Tindur 135
Hróarstindar
laugardaginn 5. nóvember 2016

 

Hrikalegir Hróar
í þoku en sumarlegu veðri og færð

Tólf Toppfarar gengu á Hróarstinda í Hafnardal Hafnarfjalls laugardaginn 5. nóvember...
í stað þess að ganga á Tvíhnúka og Hafursfell á Snæfellsnesi
þar sem veðursáin hafði versnað á þeim landshluta
en uppskáru því miður þoku á tindinum en fínasta veður að öðru leyti
og sumarlegu færi nema rétt í efstu tindum.

Spáð var úrkomubeltum sem ganga áttu yfir Snæfellsnesið og vesturlandið og suðvesturhornið...
og mestar líkur voru á þurru veðri og jafnvel smá sól inn til landsins
en þar sem tíminn var naumur að ákveða varaplan þá urðu Hróarstindarnir fyrir valinu
en Litla Björnsfell við kaldadal varð næstum því áfangastaður dagsins...
þjálfarar höfðu bara ekki tíma til að kanna ástand vegarins þar upp frá kvöldið áður...

Þetta leit mjög vel úr um morguninn... hálfskýjað og sólin að koma upp í austri...
snjóföl á Skarðsheiðinni og efstu tindum Snæfellsness... sjá hér tindinn á Blákolli rísa upp úr skýjunum...

Það var alveg heiðskírt yfir Snæfellsnesi... fannhvítir tindarnir þar glitruðu í fjarska...
og smá skýjaslæða á Hafnarfjalli og Hróarstindum...
og við byrjuðum strax að efast um hvort þetta hefði verið rétt val...

Allir sáttir við ákvörðunina í raun, en auðvitað var svekkjandi ef dagurinn myndi enda á
að það hefði verið betra veður þar sem upphaflega var áætlað að ganga...
vá hvað þetta getur stundum verið erfitt !

En, það var logn og blíða... og yndislegt að ganga gegnum kjarrið og yfir Hafnardalsánna á brú
sem er nýtilkomin þar sem sumarhúsaeigendurnir norðan megin við ána hafa lokað og læst sínu landi svo rammlega
að gangnamenn eru í vandræðum á haustin...

Þetta þýddi að við gengum inn eftir neðar en í fyrri göngum og gátum virt fyrir okkur gljúfrið sem var tignarlegt
og ógnvænlegt í senn... Báran vonandi að Örninn færði sig ofar í brekkurnar...

... sem hann og gerði stuttu síðar þar sem færið leyfði ekki annað...

Þar hittum við fyrir Jón Gauta og sjö aðra göngumenn, þ.á.m. Ester Toppfara en Útiverur kallaðist hópurinn og stefndi á sömu fjallstinda og við... Jón Gauti sagðist hafa aflað sér upplýsinga á vefsíðu Toppfara sem rekur á eftir þjálfara að koma öllum gps-slóðum á wikiloc þar sem við fáum oft fyrirspurnir með leiðir á fjöll sem fáir hafa farið um og við höfum oft notið góðs af slóðum sem aðrir hafa deilt á þeirri síðu...

Skarðsheiðin var hvít efst þennan morgun eins og fjallstindarnir á Snæfellsnesi...

... en það var einhver skýjaslæðingur í efstu tindum og þrátt fyrir þvílíka vonarstrauma sem við sendum með fuglunum upp í fjöllin þá dugði það ekki til... tindarnir vildu ekki sýna sig alveg hreina... hvað þá halda sér slíkum fyrir gestina sem bar að garði...

Tvo gljúfur þarf að þvera um á leið á Hróarstinda... Gildalur og Skarardalur..

Grýtt og bratt en ótrúlega skemmtilegt... og hollt og gott að stikla á steinum reglulega allt árið...

Hafnardalurinn hefur yfir sér einhverja töfra sem fá okkur sífellt til að koma þarna aftur...

Hráleikinn og brattinn um þessi stórskornu fjöll eiga eflaust sinn þátt í því...

Hópurinn hans Jóns Gauta var alltaf rétt á undan okkur...

...en við slóruðum svolítið svo við værum ekki alveg á hælunum á þeim...

Svo hurfu þau bara þegar nær dró tindunum... fóru líklegast lengra inn eftir...
ið stefndum hins vegar beint á klettinn sunnan megin...
þar var þessi bratta grýtta en fína brekka frá því síðast...

Nesti undir tindinum til að hafa orku fyrir bröltið upp þéttar brekkurnar...

... þær leyndu nefnilega vel á sér og reyndu vel á sem var dýrmætt
þar sem þetta var fyrsta formlega Mont Blanc tindferðin af átta...

Katrín með Toppfaramerkið...
og svo Mt.Rainier merkið og Mt St.Helens merkið eftir viðburðaríka Ameríkuför þeirra hjóna í sumar...
fjöll sem gaman væri að ganga einhvern tíma á...

Þarna var grjótskriðan... tindarnir líta hálf ókleifir út í fjarska...

...en svo skánar þessi grjótskriða sífellt eftir því sem nær dregur...

Heilmikið brölt og voða gott sagði þjálfarinn...

Þessi brekka var mun skárri en mann minnti... enda engin hálka nema kannski smá ísing en í raun lítið sem ekkert...
þjálfarari hafði skipað öllum að taka jöklabrodda og ísexina með í gönguna... af fenginni reynslu af nóvembertindferðum þar sem rnnblautur jarðvegurinn eftir allar haustrigningarnar er fljótur að glerjast og ísast í kuldanum...

... en það varð bara hlýrra eftir því sem ofar dró... okkur fannst það sérkennilegt... en heiðskíran um nóttina og morguninn bar kuldann í sér... svo þegar skýin söfnuðumst upp að sunnan þá náttúrulega hlýnaði auðvitað eftir því sem leið á daginn þó við værum að hækka okkur...

Best að klöngrast upp þessa brekku vinstra megin við klettana...

Ekkert mál... margar brekkur að baki frá því þessi var tekin síðast...
ún er orðin að lítilli brekku nú orðið... reynslan smækkar og einfaldar hlutina greinilega...

Skýjaslæðan var þunn... það munaði ekki miklu að það væri skyggni... en það náðist ekki...

Uppi tekur talsvert landslag við og vegalengdin er drjúg að hæsta tindi og þeim nyrsta þar sem við áðum...

Litið til baka þar sem við komum upp...

Mjúkur mosinn og snjórinn... eða reyndar smá harka í einum skaflinum...

Hálfkjánalegt að vera með þessar ísaxir... en fínt að æfa burðinn...
ekkert væl hjá Mont Blanc förum hér með... bera allt alltaf :-)

Sorglegt var það... að fá ekki notið þessa hriklega landslags snarbrattra tindanna
sem rísa inni í þessum dal umkringdur fjöllum á alla vegu...

Mikið spáð í Mont Blanc... bæði Tindinn og Hringinn...

Þokan gaf sig ekki en við gátum ekki kvartað... hiti og logn og sumarlegt færi...

Hér voru skaflar sem voru harðir en annars var þetta mjúkt og saklaust...

Mont Blanc farar 2017... Guðný Ester reyndar hikandi með Tindinn en strákarnir ekki... :-)

Magnaður síðasti kaflinn á nyrsta tindinn...

Ekki frost og ekki hálka...

Við verðum að koma hingað aftur síðar í góðu skyggni...

... ætluðum reyndar að fara þá í fyrra sem ofur-kvöldgöngu fyrir sumarfrí þjálfara...
en veðrið leyfði það ekki.. eigum pottþétt eftir að gera það eitt árið !

Áning á nyrsta tindi í smá gjólu svo manni kólnaði fljótt...

Litið til baka á síðustu menn að koma inn...

Guðmundur Jón, Katrín Kj. og Gunnar... þau ætla öll til Chamonix næsta sumar að njóta töfra Mont Blanc...

Norðan megin við tindana er þetta skörðótta skarð... hér kom Ingi upp einsamall eitt sinn...
reipaði sig til öryggis... þarna myndi maður ekki vilja vera nema vera tryggður...

... en fallegt er það og spennandi...

Austan megin... hefði verið svo áhugavert að skoða þetta vel allt saman...

... og suðaustan megin... við ætluðum að þræða okkur eftir þessum brúnum en slepptum því úr því skyggnið var litið...

Ekki hægt að staldra lengi við að borða nestið fyrir kuldanum sem var samt ekki frost...

Drifum okkur til baka...

Smá hópmynd í klettunum...

Gunnar, Ingi, María E., Súsanna, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Katrín Kj., Ester, Arnar, örn og Guðný Ester en Bára tók mynd og batman var eini hundurinn í ferðinni eins og sorglega oft þessar vikurnar... vantar Dimmu, Slaufu, Bónó, Mola... og alla hina sem mæta allt of sjaldan !

Mont Blanc farar á Tindinn...
næst tökum við mynd af Hringsförunum þar sem nokkrir tóku ákvörðun þessa helgina um að skella sér :-)
Gunnar, Ingi, Örn, Bára og Guðný Ester.

Ingi strax byrjaður að æfa fyrir alvöru með því að ganga á jöklabroddum í grjóti... vel gert !
... og meiri letin í okkur hinum !

Mjög falleg leið sem var synd að ná ekki að njóta útsýnisins af...

Árið 2010 sungum við fyrir íslenska landsliðið í handbolta og fórum svo niður eina stóra skaflrennu í vesturhlíðum
en við fundum hana ekki nú og ákváðum að fara bara sömu leið til baka...

... en Bára hafði mælt út þessa skriðu við hliðina á klettunum á uppgönguleiðinni...
og strákarnir ákváðu að prófa hana í bakaleiðinni...

... sem var myljandi góð leið... sem sé hægt að fara vestan megin við klettinn...

...en lausagrjótið er mikið þarna samt svo þetta er betri niðurgönguleið en uppgönguleið :-)

Útiverurnar, hópur Jóns Gauta áði fyrir neðan okkur og við heyrðum í þeim... fremstu menn náðu í skottið á þeim neðar í brekkunum en Bára rekstrarstjóri missti af því að taka mynd af þeim sem hefði verið svo gaman að gera svona til minningar ! :-)

Litið til baka á leiðina niður vinstra megin og upp hægra megin milli klettanna...

Já, það var frost í jörðu... en samt svo hlýtt... kvenþjálfarinn var ekki alveg galin að láta alla bera jöklabroddana :-)
( já, ég verð nú að reyna að réttlæta þetta :-) )

Við gengum niður úr þokunni... það gekk á með smá súld og það varð kuldalegra á kafla...
en svo birti aftur til þó þokan færi aldrei alveg af tindunum...

Ein af mörgum bráðskemmtilegum spjallpásum sem einkenna einmitt hóp af þessari stærðargráðu... undir 20 manns...

Sögur og skoðanaskipti, umræður og trúnaðarmál... eru einn af mörgum meginkostum fjallgangna í góðum hópi...
sérstaklega á tímum gegndarlausra samskiptamiðla þar sem fólk er hætt að tala saman orðið !

Gerður Jens., Örn, Guðrún Helga, Arnar, Katrín Kj., María E., Guðmundur Jón, Ingi, Gunnar, Guðný Ester, Súsanna og Bára tók mynd
og tókst að fá Batman með þarna líka... en vá hvað hann þyrfti að fara í tíma hjá Díu sem kunni sko að sitja fyrir :-)

Dásamlegt að ganga til baka og spjalla...

...skottast yfir lækina í gljúfrunum...

... og líta til baka á tindinn sem við fórum upp á... magnað skýjafarið á Hróunum á þessu augnabliki... því svo var það farið...

Hann er drjúgur kaflinn út eftir Hafnardalnum...
við verðum einhvern tíma að ganga hinum megin og eftir öllum dalnum...

Mundum eftir því þegar við fórum um gilin að það er betra að halda sig neðarlega í dalnum og þvera þau þar frekar en að vera ofarlega í brekkunum enda kominn slóði á drjúgum kafla...

Fallegt landslag og sterkir litir ennþá þökk sé hlýjindunum sem halda sér vonandi fram í desember :-)

Við gengum niður í enn meiri hlýjindi og friðsælt veður út úr dalnum...

... fallegt var það síðasta kaflann...

Komin yfir ána hér...

Alls 12,3 km á 6:19 klst. upp í 783 m hæð með alls 1.076 m hækkun úr 59 m upphafshæð

Yndislegt að vera komin í bílana um hálffjögur leytið... það er vel hægt að venjast því... en því miður eru fjöllin oft í lengri akstursfjarlægð en Hróarnir... en við ætlum að reyna að hafa tindferðirnar mislangar á næsta ári og þar með... ekki alltaf vera að koma svona skelfilega seint heim...

Nesti í bílnum á leið heim var afgangur af naslinu hjá Báru þjálfara... en sérfræðingur í nesti, búnaði og farangri með allt á bakinu er klárlega Gerður Jens, sú ótrúlega víðförula kona, létt á fæti og létt í lund, mögnuð í alla staði... hún þyrfti svo að skrifa ferðasögur af öllum sínum ævintýrum... við bíðum eftir bókinni !
 


 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir