staðar...
en þetta var nauðsynlegt og gott að geta lagað svæðið eftir hópinn

Við biðjum staðarhaldara að kleifárvöllum innilega afsökunar á þessu og vonum að hann sé sáttur við okkur eftir þetta

Fréttirnar voru strax komnar á miðlana... en C19-smit tóku alla athyglina í fréttunum sem var léttir fyrir okkur...

Góðar kveðjur frá þeim sem fréttu þetta voru vel þegnar...
takk allir fyrir að senda okkur skilaboð og láta okkur vita að ykkur var umhugað um okkur...

Mögnuð ferð þó hún hefði endað svona óheppilega...

Eftir situr Sigga Lár með brotinn ökkla og í gifsi í nokkrar vikur þar sem vel reynir á æðruleysið... Linda slapp betur með tognun á ökklanum en þær voru báðar illa marðar og bólgnar eftir fallið dagana á eftir þegar þjálfarar heimsóttu þær... viku síðar var Linda orðin göngufær en Sigga Lár með nokkrar vikur framundan í gifsi... báðar í toppformi og báðar með sterka persónuleika til að kljást við þetta verkefni og koma sterkari út úr þessari reynslu... við bíðum spennt eftir Siggu Lár... hún tekst ein á við lexíu nr. 31 sem er æðruleysið og það hversu mikið reynir á hugarfarið þegar á móti blæs í lífinu og þar kemur Sigga reynslumikil inn...

Við ætlum að fara aftur á Botnaskyrtunnu þegar þær eru tilbúnar til að heimsækja þennan stað aftur og þá að sumarlagi og norðan megin frá þar sem björgunarsveitirnar komu...

Gps-slóðin hér:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=68768204

Alls 25,5 km á 11:48 klst. upp í 1.006 m hæð með alls 1.561 m hækkun.
Stopp-tími var 5:17 og hreyfitími 6:31 á gps-tæki hjá Erni.
Á korti sýnist okkur að brekkan hafi verið 212 m löng en lækkunin um 70 m að sögn þeirra sem voru á staðnum
en þetta er eflaust erfitt að reikna alveg út nema mæla það sérstaklega eftir á.

Vangavelturnar eru ótal margar eftir svona slys og verða ekki taldar upp hér en margar eru komnar fram í ferðasögunni... allar viðbætur og athugasemdir vel þegnar til að bæta þessa frásögn svo við getum öll lært af reynslunni...

Regla númer eitt... verum góð hvert við annað... alltaf... og það er lexía númer 32... sendum góða strauma út í heiminn...
þá verður hann betri fyrir okkur öll að lifa í... :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: baraket(hjá)simnet.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir