Tindferð 203
Litla og Stóra Grænafjall og Skiptingahöfði
laugardaginn 15. ágúst 2020

Grænufjöll
... svo falleg, mjúk og formfögur ...
um afar sjaldfarnar slóðir með fágætu útsýni yfir fjallabakið allt
... fullkominn dagur á fjöllum ...

Mergjuð ferð með fágætu og algerlega stórfenglegu útsýni niður á Álftavatn, Háskerðing, Jökultungurnar o.m.fl.
og Laugavegsgönguleiðina útbreidda frá Hrafntinnuskeri niður í Þórsmörk svo áþreifanlega nálægt...

á Litla og Stóra Grænafjall laugardaginn 15. ágúst...

... mjög sjaldfarin fjöll... vissum ekki hvort við kæmumst upp á bæði
og enduðum á að fara upp og niður þrjá snarbratta tinda í lungamjúku grasi og mosa...
á bæði Litla o
g Stóra Grænafjall og Skiptingahöfða... með árnar Hvítmögu, Torfakvísl, Kaldaklofskvísl,
Innri Emstruá rennandi allar saman í Markarfljótið beint fyrir framan okkur...

... hvert glæsifjallið á fætur öðru allt í kring í návígi og frá allt öðru sjónarhorni en áður...
Hattfell, Stóra súla, Illasúla, Stórkonufell, Ýmir og Ýma, Brattháls, Torfatindar, Laufafell
og fjær sást í Strút og Mælifell á Mælifellssandi, jöklana o.m.fl...

... keyrt í rigningu og sudda úr bænum og inn í þokuna á hálendinu...
en skýin lyftu sér um leið og við lentum í Krók og smám saman tók sólin yfir allt saman...
algert logn og funhiti svo við vorum í vandræðum með að fækka fötum
því við áttum ekki von á svona heitri lognmollu og mikilli sól...

Algerlega fullkominn dagur á fjöllum... ekki hægt að biðja um meira...
grátlegt að fleiri skyldu ekki upplifa þennan stórkostlega könnunarleiðangur með okkur í þessari blíðu...

Það munaði hársbreidd að við aflýstum þessari ferð...

1. Veðurspáin var mjög tæp...
spáð rigningu á vesturhluta landsins og á vedur.is mátti sjá að úrkomubeltið var alveg við svæðið þar sem við ætluðum að ganga...

2. Miklar rigningar síðustu vikur á suðurlandi...
 ollu því að miklir vatnavextir voru í ám og Eystri Rangá sem var næst okkar svæði með mæli mældist mjög vatnsmikil
sólarhringinn fyrir okkar ferð...

3. Það var eingöngu jeppafært upp eftir...
 frá fyrstu ánni stuttu fyrir Hungurfit og jepplingafært frá þjóðvegi svo allir urðu að vera á öðru hvoru og allir í jeppum síðasta kaflann..

Kolbeinn og Guðmundur Víðir voru ákveðnir í að fara, báðir með jeppa og þegar við sáum að þeir voru búnir að borga þá var ljóst að þeir væru ákveðnir í að koma í þessa göngu... og það væri pottþétt jeppapláss fyrir 15 manns að meðtöldum jeppa þjálfaranna...
þá ákváðum við að láta slag standa þó við yrðum fá... og svo voru nokkrir aðrir harðákveðnir í að koma en ekki með jeppa
og samanlagt hélt þessi hópur uppi með jeppastrákunum...

Á endanum urðum við 14 manns...
á 5 jeppum (Agnar, Guðmundur Víðir, Kolbeinn, Vilhjálmur, Örn)...
en þessir fimm jeppar hefðu getað tekið alls 25 manns með í þessa göngu og því voru alls9 jeppapláss sem nýttust ekki þegar á hólminn var komið sem kennir okkur enn einu sinni að  að fara þó það sé dræm mæting...
það eru alltaf nægilega margir jeppar í þessum klúbbi þegar mætt er við Össur... við áttum að vita þetta :-)

Það var slagveður á fimmtudeginum og rigning á föstudeginum sem hjálpar aldrei til með að fólk drífi sig í tindferð...
en þeir sem höfðu vit á að treysta veðurspánni vissu að hún lofaði góðu veðri ef við værum heppin...
og gáfu því ekki eftir og pökkuðu bara í þessari rigningu... og vöknuðu á laugardagsmorgninun í þessari rigningu...
og keyrðu af stað frá Össur kl. 7:00 í þessari rigningu... og ypptu öxlum með þjálfurunum á Olís á Hellu í sömu rigningunni...
krossleggjandi fingur með að veðrið myndi vera með okkur handan við úrkomubeltið uppi á hálendinu...

... og það rættist... um leið og við byrjuðum að keyra upp frá Keldum og inn eftir Eystri Rangá sem rennur hér niður eftir...
þá lyftist þokan lítið eitt... og við tókum að sjá landslagið...

Sjá þokuna skríðandi um í fjöllunum... hingað komin á slóðann sem skiptist yfir að Laufafelli og Hungurfit...

Fyrsta vaðið var hér... rétt eftir beygjuna af Fjallabaksleið syðri inn í Hungurfit...
hér skildu Ágústa H. og Ásmundur jepplingana sína eftir og þáðu jeppafar hjá Agnari og Guðmundi Víði...
en Þorleifur og Silla komu upp í jeppa þjálfara við Keldur... og Kristbjörg fékk far hjá Agnari úr bænum...

Fleiri ár biðu okkar innar... Hungurskarðið við Hungurfit er alltaf ægifagurtævintýri...
og það var minna í ánum en við áttum von á...

Guðmundur Víðir hafði komið með þá skemmtilegu hugmynd fyrr í sumar að við myndum ekki keyra upp með Keldum heldur upp Fljótshlíðina
og þjálfarar heilluðust af þessari hugmynd og ákváðu að taka könnunarleiðangur upp eftir um verslunarmannahelgina
þar sem það voru nokkur ár síðan þeir höfðu verið þarna í könnunarleiðangri fyrir Grænufjöllin
og fannst hálf óþægilegt að muna ekki nægilega vel eftir aðstæðum...

Árnar virkuðu jafn vatnsmiklar og í þessum könnunarleiðangri þjálfara tveimur vikum áður...
en þá þeir keyrðu upp Fljótshlíðina yfir Gilsá upp í Mosa og þaðan inn í Krók um Þverárbotna sérlega ævintýralega og flotta leið...
sem þeir voru að fara í fyrsta sinn og áttu ekki til orð yfir fegurðinni...
og keyrðu svotil baka frá Grænufjöllum um Hungurfit og Keldur og spáðu í hvaða bílar kæmust hvað á báðum leiðum
og báru saman tímalengd og vegalengd...

Niðurstaðan var sú að Fljótshlíðarleiðin um Einhyrning og Þverárbotna var lengri, ógreiðfærari og seinfarari
en sú um Keldur og Hungurfit... og því varð síðarnefnda leiðin fyrir valinu þennan annan laugardag í ágúst...
en mikið var gaman að keyra Þverárbotnaleiðina... við mælum sannarlega með henni við alla jeppamenn !

Komin yfir ásinn og Grænufjöllin blöstu nú við á kafi í þokunni...

 ... en skýin bókstaflega lyftu sér ofan af fjöllunum fyrir framan okkur meðan við keyrðum inn eftir,
það var með ólíkindum flott að sjá það !
  Litla Grænafjall hér...

Allir með andlitsgrímur fyrir andlitinu... alls staðar þar sem ekki er hægt að tryggja 2ja metra regluna...

Nokkrar ár að fara yfir á leiðinni... sjaldfarin leið... en mögnuð...

Út úr bílnum inn í funhita og blíðu... stafalogn og hlýtt... við prísuðum okkursæl að hafa drifið í að fara þessa ferð á þessum tímapunkti
og hristum fegin af okkur rigninguna og þokuna sem var í bænum...

Lagt af stað kl. 10:24... það tók okkur 3 tíma að keyra upp eftir +  24 mínútur í Olísstopp á Hellu og við bílana að græja okkur....

Stóra Grænafjall byrjaði líka strax að bisast við að losa sig við skýin um leið og það sá okkur koma...
en það þurfti að berjast við þau í svolítinn tíma lengur áður en sólin kom til liðs við það og útrýmdi þeim nánast alveg...

Þjálfarar voru að ganga þessa leið í fyrsta sinn en höfðu legið yfir kortum og ljósmyndum á veraldarvefnum
þar sem lítið var að hafa annað en ljósmyndir frá gangnamönnum og Matx Wibe Lund...
engar göngumannamyndir né upplýsingar um göngur á þessi fjöll...

Fyrsti kaflinn var samt farinn á kindagötum og göngustíg sem liggur frá Laufafelli eða Hungurfitjum og niður í Fljótshlíð
og nokkrir Toppfara gengu sem dæmi undir leiðsögn Ágústar fyrr í sumar en þetta er hans heimasvæði
og við erum sammála honum í því að þetta er vanmetið svæði...

Sú gönguleið fer samt ekkert upp í Grænufjöllin þangað sem við ætluðum
og því yfirgáfum við fljótlega slóðann og héldum upp til heiða...

Því var það heiður mikill fyrir okkur sem þarna vorum...
að fá að kynnast þessum fjöllum án fyrirfram gefinna hugmynda, ljósmynda eða sagna frá öðrum...

Þar sem við vorum ekki viss hvar hæsti tindur Litla Grænafjalls væri...
eltum við merkingar á kortum og stefndum á fjallsbunguna í suðri sem virtist vera hæst
en reyndist svo ekkert vera nema smá bunga...

Litið til baka á leið upp Litla Grænafjall...
með réttu mætti segja að við værum í ríki Tindfjallajökuls á þessu svæði...
hann gnæfir yfir í vestri hér en var í þykkum skýjum á þessum tímapunkti dagsins...

Fyrsti tindur dagsins af þremur í fjarska... Skiptingahöfði nefnist hann á kortum...
við vorum að spá í að ganga beint á hann frá bílunum...
en ákváðum að fara fyrst upp á bunguna hér þar sem hún er merkt Litla Grænafjall...
en með réttu myndi maður halda að hæsti tindur LitlaGrænafjalls sé þá miðtindur dagsins... sjá síðar...

Leiðréttingar og athugasemdir vel þegnar varðandi þetta atriði !

Sáta og allur hennar fjallsrani frá norðaustri til suðvesturs að lyfta frá sér skýjunum...

Við stefndum á hæsta punkt hér...

Uppi var ekkert... enginn tindur... bara heiði og útsýnið niður til Innri Emstruár að renna inn í Markarfljótið...

Sjá mætinguna þarna fyrir neðan næstum því í sjónmáli... Markarfljótið hægra megin... Innri Emstruá fyrir miðri mynd...

Við áðum hér og borðuðum nesti í algeru logni og hlýjindum... eins og þetta hefði getað verði kuldalegur staður...

Kolbeinn var með prímusinn sinn og bauð Erni kaffisopa að vanda :-)

Eitthvað sérlega notalegt við þetta :-)

Við stefndum næst á Skiptingahöfða og tindana þrjá í Grænufjöllum
og vorum sammála því að þessi hæsti punktur hér gæti ekki talist sem hið eiginlega Litla Grænafjall eingöngu...

Tindarnir óðum að sjást undan þokunni... tveir minni hér á milli Skiptingahöfða og miðhöfðans...

Miðtindurinn vinstra megin... svo Stóra Grænafjal og Illasúla hægra megin... svo miklu minni en jafn fögur samt
og átti hún eftir að skreyta þennan dag heilmikið...

Allt að opnast smám saman...

Uppi á heiðinni var bílslóði... líklega gangnamenn fyrst og fremst... hann náði ótrúlega langt upp á fellin...
og gjaldfeldu heldur mikið tilfinninguna fyrir því að vera á göngu um svæði sem fáir ganga á...
en við reyndum að minna okkur á að mjög fáir ganga á sjálf fjöllin...
og líklega eru það helst gangnamenn sem fara bílslóðann...

Illasúla hér sú eina orðin skýlaus...

Sáta og Faxi orðin skýlaus...

Bílslóðinn ekki fallegur í fjöllunum... þetta var sorglegt að sjá í raun...
spyrja má hvort menn vilji hafa þennan slóða þarna og fari frekar á hestum í leitum ?

Við krosslögðum fingur... æj...
"það verður ekki spennandi að ganga á Stóra Grænafjall í þessari þoku... æj, vonandi rætist veðurspáin..."

Við lögðum í brekkurnar en landslagið þarna er nokkuð hnúkótt...

Komin fram á brúnirnar en annar nafnlaus hnúkur eftir...

Skiptingahöfði sjálfur... spurning hvort hann sé hluti af Litla Grænafjalli ?

Einn af höfðunum eða hnúkunum...

Sjá til baka... í raun þrír auka höfðar á milli tindanna þriggja sem við gengum á...

Skiptingahöfði framundan...

Litið til baka frá fremstu mönnum...

Skýin börðust hatrammlega við hlýjuna og sólina sem herjaði að ofan...

Lögð af stað upp Skiptingahöfða...

... falleg leið...

Litið til baka...

Virkaði létt og löðurmannlegt...

... en var brattara ofar svo vel reyndi á...

Þetta minnti á Hornstrandirnar... brúnirnar á Hornbjargi, Kálfatindi, Skófnabergi o.fl.
þar sem brekkurnar verða svo ótrúlega brattar þegar maður byrjar að brölta upp þær...

Útsýnið yfir Stóra Grænafjall og hina hlutana af Litla Grænafjalli var magnað !

Mjög skemmtileg leið...

Hérna niðri gengum við til baka í bílana síðar um daginn í bongósól og blíðu...

Brattinn sést vel hér...

Kristbjörg ákváð að bíða hér... leist ekkert á þessa brekku...
en rúllaði svo öllum hinum bröttu brekkunum í ferðinni upp
og útskrifaðist í næstu tindferð á Suðurnámi við Landmannalaugar :-)

Stórskorið og svo fallega grænt landslagið neðan fjallanna...

Það þurfti alveg að vanda hvar maður steig niður til að rúlla ekki af stað hér...

Ekki pláss fyrir alla á tindinum...

 

... þetta var alvöru tindur sem reif í þá sem ekki eru fullkomlega öruggir í bratta...

Meira að segja Batman gerði sér grein fyrir því hvers lags forréttindi það voru
að horfa á Hvítmögu renna út í Markarfljótið í beinni...

... og sjá það svo hrifsa til sín Torfakvísl sem hafði hrifið með sér Grashagakvíslina ofar...
beljast í gegnum þröngt Torfahlaup... og gleypa svo við jökulmórauðri Kaldaklofskvíslinni stuttu síðar...
og svo Innri Emstruá... Fremri Emstruá... og öllum hinum...

Smá göngubrú yfir Markarfljótið við Krók... gott að vita...

Agnar fór alveg fram á ystu brún Skiptingahöfða...
þar sem Krókur og Hvítmaga blasa við og bílar okkar niðri við ána...

Við fórum sömu leið til baka og stefndum á hina tindana í Grænufjöllum...

Alls kyns fallegir útsýnisstaðir á leiðinni... hér hefði nú verið fallegt að hafa Stóra Grænafjall laust við skýjahuluna !

Dýptin var mikil í landslaginu þennan dag...
 bæði í forminu og í litunum...

Mikið brölt í bratta upp og niður og út á myndatökustaði... enda vorum við lengi með þessa rúmu 12 kílómetra...

Farið til baka sömu leið...

Nú virtist Stóra Grænafjall vera að losa sig við skýin...

Takk fyrir okkur Skiptingahöfði !

Næstur var miðtindurinn í Litla Grænafjalli ef þessi má vera það en hann var næst hæstur þennan dag...
hærri en Skiptingahöfði og fékk heiðurinn af því að vera fulltrúi mældrar hæðar á Litla Grænafjalli í okkar bókhaldi
en það væri áhugavert að vita hvað heimamenn kalla nákvæmlega Litla Grænafjall... er Skiptingahöfði þá með ?

Skarðið á milli og fjöllin handan Markarfljóts...

Útsýnið allt að opnast inn á Fjallabakið... og við giskuðum á hvaða fjöll væru að koma undan skýjunum...
þetta hlyti allavega að vera Hattfell þarna hægra megin... en þetta vinstra megin var öllu flóknara...
en við giskuðum rétt miðað við smáforrit í símanum hjá Kolbeini sem sýnir fjallanöfnin...

Matarpása hér og rólegheit...

Það var ekki hægt annað en bara njóta og slaka og horfa og mynda og spjalla...

... en líka halda áfram því við vorum þvílíkt að dóla... en áttum ennþá eftir allavega tvo tinda...

Miðtindurinn var saklaus uppgöngu frá okkar stað... en er ókleifur austan og suðaustan megin
og mjög brattur norðan megin þar sem við fórum svo niður...

Hér fengu margir mynd af sér... með Illusúlu í baksýn...
Silla var svo almennileg að taka myndir af þjálfurum með Batman líka :-)
þessi var skemmtileg :-)

Silla var að mæta í sína aðra tindferð með Toppförum og skráði sig núna í klúbbinn...
einstaklega björt manneskja sem við erum lánsöm að fá í okkar raðir...
þessi mynd fór í félagatalið !

Komin upp og útsýnið magnað...

Snarbrattir klettar um allt uppi... við urðum að taka hópmynd hér...

Ekki allir til í að þvælast hér út á... við reyndum að viðhafa 2ja metra regluna eins og við gátum í þessari ferð...

Þorleifur, Elísa, Guðmundur Víðir, Silla, Kolbeinn, Ágústa H., Agnar, Örn, Vilhjálmur, Jóhanna D.
en Bára tók mynd og Ásmundur, Jóhanna Sveins og Kristbjörg sögðu pass.

Við sáum ekki færa leið niður austan megin né suðaustan megin...
og ákváðum að fara niður grasi grónar norðurbrekkurnar sem voru mjög brattar en vel færar...

Menn áttu misauðvelt með að fara þetta niður... sumir voru enga stund...
reynslan skilar sínu niður svona brekkur...
aðrir vönduðu hvert skref...

Öryggi í svona brekkum koma með reynslunni og engu öðrum...

Gott að fara á afturendanum ef maður er óöruggur...
kvenþjálfarinn og fleiri í klúbbnum grípa oft til þess arna á verstu köflunum...

Hvílík fegurð hér... verst að sólin var ekki alveg farin að skína...
dýptin í græna litnum hefði verið mögnuð hér í sólargeislunum...

Smá aukapása í miðri hlíð hjá þeim sem voru fljótir niður :-)

Komin niður en Örn sá að við gátum skáskotið okkur yfir án þess að lækka okkur meira...

... og við gerðum það sem munaði heilmiklu....

Mjög falleg leið í þéttum hliðarhalla... bratti var orð dagsins...

Skarðið að opnast...

Komin út á brúnirnar hinum megin...

