Tindferð 195
Sjö tindar til Hafnarfjarðar
Búrfellsgjá, Húsfell, Valahnúkar, Helgafell Hf., Stórhöfði, Vatnshlíð og Ásfjall
úr Heiðmörk gegnum Kaldársel og meðfram Hvaleyrarvatni
laugardaginn 18. apríl 2020

Sjö tindar til Hafnarfjarðar
í roki og rigningu en blússandi göngugleði
hlýju veðri, sumarfæri og góðu skyggni allan tímann
... mergjað... að gera þetta... ægifögur leið... mælum með henni við alla !

Loksins drifum við okkur þessa fallegu leið til Hafnarfjarðar um fjöllin hans og Garðabæjar...
laugardaginn 18. apríl í miðjum Covid-19 faraldri sem þó var í hraðri rénun þessa daga...
eftir að hafa frestað þessari göngu nokkrum sinnum vegna veðurs, svo færðar og loks vegna Covid-19
þar sem ekki var mögulegt að ferja menn í bílum milli upphafsstaðar og endastaðar...

... þar til við tókum að venjast ástandinu í Covid-19 með hámark 20 manna og 2ja metra reglunum...
og ákváðum að láta ekki veðrið stöðva för lengur, úr því það yrði hlýtt og autt færi og leysa bílaferjunarmálin
með því að færa upphafsstað upp í Heiðmörk og enda við Ásvallalaug í Hafnarfirði sem er innan borgarinnar
og þar með mögulegt að virkja fjölskyldumeðlimi til að sækja okkur eftir göngu eða keyra okkur frá lauginni að upphafsstað...
og tókst þetta framar vonum...

En aðdáunarverðasta framtakið var hjá Olgu, eiginkonu Bjarna Skagamanns sem keyrði á öðrum bíl með honum af Skaganum
og lentu þau við Ásvallalaug um áttaleytið á laugardagsmorgninum þar sem þau gátu skilið annan bílinn eftir og keyrt saman upp í Búrfellsgjá
þar sem Olga keyrði svo heim á Skagann, en Bjarni lagði af stað gangandi og gat svo keyrt heim til sín á Akranes eftir gönguna...
... vel gert...

En menn leystu þetta á mismunandi vegu,
þjálfarar fengu son sinn til að sækja sig eftir göngu og skutla upp í Heiðmörk að sækja Toppfarabílinn...
Berglind gerði það sama fyrir Ólaf Vigni, Jóhanna Diðriks og Vilhjálmur mættu á tveimur bílum og skildu annan eftir við laugina
og keyrðu á hinum upp í Heiðmörk o.s.frv... en ein leiðin var t.d. að fá leigubíl aðra leiðina
svo á endanum var þetta alltaf leysanlegt verkefni...

Við lögðum níu manns af stað kl. 8:29 frá nýja bílastæðinu við Búrfellsgjá... í grenjandi rigningu og roki...
þetta leit ekki vel út og það fór um okkur hrollur... við vorum að vona að spáin myndi ekki rætast alveg á versta veg...
það var glæta í kortunum um að það yrði úrkomulaust að mestu fram yfir hádegið...

... og á endanum fór svo að vindurinn var minni en við áttum von á...
rigningin meiri en við áttum von á... skyggnið betra en við áttum von á...
færið betra en við áttum von á... hlýjindin meiri en við áttum von á...
erfiðleikastigið lægra en við áttum von á...
leiðin betri en við áttum von á í meiri stígum alla leiðina...

... en það eina sem var ekki gott var rigningin... hún kom og fór á löngum köflum...
en var ekki góð þegar hún rann um allt á leiðinni...

Þjálfari stappaði í menn stálinu og þarna á bílastæðinu vorum við byrjuð að hlæja að sjálfum okkur að detta þetta í hug...
að fara alla þessa leið í þessu veðri... og áttum eftir að hlæja marg sinnis aftur í ferðinni...
en mikil var sigurgleðin þegar þetta var að baki...
og mikið var dagurinn mergjaður þrátt fyrir þetta veður...
magnað alveg...

Við fórum hefðbundna leið um Búrfellsgjá og áttum eftir að ganga á slóða stóran hluta leiðarinnar allan þennan dag...
sem kom okkur svolítið á óvart... þjálfarar voru búnir að ganga eða skokka alla leiðina nema hlutann milli Búrfellsgjárinnar að Húsfelli
en sá kafli var einnig á slóða svo þessi leið er tilvalin fyrir alla sem vilja fara langa vegalengd um mjög fallegt og fjölbreytt svæði...
og þurfa ekki að óttast að villast...

Veturinn slíkur að nú 18. apríl eru ennþá stóri snjóskaflar á gönguslóðanum upp í Búrfellsgjánna... reyndar var þetta snjóþyngsti kaflinn...
okkur varð ósjálfrátt hugsað til Leggjabrjóts sem er á dagskrá helgina á eftir ef veður leyfir... skyldi hann allur vera svona... í blautum sköflum... jæja... það verður þá að hafa það... við nennum ekki að fresta endalaust göngum út af öllum mögulegum ástæðum...
það lofar ekki góðu almennt...

Sjá hér slóðann og hvernig skaflinn tekur yfir...

Þrautreyndur hópmyndastaður... en eins og oft þennan dag var bleyta á linsu myndavélarinnar í símanum...
sem var rennandi blautur alla ferðina en þoldi það vel enda vatnsheldur Samsung sími galaxy S7...

Gjótan þar sem mælingarnar eru um gliðnun flekanna...

Þeir færast sífellt fjær hvor öðrum málmhausarnir tveir sitt hvoru megin við gjánna...

Búrfellsgjá er tignarleg náttúrusmíð... í Hringadróttinslandslagi...

Við vildum fara á hæsta tind allra þessara sjö "tinda" ef svo skyldi kalla... en það orðaval var margþætt;
smá húmor með vísan í stolt Hafnfirðinga yfir Ásfjallinu sínu og Helgafellinu...
en einnig af virðingu fyrir öllum þessum fallegu náttúrufyrirbærum hvort sem þau heita gjá, fell, hnúkar, höfði, hlíð eða fjall...
og einnig af því sjö tindar er mun hljómfegurra en sjö fell eða álíka...
... og loksins fannst okkur þau öll mega kallast tindar eftir þessa göngu á öllu láglendinu sem er á milli þeirra...
 þetta var ekkert síðra en að ganga á sjö tinda Hafnarfjalls... :-)

Húsfellið hér ofan af gígbarmi Húsfells...
en Anna Björk Kristinsdóttir gerði athugasemd á fb um að þessi tvö tilheyrðu Garðabæ en ekki Hafnarfirði
og leiðréttist þetta hér með... takk fyrir athugasemdina :-)
... og þjálfari breytti nafni ferðarinnar í "sjö tindar TIL Hafnarfjarðar" til að hafa þetta nú allt saman rétt :-)

Hér með Helgafellið í fjarska sunnan megin...
en Jóhanna Fríða kom gangandi frá Kaldárseli þar sem hún komst ekki alla þessa leið þennan dag...
og náði hún að fara á Búrfellsgjána og á Helgafellið með okkur þaðan sem hún sneri við í bílinn sinn eftir nestispásu við Kaldárselið...
frábært að fá hana með þó ekki væri nema hluta leiðarinnar :-)

Við fórum hálfhring um gjána um hæsta tind hennar
 og svo niður góðan slóða sem er greinlega mikið farinn af náttúruhlaupurum og göngumönnum...

... og áhyggjur þjálfara yfir að finna nógu góða leið þarna yfir um voru alger óþarfi...

Jóhanna Fríða búin að ná okkur... með henni kemur gleði og kátína... og smitandi göngugleðin...
það var synd að hafa hana ekki með alla þessa leið... 
en þess skal getið að hún fór þessa leið í hina áttina árið 2017 ásamt Súsönnu og Birni Matt
en þann dag hafði tindferð verið aflýst og þjálfarar völdu af algerri tilviljun sömu leið skokkandi
og því hittumst þremenningarnir á þjálfara sem komu hlaupandi frá Ásvallalaug upp í Kaldársel fram og til baka...
og var þessi dagur  árið 2017 dagur alger snilld hjá okkur öllum, enda magnað svæði að njóta á fallegum degi...

Leiðin yfir á Húsfellið... slóði alla leiðina og fellið útbreitt fyrir framan okkur og miklar spekúleringar með leiðarval
þar sem við tímdum ekki að fara mjög mikla króka upp... helst sem beinast upp af slóðanum til að spara tíma og vegalengd...

Húsfellið var heppið... ef veðrið hefði ekki verið glimrandi gott sem það var á þessum kafla... úrkomulaust og friðsælt með eindæmum...
hvergi rok né rigning hér... þá hefðum við sleppt því... en af því veðrið var með þessu besta móti...
þá héldum við galvösk áætlun um alla sjö tindana...

Við ætluðum upphaflega að fara upp norðurtaglið... en það var ansi mikill krókur... og ákváðum þá að fara grasi vöxnu hlíðina vinstra megin við gilið þarna vinstra megin... en svo sáum við móta fyrir slóða hér beint upp klappirnar... og ákváðum að taka áhættuna og fara hann...
 í versta falli myndum við fara hliðarhallandi til norðurs og leita að annarri leið upp...

Þetta leiðarval reyndist mikið happaspor... mjög skemmtileg leið og mun betri en við héldum...

Smá klöngur hér en ekkert að ráði... og hvergi tæpt...

Eins og beinagrind af stórfót...

Síðustu metrar upp á tindinn á Húsfelli... þessa leið förum við sko næst á þessu felli, ekki spurning !

Hópmynd á tindi tvö í 301 m hæð...
Villi og Jóhanna mega vera nær hvort öðru sem hjón :-)

Hefðbundin leið tekin niður af Húsfellinu og engin mynd tekin þar þar sem veðrið buldi á okkur þar á niðurleið...
eftir gott veður fram að því fyrir utan byrjunina á Búrfellsgjánni... einmitt svona var dagurinn... skiptist á mjög gott veður í erfitt veður...
vind og úrkomu og þess á milli þurrt og lygnt... skrítið var það...

Við fengum okkur nesti neðan við Húsfellið...
í skjólsælu kjarri og vorum ennþá í það góðum málum að við gátum sest niður...
ólíkt sumum blautustu ferðum okkar eins og hringleiðin kringum Kleifarvatn árið 2017 þar sem við borðuðum nestið standandi...

http://www.fjallgongur.is/tindur137_kleifarvatn_210117.htm

Það er mikilvægt að borða þegar gengið er í erfiðu veðri... maturinn gefur orku... brennslu sem skiptir máli fyrir líkamann að fá til að geta haldið áfram að vinna... en hlýjindin þennan dag voru slík að það ógnaði aldrei öryggi eða ástandi okkar... okkur var aldrei kalt nema í nestispásunum... meðan við vorum á hreyfingu var öllum heitt... ullinni að þakka án efa fyrst og fremst enda brýndi þjálfari fyrir mönnum að vera í henni sem mest og svo hlífðarfatnaði undir... því sé maður í ull og á hreyfingu með vindhelt utan um... þá verður manni aldrei kalt þó ullin sé blaut... algert snilldarefni sem skákar öllum dýrasta útivistarfatnaðinum...

Valahnúkar voru þriðji tindur dagsins... en sá eini sem við fórum ekki á hæsta punktinn á...
þar sem veðrið var ekki með besta móti og langur dagur framundan...
við létum nægja að fara yfir skarðið við klettana formfögru...
þó sá hæsti væri nánast í seilingarfjarlægð...

Því miður var veðrið slíkt að við tókum lítið af myndum og sumar voru ekki í lagi vegna bleytu...
þannig náðist ekki mynd af Helgafellinu í skýjunum sem var ansi fráhrindandi dýn þegar við lögðum á það frá Valahnúkum...
en við vorum svo heppin að þegar við vorum lögð af stað hurfu skýin og við fengum skyggni á því allan tímann...
og það var furðulega lygnt og friðsælt alla leið upp á það þar til á tindinum sjálfum... merkilegt...

Litið til baka hér frá efri hlíðum Helgafellsins að Valahnúkum, Húsfelli og Búrfelli...

Fjórði tindur dagsins... kóngurinn á svæðinu án efa... Helgafell í Hafnarfirði... ægifagurt... við fáum ekki nóg af því...

Mældist 353 m hátt þennan dag... mjög fáir á ferli á því í þessu veðri en þó einn maður með hund
þegar við vorum að fara niður af tindinum...
og Batman varð strax ástfanginn og vildi sem mest vera með þessum félaga sínum á niðurleið...

Hlaupari náði mætti okkur og náði okkur svo á niðurleiðinni og tafðist sökum okkar hér niður...
fjölskylda á leið upp og beið meðan við fórum um klöngrið...
það voru fleiri hlauparar á leiðinni neðar og örfáir göngumenn...

Eftir Helgafellið var þetta staðan... 11 km á 3:45 klst... búin með fjóra tinda... þá sem voru eitthvað fútt í...
þrjár alsaklausar hlíðar eftir sem erfitt var að kalla tinda en samt... Stórhöfði, Vatnshlíð og Ásfjallið sjálft...

Við fórum göngustíginn frá Helgafelli en snerum svo að Kaldárseli við vatnsbólsgirðingarnar
í stað þess að halda áfram hefðbundna gönguleið að nýja bílastæði Helgafellsins...

Mjög fallegur staður... ekki skrítið að KFUM og KFUK hafi byggt hér upp aðstöðu...

Við leyfðum okkur að leita skjóls við húsið undan vindinum og rigningunni fyrir síðari hluta leiðarinnar til Hafnarfjarðar...

Fengum okkur nesti hér... og nú standandi... enginn að langa til að setjast...
hér skiptu þeir um jakka, boli, vettlinga, höfuðfat o.s.frv. sem gátu...
allt orðið rennandi blautt meira og minna... það munaði miklu að fara í eitthvað þurrt...
en það hlýtt að enginn gaf eftir hér og allir vildu halda áfram
en það var í boði að fá bílfar með Jóhönnu Fríðu sem var með spritt og aðrar ráðstafanir í bílnum sínum
ef einhver skyldi vilja láta hér við sitja...

Neibb... við ætluðum öll að klára þetta... mjög fallegur hluti leiðarinnar framundan...
gróðursælli og mýkri en sá sem var að baki...

En fyrst eftir Kaldárselið er uppáhaldskafli þjálfara... hraunbreiðurnar allar með mosanum ofan á...
víðátta og frelsi eins og best það verður...

Litið til baka að Kaldárseli... þjálfarar hafa skokkað þetta tvisvar og alltaf svifið í sæluvímu þennan kafla...

Hraunbreiðan nær um allt svæðið að Vatnsskarði... og í þessari sprungu hér eru ákveðin skil í hraunbreiðunni sem má sjá ofan af Stórhöfða...

... eins og hraunið hafa þrýsts upp og klofnað kílómetrunum saman...

Batman var rennandi blautur í þessari göngu... þjálfarra höfðu smá áhyggjur af því hvernig þetta veður færi með hann...
en hann undi sér mjög vel og sýndi aldrei merki um örmögnun eða þreytu en hvíldi sig samt þegar við tókum pásur...
líklega var það hitastiginu að þakka þar sem hann var allur blautur áður en leiðin var hálfnuð
og hefur almennt ekki líkað við það veður...

Nokkur snjór á slóðanum en furðu lítið miðað við Búrfellsgjánna...

Komin í mildara landslag hér... Helgafellið í baksýn... leirinn og drullan var áberandi enda vorleysingar á fullu...
já, sem maður sagði... hvernig verður eiginlega Leggjabrjótur eftir viku....

Þessi kafli er vinsæl hjólaleið líka... og mátti sjá hjólförin ansi djúp á köflum...

Heilmikil skógrækt hér... og komin mun lengra á veg en þegar við fórum hér formlegt óbyggðahlaup Toppfara árið 2017...

http://www.fjallgongur.is/obyggdahlaup/obyggdahlaup4_astjorn_kaldarsel_070417.htm

Stórhöfði hér framundan... fimmti tindur dagsins... æj, jú... hann má alveg kallast tindur :-)

Við fórum upp austan megin og hittum á slóðina fljótlega sem liggur þeim megin á hann...

Hann mældist 143 m hár...

Í baksýn Björgólfs mátti sjá fyrri tinda dagsins... jú, þeir máttu alveg kallast tindar... :-)

Sjá hraunsprunguna endilöngu... eins og uppþrengdur jaðar...

... eftir endilöngum höfðanum...

... leiðin að Stórhöfða frá Kaldárseli og Helgafelli... sjá má móta fyrir Valahnúka, Húsfell og Búrfellsgjá...

Við nutum útsýnisins sem var ekki sjálfgefið á þessum blauta degi...

Smá hópmynd hér á tindi fimm ! :-)

Jóhanna Diðriks, Vilhjálmur, Bjarni, Björgólfur, Ólafur Vignir, Kolbeinn, Guðný Ester og Örn.

Æji... hér átti að ná fallegri mynd með fjórum fyrri tindum dagsins sem voru að baki... allir bendandi á þá...
en því miður komst regndropi á myndavélina :-)

Við fórum niður slóðann til baka austan megin og leituðum að sneiðingu niður á slóðann þar að Hvaleyrarvatni
en vorum ekki viss með leiðarvalið þar sem þjálfarar hafa alltaf farið Stórhöfðastíginn vestan megin kringum höfðann á þessari leið
en svo sáum við að það er hægt að þvera Stórhöfða og fara niður vestan megin og þar niður að Hvaleyrarvatni NB...
svo við mælum frekar með því leiðarvali...

Þetta var ágætis leið en ekki á stíg að hluta en vesturleiðin er það öll NB...
svo við mælum með henni ef einhver fer þessa leið eftir okkar gps af wikiloc !

Niður að Hvaleyrarvatni lá svo akstursvegur þar sem við gengum framhjá afleggjaranum að Stórhöfðastíg
en hann er mjög fallegur og því miður ekki genginn þennan dag þar sem við fórum upp á Stórhöfða...

Gengum svo kringum hálft Hvaleyrarvatnið en hefðum vel getað farið beint upp af vesturendanum upp hlíðarnar á Vatnshlíð
og þaðan upp á hæsta tind þar...

En það var svo sem mjög fallegt að ganga þennan kafla og upplifa smá líf annars útivistarfólks á svæðinu...
skokkandi, hjólandi eða leikandi sér við vatnið heilu fjölskyldurnar...

Svo var það Vatnshlíðin... upp frá bílastæðinu suðaustan megin við vatnið...

Létt leið á stíg allan tímann...

Útsýnið opnaðist smám saman eftir því sem ofar dró...

Tók óvart mynd hér... en læt hana standa því hún fangar vel ófriðinn í himninum þennan úfna dag...

Besta hópmynd dagsins :-) ... neðan við efsta punkt á Vatnshlíð...
með Búrfellsgjá, Húsfell, Valahnúka og Helgafell í Hf í baksýn...
vá... við vorum búin að ganga alla þessa leið... magnað...

Ofan af Vatnshlíð var eingöngu Ásfjallið eftir...
það eina af öllum þessum sjö "tindum" sem fær að heita "fjall" og það með miklu hafnfirsku stolti...
og það stóð undir nafni... reyndist okkur þyngst í skauti...

... jebb, það reyndist þrautinni þyngri að ganga gegnum skelfilega lúpínubreiðuna í vorhamnum...

... þessa leið hér út af stígnum til að stytta okkur leið beint yfir á hæsta tind á Ásfjalli...

... en þetta leið að lokum og brátt sáum við glitta í hleðsluna á tindi Ásfjalls...

Loksins komin... og þegar við vorum búin að jafna okkur á  lúpínuþreytunni...
hlógum við eins og brjálæðingar yfir þessari vitleysu... að fara þessa löngu leið í þessum rigningarsuddavindi...

En sigurbragðið á vörunum var ósvikið... okkur tókst þetta... við urðum ekki úti... við þurftum ekki að kalla á hjálp...
við þurftum ekki að biðja um að láta sækja okkur á miðri leið... við þurftum ekki að stytta okkur leið...
við slepptum engum tindi... við fórum þetta allt... :-)

Þá var bara eftir að strunsa niður í Ásvallalaug... heiti potturinn þar hefði verið svo kærkominn...
allir rennandi blautir meira og minna...

Hver fór á sínum hraða hér en Örn þétti samt hópinn við brúnna...

Myndavélin varð rafmagnslaus hér... það er seinni myndavélin... kvenþjálfarinn var búinn að tæma rafhlöður beggja síma...
og rétt náði að hringja í miðsoninn og segja hálfa setningu um að að það væru 10 mínútir í okkur í Hafnarfjörð...
og hann dreif sig sem betur fer af stað að sækja okkur...

Þjálfarar og aðrir svo blautir og hundurinn ekki síður... að það endaði með því að Örn fór bara með unga parinu á þeirra bíl að sækja Toppfarabílinn uppi í Heiðmörk meðan Bára og Batman biðu rennandi blaut við lokaða Ásvallalaugina... í vindi og rigningu en þó skjóli við anddyrið... það var skrítin stund... svo kalt að þau enduðu á að hreyfa sig stöðugt þar til Örninn kom... en hann var sléttar 23 mínútur að keyra frá lauginni og sækja bílinn og koma til baka... þetta var ekki einu sinni hálftími... þannig að þeir sem vilja gera þetta svona...
þá er ekki mikið mál jafnvel að fá bara leigubíl til að skutla sér á milli upphafs- og endastaðar
til að leysa það að byrja annars staðar en maður endar gönguna  :-)

Dísætur áfangi !

Leið sem sannarlega er þess virði að ganga... við mælum með henni við alla... öryggisþátturinn er hár þar sem maður er stutt frá byggð og hægt að ákveða styttingu á miðri leið við Kaldársel (láta sækja sig þar)... alger snilld... kannski endurtökum við þessa göngu síðar því hún var algert æði og hefur marga kosti eins og nálægð við byggð, stutt að ferja bíla og mjög fjölbreytt og falleg leið :)

Myndband um ferðina hér:
 

Gps-slóðin hér:

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir