Lakagígar
í suddarigningu og þoku
en skælbrosandi gleði allan tímann
... um stórkostlega náttúrusmíð
sem lét veðrið ekki alveg þagga niður í sér :-)
Nú vitum við öll sem vorum í Lakagígum 27. júlí árið 2019...
að það er hægt að keyra í 5,5 tíma... ganga í rigningu, vindi og þoku í 4,5 tíma og rennblotna...
þurfa að fara úr öllu og í þurr föt í sama suddaveðrinu við rútuna mitt í sandinum fyrir framan alla hina...
og passa að þurru fötin verði ekki líka blaut og öll í sandi... keyra í 5,5 tíma til baka í bæinn...
og hlæja allan tímann og skemmta sér konunglega...
hafa lúmskt gaman af, öðlast dýrmæta reynslu og auðga andann með samræðum og samveru með aðdáunarverðu fólki...
jebb, nú vitum við að við getum gert þetta... gott að vita :-)
-----------------------
Árið 2014 gengum við um tignarlegar slóðir á Sveinstind við Langasjó og upp á Fögrufjöll umhverfis Fagralón
sem er hluti af Langasjó og fórum meðfram Skaftá að hluta þar sem Lakagígar blöstu við...
þar með voru Lakagígar komnir á vinnulista Toppfara og árið 2019 var loksins ætlunin að njóta þessarar stórkostlegu náttúrusmíðar
sem allir jarðfræðingar heimsins þekkja vel til og dreymir um að skoða...
http://www.fjallgongur.is/tindur110_sveinst_fogrufj_langasjo_060914.htm
Mikið var lagt undir... 45 manna rúta og mikill áhugi á þessari ferð frá fólki sem ekki var í fjallgönguklúbbnum...
langur biðlisti sem þó greiddist úr þegar nær dró og allir komust með sem vildu upp á slétt...
Þjálfarar vöktuðu veðurspána fjórar vikur fyrir ferð og það var rigning meira og minna í kortunum lungað úr sumrinu
þrátt fyrir einmuna blíðu á suður- og vesturhluta landsins þetta sumar 2019...
... meðal annars helgina og sunnudaginn 14. júlí þegar þeir voru í sumarfríi og skelltu sér loksins í könnunarleiðangur upp að Laka
þar sem aldrei virtist viðra betur hvort eð er og ákváðu að láta sig hafa það að fara í rigningu...
Við lögðum af stað í þurru, hlýju, lygnu og háskýjuðu veðri frá bústaðnum okkar Fjallaseli í Landsveit
en lentum í grenjandi rigninu strax niður á suðurlandsvegi frá Hellu að Vík í Mýrdal... stuttu eftir Vík lagaðist veðrið
og við vorum í þurru veðri alla leið að Kirkjubæjarklaustri og inn að Laka... þar sem ekkert rigndi fyrr en við keyrðum til baka og vorum komin nánast á suðurlandsveg að droparnir mættu aftur á bílrúðuna...
Það var því með þessa reynslu í huga sem þjálfarar létu slag standa þegar þeir mátu veðurspána laugardaginn 27. júlí
sem sýndi rigningu á suðurlandi þennan dag en að það væri léttara inn til landsins
og myndi létta smám saman til þegar liði fram á daginn...
Úr varð þetta ljóð þjálfara... sem hafði skorað á alla að taka þátt í ljósmyndakeppni með ljóði í ferðinni...
þar sem menn áttu að taka eina fallega mynd og semja ljóð við hana...
Laugardagurinn 27. júlí rann upp... og það var þurrt í Reykjavík klukkan 5:45 við Össur þar sem allir mættu fyrir brottför kl. 6:00 á slaginu...
og rigning nánast alla leiðina frá Reykjavík að Laka...
Mjög stór hópur á ferð... þjálfarar gripu tækifærið þetta sumar og fengu rútur í þrjár ferðir sumarsins
eftir fjölda áskorana klúbbmeðlima í gegnum árin með að fá rútu frekar en að vera sífellt að raða okkur saman í jeppa
fyrir þessar löngu ferðir... en það þýðir lágmarksþátttöku til að fjármagna rútu og bílstjóra heilan dag
og fjölda göngumanna sem við höfum í raun ekki hugnast almennt að hafa í okkar göngum...
Þetta sumar var því prófsteinn á slíkar ferðir... og þjálfarar voru hikandi í öllum ferðum
en þó verður að segjast að hópurinn sem slíkur fór alltaf fram úr væntingum þjálfarar og vel það
en persónulegi takturinn og heimilislega nándin hverfur í þessum fjölda svo við verðum að vega og meta þetta fyrir næstu ferðir...
hugsanlega verður ein eða tvær svona stórar ferðir á ári... ekki meira að okkar mati...
helst af öllu eingöngu klúbbmeðlimir... en þeir verða þá að vera nægilega margir sem hafa áhuga
því það voru gestir sem gerðu það kleift að fá rútu, bæði í Lakagígaferðinni og Fimmvörðuhálsferðinni...
Hvolsvöllur lokaður svona snemma dags og því var Vík í Mýrdal eini kosturinn fyrir okkur til að taka wc-stopp á leiðinni
en sjoppan gamla var lokuð og þá voru góð ráð dýr... en einhverjir í rútunni vissu að Icewear húsið væri hugsanlega opið
og við keyrðum þangað... jú, fyrirmyndaraðstaða fyrir svona stóran hóp, næg salerni, bakarí og búðin meira að segja opin...
og stór veitingastaður inn af Icewear...
alger snilld og vel leyst af þeirra hálfu þar sem svona hópar komast hvergi inn að borða eða á wc með góðu móti...
hingað munum við koma aftur :-)
Því miður lagaðist veðrið ekkert á leiðinni að Kirkjubæjarklaustri...
sem við slepptum að koma við á þar sem allir voru mættir í rútuna...
Guðrún Jónína inn á Vík og Svavar inn frá afleggjaranum við ánna skálm...
sem betur fer því það þýddi smá sparnað í tíma því Klaustur er 4 km lengra en Lakagígavegurinn...
En inn Lakaveg keyrðum við í svo mikilli þoku að á köflum sáum við varla veginn...
það var bókstaflega ekkert skyggni og þetta lagaðist ekkert þegrar innar í landið var komið því miður...
Vonbrigðin voru ólýsanleg þó allir reyndu að gera það besta úr stöðunni og vera glaðir sama hvað...
þokan var svo þykk að þegar keyrt var að bílastæðinu við sjálfan Laka þar sem bækistöðvar landvarða er
þá sást ekkert í húsið og bílstjórinn sem var að fara í sína fyrstu ferð inn Lakagíga hefði keyrt framhjá
ef þjálfarar hefðu ekki vitað með vissu að hér skyldi stoppa...
Þjálfari tók ekki myndir af versta skyggninu... hér er það nefnilega farið að lagast...
því þegar úr rútunni kom þurftum við að drífa okkur í regngallann... spjalla við landverði
og taka á móti þeim sem komu á eigin jeppum sem voru Arna og Njáll og Jóhann Ísfeld og Steinunn Snorra...
Fínasta aðstaða við Laka og góðar upplýsingar um svæðið á kortum...
vatnssalerni þar sem talsverð biðröð myndaðist og því fóru þjálfari og nokkrir aðrir bara á gamla V-laga salernið,
svipað og var á Fimmvörðuhálsi í júní... á meðan fór aftur að rigna og menn byrjuðu strax þarna að blotna...
En skyggnið lagaðist enn og við urðum bjartsýn...
var hann smám saman að lyfta sér og opnast eins og björtustu veðurspár sögðu ?
Landverðirnir Sigurjón og Benedikt ef nöfnin eru rétt munuð gáfu okkur smá fróðleik um svæðið áður en við lögðum í hann
en þeir voru fullir aðdáunar á okkur að láta okkur hafa það og mæltu með því að fara eingöngu upp á Laka og keyra svo að Tjarnargíg, það væri of langt í þessu veðri að ganga á milli... við ákváðum að meta þetta þegar Laki væri að baki...
Lagt var loksins af stað kl. 12:10... eftir akstur frá Reykjavík á slaginu kl. 6:00.... sem sé 6 klukkustundum síðar...
eftir rúmlega hálftíma fataskipti, wc-ferðir og spjall fyrir ferð...
Já... það er vel hægt að gera þetta eins og menn keyra frá Reykjavík til Akureyrar og keppa einn leik...
og keyra svo aftur til Reykjavíkur... eða fljúga erlendis langar leiðir til að fara á tónleika... þetta var svo sem ekkert öðruvísi...
en við hristum samt öll hausinn yfir þessu og áttum eftir að skellihlæja í lok ferðarinnar
yfir þessu yfirgengilega ferðalagi fyrir sudda og þoku allan tímann :-)
Gangan upp á Laka gekk framar vonum þjálfara...
við vorum enga stund upp, talsvert á fótinn en góður slóði og fínt færi...
skýringin var náttúrulega sú að það var engin ástæða til að staldra við á leiðinni
og skoða útsýnið sem þarna er engu öðru líkt...
Upp vorum við komin eftir 36 mín göngu 1,3 km... komin í 824 m hæð úr sléttri 600 m við skálann...
Ekkert skyggni því miður... hvorki til norðurs að Vatnajökli þar sem gígaröðin liggur...
né til suðurs þar sem hinn helmingurinn af gígaröðinni liggur útbreidd...
Þjálfarar miður sín þar sem þeir vissu af hverju við vorum að missa...
Sjá hér myndir frá Katrínu Kjartans og Guðmundi Jón sem fóru í mjög góðu veðri í ágúst:
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10214974423294726&set=pcb.10214974467055820&type=3&theater
Og ýmis myndbönd af youtube úr flugi o.fl... kyngimagnað landslag...
Íslenskt og mjög fallegt myndband hér: https://www.youtube.com/watch?v=jRG9S4cRup4
Franskt áhugavert flugmyndband hér: https://www.youtube.com/watch?v=Jf5YGOiGZiY&t=769s
Vonsvikin... og búin að sjá að það þýddi ekkert að bíða eftir betra skyggni... snerum við við sömu leið niður af Laka...
en hringleiðin upp og niður hann á öðrum stað var lokuð þetta sumar sem var mikil synd því hún er mjög falleg...
en það hefði ekkert gefið samt að fara hana þennan dag svo það var ekki okkar svekk að sinni...
Af öllum mætti reyndum við að njóta þess sem þó var... landslagsins nær úr því það sem var fjær var ekki í boði...
...og þar bregst íslensk náttúra ekki... sama hvernig veðrið er...
En glaðlegar samræður og hlátur glumdu í hlíðum Laka þrátt fyrir allt... útiveran og hreyfingin...
samveran og samræðurnar eru alltaf gefandi óháð veðri... það fengum við þó í kaupbæti þó ekkert væri skyggnið...
Niðri við Laka aftur.. eftir rúmlega klukkustundargöngu göngu... réðum við ráðum okkar...
sumir orðnir gegndrepa þrátt fyrir dýra og fína útivistarbúnaðinn... já, það reynir sannarlega á hann í svona veðri...
aðrir í banastuði og til í allt...
Landverðirnir óskuðu þess heitt eins og þjálfarar að við værum í betra veðri og skyggni... það væri svo margt fallegt að skoða á þessum slóðum... en þetta var versta skyggnið hingað til hjá Sigurjóni en Benedikt sagði þetta ansi kunnuglegt veður frá síðasta sumri...
Þeir ítrekuðu ráð sitt með að keyra yfir á Tjarnargíg... en það hugnaðist þjálfurunum ekki... það þýddi tvær stuttar göngur eftir allan þennan akstur... við vorum ekki komin hingað til að taka tvær klukkustundarlangar göngur í sudda... og enduðu því á að gefa hópnum tvo kosti; að fara aftur í rútuna og keyra að Tjarnargíg og ganga þann hring... eða ganga bara veginn frá Laka yfir í Tjarnargíg og enda gönguna á hringleiðinni um hann... sem betur fer ákváðu flestir að skella sér í síðari kostinn... það væri snöggtum skárra að ganga sér til hita á millil þessara gíga en að klúldrast hálf kaldur og blautur inni í rútu... en þeir sem voru blautastir völdu eðlilega síðari kostinn þar sem þeir voru þá þegar blautir og gátu ekki hugsað sér að vera í þessu veðri lengur...
Við tók röskleg ganga eftir veginum frá Laka yfir svarta sanda og mosaslegna ása...
þar sem gleðin var glymjandi við völd þrátt fyrir allt...
Menn tóku þjálfara á orðinu og fóru á trúnó... mitt í rigningarsuddanum...
arkandi áfram og njótandi frískandi rigningarinnar og þokunnar sem umlukti heilandi um allt...
Leiðin þarna á milli er mjög falleg hvort sem farið er gangandi eða keyrandi og margir staðir þar sem maður vill taka myndir á bíl...
við sáum hluta af þessari fegurð gangandi sem betur fer... en myndirnar sýna hana ekki þar sem samhengið vantar í umhverfið...
Einstök upplifun engu að síður... svona er Ísland... veðrið ræður
og það var ekkert annað í stöðunni en að nýta sér það eins vel og hægt var...
Landverðirnir keyrðu svo á eftir okkur og tóku stöðuna á hópnum á miðri leið... og þegar þeir sáu að við vorum í góðum málum þá önduðu þeir líklega léttar... en Sigurjón beið eftir síðasta manni við Tjarnargíg og kvaddi okkur fyrst þá... sem var fallega gert af honum og gaf okkur ákveðið öryggi því við vorum jú ein í heiminum og stödd lengst upp á hálendi mjög langt frá allri byggð og björgun ef eitthvað skyldi koma upp á...
Á miðri leið að Tjarnargíg tók að létta aðeins til og við sáum betur yfir landslagið...
Skyndilega opnaðist á fleiri gíga og gullfallegi græni litur mosarins fór að njóta sín...
Það er eitthvað sérstakt við þessa auðn á hálendinu... orka og friður sem fær sálina til að staldra við og hlaðast...
Uppi á hálsinum hér áður en við gengum niður að Tjarnargíg...
Smám saman birtist gígaröðin við Tjarnargíg á vinstri hönd...
Sjá hér gígbarminn í Tjarnargíg hægra megin við miðja mynd... magnaður gígur og óskaplega formfagur...
Jú, smá sólarbirta... var þetta að gerast ? Vorum við í alvöru að fá betra veður eftir allt saman ?
Tjarnargígur hér nær... gígbarmurinn brotinn upp eins og egg...
Gígaröðin að hluta...
Við Tjarnargíg er smá húsakostur og vatnssalerni sem var kærkomið fyrir þá sem þurftu...
Þarna myndaðist líka röð en hún var eins og djammröð í 101... hlátrasköll og gleði og ekkert annað...
Andinn í hópnum þrátt fyrir veðursuddann var aðdáunarverður...
Það var augljós hvernig andlegur styrkur og jákvæðni útivistarfólks er sterkur þegar á reynir...
menn héldu bara gleðinni og sumir komu sérstaklega til þjálfara og létu vita að þeir væru að njóta þessarar stundar í botn og vildu hvergi annars staðar vera... eða eins og Anna Sigga orðaði það... hún væri svo þakklát að vera þarna... því annars hefði hún bara hangi í bænum og gert ekkert og dagurinn horfið án þess að nokkuð stæði eftir...
Í svona stórum hópi ná þjálfarar því miður ekki að tala við alla sem var miður...
þarna voru þó nokkrir sem við höfum ekki hitt áður og hefðum viljað kynnast en það næst vonandi næst...
Flestir til í Tjarnargíg en þó voru einhverjir sem létu hér við sitja og fóru í rútuna...
þrátt fyrir suð í þjálfara um að þessum hluta leiðarinnar ætti enginn að sleppa...
og sumir þeirra sem fóru með rútunni frá Laka lögðu aftur í hann hér frekar en að vera í rútunni áfram...
en það reyndi virkilega á búnað í þessu veðri og mikilvægt að muna að ullarföt, ullarpeysa (ekki bara ullarnærför),
ullarbelgvettlingar og ullarhúfa er það besta til að geta haldið áfram gangandi klukkutímunum saman í rigningu...
Það var best að halda sér heitum með því að ganga og því var farið rösklega að Tjarnargíg...
Sjá bleytuna vel hér á Þorleifi... þetta var alvöru veður...
Átroðningurinn í Lakagígum hefur verið mikill og með vaxandi ferðamannafjölda er mikilvægt að halda svæðinu sem hreinustu og óspilltustu... reglurnar á svæðinu eru mjög skýrar og afgerandi... það er harðbannað að ganga utan merktra gönguleiða...
ekki eitt skref utan þeirra takk fyrir og þó maður sjái gamlar slóðir þá má alls ekki ganga á þær...
heldur eingöngu þar sem eru stikur...
... og svo voru svona prammar rétt að Tjarnargíg þar sem hann telst með þeim fegurstu á svæðinu...
Og það var orð að sönnu... þó ekki fengjum við að njóta hans við bestu veðuraðstæðurnar...
Nú buldi rigning og gola á tjörninni sem var spegilslétt þegar þjálfarar fóru hér könnunarleiðangur tveimur vikum áður..
En fagurt var það engu að síður og slóðin niður í hann og gegnum hann mögnuð...
Hópmynd með herkjum... og samt vantaði sjö manns...
Stígurinn lá svo meðfram tjörninni og út úr gígnum og með gígaröðinni til suðurs
og við vorum ákveðin í að ná einhvers lags landslagsupplifun áður en deginum lyki
því það var þó í boði í þessu nærumhverfi sem hér var...
Mjög falleg leið þó það væri suddi... hvílík fegurð eflaust í sól og heiðum himni...
Mjög fjölbreytt leið upp og niður skálar, dali, gil og hraunborgir...
Stundum var þokan þéttog skyggni lítið...
... en svo opnaðist aðeins og við gátum virt fjærumhverfið aðeins fyrir okkur...
... og séð glitta í klettaborgir... gíga... hrauntraðir...
Gamlir slóðar liggja um allt í Lakagígum og setja áberandi mörk á landslagið...
sérstakt átak er í gangi hjá starfsmönnum þjóðgarðsins að lagfæra þessar skemmdir
og leyfa eingöngu umferð gangandi og akandi á ákveðnum slóðum...
en þeir hafa þróað ákveðna aðferð til þessara viðgerða...
mosamottur eru fluttar í gömlu troðningana svo að þeir hverfi.
Í ljós hefur komið að nýr mosi vex smám saman þar sem mosinn er tekinn og hreinsaður vel.
Þetta er hins vegar tímafrek vinna eins og lesa má í upplýsingum þjóðgarðsins
og leggja landverðir mikla áherslu á að allir leggi sitt af mörkum til að þetta takist...
Það sást vel á þessari hringleið frá Tjarnargíg að menn virðast snúa við og klára ekki hringinn
því slóðinn minnkaði þegar fjær dró...
... en hringleiðin er það stutt að það er vel þess virði fyrir alla sem hafa tíma að ganga hann allan...
... því leiðin breyttist stöðugt og var mjög fjölbreytt allan tímann...
Virkilega fallegt umhverfi þó það væri rigning...
Á þessum kafla náðum við aftur flugi á spjalli um menn og málefni
og þjálfarar náðu aðeins að kynnast þó þeim sem skráð hafa sig í Toppfara...
... og munu vonandi vera dugleg að mæta næsta árið...
því þau verða að upplifa göngu í góðu veðri með okkur í sárabætur fyrir þennan dag...
Já... við verðum að koma hérna aftur... og það er komið á vinnulistann... jeppaferð inn að Laka... ekki rúta...
grípum bara gott veður og förum... keyrum á milli Laka og Tjarnargígs... sjáum ekki eftir því :-)
Toppfararnir 26;
Arnar, Arngrímur, Ágústa H., Bára, Berglind N., Birgir, Bjarni, Björn Matt., Dalene, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Halldóra Þ., Harpa, Helga Björk, Jóhann Ísfeld, Kristín Þ., Margrét Páls., Olgeir, Reynir Z., Sigríður Lár., Sigríður Arna, Steinunn Sn., Svavar, Þorleifur, Þóranna, Örn
Og fyrrum Toppfararnir 6;
Anna Sigga, Bárður, Ester, Lilja H., Sóley og Svala.
Og gestirnir 13;
Aleksandra Leonardsdóttir, Bjarghildur Pálsdóttir, Björk Jómundsdóttir, Björgvin Snæbjörnsson, Brynja Magnúsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Guðrún Jónína, Hafsteinn G. Einarsson, Haukur Víðisson, Helga Atladóttir, Helma Rut Bergmann, Hreinn, Jófríður Ósk Hilmarsdóttir.
Áfram hélt þessi dýrðarinnar leið... hún kom á óvart eftir það sem á undan var gengið...
Nafnlaus gígur er á miðri leið og við skoðuðum hann að innan...
Lítið að sjá samt... nema þessi ægifagri litur mosans sem einkennir þetta svæði...
Tölfræði Lakagíga er sláandi... saga Skaftárelda er hörmungin ein...
Úr riti Vatnajökulsþjóðgarðs:
Skaftáreldar brunnu 1783–84. Þá opnaðist um 25 km löng gossprunga þar sem Lakagígaröðin er nú. Annað mesta hraun Íslandssögunnar, Skaftáreldahraun, rann frá Lakagígum.
Frá vesturhluta gíganna flæddi hraun niður farveg Skaftár og breiddist út á láglendi milli Kúðafljóts og eystri kvíslar Skaftár. Þessi kvísl hraunsins nefnist Eldhraun. Frá austurhluta gígaraðarinnar rann hraunið niður farveg Hverfisfljóts og breiddist út á Brunasandi. Sá hluti kallast Brunahraun.
Hörmungarnar, sem fylgdu Skaftáreldum, eru þær mestu sem dunið hafa yfir Íslendinga á síðari öldum. Eitruð aska dreifðist yfir mestallt landið og gosmóða mengaði loft. Af þessari móðu fengu harðindin nafn sitt – Móðuharðindi. Frá fyrsta degi gossins var ljóst hvert stefndi; svartur gosmökkurinn barst niður á láglendið og öskufall varð í byggð þannig að myrkvaðist í húsum og sporrækt varð á jörðu.
Eitruð aska spillti högum svo að búfénaður veiktist af gaddi og svalt. Vegna móðunnar kólnaði í veðri og hafís lagðist að landi. Þegar leið á veturinn 1783–1784 hrundi búfé niður úr hor og sjúkdómum sem stöfuðu af eitruðum gosefnum. Mannfólkið dó úr hungri. Í Móðuharðindunum lést fimmti hver Íslendingur, alls um tíu þúsund manns, og um 75% búfjár landsmanna féll. Í Fljótshverfi, Meðallandi og á Síðu dóu um 40% íbúanna, 20 jarðir fóru undir hraun og þrjátíu stórskemmdust svo að þær héldust ekki í ábúð um tíma eftir Eld.
Brennisteinsmóða og fíngerð aska frá Skaftáreldum dreifðist um allt norðurhvel jarðar og hafði veruleg áhrif, bæði á umhverfi og veðurfar. Hinn 24. júní 1783 lá móðan sem svartasta þoka yfir allri Evrópu. Um mánaðamótin júní – júlí hafði hún dreifst yfir Rússland, Síberíu og Kína. Þegar verst lét þakti móðan um það bil fjórðung af yfirborði jarðar eða allt landsvæði norðan þrítugasta breiddarbaugs. Því hefur verið haldið fram að franska byltingin hafi í raun átt sér upphaf í Skaftáreldum vegna þeirra gífurlegu áhrifa sem móðan hafði á veðurfar og akuryrkju í Evrópu á þessum tíma.
Í Skaftáreldum dreifðist eitruð aska yfir landið, myrkvaði sýn og skildi eftir sig sviðna jörð. Íslendingar gengu í gegnum mestu hörmungar sem yfir þá hafa dunið, móðuharðindind. Skepnur féllu og fólk dó úr hungri. Tveimur árum eftir að gosið hófst hafði nautgripum landsins fækkað um helming, hrossum um tvo þriðju og sauðfé um fjórða fimmtu hluta. Í móðuharðindunum lést fimmti hve Íslendingur en í sveitum næst gosinu um tvöfalt fleiri. Þar fóru tuttugu jarðir undir hraun og á þrjátíu öðrum jörðum til viðbótar var ekki búandi um tíma.
Brennisteinsmóðan frá Skaftáreldum dreifðist um allt norðurhve jarðar. Þegar verst lét þakti hún um fjórðung af yfirborði jarðar. Stór hluti móðunnar barst út háloftunum aftur til Jarðar sem súrt regn og olli gróðurskemmdum. Móðan dró úr geislun sólar svo hiti við jörð lækkaði. Kuldakastið stóð í þrjú ár og olli víða uppskerubresti og hallæri. Efnahagkreppan sem fylgdi í kjölfarið leiddi til frönsku byltingarinnar.
Af Wikipedíu:
Móðuharðindin voru hörmungar eða áhrif náttúruhamfara sem urðu á Íslandi í Skaftáreldum 1783 – 1785. Móða eða eiturgufa lagðist á jörðina, gras sviðnaði og búfénaður féll. Talið er að um 75% búfjár hafi þá fallið og fimmti hver maður eða um 10.000 Íslendingar hafi dáið. Móðuharðindin hófust með eldgosi 8. júní 1783 í Lakagígum en þeir urðu til í einhverju mesta hraungosi á jörðunni á sögulegum tímum. Samtímalýsing eldsumbrotanna og áhrifa þeirra í nærliggjandi sveitum eru í Eldriti séra Jóns Steingrímssonar, síðar nefndur eldklerkur, sem hann lauk við að skrifa árið 1788.
Veðurfar breyttist á meðan á hörmungunum stóð. Gosið var svo kröftugt að brennisteinsoxíð náði upp í heiðhvolf og hiti lækkaði. Einnig minnkaði inngeislun sólar til jarðar vegna ösku. Áhrifa gossins gætti víða um heim. Hugsanlega má rekja uppskerubrest sem varð víða í Evrópu sumarið 1783 til gossins en slæmt sumar og kuldavetur í kjölfarið juku vandræði Frakka í aðdraganda frönsku byltingarinnar.
Frá nafnlausa gígnum... afhverju eru þjóðgarðsverðir ekki búnir að setja nafn á hann ?
... einhver þarf að gera það... þessi kynslóð alveg eins og fyrri...
einhver þarf að taka ákvörðunina... það er ekki flóknara en það...
... sem sé... frá nafnlausa gígnum var stutt að rútunni... og menn voru hálf fegnir...
allir orðnir blautir og búnir að fá nóg að sinni...
Orðrétt frá Gunnari Karlssyni af Vísindavefnum:
"Eldgosið sem við köllum Skaftárelda hófst 8. júní 1783 í óbyggðum norður af Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar gaus í langri röð gíga sem eru kallaðir Lakagígar og liggja í suðvestur frá vesturjaðri Vatnajökuls í gegnum fellið Laka. Nokkrum dögum síðar helltist hraunstraumurinn niður í byggðina eftir farvegi Skaftár og tók að leggjast yfir tún og engjar á bæjum. Hraunflóðið hélt áfram niður í Meðalland og átti skammt eftir til sjávar þegar það stöðvaðist. Annað hraunflóð minna kom niður í byggð austar, í Fljótshverfi. Auk hraunsins varð mikið öskufall, og kom í ljós að askan var eitruð, líklega af flúor. Í október fór að draga úr hraunrennslinu, og í febrúar sást síðast til elda í Lakagígum. Undir hraun fóru 13 bæir en 29 aðrar jarðir og hjáleigur fóru í eyði um lengri eða skemmri tíma vegna hraunstraums, gjóskufalls, sandfoks og vatnagangs. Langflest áttu þessi býli eftir að byggjast aftur. Jarðir sem eyddust af hraunrennsli en byggðust aftur voru um tíu ár í eyði að meðaltali, aðrar skemur.
Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag?
Eldgosið sem við köllum Skaftárelda hófst 8. júní 1783 í óbyggðum norður af Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar gaus í langri röð gíga sem eru kallaðir Lakagígar og liggja í suðvestur frá vesturjaðri Vatnajökuls í gegnum fellið Laka. Nokkrum dögum síðar helltist hraunstraumurinn niður í byggðina eftir farvegi Skaftár og tók að leggjast yfir tún og engjar á bæjum. Hraunflóðið hélt áfram niður í Meðalland og átti skammt eftir til sjávar þegar það stöðvaðist. Annað hraunflóð minna kom niður í byggð austar, í Fljótshverfi. Auk hraunsins varð mikið öskufall, og kom í ljós að askan var eitruð, líklega af flúor. Í október fór að draga úr hraunrennslinu, og í febrúar sást síðast til elda í Lakagígum. Undir hraun fóru 13 bæir en 29 aðrar jarðir og hjáleigur fóru í eyði um lengri eða skemmri tíma vegna hraunstraums, gjóskufalls, sandfoks og vatnagangs. Langflest áttu þessi býli eftir að byggjast aftur. Jarðir sem eyddust af hraunrennsli en byggðust aftur voru um tíu ár í eyði að meðaltali, aðrar skemur.
Varanleg bein áhrif gossins á búskap landsmanna voru því ekki mikil. Hins vegar varð óskaplegt tjón af því að gosið dreifði fíngerðri gjósku upp í lofthjúpinn yfir öllu landinu – og miklu víðar raunar. Hún olli því að móða lagðist yfir og hindraði sólarljósið í að ná niður til jarðar. Afleiðingin var gífurlegir kuldar, kenndir við móðuna og kallaðir móðuharðindi. Svo vildi til að undanfarandi vetur höfðu verið kaldir og snjóþungir norðanlands og heyfyrningar því óvíða nokkrar. Veturinn 1783–84 varð svo afburðaharður vegna móðunnar. Hey voru lítil eftir sumarið og sums staðar eitruð af gosösku. Fénaður tók að falla af heyleysi, fólk flosnaði upp af jörðum, fór á flakk og féll líka. Hafís lá við allt Norðurland svo að ekki var hægt að sækja næringu í sjóinn. Strax í desember var fólk farið að deyja úr hungri í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði. Fólk streymdi til verstöðva vestan- og suðvestanlands. Margir komust ekki alla leið, og þeir sem gerðu það voru margir orðnir svo máttfarnir af næringarskorti að þeir þoldu ekki að komast í nýjan fisk og dóu því unnvörpum.
Sumarið 1784 heyjaðist aftur lítið, enda fólk víða máttfarið eftir hungrið um veturinn. Við það bættust jarðskjálftar sunnanlands í ágúst sem felldu um 400 bæi. Til að koma upp húsaskjóli fyrir veturinn varð að eyða tíma sem annars hefði nýst til heyskapar. Mannfellir varð því enn af hungri veturinn 1784–85. Sumarið 1785 var hins vegar gott, og telst móðuharðindum þar með lokið.
Erfitt er að meta manntjón í móðuharðindum. Í kirkjubókum eru fleiri skráðir dánir úr landfarsótt en hungri. En þar kemur engin farsótt til greina sem hefði getað verið svo skæð að hún dræpi fjölda fólks ef það hefði verið bærilega á sig komið. Bólusótt gekk um landið og eru heimildir um að hún hafi fellt um 1.500 manns. Í heild fækkaði Íslendingum um 10.000 manns, úr tæpum 50 þúsundum í tæp 40 þúsund frá árslokum 1783 til ársloka 1786. Við góðar aðstæður hefði mátt ætla að því fjölgaði um nálægt því eitt þúsund, svo að það hefði næstum mætt því sem bólan felldi. Verður því að ætla að móðuharðindin hafi fækkað þjóðinni um 10.000 eða um 20%.
Venjulega veldur fólksfækkun því að meira og betra lífsviðurværi verður eftir handa þeim sem lifa af, og má sjá glögg merki þess eftir móðuharðindi. Um aldir hafði verið skortur á jarðnæði til búskapar á Íslandi. Hann olli því að fólk fékk seint tækifæri til að hefja búskap og þar með að ganga í hjónaband því óvíða var rúm fyrir hjónafólk í vinnumennsku, síst ef það eignaðist börn. Margar konur giftust ekki fyrr en þær voru komnar af frjósamasta skeiði og eignuðust því færri börn en ella hefði verið. Eftir móðuharðindi varð auðveldara að fá jarðnæði, fólk gifti sig yngra en áður og eignaðist mikið af börnum. Á áratugunum fyrir móðuharðindi, 1860–80, hafði landsmönnum fjölgað um 0,65% á ári að meðaltali í nokkurn veginn bærilegu árferði. Á árunum 1787 og 1788 var fjölgunin álíka mikil, um 0,64%. En þá tók hún við sér, var 1,46% að meðaltali á árunum 1789–1800 og komst yfir 2% í bestu árum. Um aldamótin vantaði aðeins 2.000 upp á að fólksfjöldinn væri búinn að ná því sem hann hafði verið fyrir móðuharðindi.
Þessar tölur bera vitni um góð lífsskilyrði. Aftur á móti held ég að Íslendingar hafi orðið fyrir miklu áfalli í móðuharðindunum. Hugmyndin um framfarir var farin að breiðast út á Íslandi og bjó meðal annars að baki nýjungatilraunum Innréttinganna í Reykjavík. Ég kannaði einu sinni einn þátt þessara nýjunga, nefnilega kornyrkjutilraunir. Hafði verið farið af stað með þær aftur og aftur allt síðan rétt fyrir miðja öldina, en við móðuharðindin hættu þær gersamlega. Annað dæmi nefni ég stundum þótt ekki styðjist það við mikil rök og því síður rannsóknir. Íslendingar hættu nokkurn veginn alveg að dansa á 18. öld og byrjuðu ekki á því að neinu marki fyrr en um öld eftir móðuharðindi. Lengi hefur verið talið að þetta stafi af því að heittrúaðir Danakonungar hafi bannað landsmönnum að dansa, og hafa menn þá velt því fyrir sér hvers vegna Færeyingar hafi ekki týnt sínum dansi því að þeir höfðu alveg sömu kóngana. Skoðun mín er sú að Íslendingar hafi hreinlega ekki verið í skapi til að dansa á árunum eftir móðuharðindi, og þannig hafi danslistin tapast."
Heimild: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63643
Já... sláandi tölfræði og saga... mann stendur hljóðan og sér vandamál nútímans í öðru ljósi...
að fá ekki betra veður og skyggni á ferðalagi um þessar slóðir er hjákátlegt vandamál í ljósi sögunnar...
Fegurstu myndirnar voru teknar í lok göngunnar...
Sjá veginn efst hægra megin... bílslóðinn sem við keyrðum svo í burtu eftir...
Hringnum lokað hér... við bílastæði við veginn
en þeir sem eru ekki með færanlega rútu þurfa að ganga rúman kílómetra til baka að upphafsstað
sem þýðir um 1,5 klst. göngu allan Tjarnargígshringinn
Axel bílstjóri var að fara í sína fyrstu ferð inn Lakagíga þennan dag
og fékk leiðbeiningar frá þjálfara um hvar hann ætti að biða eftir okkur...
í þessari þoku var ekki augljóst hvar við myndum skila okkur upp á veg af Tjarnargígshringnum þar sem þetta eru nokkrir kílómetrar...
og við hefðum auðveldlega getað farið á mis... eina kennileitið sem hann hafði var borð með bekkjum sem stendur við áningarstaðinn...
annað ekki... og sem betur fer sá hann borðið og trúði því að þetta væri staðurinn þar sem við kæmum út úr gígagröðinni...
Fyrir utan rútuna skiptum við um föt og nú reyndi á að menn væru með þurr föt með sér til skiptanna...
þjálfari ætlaði að hafa þetta kynjaskipt... konur öðru megin og karlar hinum megin...
en borðið var til enda á rútunni og þar voru nokkrir þá þegar byrjaðir að skipta um föt svo menn björguðu sér bara hver og einn.
Einhverjir skiptu um föt inni í rútu... aðrir skiptust á að skýla hvor öðrum við endana... ekkert mál ef maður hugsar í lausnum og gengur bara í málin...
Svo var smá steinn steinsnar frá þar sem hægt var að fara í skjól ef þurfti í þurrar nærbuxur...
þetta var skrautlegt... en hafðist og var aðdáunarvert hversu fljótir menn voru að þessu...
Kvennaklósett var svo við endann á rútunni í lokin og sandurinn tók það allt saman svo hvergi sáust verksummerki eftir okkur...
Þrátt fyrir volk, bleytu og kuldahroll voru menn í brjáluðu stuði á leiðinni í rútunni...
nestið flotta sem átti að snæða þegar farið yrði út að borða með Laka...
sem þjálfari lagði upp sem keppni fyrir hópinn varð að engu... enginn nenndi að dekka upp í dumbungnum við rútuna...
svo við mauluðum það eða restina af göngunestinu bara á leiðinni
og ákváðum að koma við á sama stað í Vík í Mýrdal og fá okkur að borða þar þeir sem vildu...
Akstursleiðin til baka þessa hringleið sem skal aka um Lakagíga...
ekki leyfilegt sem sé að keyra fram og til baka Lakagígahringinn sjálfan...
er ægifögur og allra fegurstu kaflarnir eru í bakaleiðinni...
Fallegasti staðurinn á leiðinni...
Þetta var ástæðan fyrir einstefnu-reglunni um Lakagíga...
ekki auðvelt að mæta bíl og á mörgum stöðum skemmist umhverfið heilmikið ef bílar fara utan af veginu...
Veitingastaðurinn við Icewear í Vík var mjög góður, fljót afgreiðsla og hægt að velja um nokkra rétti...
og menn fengu sér jafnvel einn kaldan með...
Mynd frá Lilju H af fasbókinni.
... eða nældu sér í nestið sitt á ganginum við innganginn
og skáluðu bara si svona til að njóta þó þess sem var þá stundina í boði...
Allir einhvern veginn glaðir og þakklátir þrátt fyrir allt...
súr svipur sást ekki og allir gerðu sitt til að gera gott úr því sem komið var...
Sólin skein svo í heiði þegar vestar dró og þá hvarflaði að manni hvort það væri komið sama veðrið við Laka
en við áttum bágt með að trúa því miðað við lágskýjaða veðrið sem við vorum í allan daginn...
Gífurleg vonbrigði þar sem miklu var til kostað af öllum, dýr ferð, langur akstur, mikill undirbúningur, mikil tilhlökkun,
stórkostlegt landslag og svæði sem fáir voru búnir að sjá áður...
En í stóra samhengi hörmunga heimsins... þá var ekki hægt að láta þetta slá sig út af laginu...
heldur skal þakklæti fyrir gott veður einfaldlega vera betra þegar það kemur...
og auðmýktin gagnvart því að fullkominn dagur á fjöllum er ekki sjálfsagður... sama hvað maður undirbýr sig vel og kostar miklu til...
er ekki sjálfsagður og ber að vera þakklátur fyrir hann þegar hann gefst :-)
Gönguleiðin... Laki fyrstur og efstur... svo akstursleiðin upp tvær hæðir á leiðinni...
og loks slétti kaflinn að Tjarnargíg og hringleiðin frá honum að veginum hinum megin...
Mjög gaman að sjá þetta á korti...
Og fjær hér...
-------------------------------------
Það sem eftir leið þessarar síðustu helgar í júlí... tóku nokkrir sig til þegar blautur farangurinn var dreginn fram...
og dekkuðu upp máltíðina sem átti að vera úti í náttúrunni með Lakagígum...
Margrét Páls var fyrst til þess arna... og gaf orku fyrir nokkra aðra til að gera það saman...
og það var ekki leiðinlegt að sjá hversu hugmyndaríkir menn voru:
Margrét Páls af fb:
"Ég get svo svarið það.. ...aðalréttur og eftirréttur og bleikt kerti í skálinni".
Bára þjálfari á fb:
"Máltíð þjálfara... sem hét "Einu sinni var" með vísun í að hangikjöt var oft nestið í útilegum i æsku kvenþjálfara...
endaði sem sunnudagsmáltíð í bænum... eins og margar aðrar flottar kvöldmáltíðir sem leiðangursmenn Lakagíga voru búnir að undirbúa af miklum metnaði... þjálfarar skora á alla að melda inn sína máltíð undir þessu myllumerki og tengja við toppfarar.is ...
bara gaman að þessu".
Harpa af fb:
"Litadýrð. Með tilvísun í liti nátturunnar og þá staðreynd að litir gera mig glaða.
Hjartað er kærleikur til nátturunnar".
Biggi og Helga Björk af fb:
Svona vorum við útbúin til veislukvöldverðar í gær en þegar hér er komið við sögu erum við að toppa kvöldið
með dýrindis súkkulaðiköku og kaffi eins og við hefðum gert í gær".
... og þetta var eina ljóðið sem var samið í ferðinni...
frá Arnari skákmanni... sem Guðrún Helga sendi þjálfara :-)
TAKK öll elskurnar OG RISAKNÚS fyrir sérlega góða samveru og jákvæðan anda
sem sveif yfir votum vötnum Lakagíga þann 27. júlí árið 2019 :-)
Þetta verður seint toppað :-) Við munum án efa vitna í þessa ferð og rifja hana upp um ókomna tíð :-)
...þetta var nú meiri vitleysan :-)
Næstu tvær ferðir verða ekki farnar nema í mjög góðu veðri
á Hábarm að Grænahrygg um Jökulgil að Fjallabaki... og um Jarlhetturnar...
enda lögðum við mikið inn af rigningarskuld í þessari ferð :-)
Myndband þjálfara af ferðinni í heild hér:
https://www.youtube.com/watch?v=e2ENXIKQOpE&list=PLyI-CMoTAd3hHwSId-QPcooWF_cnqgUsq
Gps-slóð þjálfara af göngu dagsins:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=40636149 |