Við blasti ólýsanlega fallegt útsýni...

Nú sást til allra fjalla og við gátum greint Stórkonufell og Hattfell o.m.fl...

Nú var bara einn tindur eftir... aðalfjallið...

Litið til baka á miðtindinn sem við nefndum Litla Grænafjall þar til sannara reynist... brattur hérna megin...

Stóra Grænafjall...

Illasúla að koma betur í ljós en þarna á milli rann Markarfljótið...

Stórkonufell og Hattfell í fjarska og svo Mýrdalsjökull...

Eyjafjallajökull...

Laufafell svo hinum megin...

Tindfjallajökull að koma undan skýjunum smám saman líka...

Mosinn á þessu svæði svo fallegur...

Stóra Grænafjall svo fallegt... það var stórmerkilegt að vera komin svona nálægt því...
eftir að hafa mænt á það árum saman úr fjarlægð og af ljósmyndum á veraldarvefnum...

Sýnin á Laugavegsgönguleiðina um sandana...

Hópurinn þarna niðri við ræturnar...

Þessi brekka leit betur út núna en fyrr um daginn...

Litið til baka á Litla Grænafjall ef miðtindurinn fær að vera það...
Eyjafjallajökul vinstra megin og Tindfjallajökul hægra megin...

Magnað landslag að ganga í...

Þéttar brekkurnar upp...

Við tókum þetta bara í rólegheitunum...

... tókum meira að segja pásu á milli og brönduruðumst svolítið :-)

Útt... þetta var svo fallegt... dýptin í græna litnum innan um dökkan sandinn...

Batman var að njóta eins og við hin...

Skref fyrir skref upp...

Spáð í sveppi og plöntur og voru nokkrir ansi fróðir í þessari ferð...

Er strax búin að gleyma nöfnunum á þessum...

Gott hald í grasinu og hvergi tæpistigur...

Margar ægifagrar ljósmyndir voru teknar í þessari ferð...

Komin ofar... nú sást til bungunnar sem við byrjuðum á vinstra megin... og Skiptingahöfða hægra megin..

Sjá hallann í brekkunni hér... hann var talsverður...

... sést líka hér...

Og enn ofar var brattara...

En þetta kom smám saman með kalda vatninu...

Útsýnið sífellt betra...
nú sást ofan í Markarfljótsgljúfrið sem spyrðist kringum Stóra Grænafjall á þremur hliðum af fjórum...

Loksins að komast upp...

... áfram var bratt en stutt eftir samt...

Orðið spaklegra hér ofar...

Lokaútsýnið á brúninni til Tindfjallajökuls... jú, við vorum í ríki hans... það var samþykkt af okkar hálfu...
enda minntu Grænufjöllin mikið á tindana í honum...

Laufafellið svo rautt og fallegt í sólinni í fjarska...

Nú var bara að koma sér fram á austurbrúnir og efsta tind á Stóra Grænafjalli...

Aflíðandi halli hér upp eftir...

Útsýnið niður eftir norðurhlíðunum...
Sáta og Laufafell og fjallabakið með Dalakofann og Landmannahelli...

Ekki langur kafli...

Fyrri brúnin...

Mýrdalsjökull...

Mýrdalsjökull... Innri Emstruá... Stórkonufell... Hattfell...

Þessi brún var rosaleg... sjá myndband af ferðinni... hvílíkur heimur sem opnaðist þarna...

Illasúla... hún var svo óskaplega falleg þennan dag...

Útsýnið var botnlaust...

Við gáfum okkur góðan tíma uppi á Stóra Grænafjalli...

... og fórum í rólegheitunum yfir á hæsta tind og austurbrúnina sjálfa...

Stóra súla og Illasúla... með hluta af Stórkonufelli hægra megin...
Smáfjallarani eru þessi lágu fell fjærst við jökulinn hægra megin sem dæmi... o.fl.

Hvílíkt útsýni... Hattfellið... Markarfljótið... orðið mórautt eftir að hafa fengið Kaldaklofskvíslina í sig...

Sjá neðar hvar Innri Emstruá rennur í markarfljótið... magnað að sjá þetta si svona ofan af þessum fjöllum...

Fyrri tindurinn / brúnin ofan af hæsta...

Útsýnið niður til norðvesturs um Markarfljótið enn svo saklaust eftir eingöngu Hvítmögu og minni ár í sér...
Tindfjallajökull vinstra megin og smá af Skiptingahöfða...

Tindurinn framundan...

Það var einstakt að ganga fram á brúnirnar hans... aðra eins veislu er sjaldgæft að fá á fjalli...

Þetta var útsýnið ofan af Stóra Grænafjalli...
Torfahlaup í þröngu gljúfri Markarfljóts hérna niðri, Torfatindar, Torfakvísl, Álftavatn með skála FÍ í hinum endanum,
Brattháls og skáli FÍ við Hvanngil og Strútur á Mælifellssandi... o.fl...
og loks efst trónandi yfir öllu saman voru Kaldaklofsfjöllin í Torfajökulsöskjubarminum öll líparítgul...
Laugavegsgönguleiðin sást öll frá Hrafntinnuskeri niður að Álftavatni um Hvanngil
og niður sandana framhjá Hattfelli og niður til Þórsmerkur... ofan af þessum eina staka fjallstindi...

Magnað útsýni takk fyrir !

Sjá hér Stóru súlu, Strút og Mælifell á Mælifellssandi...
nær er Markarfljótið að fá Kaldaklofskvísl í sig mórauða og breytist litur hennar þar með
úr hálf tærri blágrænni á í mórautt jökulfljót... berandi leysingar úr Torfajöklinum sem trónir yfir öllu svæðinu...

Hér er Markarfljótið ennþá saklaus og tær... sjá Torfakvíslina koma í hana...
en í Torfakvíslina rennur Grashagakvíslin sem við vöðum yfir á Laugavegsgönguleiðinni (og við fórum á snjóbrú yfir í júní)...

Til suðausturs að Mýrdalsjökli, Stórkonufelli, Hattfelli, Eyjafjallajökli og Þórsmörk...

Til baka eftir Stóra Grænafjalli... og einu leiðinni á þennan tind vestan megin frá Krók
vegna stórfljótanna sem umkringja það..

Til suðvesturs að Tindfjallajökli... Markarfljótið að koma niður með Hvítmögu í sér...
Krókur þarna upp frá...

Faxi og fjöllin öll í átt að Heklu sem var í skýjunum því miður til vestsuðvesturs...

Ein sætasta hópmyndin í sögunni...

Kolbeinn, Elísa, Þorleifur, Jóhanna Sveinsdóttir gestur, Ásmundur, Agnar, Guðmundur Víðir, Ágústa H.,
Jóhanna D., Silla, Örn, Vilhjálmur og Kristbjörg fremst og Bára tók mynd.

Þjálfarar... þessi fær að fylgja þar sem Bára tók hópmyndina...
það er alltaf sætt að fara í fyrsta sinn á óþekktan tind sem maður var ekki viss um að komast á... 

Við tókum langa matarpásu hér uppi...

Guðmundur Víðir, Silla og Ágústa H...

Batman, Jóhanna Sveinsdóttir gestur og Ásmundur...

Þorleifur, Kristbjörg, Elísa og Kolbeinn...

Agnar...

Jóhanna Diðriks og Vilhjálmur...

Batman ofurfjallahundur... hann á óteljandi fjöll að baki... sífellt að fara nýjar leiðir og á ný fjöll...
sannur Toppfari þessi :-)

... og Illasúla... hún var með okkur allan tímann eiginlega... og við ætlum að ganga á hana á næsta ári...

... og erum búin að finna leið til að komast á hana framhjá öllum þessum stórfljótum sem renna allt í kring...
og gönguleiðin sjálf upp á fjallið er ekki flókin.... minnir svolítið mikið á Grænufjöllin... en vá... útsýnið ofan af henni verður rosalegt...
beint niður á Markarfljótsgljúfrið þar sem Kaldaklofskvíslin mætir... Torfahlaupið... Grænufjöllin...

Þarna uppi á tindinum skulum við standa og taka mynd í ágúst árið 2021...

Torfahlaup í nærmynd...

Hver er eiginlega þessi Torfi sem annað hvert örnefni heitir eftir á þessu svæði (Torfahlaup, Torfatindar, Torfafit, Torfakvísl)
og það er ekki einu sinni nóg... því Blesamýri heitir eftir hesti hans Blesa sem gafst þar upp á flótta
og svo seinni hestinum Faxa þar sem hann gafst upp... magnað !

Saga hans er eins og bestu sögur á Netflix okkar daga :-)
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1594769/

Eftir dásamlega pásu á Stóra Grænafjalli í útsýni i heimsklassa...

... reyndum við að fara að tygja okkur af stað niður og til baka...

... þegar við loksins tímdum að standa upp...

Takk fyrir ógleymanleg kynni Illasúla... hlökkum til að kynnast þér betur í ágúst á næsta ári...

Við völdum niðurleið ofan af brúnunum í grjótinu til að skemma ekki mosann...

... mjög brött leið þar sem fara þurfti varlega...

Hvílík leið... dýptin í landslaginu þennan dag... bæði formum þess og litum var með ólíkindum...

Við ákváðum að rekja okkur eftir öllum suðvesturbrúnunum ofan Markarfljóts til baka...

... en vorum heillengi að koma okkur öll niður af tindinum...

... það þurfti að fara varlega...

Þessi græni litur þennan dag... gleymist aldrei...

Ógleymanleg niðurleið... þær gerast ekki flottar einfaldlega !

Komin úr mesta brattanum...

Alls kyns útsýnisstaðir gáfust næsta klukkutímann...

Laufafellið og Markarfljótið og Sáta svo falleg í sólinni...

Magnað !

Við gátum ekki hætt að horfa og spá í fjöllin og örnefnin...

Útsýnið til Torfahlaups og Álftavatns...

Markarfljótið...

Ofar...

Haldið áfram eftir brúnunum...

Mjög flott leið...

Fleiri útsýnistindar...

Nú farin að sjá til baka að Krók...

Sérstakur staður þessi stallur utan í fjallinu...

Faxi og félagar... og Markarfljótið...

Heilmikið brölt upp og niður áfram...

Við urðum að skoða þessa klettanös...

Hvílík fegurð... og mergjaður félagsskapur í þessari ferð...

Þessi ganga fer í algeran sérflokk að mati þjálfara...

Þjálfarar voru búnir að sjá nokkrar niðurgönguleiðir á leiðinni en voru ekki vissir um að komast niður af stallinum...
en áður vildu þeir rekja sig eftir öllum brúnunum og fara helst niður gilið...
þ.e. Örn hélt sig við þá áætlun en Bára hafði áhyggjur af því að það yrði ófært þegar á hólminn væri komið...
og hafði gælt við að fara bara niður Torfahlaupsmegin og rekja sig með ánni til baka...
en það hefði þýtt mun lengri og tafsamari yfirferð því allt var sundurskorið í giljum...

Til vara var að fara aftur upp í hlíðarnar og sömu leið til baka og við fórum upp Stóra Grænafjall...
við vissum allavega að sú leið væri fær...

... en Örn fór á undan og gáði að gilinu...

... það reyndist vel fært þó grýtt væri og bratt...

Litið til baka... það var ekki skrítið að þessi fjöll hétu "Grænufjöll"...

Bratt, þröngt, grýtt... en fært...

Litið til baka...

Mjög skemmtileg leið...

Við vorum fegin að komast þetta hér niður...

Reyndum að hlífa jarðveginum en það var ekki hjá því komist að spora hér út í moldinni og grjótinu
enda náttúran búin að sópa hér niður leysingavatni í vor...

Tafsamt en sóttist vel þar sem við vorum bara 14 manns... þarna munar um að vera ekki 45 manns...

Svo var "bara" að koma sér til baka um þessi gil í bílana...

Litið til baka... þessi græni litur var svo heilandi...

Við hefðum viljað rekja okkur eftir ánni en sáum ofar að alls staðar skárust stór gil niður hlíðarnar
sem voru orðin að hálfgerðum gljúfrum neðar við Markarljótið
svo það hefði verið meira klöngur að vera þar en ofar...

Matarpása í sólinni... pásurnar voru ansi margar í þessari ferð... það var þess virði...
við vildum ekki flýta okkur í þessu dásemdarveðri og landslagi...

Tveggja metra reglan orðin að innbyggðum vana...

Laufafellið hér með í pásunni...

Gott að hvílast reglulega og halda svo áfram...

Landslagið í Markarfljótsgljúfrinu farið að sjást þegar nær var komið
og hversu mikið í stíl við Laufafellið það var í raun..

Þarna komum við niður...

Jebb... sundurskorið landslagið af giljum sem biðu okkar í bakaleiðinni...
en okkur var sléttsama... svo himinlifandi með alla þess fegurð...

Þvílíkt fallegt fjall...

Gilin hvert öðru fegurra...

Hæsti tindur Litla Grænafjalls skreytti bakaleiðina... brekkan okkar niður þarna beint fyrir framan okkur...

Niðurleiðin og lækurinn...

Komin fjær... allar mögulegar tegundir af grænum lit voru í þessari göngu...

Tvíeggjar í Sátum hér í bakgrunni lækjarins í einu gilinu... fegurðin þarna var botnlaus...

Berjamó...

Litla Grænafjall og Skiptingahöfði...

Grænu litirnir í Stóra Grænafjalli...

Hópurinn þéttur reglulega og spáð í kosti og galla við að færa okkur ofar upp í hlíðarnar eða neðar að fljótinu...

Gilin voru sannarlega að brjóta upp bakaleiðina...

... og skreyta hana svo fallega...

Sætur sigurinn... á þessu sjaldfarna fjalli...
á bröttum leiðum upp og niður af tindunum öllum þremur... vel gert...

Markarfljótið þarna neðar...

Enn eitt gilið...

Skiptingahöfði... á sumum kortum er Litla Grænafjall nefnt Litla Grænafell...
það er spurningin hvort sé rétt...

Líparítuð Kaldaklofsfjöllin fjær og Grænufjall hið stóra nær...

Sum gilin voru stór um sig...

... og engin þeirra voru eins... með alls kyns gullmolum um allt...

Stutt eftir.. skyldum við vera búin með síðasta gilið ?

Heiðskíran algerlega tekin við...

Tindfjallajökull að verða skýlaus... en vestar var ennþá rigning og þoka... það var ótrúlegt...

Skiptingahöfði...

... hver sagði að gilin væru búin :-) ? :-) ...

... en þau brutu upp gönguna og við bara nutum alls sem fyrir augu bar...
þetta var stutt leið og svo falleg...

... þessir litir...

Það var sérlega nærandi fyrir sálina ekki síður en líkamann að fara í þessa göngu...

Fegðurðin var heilandi í hverju skrefi...

Markarfljótið komið með Hvítmögu í sig... allt svo tært og grænblátt og fallegt...

Fallegur staður...

Bílarnir í sjónmáli... sem þeir voru reyndar langleiðina þennan dag...

Hér rann smá lækjarspræna niður úr Skiptingahöfða og út á kindagöturnar... stíginn...

Skiptingahöfði...

Markarflljótið og lækurinn á stígnum...

Flottur lækurinn í stígnum...

Komin að bílunum við Hvítmögu...

Mikil fegurð hér í gljúfri Hvítmögu rétt áður en hún endar í Markarfljóti...
enda voru þjálfarar dolfallnir hér árið 2014
þegar við fórum fyrst könnunarleiðangur að þessum fjöllum...

Lengi leyndist eitt gil svona á leiðinni :-)

Litla Grænafell eða -fjall... eða Skiptingahöfði... stórglæsilegt...

Sáta og Tvíeggjar...

Stóra og Litla Grænafjall með Hvítmögugljúfri...

Tvíeggjar í Sátu fjærst og Stóra Grænafjall...

Síðasta ásýndin á Grænufjöll dagsins... það var ekki hægt að hætta að mynda !

Við vorum himinlifandi með göngu dagsins...

Alls 12,2 - 13+ kílómetrar...

... á 7:23 - 7:32 klst. upp í 693 m á fjallsbungunni, 749 m á Skiptingahöfða,
763 m á miðtindinum sem við eignum Litla Grænafjalli og loks 882 m Stóra Grænafjall með alls 858 m hækkun úr 507 m upphafshæð...

Leiðin hér á korti...

Fjær í samhengi við annað landslag á svæðinu...

Heimleiðin tók þrjá tíma... með andlitsgrímur þá kafla þar sem menn þáðu jeppafar
eftir að þeirra bílar komust ekki lengra en Ágústa keyrði sem dæmi ein á sínum jepplingi
alla leið að ánni stuttu fyrir Hungurfit... magnaðar konurnar í þessum klúbbi !

Hvítmaga aftur þveruð...

Það var mun erfiðara að vera með andlitsmaskana í bakaleiðinni en um morguninn
af því nú var svo heitt í veðri... maður var sveittur og það var svo heitt í bílnum í sólinni...

Ofan af ásnum... sjá mátti hvernig þoka og rigning læstist um allt vestan við Hungurfit...
það var sláandi hversu rétt við sluppum við þetta suddaveður...

Sultarfell... hungrið var mikið í örnefnum á þessu svæði...

Hér keyrðum við inn í þokuna og suddann...

Hungurfit rétt slapp... allavega þegar við keyrðum framhjá rúmlega sex um kvöldið...

Hér fóru Ágústa H og Ásmundur og Jóhanna Sveins í sína bíla...

Úff... þetta var veðrið í bakaleiðinni... svakalega vorum við heppin með veður...

Svona var aðkoma að bíl Þorleifs við afleggjarann inn að Fjallabaksleið syðri...
kýrnar búnar að taka yfir bílinn en hann virtist ekki skemmdur... hestar hefðu skemmt hann á smá tíma...
ein kýrin tók sig til og stangaði Báru þjálfara harðákveðin og fumlaust
þegar hún var að spjalla við þær og reyna að koma þeim frá bílnum...

Takk...

...  kæru leiðangursmenn fyrir að leggja í hann með okkur á þessar ókunnu slóðir...
fyrir leiftrandi skemmtilega samveru og frábæra frammistöðu á alls kyns sérlega bröttum upp- og niðurleiðum
á þessi gullfallegu fjöll...

... og takk !

... Guðmundur Víðir og Kolbeinn fyrir að vera ákveðnir í að fara í þessa göngu og bjóða fram jeppa
því án ykkar hefðum við aflýst henni vegna ónógrar þátttöku og jeppaleysis :-)

Söfnum öllum fjöllunum á þessu svæði næstu árin í byrjun ágúst...
Litla og Stóra Grænafjall komin í safnið...
næst verður það Illasúla eða Hattfell 2021 og svo Stóra súla og svo...

Hvílíkur dýrðarinnar dagur !

Myndbandið af ferðinni hér:
https://www.youtube.com/watch?v=jdPmR2vURtE&t=506s

Gps-slóðin hér:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=55597234

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir