Tindferð 157
Hellismannaleið fyrsti hluti frá Rjúpnavöllum í Áfangagil
laugardaginn 2. júní 2018
 

Hellismannaleið I
frá Rjúpnavöllum í Áfangagil
um gróskumikla bakka Rangár ytri
og formfagrar sandauðnir Heklu
... loksins... loksins... í björtu og friðsælu veðri ...

Ef maður elskar hráleika hálendisins... sérkennilegu andstæðurnar...
... formfegurðina í landinu... harðneskjuna í gróðrinum... fegurðina í hinu smáa ...
... heilunina og orkuna í senn... óraunveruleikann í litunum... ólgandi kraftinn ...áþreifanlega friðinn ...
... óendanleikann í auðninni ... nálægðina við æðri mátt ...ógnandi náttúruöflin... sakleysið í flórunni .
.... þá elskar maður að ganga þessa gönguleið ...

Þetta var fyrsta helgin sem gaf gott veður í langan tíma að okkur fannst...
fyrir utan 12. maí þegar við gengum á Þverfellið og Reyðarvatnið...
og fyrsta helgin sem hægt var að ganga á Öræfajökul eftir nokkurra vikna ómöguleika...

Skárra veður inn til landsins og fyrir austan... rigningarsúld og skýjað í bænum... þegar þjálfarar vöknuðu í Fjallaseli um morguninn skein sólin á hálendinu en skýin huldu himininn niður á láglendinu... og þegar hinir fimm leiðangursmenn dagsins keyrðu úr súldinni í bænum og gegnum rigninguna á Hellisheiði blasti við blár himin og sól í fjarska yfir fjöllunum... þangað sem við ætluðum þennan dag...

Með deginum átti rigningarbakkinn að færast smám saman úr vestri til austurs... yfir landið... þar á meðal þetta svæði...
við vorum stödd á jaðri heiðs himins með sólinni og svo skýjabakkanum sem lá yfir vesturhluta landsins...
... og vonuðum að við fengjum snefil af þessari austurlandssól... og ekkert af þessari vestanrigningu...
vonir okkar rættust nokkurn veginn...

Þar sem gengið var frá einum stað til annars og leiðin ekki hringuðu eins og við viljum helst alltaf gera í okkar göngum
þurftum við að ferja bíla á endastað og fara svo á upphafsstað... en þar sem við vorum svo fá... eingöngu sjö manns sem var mjög óhagstæð tala fyrir ferjun bíla... því það þarf 2 bíla fyrir hverja 5 manns... þá hefðum við þurft að fara á 4 bílum austur 7 manns... en af því Ingi gat skaffað 7 manna bíl þá var nóg að vera á 3 bílum... með því að skilja allan farangur eftir við Rjúpnavelli fyrst... keyra svo alla þrjá bílana upp í Áfangagil og skilja þar eftir tvo bíla sem tækju okkur til baka... og keyra á einum 7 manna bíl til baka að upphafsstað við Rjúpnavelli...

Allt þetta tilstand varð samt áreynslulaust einhvern veginn og við vorum komin í bæinn fyrir kl. 17 þennan dag...
eftir tæpa 20 km göngu og ferjum bíla á hálendisjaðri suðurlands...
sannarlega vel nýttur laugardagur með meiru...

Þjálfari hafði samband við Hafstein Hannesson einn af staðarhöldurum í Áfangagili fyrir gönguna til að fullvissa sig um að það væri bílfært inn að Áfangagili eftir veturinn og fá leyfi til að skilja bíla þar eftir. Hann ráðlagði okkur að keyra Landveginn en ekki Dómadalinn og þann afleggjara til Áfangagils eins og ætlunin var og reyndist það fínasti vegur... fær fjórhjóladrifnum bílum... en hann var eiginlega fær öllum bílum... enda fór Gylfi ekki á fjórhóladrifnum bíl án vandkvæða alla leið... en annars hefðum við bara keyrt þennan kafla tvær umferðir með hópinn...

Við lögðum af stað gangandi kl. 9:23 eftir akstur úr bænum og ferjum farangurs og bíla...

Gola, lofthiti um 7 gráður og háskýjað... glitti öðru hvoru í sólina bak við skýin... þurrt og gott veður...
mun betra en almennt þetta vorið...

Samkvæmt upplýsingum Hellismanna á vefsíðu þeirra www.landmannahellir.is
um Hellismannaleið þá er hún gengin á þremur dögum:
frá Rjúpnavöllum í Áfangagil á fyrsta legg um 17 km
og svo frá Áfangagili í Landmannahelli um 22 km
og loks úr Landmannahelli í Landmannalaugar um 16,5 km

Mjög góð lýsing á leiðinni og hverjum legg fyrir sig er hér:

http://www.landmannahellir.is/00%20Hellismannalei%C3%B0,%20almenn%20l%C3%BDsing,%202010%20@Hugr%C3%BAn.pdf

Margir velja hins vegar að ganga þessa leið öfuga, byrja í Landmannalaugum og ganga niður eftir...
við spáðum í það því það þýddi að gengið væri niður í mót almennt...
en vindáttin og sólargangurinn var hagstæðari með því að ganga í norðaustur
og að mati þjálfara er gönguleiðin skemmtilegri í þessa átt
með hálendislandslagið að opnast smám saman fyrir manni eftir því sem innar er komið
frekar en að ganga niður í byggð með svipað landslag í fjarska allan tímann...

Fyrstu rúmu fjórir kílómetrar leiðarinnar eru meðfram bökkum Rangár Ytri sem er gengin allt til upphafs hennar
þar sem hún kemur undan Hekluhrauninu í svokölluðum Rangárbotnum... Rangá ytri er 55 km löng og liggur gegnum suðurlandsundirlendið
framhjá Fjallaseli þjálfara og gegnum Hellu áður en hún sameinast Þverá
sem svo verður að Hólsá áður en sjórinn tekur við öllu saman...

Á vefnum www.veida.is má lesa eftirfarandi um ána meðal annars:

"Ytri Rangá er ein þekktasta og besta íslenska laxveiðiáin.
Fjölbreyttir veiðistaðir, frábær veiði og fallegt umhverfi hefur gert hana að einni af vinsælli veiðiám landsins.
Meðalveiði á sumri, síðustu 9 árin, er tæpir 7.000 laxar. Aldeilis ótrúlegar tölur.
Mest var veiðin sumarið 2008 þegar 14.315 komu á land.
Það er langmesti afli sem vitað er að veiðst hafi á stöng í einni laxveiðiá hérlendis til þessa.
Sumarið 2014 veiddust 3.063 laxar.

Ytri Rangá á upptök sín í Rangárbotnum í um 200 m hæð yfir sjávarmáli
og er hún ein stærsta lindá landsins. (Rennsli frá 40-60 rúmm./sek.).
Ytri Rangá sameinast svo Þverá ca. 10 km frá Sjó. Sameinaðar heita árnar Hólsá.
 Laxasvæðið í Ytri Rangá nær frá ármótunum við Hólsá upp að Árbæjarfossi.

Ólíkt flestum öðrum laxveiðiám, þá er vatnsmagn árinnar mjög stöðugt og áin litast sjaldan, þótt mikið rigni.
Á þurrum sumrum helst vatnsmagnið einnig stöðugt."

https://veida.is/veidisvaedi/ytri-ranga/

Systirin... Eystri Rangá rennur ofar í hálendinu og skulum við skoða upptök hennar þegar við göngum á Laufafell vonandi á allra næstu árum...
en lesa má um þá á á vefnum www.veidistadir.is eftirfarandi m. a. til samanburðar við Ytri Rangá: l

Eystri Rangá er á suðurlandi í um 100 km fjarlægð frá Reykjavík og rétt við Hvolsvöll.
Þetta er um 60 km löng lindá sem á upptök sín við Tindafjallajökul á hálendinu.
Hún er hinsvegar fiskgeng um 22 km vegalengd, eða allt að Tungufossi hjá Árgilsstöðum.
Eystri Rangá sameinast Þverá um 5 km. austan við ármót Ytri Rangár og Þverár.
Þetta er mikið 30m rúmm. /sek vatnsfall og er með sterk dragáreinkenni og verður stundum jökullituð ef þannig viðrar.

Meðalveiði í Eystri Rangá síðastliðin 5 árin er um 3500 laxar og síðustu 10 ára um 4600 laxar
sem gera Eystri Rangá að einni allra bestu laxveiðiám landsins með margan stórlaxinn sem hefur fallið fyrir agni veiðimannsins.
Þess má geta að árið 2008 veiddust þar 7013 laxar.

http://www.veidistadir.is/eystri-ranga/

Búrfell í Þjórsárdal skreytir fyrsta legg Hellismannaleiðar í vestri
og hafa heimamenn og höfundar þessarar gönguleiðar stungið upp á því að ef menn vilji lengja þessa gönguleið
þá sé vert að ganga alla leið frá Leirubakka sbr. þetta viðtal við Olgeir
einn af höfundum leiðarinnar
 en hann fer árlega með hóp af fólki þessa leið síðsumars
en hann bætir við aukadegi og gengur frá Leirubakka að Rjúpnavöllum:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/22/tha_getur_folk_andad_ad_ser_halendinu_2/

 

Gönguslóðin liggur meðfram ánni en okkur fannst betra að ganga alveg niður með ánni
og forðast bílslóðina sem þó tókst að afvegaleiða okkur einu sinni frá fegurðinni við ánna...

Í byrjun júní er gróðurinn smám saman að taka við sér og það væri forvitnilegt að fara hér um síðsumars
því þjálfari sá mikinn mun á leiðinni frá því 19. maí þegar hún hljóp þessa leið fram og til baka 34 km
í Laugavegshlaupsundirbúningi og sem hluta af 50 fjalla eða firnindahlaupum ársins í tilefni af 50 ára afmælisári sínu...

Sjá stutt myndband af hlaupinu þann 19. maí:

https://www.youtube.com/watch?v=1TUJXazdN6g

Án efa ein skemmtilegasta hlaupaleið sem hægt er að velja sér á hálendinu...
fáir á ferli og góð leið allan tímann...
hingað á ritari eftir að koma mörgum sinnum að taka langan hlaupatúr...

... fyrsta myndbandið sem ég vann í smáforriti í símanum...

Og svo myndband af göngunni þann 2. júní:

Einstakleiki þessa fyrsta leggs Hellismannaleiðar er án efa vikurinn úr Heklu...
þessi ljósi litur á landinu sem reynir af fremsta megni að glæðast lífi flórunnar er sérstakur
og á skjön við sortann sem einkennir hraunið ofar og innar á þessum slóðum...

Nánast allt undirlendið er úr eldfjallinu komið
og við erum gangandi í ljósu slörinu á þessari fjalladrottningu...

Það er eitthvað heilandi við þetta hrjóstruga landslag...
víðáttan... einfaldleikinn...
hreinsa hugann og fá mann til að hugleiða og slaka...

Eftir rúma 4 km göngu er komið að brúnni sem færir gönguleiðina yfir á austurbakka árinnar
en áfram eru slóðar meðfram vesturbakkanum alla leið að upptökum árinnar
og ætlar þjálfari að hlaupa þetta einn daginn og skoða leiðina betur...

Við ána þann 19. maí var stór ljós refur... og hundurinn elti hann en náði ekki...
en nú sást hvorki tangur né tetur af honum...

Brúðarslörið á Heklu var einstaklega fagurt frá brúnni að Ófærugili
og það var notalegt að ganga eftir stikum þó lítið væri hægt að sjá slóða á köflum
og þurfa ekki að úthugsa klöngurleiðir eða brölt upp fjöll að sinni þó það séu okkar ær og kýr...

Þetta hlýtur að heita Kjaftviðagil...  á hægri hönd glitti í bergbláma sem virtist ekki af þessum heimi...

Þetta minnti á Grænahrygg í Sveinsgili...
hrópandi litaósamstæður þar sem berg af annarri tegund en þessum hvíta vikuri stingur sér út þvert um gilið...

Sérstakur blár litur og gult að ofan...

Eins og þykkar klær... eða hrammur á dýri...

Blái hrammur...

Nokkur gil stingast niður að Rangánni austan megin eins og brot í brúðarkjól Heklunnar
og skreyta þau leiðina skemmtilega...

Komin upp úr gilinu... Búrfellið hægra megin...

Brátt vorum við komin að Ófærugili...

... sem opnast að ánni og myndast af læk úr Heklu...
gaman væri að ganga inn eftir þessum læk allt til enda einhvern tíma...

Ófærugil er fallegur staður í auðninni... og yfirleitt þarf að vaða frekar en stikla...
en við leituðum vel að leið til að hoppa yfir...

Fiskurinn við ána...

Örn og fleiri nenntu ekki að klæða sig úr skónum... þetta var svo grátlega lítill lækur... nánast hoppfær... ef það væri bara einn steinn...
og því náðum við í einn...

en hann var of laus ofan í læknum svo eingöngu Ingi komst yfir með stafina til halds og trausts...
og Bára sömuleiðis með hönd frá Erni til stuðnings...
en það var ekki hægt að stökkva án stafa eða stuðnings á þessu grjóti yfir lækinn...

... og enginn annar staður til að stökkva frá... eða hvað ?

Kolbrún Ýr og Bjarni komin yfir, Sigga á leiðinni og Gylfi fór austar yfir á táslunum...

En Örn dó ekki ráðalaus... kastaði bakpokanum yfir til Bjarna... og stökk svo sjálfur yfir...

... meðan hinir klæddu sig aftur í skóna... ekki mikið mál og alltaf gaman að vaða á táslunum...

Hraun-og vikurlög Heklu... þegar þjálfarar mokuðu 1,2 m djúpar holur fyrir Fjallaseli
þá mátti sjá greinilega nokkur goslög frá Heklugosum í gegnum árhundruðin...
sú hefur framleitt magnið af efni sem liggur kílómetrunum saman um ala Rangárvallasýslu...

Ofan við enn eitt gilið lá hauskúpa af rollu...

... sem Ingi var ekki lengi að gera sér leik úr eins og svo oft áður...

Þetta var eina "lífsmarkið" sem við urðum vör við á þessari leið
fyrir utan andarfjölskylduna ofan í gljúfrinu...
ferðamennina tvo sem við áttum eftir að rekast á við Rangárbotna...
og bílana sem við sáum á Dómadalsleið...

Ljóst og sumarlegt í gráma snemmsumarsins... og hálendisgróðurinn að kvikna...

Brátt fóru fossarnir við Fossabrekkur að birtast...
og við enn talsvert ofan við ána... vorum við að villast og óvart að fara framhjá Fossabrekkuniðurgönguleiðinni ?

Nei... þarna voru þær... þetta voru bara undanfarar...

Fossabrekkur eru eitt af djásnum þessa fyrsta leggs Hellismannaleiðar
og ekki ofsögum sagt að þær eru dýrindisfagrar... minntu svolítið á fossana í Jökulsárgljúfrum...

Slóðinn fer hér niður að fossunum og heldur sig í gljúfrinu lengi vel eftir þetta...

Einstakur staður og eflaust mun fallegri þegar líður á sumarið og græni liturinn hefur tekið völdin...

Sjá leiðina niður í gilið neðan frá... mjög skemmtileg leið...

Það er ekki annað hægt að setja hljóðan og bara njóta stundarinnar á þessum stað...

Fossarnir á Íslandi eru óteljandi... misfrægir og misvinsælir... leynast á ólíklegustu stöðum... oft vanmetnir...
og stundum ofmetnir... sbr. deilan um Hvalárvirkjun... eru það fossar sem skal rífast svona mikið um eður ei ? ... það er spurningin...
en við ætlum að skoða þá í sumar á síðasta gönguleggnum af þremur þegar við göngum úr Reykjarfirði í Norðurfjörð og endum við Hvalá
og ætlum okkur þá að ganga upp eftir henni og sjá Rjúkandi og Drynjandi eins og mögulegt er fótgangandi...
það er nefnilega lítið að marka að spá í þetta úr dróna eða þyrlu því við erum hvort eð er ekki að fá að gera það almennt...
við almenningurinn sjálfur fótgangandi...

Fegurð fossana í Fossabrekkum er óumdeildur...

... en þessir fossar eru yfirleitt skoðaðir vestan megin frá þar sem hægt er að keyra frá þjóðveginum...

En sjónarhornið hérna megin er mun betra á alla þessa fossaröð...

Það var ekki annað hægt en heillast upp úr skónum...

... og fara að velja sér uppáhaldsfoss...

... hver með sínu sniði...

... og stundum fegurri í stærra samhengi...

... hugsa sér... rennandi allt árið... árum saman... sama hvað mannskepnan er að spá á meðan...

Hér áðum við lengi og drukkum í okkur fegurðina...

Inn af grasbalanum rennur lítill steinfoss sem við skoðuðum flest...

Skemmtileg leiðin upp að honum í grýttu skriðuklöngri...

Það var eitthvað hreint og tært við þennan stað...

Sjá lífið sem kviknar í kringum vatnið... eins og lífið við Rangána... mitt í sandauðninni

Þegar beygt er út af Landveg 26 um afleggjara merktur Fossabrekkur er ekkert að sjá annað en ljósi vikurinn hennar Heklu
og maður er alveg grunlaus um hvílík gróðursæld leynist hérna...

... allt vatninu að þakka...
án þess væri ekkert hér nema sandur og grjót...

Eftir nesti og notalegheit í spjalli og gríni héldum við áfram eftir ánni...

Þessi kafli er mjög skemmtilegur meðfram ánni á þremur stöðum næstu kílómetrana alla leið að upptökum árinnar...

Áfram ljósi vikurinn ofan á ljósa leirnum...

Hversu grænt ætli þetta verði þegar líður á sumarið ?
... maður verður að koma hérna síðsumars og gá...

Heilunin á þessari gönguleið er áþreifanleg...

Það er eitthvað við það að ganga meðfram ám... vötnum... sjónum...
eitthvað heilandi... orkugefandi... frískandi... endurnærandi...
máttur vatnsins er óumdeildur af náttúrunnar hendi...

Úr einni árbugðunni niður í aðra...

... aftur meðfram ánni... en nú sá Sigga heilu fjölskylduna hinum megin við þrengslin...

Andarungar með foreldrum sínum að flýja í ofboði þessa mannskepnu með hund á undan sér...

Við kölluðum á hundinn og sendum hann aftast og biðum þar til við héldum að þau væru komin í skjól...

... héldum svo áfram...
en hundurinn var ekki lengi að þefa uppi þetta eina dýralíf sem við höfðum orðið vör við á leiðinni...

Hvílík fegurð forms... lita... áferðar...

Þessi leið... eins og hálendið allt... þroskar fegurðarskynið...
og kennir manni að meta fegurðina í hinu smáa...
engin ofgnótt né yfirflóð...

Andarpabbi afvegaleiddi hundinn sem gafst fljótt upp á að spá í þetta fuglalíf sem þarna var
og við héldum áfram eftir ánni en nú varð allt grýttara og öðruvísi...

Við vorum að nálgast Rangárbotna... þar sem áin byrjar...

Hér verður árgljúfrið djúpt og þröngt og ægifagurt...

Tærleikinn slíkur að á heitum degi hlýtur að vera freistandi að skella sér í ánna...

Óskaplega fallegt gljúfur og við nutum þess að vera í þessu andstæða landslagi eftir sandauðnirnar...

Þetta var tilvalinn hópmyndastaður...

Ingi, Örn, Bjarni, Gylfi, Sigga Sig. og Kolbrún Ýr með Batman ofar
og Bára tók mynd.

Já, fegurðin var óumdeild hér...

Við fórum út af stígnum á þessum kafla og vildum skoða ána betur...
en hér fyndist manni að slóðinn mætti liggja
en kannski er það viljandi gert að hlífa náttúrunni og beina fólki ekki út á þessar eyjur í ánni...

Flúðir og fossar til skiptis...

Virkilega fallegt hérna og friðurinn mikill...

Mann langar strax aftur þegar þessar myndir eru skoðaðar...

Það er eitthvað við þetta svæði... einhver kraftur... hér komin aftur á slóðann...

Rangárbotnar... hér kemur Rangáin undan Hekluhrauninum á tveimur stöðum...

Hinn hlutinn þarna ofar hægra megin...
við fórum ekki þangað þar sem við héldum að þetta væri svipað og þar sem við vorum
en hefðum kannski átt að gera það...

Litirnir ofan í ánni...

Hér féll Bjarni skyndilega niður í holu... við skildum ekkert í þessu... holrúm þarna undir...
og galdrarnir fóru alla leið yfir á ljósmyndina því forritið í tölvu ritara neitar að minnka myndina...

Mælar sem ganga fyrir sólarsellum ofan við Rangárbotna...
ansi óviðeigand staður fyrir manngerða mæla...
á þessari miklu náttúrusmíð...
hér mætti nú aldeilis fara í blöðin og kvarta...

Skyndilega sáum við tvo ferðamenn... þau sögðust hafa gengið úr bílnum sínum rétt ofan við okkur...
af jeppaslóðanum sem við áttum svo eftir að ganga yfir og sjá þau keyra í burtu...
já, hér er áin ekki farartálmi þar sem hún rennur undir hrauninu hér með...

Áð ánni slepptri var það bara sandurinn...

... en litirnir í honum voru heil veisla út af fyrir sig...

Andinn fór á flug í þessari hráu fegurð
og við áttum eins og svo oft áður innihaldsríkar umræður um alls kyns fjallasigra og ókomna fjallaáfanga...

Leiðin hér framundan að Valafelli vinstra megin sem varðar Áfangagil
og Valahnúkar hægra megin sem varða legg tvö á Hellismannaleiðinni...

Nú gengum við framhjá Sauðafelli en handan þess er Sauðafellsvatn
og svo Norðurbjallar og Suðurbjallar... og...
þjálfari er þegar kominn með hugmyndir að framtíðagöngum...

Sauðfellsalda hér ef hærra fjallið er Sauðafell ?
... ekkert nafn á gps-kortinu allavega ...
ætla að skoða Heklubókina... en hún er uppi í Fjallaseli... vonandi man ég að kíkja og bæta því við hér :-)

Hér skein sólin á köflum... háskýjað veður er besta gönguveðrið...
og eftir á að hyggja var þessi ganga ansi dýrmæt því rigningar áttu því miður eftir að ráða ríkjum helgarnar eftir þessa...

Litið til baka... Sauðavell vinstra megin og Búrfell við Þjórsárdal hægra megin...

Eftir rúmega 3ja kílómetra heilandi svarta og hvíta eyðimerkurgöngu
komum við að Skjólkvíahrauninu sem klórar sig hingað niður...

Litið til baka... hörkugönguhraði á þessum hóp... það var ekkert gefið eftir...

Skjólkvíahraun rann árið 1970

Annálar Heklugosa frá landnámi:

1104 
Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta.  Goshlé hefur verið amk. 250 ár frá næsta gosi á undan en svo langt hlé hefur ekki orðið á Heklugosum síðan.  Gosið var eingöngu gjóskugos og komu upp um 2,5 km3 af súrri gjósku.  Mjög mikið tjón varð enda var blómleg byggð í Þjórsárdal um þetta leyti sem eyddist svo að segja öll í gosinu.    Aðeins eitt öskugos hefur verið stærra síðan land byggðist, það varð í Öræfajökli árið 1362.  Veturinn 1105 var kallaður “sandfallsvetur” og er skýringin væntanlega öskufall eða öskufok frá gosstöðvunum enda súr ríólít askan kísilrík og eðlisléttari en gosefni úr basalti sem eru algengari.  Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.

1158 
 Fremur lítið er vitað um þetta gos sem hófst í janúarmánuði.  Það mun þó hafa verið allmikið og jafnvel síst minna en gosið 1104.  Tjónið hinsvegar lítið, sjálfsagt bæði vegna þess að það kemur upp um hávetur og að byggð næst fjallinu hafði hvort eð er laggst af í gosinu 1104.

1206 
Heklugos hefst 4. desember og sást eldur í fjallinu til vors árið eftir.  “eldgangur mikill með stórdynkjum, vikurfalli og sandrigningu víða um sveitir”  Segir í riti Þorvalds Thoroddsen um gosið sem var þó mun minna en hin tvö fyrri gos og olli litlum sem engum skaða.

 1222 
Gos sem var frekar lítið og svipað gosinu á undan.  Heimildir geta þess þó sérstaklega að sól hafi verið rauð að sjá.  Askan í þessu gosi var fíngerð og fór hátt og hefur því valdið þessum breytingum á ásjónu sólar.  Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.

1294 
Segir frá miklu Heklugosi í Oddverjaannál.  Hinsvegar hefur ekkert fundist, hvork hraun né gjóska, sem styður frásagnir um þetta gos og því er ártölum líklega ruglað og á heimildin við mikið gos árið 1300.

1300 
Mikið gos sem hófst um miðjan júlí, þ.e. á versta tíma fyrir bændur sem voru meginuppistaðan í Íslensku samfélagi á þessum tíma.  “Eldsuppkoma í Heklufelli með svo miklu afli að sjást um meðan Ísland er byggt” segir í annálum.  Askan barst norður og varð mest tjón í Fljótum og í Skagafirði.  Mikið hallæri fylgdi gosinu á þeim slóðum og varð fjölda fólks að bana.  Gosið mun hafa staðið yfir í um ár en eins og flest eða öll Heklugos, langöflugast í byrjun.  Í þessu gosi féllu um 0,5 km3 af gjósku og sett í samhengi við gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 þar sem féllu um 0,3 km3 af gjósku þá sést vel hve öflugt það var.

1341 
Heklugos hefst 19. maí.  Gosið var mun minna en árið 1300 en olli þó töluverðum skaða á suður og vesturlandi enda kom það upp í sumarbyrjun.  Mikið tjón varð á búpeningi og í Þjórsárdal sem hafði byggst upp að hluta til aftur eftir gosið mikla árið 1104 urðu veruleg skakkaföll.

1389-1390  
 Gos sem virðist hafa verið svipað af afli og gosið á undan og olli talsverðu tjóni.   Það mun hafa staðið í nokkra mánuði veturinn.  Hófst það í fjallinu sjálfu en færði sig síðar til suðvesturs í skóg sem þá var fyrir ofan bæinn Skarð. “og kom þar upp með svo miklum býsnum, að þar urðu eftir tvö fjöll og gjá á milli” segir í annál.  Væntanlega eru lýsingarnar eitthvað örlítið ýktar.

1440 
Litlar og óáreiðanlegar heimildir eru til um þetta gos sem varð ekki í Heklu sjálfri heldur skammt suðaustur af fjallinu.  Ártalið er meira að segja eitthvað á reiki, Þorvaldur Thorodssen telur þetta gos hafa verið árið 1436.   Tilvist gossins er studd með gjóskulagarannsóknum en líklega hefur það verið lítið.  Þrátt fyrir að gosið hafi ekki verið í Heklu sjálfri þá varð það í eldstöðvakerfi Heklu og tilheyrir því Heklugosum.

1510
Mikið gos sem hófst 25.júlí og olli miklu tjóni á suðurlandi.  Maður í Skálholti, allfjarri Heklu, rotaðist þegar hann fékk grjóthnullung frá gosinu í hausinn.  Eins og svo oft áður kom gosið upp að sumri til sem er versti tími fyrir frumstæðan landbúnað,  eins og þjóðin lifði á þá, til að takast á við náttúruhamfarir af þessu tagi.  Heimildir geta um eldgos á hálendinu norðan Vatnajökuls sama ár þó ekki hafi tekist að staðsetja það en eftir þessar hamfarir kom sótt um allt land og önduðust um 400 manns fyrir norðan.

1554 
Gos sem ýmist er kennt við Rauðbjalla eða Vondubjalla skammt suðvestur af Heklu.  Gosið varð semsé ekki í Heklu sjálfri en telst þó til Heklugosa enda í eldstöðvakerfi Heklu.   Óvenjusnarpir jarðskjálftar fylgdu upphafshrinu gossins, það harðir að fólk í nágrenninu hafðist við utandyra.  Það stóð í um 6 vikur og olli ekki miklu tjóni.  Hraun rann sem kallað er Pálssteinshraun og er um 10 ferkílómetrar.

1597 
Gos hófst 3.janúar þetta ár, stóð það í um hálft ár en olli ekki miklu tjóni enda upphafshrinan og mesta gjóskufallið um hávetur.  18 eldar voru taldir sjást í fjallinu frá sumum bæjum á suðurlandi og frá Skálholti sýndir fjallið vera allt í einum loga.  Það er því ljóst að þetta hefur verið nokkuð tilkomumikið gos, etv. mikil kvikustrókavirkni.

1636 
Þann 8.maí hófst fremur lítið gos í Heklu en það stóð lengi, mallaði í rúmt ár.  Töluvert  tjón varð á búfénaði og högum í næsta nágrenni fjallsins en ekki varð skaði annarsstaðar á landinu.

1693 
hófst þann 13. febrúar eitt af mestu og skaðsömustu Heklugosum síðan land byggðist og stóð það með einhverjum hléum líklega í um 10 mánuði.  Upphafshrinan var eins og svo oft langöflugust en öskufalls varð þó vart fram í mars.  Askan í þessu gosi barst til Noregs og rigndi niður á skip á Atlantshafinu. Margar jarðir lögðust í eyði í Landsveit, Í Hreppum og Tungum.  Fénaður sýktist víða, fiskur drapst í ám og vötnum og mikill fugladauði varð.

1725
Varð eldgos skammt suðaustan við Heklu en ekki í fjallinu sjálfu.  Telst það þó sem fyrr til Heklugosa enda í sama eldstöðvakerfinu.  Var það lítið og olli engu tjóni fyrir utan að nokkuð harðir jarðskjálftar urðu í upphafi gossins og segir sagan að bærinn Haukadalur á Rangárvöllum hafi hrunið vegna þeirra.  Þetta sama ár var mikil goshrina á Mývatnsöræfum í hámarki.

1766 
Þann 5. apríl hófst lengsta Heklugos á sögulegum tíma.  Stóð það í tvö ár.  Gorbyrjunin var mjög áköf.  Vikurfall olli skaða á Suðurlandi, 5 bæir í Rangárvallasýslu fóru í eyði, Ytri- Rangá stíflaðist vegna öskufalls og norðan heiða hrundi búpeningur í hrönnum.  Mikið grjótflug fylgdi gosinu í upphafi og barst það langar leiðir.  Allmikið hraun rann í þessu gosi, mest af því til suðvesturs frá Heklu.  Hallæri, sóttir og fjárfellir kom í kjölfar gossins.

1845 
 Þann 2. september hófst gos í Heklu sem stóð í um 7 mánuði en olli þó litlum skaða miðað við mörg fyrri gos.  Eitthvað var um að fénaður sýktist, nokkuð mikil aska féll í Skaftártungum og á Síðu.  Flytja þurfti bæinn Næfurholt því hraun rann of nærri og spillti graslendi þar.  Öskunar varð vart á skipum sem sigldu við Shetlandseyjar og Orkneyjar við Bretland.

1878 
27.febrúar hófst gos á sprungu við Krakatind skammt austan Heklu.  Allsnarpir jarðskjálftar urðu áður en sást til gossins.  Gosið stóð í 2 mánuði og olli engu tjóni, öskufall lítið.

1913 
þann 25.apríl hefst aftur gos á svipuðum slóðum og árið 1878 um 6 km. austur af Heklu.  Gaus á tveimur sprungum og lifði gosið í annarri sprungunni til 4.maí en hálfum mánuði lengur í hinni.  Öskufall varð lítið og tjón ekkert.

1947
hófst allkröftugt gos í Heklu sjálfri þann 29.mars  eftir 102 ára hlé.  Gosið var sérlega öflugt í byrjun og í upphafi þess varð mjög snarpur jarðskjálfti. Í fyrsta sinn voru teknar ljósmyndir af Heklugosi.  Gosmökkurinn náði 30 km. hæð á fyrstu stundum gossins.  Þetta gos olli ekki teljandi tjóni en var má segja tímamótagos því í fyrsta sinn var eldgos á Íslandi rannsakað gaumgæfilega, fyrst og fremst fyrir tilstuðlan Sigurðar Þórarinssonar.   Þær rannsóknir voru þó ekki án fórna því Íslenskur vísindamaður, Steinþór Sigurðsson, lést er hann varð fyrir glóandi hraunhellu sem hrundi úr hraunjaðrinum.    Gosið stóð í um 13 mánuði

1970
þann 5.maí hófst gos sem kennt er við Skjólkvíar.  Varð það ekki nema að litlu leiti í fjallinu sjálfu en að mestu við rætur Heklu suðvestantil.  Var þetta fremur lítið og gjarnan talið fyrsta túristagosið á Íslandi enda sérlega aðgengilegt.  Gosið kom að vissu leiti á óvart því ekki voru liðin nema 23 ár frá síðasta gosi í Heklu.

1980- 1981
Hafi gosið árið 1970 komið á óvart þá urðu menn forviða árið 1980 þegar Heklugjá opnaði sig á 5,5 km. langri sprungu í háfjallinu eftir aðeins 10 ára goshlé.  Fyrsta hrinan var nokkuð snörp og barst askan til norðurs.  Olli hún einhverju tjóni á högum en eins og gefur að skilja voru menn orðnir betur búnir undir hamfarir af þessu tagi en fyrr á tímum.  Gosið stóð aðeins í 3 daga en tók sig svo öllum að óvörum upp aftur 10.mars 1981 en þá rann aðeins lítilsháttar hraun og stóð gosið þá í 7 daga.  Eru gosin flokkuð saman sem eitt gos.

1991 
Enn kemur Hekla á óvart þegar gos hefst þann 17.janúar.  Nú var orðið ljóst að Hekla hafði breytt um goshegðu, gýs oftar en aflminni gosum.  Gosið var mjög svipað gosinu 1980, svipað hraunmagn rann en minni gjóska og tjón varð ekkert.  Eldur var í fjallinu í 52 daga.

2000
Enn eitt smágosið í Heklu hefst 26. febrúar og stóð því sem næst í 10 daga.  Í fyrsta sinn tókst vísindamönnum að segja fyrir og vara við yfirvofandi eldgosi á Íslandi með um klukkustundar fyrirvara.  Gosið var lítið og olli ekki tjóni.  Gjóska féll til norðurs frá gosstöðvunum.

Fengið frá: http://eldgos.is/annall-heklugosa/

http://eldgos.is/hekla/

http://www.leirubakki.is/www.leirubakki.is/Default73ce.html?Page=294

https://is.wikipedia.org/wiki/Hekla

Gróðurinn er smátt og smátt að sigra sandinn...

Unnið hefur verið hörðum höndum að því að græða sviðin sárin eftir Heklu um árþúsundir
og heimta aftur birkiskógana sem einu sinni voru á þessum slóðum..

https://hekluskogar.is/

Klærnar á Skjólkvíahraun voru sláandi þegar nær var komið og hrikaleikur þeirra næst ekki vel á mynd...

Tonnin í þúsundavís af hrauni hér... alla leið úr gígunum á eldfjallinu...

Við gengum meðfram hraunbrúninni og vorum farin að leita að skjóli til að snæða...
gjólan á okkur á söndunum og við vildum ná skjólsælum stað við hraunið...

Fínn áningastaður hér... og gott að borða svolítið...

Hvassir... ógnarstórir... villandi... varasamir... heillandi... kimarnir í þessu mikilfenglega hrauni...

Síðasti kaflinn framundan... Dómadalur og heiðin upp að Áfangagili...

Þrír Kilimanjarofarar vorú í þessari göngu... Kolbrún Ýr, Ingi og Bjarni
sem öll taka makana sína með til Afríku á vegum Ágústar Toppfara í tæpan mánuð
og ganga á hæsta fjall álfunnar... fara í safarí... og enda á ströndinni í Zansibar að njóta... kafa... og upplifa...

Hestalda og Hekla svo hægra megin að hrista af sér skýin...

Valafell framundan og Valahnúkar hægra megin...

Dómadalsvegur hér... við þveruðum hann og héldum áfram slóðann að Áfangagili...
hér voru rúmir 3 km eftir að endapunkti...

Hekla farin að sjást í öllu sínu veldi...

Heiðin sem ganga þarf upp á til að komast í Áfangagil...
þeir sem eru þreyttir geta sleppt henni og gengið jeppaslóðann sem er meira á jafnsléttu...

Við reyndum að reisa upp einhverja staura á leiðinni... en vorum ekki með verkfæri...
Bjarni stakk upp á að nota hælinn á gönguskónum og Örn reyndi að koma þessu í verk... það tókst...
en stuttu síðar fóru heimamenn og lagfærðu slóðina fyrir sumarið
sem var nauðsynlegt því þó nokkrar stikur voru fallnar á leiðinni...

Uppi á heiðinni þarf að þvera allavega tvö gil... þau voru full af snjó... en sumarið var augljóslega að sigra...

Dásamlegt veður... það var svo gott að fá sólargeislana á sig...

Lækurinn rennandi undir snjósköflunum sem liggja undir sandinum...
varasamt eins og banaslysið í Sveinsgili fyrir örfáum sumrum kenndi öllum harkalega...

Þessi mynd færir manni hitann af jörðinni undan sólinni... lyktina af moldinni... frískandi loftið...
hálendið er engu líkt... annað hvort elskar maður það... eða sér ekkert við það nema auðnina...
forréttindi að ná að njóta þessarar víðáttu...

Seinna gilið á heiðinni... Valafellið hér framundan...

Hér var ekki mikið eftir af snjónum...

Hekla orðin skýlaus og skýjafarið sérstakt þennan dag...

Sjá skýin... það var mjög sérstakt skýjafarið þegar leið á daginn...

Áfangagil hér niðri... við vorum komin...

Það var ekki annað hægt en taka hópmynd með áfangastaðinn í baksýn...

Gylfi, Kolbrún Ýr, Örn, Ingi, Bjarni og Sigga Sig... og Bára tók mynd.

Við fórum út af slóðanum síðasta kaflann í óþolinmæðinni við að ganga beint að bílunum
en snerum svo við og skoðuðum húsakostinn í Áfangagili
en hér hafa staðarhaldarar tekið til hendinni árum saman og gert upp þessi hús með miklum myndarbrag og byggð fleiri...

Til fyrirmyndar allt hér...

Sjá hundinn Batta (Batman) kominn upp á þak... hann tók bara á rás og beint upp... það var eitthvað...

Við skoðuðum þetta í krók og kima...
hefði verið gaman ef staðarhaldarar hefðu verið að staðnum til að sýna okkur...
það verður næst...

Búin með fyrsta legginn af þremur... hér stendur 18 km...
við mældum þetta 19,7 km og fórum svolítið utan slóða
en á vefnum er leiðin sögð 17 km...
dæmigert fyrir þessar gps-mælingar... aldrei sama vegalengd...

Sætur sigur... því miður var Örn farinn niður eftir...
... næst verður það 22 km kafli frá Áfangagili í Landmannahelli í júní...
við getum ekki beðið...

Sigga Sig., Kolbrún Ýr, Ingi, Gylfi og Bjarni og Bára tók mynd.

Hér er slóðinn upp legg tvö í átt að Landmannahelli... mjög spennandi... á þeim legg þarf að vaða...

Við röltum síðasta kaflann niður eftir að bílunum ansi sæl með dagsverkið uppi á hálendinu...

Neðar á staðnum eru nýleg hús sem staðarhaldarar hafa byggt upp síðustu ár...
gistihús fyrir x manns og svo myndarlegt hús undir sturtur og salerni... vel gert...

Hreinlætishúsið...

Bæði húsin og gamli bærinn ofar...

Kvenþjálfarinn mældi þetta 19,97 km á 5:36 klst...

Stóra tækið mældi þetta 19,7 km... já, klukkan var bara þrjú um daginn...

Alls 19,7 km á 5:35 klst. upp í 412 m hæð með alls 528 m hækkun frá 183 m upphafsstað.

Leiðin hér á korti...

Sjá aftur frábæra leiðarlýsingu á Hellismannaleiðinni í heild hér:
http://www.landmannahellir.is/00%20Hellismannalei%C3%B0,%20almenn%20l%C3%BDsing,%202010%20@Hugr%C3%BAn.pdf

Ansi vel af sér vikið að ná 20 km göngu uppi á hálendi eftir að hafa keyrt úr bænum og ferjað bíla... sótt þá aftur...
og vera svo komin í bæinn um fimmleytið... þessi dagur var mikill fengur...

Réttirnar í Áfangagili...
mjög stórar réttir sem taka safnið ofan af Landmannaafrétti alla leið úr Jökulgili við Sveinsgil og Grænahrygg...

Á leiðinni í bæinn var rigningarsúld... mun síðra veður í bænum og vestar á landinu...
við nýttum þennan dag svo sannarlega eins vel og mögulegt var...
og áttum eftir að prísa okkur sæl vikurnar á eftir þegar hvert rigningarveðrið á fætur öðru tóku helgarnar...
aftur... og aftur...

Magnaður... heilandi... orkugefandi.... sérstakur... óáþreifanlega fagur...
 fyrsti kaflinn af þremur á þessari gönguleið sem við ætlum loksins að ná í safnið í sumar...

Dásemdarveður... yndislegir ferðafélagar... öðruvísi gönguleið...
OG kærkomin sumarblíða þó ekki sé meira sagt !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir