Fimmtán toppfarar ásamt Jóni Gauta fjallaleiðsögumanni gengu alla leið á Þórisjökul laugardaginn 8. nóvember við krefjandi aðstæður en þó í meðbyr að mörgu leyti. Hlýindi síðustu daga gerðu það kleift að hægt var hugsa sér að sigra þennan jökul á þessum árstíma og munaði þar á endanum um upphækkaða jeppa sem Ingi skaffaði til ferðarinnar annars vegar og Jóngeir hádegisskokkari hins vegar sem skellti sér á rjúpnaveiðar og styttri fjallgöngu á svæðinu og bauð toppförum far af stakri ljúfmennsku... Veðurspá var hagstæð; milt, hlýtt og lygnt... en við lögðum hins vegar af stað með rigningu og rok beint í fangið úr austri og við tók svo nánast stanslaus snjóhríðin í 880 m hæð alla leið á tindinn. Skyggni var ágætt úr hlíðum jökulsins en í hríðinni upp úr 900 m hæð var ekkert að sjá nema rauða, svarta, gula, bláa... félagana að berjast áfram mót úrkomunni...
Flestir voru orðnir blautir í fætur þegar á leið og kuldinn beit á stundum þar sem vindurinn var mikill en þó var margt með okkur sem olli því að við náðum alla leið í 1.324 m hæð eftir fjögurra eða fimm og hálfrar klukkustundar uppgöngu (eftir því hvenær menn lögðu af stað gangandi). Við höfum lent í meiri kulda, hvassari vindi og erfiðara færi en þarna svo reynslan fleytti okkur einnig áleiðis því ekkert var gefið eftir. Meðvindurinn feykti okkur svo til baka... myrkrið skall smám saman á þegar nokkrir kílómetrar voru eftir að bílunum og var klöngrast niður grýtta hlíðina niður á "láglendið" með höfuðljós á enninu eins og ekkert væri eðlilegra svona mitt í óbyggðum í Kaldadal.. það var hrein unun að sjá æðruleysið sem þá ríkti... Virkilega blaut og fljótt köld en stolt og sæl með dagsverkið skiluðum við okkur í bílana í myrkrinu smám saman á meðan Ingi og Jóngeir ferjuðu óðum hópinn suður að hinum bílunum og gengu menn mislangt sökum þessa þennan dag, þeir lengstu 24 km (Jón Gauti og Örn) en sjálf fjallgangan frá "efstu bílum" var um 17 km löng á 6:55 klst? Kannski ekki svaðilför... við höfum stundum séð það svartara... en afskaplega langur dagur í krefjandi veðri með blauta fætur flestir og sumir að fara sinn fyrsta tind með hópnum... þrekvirki svo sannarlega sem skilaði okkur fjórða jöklinum í öðruvísi upplifun en nokkurn tíma áður á göngu í óbyggðum...
Mynd uppi: Í grjóthlíðinni með
OK
í fjarska til norðvesturs.
|
Sjá leiðina hér á korti skv. gps. Fyrst er 3,4 km ganga frá fyrsta bíl sem var skilinn eftir - svo 1,5 km bakaleiðin á göngu og loks fjallagangan sem allir fóru frá Kaldadalsvegi og í austur. Sjá síðar samtölur eftir gps hinna.
|
Prófíllinn af göngunni miðað við tíma - uppgangan 5:34 klst. (4:34 klst. frá Kaldadalsvegi í austur) og bakaleiðin 2:50 klst.
Sjá myndir af ferðinni á myndasíðu hópsins: www.picasaweb.google.com/Toppfarar |
Lagt
var af stað úr bænum rúmlega 07:00 í
myrkri. Akstur gekk vel um Uxahryggjaleið og var færið autt til að byrja með á Kaldadal, þetta leit vel út og við vorum vongóð... Smám saman fóru að koma snjóskaflar á leiðinni sem minni jepparnir komust ekki yfir og því voru þeir skildir eftir og hinir tveir (bílar Inga og Jóngeirs) héldu áfram með smá barningi um skaflana. Þetta voru nokkrir kílómetrar og komu þeir svo til móts við hina gangandi og sóttu þá en samtals var þetta um 3,4 km frá fyrsta göngustað að eiginlegum uppgöngustað á jökulinn og tók 1 klukkustund með öllu frá því fyrstu menn lögðu af stað. |
Næðingurinn
þegar lagt var í hann gangandi frá
fyrsta bíl var heldur kuldalegur og það
hvarflaði sterklega að þjálfara að ganga
bara á
Fanntófell
eða
Ok...
en sem betur fer voru ekki fleiri
almennt á þeim buxunum að viðra skýrar
slíka hugmynd því hún hefði verið gripin
á lofti og framkvæmd ef fleiri hefðu
lýst eindregið yfir efasemdum... Ganga á Þórisjökul var alfarið hugmynd Báru og fékk ekki sterkar undirtektir í upphafi einmitt vegna þess að líkur á góðri færð eru ekki miklar í nóvember. Engu að síður eru dæmi þess að menn séu að klifra og ganga á jökulinn í lok október svo ef heppnin væri með okkur vissi þjálfari að þetta væri mögulegt og vildi láta á reyna... það er nefnilega skemmtilegast að takast á við erfiðara verkefni en það sem augljóslega er framkvæmanlegt. Jökulganga í lok ársins áður en veturinn réði algerlega ríkjum næstu mánuði var spennandi því jökla er almennt erfitt að nálgast utan hásumars enda verður almennt eingöngu einn jökull á dagskrá árlega hér með í fjallgönguklúbbnum, þ. e. í maí-mánuði. |
Eftir
hressilega göngu mót sterkum vindinum í
möl og mosa og stutta nestispásu var
klöngrast upp grjórbrekkuna miklu að
jöklinum sjálfum og gaf útsýni þá yfir
svæðið til suðurs, vesturs og norðurs.
Sjá má hve lítill snjór er á svæðinu á myndinni hér, en þó þannig hafði samt skafið í veginn að minni jepparnir komust ekki alla leið. Vindurinn var hvass á móti okkur í brekkunni og þetta sóttist fremur hægt í stórgrýtinu en gekk vel. |
Hrúðurkarlar
til suðurs,
Fanntófell
til vestsurs og
Ok
til norðvesturs (bæði utan myndar) nutu
sín vel úr hlíðum Þórisjökuls og maður
gat rétt ímyndað sér fegurðina þarna í
sumarblíðu... ...við verðum að koma hingað að sumarlagi... ...enn einu sinni kviknaði löngun til þess að ganga á vetrarfjallið það sinnið að sumarlagi... jeminn, hvað það eru ótalmörg skemmtileg verkefni framundan...
|
Örn, Ingi, Halldóra Þórarins og Irma hér í einum snjóskaflinum sem gaf ofar og var kærkomin hvíld frá grjótinu. |
Efst
í grjótbrekkunni fengum við okkur nesti
og nutum útsýnisins áður en lagt var í
hann upp á brúnina þar sem okkar biðu
heiðarnar að jökulbungunni í óhindruðum
vindinum beint í fangið. Þarna létti skyndilega til, himininn gullfallegur og sólargeislarnir birtu allt upp. Myndefnið varð gott en vindurinn erfiður og gönguhraðinn þannig að það var ekki mikill tími til að leika sér með vélina....
Fanntófell hér í fjarska. |
Hólar og hæðir á leiðinni í snjóskafa en annars var þetta tiltölulega áreynslulítil ganga fyrir utan grjótbrekkuna í byrjun. |
Heiðin
að jöklinum.
Sprunguhætta ekki metin svo að þörf væri á að vera í línum og hlýindin slík að eingöngu þeir sem vildu tóku með sér brodda og ísexi frá bílunum, fyri utan þjálfara og leiðsögumann. |
Á
jökulbungunni sjálfri varð gangan
barningur mót vindinum í engu skyggni og
þannig var það alla leið upp í 1.320 m
hæð sem var efsta hæðarlínan og afráðið
að láta það nægja þar sem engin leið var
að finna nákvæmlega punktinn með 1.329 m
hæð...
Þarna kysstum við jökulinn, tókum hópmyndina, fengum okkur að drekka og rukum svo af stað til baka... 4:30 klst. ganga að baki og tíminn orðinn knappur fyrir heimleið... nennti Jóngeir að bíða eftir okkur? Bakaleiðin var rösk á eftir Erni og Roari en þeir gengu eftir sporum, minni og gps á meðan Bára og Jón Gauti fylgdu síðustu mönnum á spjalli. Sjá síðustu myndina, aðeins farið að skyggja og við enn á snjóheiðinni. |
Höfuðljósin
virkjuð í grjótbrekkunni og við sáum
ljós í fjarska, Jóngeir og fleiri á ferð
þar. Tunglið komið upp og skein skært svo til hálffullt en þreytan farin að segja til sín, menn flýttu sér í bílana blautir og fljótlega kaldir en flestir urðu blautir í fæturna í þessari ferð, sumir jafnvel strax í byrjun í bíla-volkinu... Jóngeir beið hinn þolinmóðasti eftir þessum hressu Toppförum sem hann þekkti ekki nema þá sem hafa skokkað í hádeginu...og selflutti okkur ásamt Inga af stakri natni þeirra félaga þar til allir voru komnir í bílana og heimför gat hafist í myrkrinu alla leið í bæinn...
Frábær ferð með gömlum jöxlum og nýjum
félögum sem stóðu sig með eindæmum vel.
Þórisjökull
bættist í hóp þeirra ganga sem fengið
hafa efasemdir úr ýmsum áttum um að séu
mögulegar þar til á reyndi... því
vetrarkvöldgöngur í myrkri... Baula í
janúar... Snæfellsjökull frá þjóðvegi í
mars... Vörðuskeggi á aprílkvöldi...
Laugavegurinn á tveimur dögum...
Syðsta-Súla á ágústkvöldi... og
Þórisjökull í nóvember eru allt göngur
sem þjálfarar fengu á sínum tíma að
heyra væru ekki mögulegar en þrjóskuðust
samt við að hafa á dagskrá... |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|