Sigþrúður Jónsdóttir

Sárafáir hafa enn séð, segja Björg Eva Erlendsdóttir og Sigþrúður Jónsdóttir,
þau náttúruundur sem raða sér uppeftir allri Þjórsá.

Í ÞJÓRSÁ eru tvær stórvirkjanir, en áætlanir um nokkrar í viðbót, sumar þeirra á næstu árum. Í Þjórsá eru tvö lón, Bjarnalón ofan Búrfells og Sultartangalónið stóra á Gnúpverjaafrétti. Áætlanir eru um fleiri lón, frægast þeirra Norðlingaöldulón á Fjórðungssandi, sem nær inn í friðlandið sem kennt er við Þjórsárver. Stórhuga athafnamenn hafa allt frá tímum Einars Benediktssonar haft mikinn vilja til þess að temja Þjórsá og virkja, breyta henni og koma afli hennar í verð. Aldrei hafa breytingarnar þó verið jafn örar og nú. Tveir fossar í Þjórsá eru svipur hjá sjón af vatnsleysi, Tröllkonuhlaup og Þjófafoss. Farveg Tröllkonuhlaups má sjá í Þjóðlendugöngu tvö á vegum Ferðafélagsins og þar er einnig farið hjá Þjófafossi. En í Fossagöngu FÍ meðfram Þjórsá í Norðurleit og Gljúfurleit sjáum við nokkra af fegurstu fossum landsins eins og þeir líta út þar sem Þjórsá er enn í sínu rétta eðli og í farvegi sínum úr Hofsjökli.

Kjálkavers- eða Hvanngiljafoss

Í Bjarnalækjarbotnum í Norðurleit hefst Fossagangan. Fyrsta sem fyrir augu ber er Bjarnalækurinn þar sem sá vatnsmikli lækur kemur fullskapaður og eins og upp úr þurru undan Flóamannaöldu. Við uppsprettu Bjarnalækjar er fjallmannaskáli Norðurleitarmanna. Innan við Miklalæk, litla bergvatnsá um miðja Norðurleit, hallar niður að Þjórsá. Kjálkaversfoss er fyrsti foss í röð fjölmargra fossa sem sjá má á gönguleiðinni í Þjórsá sjálfri og þverám henar. Kjálkaversfoss heitir Hvanngiljafoss á máli Rangæinga en smalar á Gnúpverjaafrétti hafa helst tengt örnefnin sínu aðaláhugamáli og lifibrauði, sauðkindinni, en látið rómantíkina lönd og leið. Kjálkaver er stór grasfláki í Norðurleitinni. Í Kjálkaveri lágu úti í viku illviðri, tveir fjallmenn á nítjándu öld, þeir Gísli á Hæli og Ólafur á Skriðufelli. Þótti afrek að þeir komust af.

Fossarnir í Dynk

Frá Kjálkaversfossi er stutt ganga að Dalsá, vatnsmestu þverá Þjórsár á þessu svæði, enda hefur hún langan aðdraganda allt inn undir Kerlingafjöll. Á einum stað fellur hún í þröngum klettastokki, þar heitir Hlaupið. Fræknustu menn hafa hlaupið það, en aðrir skyldu ekki reyna. Dalsá þarf að vaða, en á henni er gott vað. Framan við Dalsá er Kóngsásinn, hásæti og valdastóll fjallkóngs Gnúpverja, sem skipar hirð sinni í leitir út frá ásnum, en þaðan sér vítt yfir. Suðaustanundir ásnum er fossinn Dynkur, 38 metra hár og er í raun margir fossar. Dynkur er fegursti foss landsins, ef gengið er að honum vestanmegin, það er af Gnúpverjaafrétti. Hann fellur fram af mörgum stöllum og myndar fossakerfi. Þar eru fögur form og margreytilegir regnbogar, eins og litagos þegar sólin skín.

Nafnlaus og fáum kunnur

Ófærutangi er þar sem Hölkná rennur í Þjósá og myndar tangann milli ánna. Þangað rennur sauðfé. Tanginn er mjór og ekki reiðfær, gangandi smalar fara þá einu leið sem fær er fram og tilbaka og sömu leið förum við. Þar er gljúfur og breiður en nafnlaus slæðufoss og er hann fallegasti foss landsins, eins og Dynkur. Innan við Ófærutanga eru efstu skógarleifar við Þjórsá, en þangað innúr náðu krækluskógar hinir fornu. Annar foss er ofar í Hölkná.

Geldingatangi, nafnið enn eitt dæmi um áherslur Gnúpverja í nafnavali, og hvernig sauðféð átti svæðið og hug bænda, er þar sem Geldingaá rennur í Þjórsá. Í Geldingaá eru líka slæðufossar. Leitarkofinn Trantur stendur við ána.

Stall af stalli í Gljúfurleit

Gljúfurleitin er gróðursæl dalkinn, berja- og blómabrekka á móti sól, sem liggur í mörgum stöllum niður að Þjórsá. Gljúfurleitarfoss er framan við Geldingatanga, þar sem Þjórsá fellur í einu lagi af 28 metra háum stalli og er Gljúfurleitarfoss því einn af stórfossum landsins. Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss eru mjög ólíkir fossar, hver þeirra einstakur. Í Gljúfurleit er landslag og gróðurfar sérstakt og fjölbreytt. Gamall fjallkóngur Gnúpverja, Sigurgeir frá Skáldabúðum, taldi það viku verk hið minnsta að skoða Gljúfurleitina svo gagn væri að.

Síðasti spretturinn í Fossagöngu Ferðafélagsins er upp frá Þjórsá með Gljúfraá. Og ekki er að sökum að spyrja. Við blasir enn einn fossinn, nafnlaus, en hár og fagur, í djúpu gljúfri. Gengið er stall af stalli í dæmigerðu landslagi Gljúfurleitar og upp á einn af þeim efstu þar sem er fjallmannakofi Gljúfurleitara. Á þessum stalli endar gönguferð okkar á stað þar sem sést langt inn eftir Þjórsá. Bílvegur er frá skálanum til byggða, sá er vondur og ekki farandi nema á fjallabílum. Vegurinn liggur víðast nokkuð langt frá ánni. Hjallarnir taka við af Gljúfurleitinni. Þeir eru þó breyttir frá því fyrr á tíð vegna þess að Sultartangalón Landsvirkjunar nær langleiðina inn undir Gljúfurleit. Bátar eiga þar betur við en gönguskór. En gönguleiðin okkar innar með Þjórsá sem við kjósum að kalla Fossagöngu, er hinsvegar ósnortin og langt frá alfaraleið. Því hafa sárafáir enn séð þau náttúruundur sem raða sér upp eftir allri Þjórsá eins perlur á snúru. Fossagangan verður farin um verslunarmannahelgina, laugardag og sunnudag. Nánari upplýsingar fást hjá Ferðafélagi Íslands.

Höfundar eru Björg Eva Erlendsdóttir, fréttamaður hjá RÚV, og Sigþrúður Jónsdóttir náttúrufræðingur.