Tindur 11 - Eyjafjallajökull 5. apríl 2008
Tindur 11 - Eyjafjallajökull...
Bongóblíða
í vorlegu loftslagi Eyjafjalla með tilheyrandi
léttklæðnaði og berum leggjum lengi áleiðis...
Fegurð handan þess sem orð og myndir lýsa... |
Lagt var af stað úr Ártúnsbrekkunni rúmlega sjö um morguninn í nístandi frosti eða -8°C en heiðskíru veðri. Með í för voru fjallaleiðsögumennirnir Guðjón, Jón Gauti og Stefán en sá síðastnefndi hafði ekki komið með hópnum áður en stimplaði sig vel inn í hópinn og reyndist einstaklega vel þeim sem síðastir gengu þennan dag á jökulinn. Jón Gauti hér að leggja línurnar fyrir hópinn. Hann hafði á orði síðar um daginn að það væri ólíkt upplitið á hópnum nú en í fyrstu tindferðunum fyrir tæpu ári síðan... Í stað alvarlegra andlita með kvíðavott á svip mættu nú orðið brosandi andlit með geislandi tilhlökkun...
Vissan var
okkar um það sem koma skyldi... |
Útsýnið úr bílnum alla leiðina. Fjallgarðurinn til austurs... Hekla, Tindfjöll, Þríhyrningur, Eyjafjallajökull. Hvenær sér maður Eyjafjallajökul svona skýlausan? Jú, þegar við erum á leiðinni í heimsókn... |
Beygt inn afleggjarann að Seljavöllum. Það var nístandi kuldi í Ártúni Reykjavíkur og á Hvolsvelli og á leiðinni næddi kuldi og vindur um grundir suðurlands. Þegar farið var úr bílnum við afleggjarann til að þétta lestina var aftur á móti bara logn og hlýindi... Það var eins og við værum komin mánuð fram í tímann þarna á Seljavöllum, vorið komið og grænkan eins og rétt að byrja að spretta. Líklega vorar þarna einhverjum vikum fyrr en á flestum öðrum stöðum á landinu...
|
Bílum var lagt við nýrri Seljavallalaugina þar sem einnig tíndust inn fjallaskíðamenn er stefndu á jökulinn og áttu eftir að vera okkur til samlætis þennan dag. Allir að græja sig hér við bílana. Alltaf svolítið tímafrek tiltekt þó margt komist upp í vana. Agalega var bakpokinn þungur... viljandi gert þó að spara ekki farangurinn því þetta var jú, æfing fyrir komandi tindferðir næstu mánuði og ágætt að komast að því hvernig pokinn virkar með "alt muligt til rejsen". |
Lagt
var af stað
kl. 10:31 í
mildu logni en morgunkuli af skugga fjallanna. Rétt ofar skein sólin og þá rann svitinn af stað og stoppaði ekki fyrr en við tindinn... Við vorum varla komin af stað þegar menn voru kafna úr hita og fóru að kasta af sér klæðum. Guðjón Roar Kristín Gunda með Steinafjall í baksýn til vesturs - 364 m hátt. |
Svitastoppið
með Seljavelli að baki og menn að tínast upp á
Lambafellsheiðina. Þetta var stórskrítið en stórkostlegt... Það var eins og við værum skyndilega komin inn í sumarið, steikjandi hiti á göngu og mosailmur í lofti við átroðninginn. Jón Gauti hvatti menn til að kasta grimmt af sér klæðum... þetta yrði bara heitara er liði á daginn... og það reyndist rétt til getið. |
Lambafell
í baksýn til suðurs - 198 m hátt. Gengin heiði þess í norður að jöklinum. Margir liðsmenn fjallgönguklúbbsins eru orðnir nautsterkir göngumenn sem örkuðu auðvitað ólmir af stað upp sumarlegar lendurnar í hlýrri morgunsólinni. Hinum síðari fannst að það hefði þurft að fara hægar af stað til að hita upp fyrst, enda er það ágætis regla, en svona er þetta alltaf í stórum leiðangri, hraði er afstæður eftir getu fólks og það skilur strax á milli. |
Ein
af þessum
gullfallegu myndum
sem náðust við fullkomnar aðstæður fjallgöngumanna sem
ljósmyndara... Litir þessa árstíma á göngu hárra fjalla... Djúpblár litur himins Hvítur litur snævar Svartur litur grjóts og skugga Grár litur malar Gulur litur vorsólar Sem speglast svo í litríkum fatnaði fjallgöngumanna... Allt á uppruna sinn í náttúrunni, við skulum ekki halda annað en að hver agnarögn í mannlegu lífi í öllum sínum myndum eigi sér fyrirrennara í jörðinni sjálfri á einhverju formi.
|
Smám
saman kom
suðurströnd
Íslands í ljós eftir því sem ofar dró. Af mosa og möl tóku brakandi mjúkir en grunnir snjóskaflar við sem gott var að mjakast yfir. Engin hálka og dásamlega lygnt. Spjallað sem mest menn gátu. |
Hlé
við eina nösina með
Raufarfell
í baksýn til suðausturs - 760 m hátt. Geldingaklettar (619 m) kallast stríturnar þarna hægra megin og glittir í hvítari tind bak við þá beint undir skýhnoðranum (var mun skýrara með mannsauganu en myndavélarinnar). Þar fer á að giska Högnaklettur sem er 714 m hár. Hrikalega fallegt útsýni fjallsróta Eyjafjallajökuls. Tignarlegur jökull eins og Snæfellsjökull og magnað að geta gengið á slíkt náttúrufyrirbæri nánast frá sjávarmáli og það með mánaðar millibili eins og þessi hópur í sól og blíðu í bæði skiptin. Hvaða vættir liggja þar að baki? |
Það
sem framundan var þar með: Víðar og vel færar snjólendur jökulsins með hnúkana á toppnum framundan; Goðastein (Guðnastein) og Hámund. Sumir berleggjaðir á fótum eða höndum... vá hvað það var gott veður. Fjallaskíðamennirnir tóku smám saman fram úr okkur nokkrir, fyrst með skíðin á bakinu, en svo undir fótum þar sem gúmmíhöldur komu í veg fyrir að þeir rynnu niður á við. Síðar brunuð þeir svo niður brekkurnar til baka við aðdáun okkar göngumanna en nei, ekki öfund.. þetta eru bara tvær ólíkar dásemdarleiðir til þess að heimsækja jökul og alger óþarfi að gera upp á milli. |
Meira að segja myndavélin fékk snjóblindu... Og sá varla þessa agnarsmáu toppfara sem hurfu nánast inn í hvítu snjóbreiðuna sem lak um allt niður voldugar hlíðar jökulsins. Hann hefði vel getað gleypt okkur með húð og hári án þess að nokkur verksummerki yrðu. Við erum ekkert í samanburði við svona stað, enda nálgumst við hann á hans forsendum og komumst þannig klakklaust frá honum. |
Margt
gerðist í fyrsta skipti í lífi sumra
Eyjafjallajökulsfara þennan dag. Ekki bara hæsti tindurinn, mesta hækkunin, besta veðrið, flottasta útsýnið, þægilegasta snjófærið, friðsælasta lognið, mesti hitinn á jökli... ... nei, ekki bara það... Heldur einnig fyrsta fjallasalernið úr snjó... Sérhannað af Jóni Gauta með ósérhlífnum snjómokstri þar til fullkomin aðstaða var til staðar fyrir betri helminginn af leiðangursmönnunum. Þær kunnu sig auðvitað ekki fyrir kæti, brátt var komin biðröð í herlegheitin og spreyttum við okkur allar á gjörningnum, guðs lifandi fegnar og óendanlega þakklátar þessum leiðsögumanni sem er ásamt Guðjóni kominn í dýrðlingatölu... Ef einhvern tíma var þörf á nákvæmlega þessum öðlingsskap þá var það þarna, þar sem hvergi var tækifæri til skjóls og hitinn var slíkur að við urðum að drekka vel. Jón Gauti vissi vel hvað hann var að gera...
... en
úps, læstist inni með pantanir á svona salerni í næstu
ferðum... |
Hádegismatur
í logni og ótrúlega hlýju veðri. Hvílíkur munur að geta nærst í rólegheitunum en ekki skjálfandi úr kulda í flýti undan veðrinu. Útsýnið af hádegisverðarborðinu var svo hafið suður til Evrópu, fjallatindar allt um kring og Vestmannaeyjar úti í hafi séðar ofan frá... Er hægt að fara í glæsilegri hádegismat? |
Svarta gengið á Eyjafjallajökli...
Galgoparnir... dásemdardrengirnir...
stríðnispúkarnir... dúllurnar... ...en fyrst og fremst skemmtilegustu fjallamenn og traustir ferðafélagar sem eins og aðrir í fjallgönguklúbbnum fara hvert á land sem er án þess að hika eða vera með fortölurnar í lista... Einmitt þannig kemst maður jafn langt og hátt eins og á Eyjafjallajökul en er ekki bara að orða það fram eftir aldri að "það væri nú gaman að ganga á hann einn daginn"... Grétar Jón, Stefán Heimir, Þorleifur og Örn. Það má sjá af gleraugunum hver er flugmaðurinn í hópnum.
Þorleifur
flaug frá Vestmannaeyjum yfir jökulinn daginn eftir og
sá hvernig skýjahulan breiddi sig yfir allan
suðurhlutann og yfir Fimmvörðuháls...
|
Lagt
af stað eftir hádegismatinn og komin með skírlífisbeltin
á kroppinn. Framundan síðustu metrarnir áður en við vorum sett í þessar %&¨!"#$%#*!!! línur. |
Stillt
og prúð leyfðum við fjallaleiðsögumönnunum að teyma
okkur saman. Gantast, skotið og hlegið sem aldrei fyrr. Eitt
það
mikilvægasta
á fjöllum í félagsskap annarra... Þennan dag var hins vegar allt í meðbyr og veturinn að baki svo léttleikinn var bara sykurbráðin á toppinn... Betra gat þetta ekki verið og við áttum það sannarlega skilið. |
Þrjár
línur með þremur leiðsögumönnum og þar með skiptist
leiðangurinn í
þrennt
þar sem hver og ein lína átti sitt líf, sína reynslu,
dýnamík og upplifun. Minna var þar með hægt að tala saman og við tók ganga einhverja kílómetra eftir snjóbreiðunni í spor félaganna fyrir framan í þungum þönkum. Tveir settu á sig second skin stuttu fyrr sem er nauðsynlegt að gera einmitt strax, áður en málin versna því þau verða fljótt slæm eftir að húðin er veikluð. Stefán Heimir í línu þrjú tók bakpoka Helgu Sig. á herðar sér af kærkominni umhyggju fyrir liðsfélaga, en hann hefur verið einna iðnastur í að æfa þungan bakpoka á æfingunum og burðast jafnvel með grjót í pokanum. Svona liðsvinna skiptir sköpum fyrir heildina. |
Tindurinn
í augsýn allan tímann eða réttara sagt glitti í
Hámund
sjálfan (1.651 m) neðar hlíða bak við
Goðastein / Guðnastein
(1.630 m skv gps) sem var alltaf í sjónmáli - sjá mynd. Lína þjálfara rak lestina en hér sjást hinar línurnar ofar og Stefán, fjallaleiðsögumaður fremst okkar, en hann reyndist fólkinu sínu afskaplega vel. Sjá
skafrenninginn
ofan af brúninni.
Svo var nefnilega með nokkra þar sem við höfðum kastað mikið af klæðunum af okkur í blíðunni upp eftir hlíðinni og því var ráð að koma sér í þau aftur. |
Tafir
urðu talsverðar vegna þessa og menn þurftu að klæða sig
með frostbitna fingur sem ekki var auðvelt... en mikið
var gott að fara í meiri föt... Lexía: Klæðast þeim buxum sem henta tindinum áður en farið er í beltin í upphafi.
Örn Smám saman breiddi hún úr sér og sást til Dyrhólaeyjar eins og Vestmannaeyja, handan þeirra og allt þar á milli. |
Síðustu
metrarnir á Hámund.
Goðasteinn beið okkar línu í bakaleiðinni þar sem við höfðum dregist talsvert aftur úr, en fremri línur gengu á hann á uppleiðinni og voru komnar nokkuð fyrr á tindinn.
|
Skafrenningur
og ískaldur vindur ríkti við brúnirnar og alla leið á
toppinn, en svo var þetta eins og að fara inn í hús efst
á Hámundi sjálfum því skyndilega var logn og friður...
Furðurlegt þetta brúnalogn. Ingi hér í fyrri línu að kíkja eftir okkur ofan af Hámundi... Voru þau ekki örugglega að fara að koma..? Jú, við skiluðum okkur og fögnuðum með þeim sem fyrir voru, þetta er einstök tilfinning. |
Hópurinn
að nærast á toppnum og njóta
útsýnisins. Ekki þurfti að fara nema einn metra til hliðar og neðar til að fá vindinn á sig og kuldann með en efst í hlíðinni til suðurs var lygnt og hægt að nærast í rólegheitunum. Eins og ósýnilegir veggir... Þrátt fyrir veðurblíðuna þennan dag alla leið upp skákaði toppur Eyjafjallajökuls ekki Snæfellsjökli hvað varðaði friðsældina sem þar ríkti og var einstök fyrir mánuði síðan í ærslum og tímaleysi. Þar tímdum við ekki niður, en í þetta skiptið vildu menn fljótlega tygja sig niður eftir næringu og útsýnishring, þar sem kuldinn læddist fljótt inn fyrir fötin. |
Eyjafjallajökull státaði hins vegar af betra veðri í heildina og skyggni, að ekki sé talað um stórkostlegra útsýni en á Snæfellsjökli. Engin voru skýin og enga tölu var hægt að fá af þeirri fjallasýn sem við blasti. Brot af þessu var t. d. Esjan, Botnssúlurnar, Hekla, Tindfjöll, Torfajökulssvæðið, Mýrdalsjökull og suðurströndin eins langt og augað eygði með eyjum sínum og óendanlegu hafinu til suðurs. Mynd af brúninni með hópnum á í samhengi við fjallasýnina til norðurs. Takmarkalaust útsýni sem markaðist okkur af sjóngetu augnanna. |
Leiðsögumennirnir
tóku
útsýnishring
með hópnum og bentu á það markverðasta sem fyrir augu
bar og var áhuginn mikill.
Það er einstakt að geta virt svona landslag fyrir sér ofan af jafn háum stað án nokkurra skýja.
|
Eyjafjallajökulsfarar: Efri frá vinstri: Grétar Jón, Þorleifur, Stefán Jóns., Stefán Heimir, Halldóra Á., Roar, Guðbrandur, Örn, Íris Ósk, Rannveig, Hilma, Soffía Rósa, Harpa, Helga Björns., Jón Gauti, Kristín Gunda, Ragnheiður, Kári, Alda, Halldóra Þ., Hjörleifur. Neðri frá vinstri: Þorbjörg, Helga Sig., Guðmundur Ólafur, Boga, Guðjón, Bára og Ingi. Guðjón fjallaleiðsögumaður tók myndina og Stefán leiðsögumann vantar. |
Þá
læstu
línurnar
aftur klónum í okkur...
Oh, þurfum við endilega að fara í þær...? Jú, Guðjón lagði mönnum línurnar með sinni einstöku staðfestu sem þó er svo mild og traust að maður kæmist örugglega klakklaust upp á Everest ef hann fylgdi manni. Það eru sprungur þarna við tindinn og ekkert grín að komast að því hvar þær eru án þess að vera í línu. Stórkostleikur útsýnisins þarna í baksýn og bunga Mýrdalsjökuls t. d. vinstra megin. Hitastigið við brottför niður kl. 16:30 var -8,1°C skv. mæli Roars.
|
Lagt
af stað niður af tindinum. Goðasteinn til vinstri og Vestmannaeyjar mara úti í hafi í steikjandi sólargeislunum. |
Skafrenningurinn
hvassi milli hnúkanna á tindinum.
Á þessu
svæði gekk Harpa ofan í
sprungu
upp að mitti...
Síðasta línan sá ofan í gapið en við höfðum ekki hugmynd um að eitt okkar hafði stigið þarna niður. |
Hámundur
í baksýn og gengið á
Goðastein
á meðan fremri línurnar gengu beint niður í betra veður. Ískuldi og vindur en vel þess virði að ganga hann þar sem hann hafði blasað við okkur frá því um morguninn. Mældist 1.630 m á gps þjálfara. |
Hópmynd
af línu þrjú: Stefán Heimir, Helga Sig., Halldóra Á., Roar, Grétar Jón, Þorlefiur, Stefán Jóns., Örn og Bára. |
Niður,
niður, niður, úr kulda og roki... Tærustu litir ársins eru gjarnan á árstíðaskiptunum að vori og hausti. Vertíð fyrir ljósmyndara þó þeir séu bara með einfalda myndavél.
|
Blessaður
vertu tindurinn... ...og takk fyrir okkur. Samkvæmt hitamæli Roars mældist mesta frostið í ferðinni við Goðastein á niðurleið -10,2°C kl. 16:45. Hitinn hækkaði fljótt á niðurleiðinni og er alltaf jafn sérstakt að kenna þess svona vel hvernig hlýnar við lækkandi hæð en svona var þróunin: KL. 17:00 - Í 1.450 m hæð: -7,3°C. KL. 17:15 - Í 1.310 m hæð: -3,8°C. Kl. 17:30 - 1.170 m hæð: -1,7°C. |
Línur
eitt og tvö með Raufarfell og Geldingakletta í baksýn og
Högnaklett þar á bak við. Stefán leiðsögumaður skellti bakpoka Helgu á sinn í bakaleiðinni og tók það ráð að snúa línunni við þannig að Stefán Heimir og Helga Sig. voru fremst. Þetta var algert þjóðráð því þar með náðum við jafnari göngu og vorum skjótar að ná fremri línunum. |
Ingi
tók með sér
þotu
og lék sér niður brekkurnar við hliðina á félögum sínum
sem voru bundnir upp í klof eins og kjánar við hliðina á
honum... Hvers vegna tókum við ekki svona með okkur? Hann lánaði auðvitað hverjum sem vildi afnot af þotunni og slógu ærslabelgirnir Þorleifur og Grétar Jón auðvitað til. |
. Línur eitt og tvö á leiðinni niður. Þorbjörg, Guðmundur Ólafur, Íris Ósk og... Harpa, Guðjón, Boga og Kári. Aukið hafði í vindinn á niðurleiðinni (sjá skafrenninginn ofar hlíða) og fylgdi hann okkur nokkuð niður hlíðarnar áður en það varð lygnt. Við vorum heppin að hafa ekki haft hann svona í fangið á uppleiðinni. |
. Línurnar þrjár samstíga í þetta sinn. Raufarfell vinstra megin (austan). Steinafjall hægra megin (vestan). Lambafell brátt að birtast framundan þegar neðar dró. |
Pása
við eina nösina, kannski þá sömu og á uppleiðinni en
umhverfið svo ólíkt þar sem sólin var gengin talsvert
vestur. Jón Gauti gleymdi bæninni til vætta jökulsins og tók hana þarna í lokin við misjafnar undirtektir þreyttra göngumanna sem nenntu fæstir að fara á hnén og kyssa jökulinn. Grétar Jón og Þorleifur gerðu samt það sem þeim var sagt (það er greinilega ekki sama hver er...;) og voru sáttir við sig á eftir. |
. Guðbrandur og Rannveig í breiðri sporaslóðinni sem lá eftir okkur þennan dag. |
. Kvöldsólin í vestri... Örn og Jón Gauti á spjalli niðurleiðarinnar... Oft bestu stundir svona langs dags að rölta óðamála síðustu kílómetrana... Eitthvað svo sáttur og sæll með daginn innra með sér. |
Þessir
örfáu skýjahnoðrar sem fóru að myndast í kvöldkulinu við
fjallstindana fengu á sig fjólubláan lit í takt við
sólarlag
landslagsins. Mikið var þetta þægilegri niðurganga en á Snæfellsjökli. Sólin mun hærra á lofti og komið vor við fjallsræturnar. Ekki sambærilegt göngunni mánuði fyrr þegar það var nánast myrkur er við komum að bílunum (rúmum hálftíma seinna reyndar). |
. Stefán Heimir á snjóþrúgunum sem ekki var þó not fyrir í þetta sinn ólíkt sumum fyrri tindum eins og Baulu og Snæfellsjökli. Hann brást vel við áskorun félaganna um að sýna þá í notkun og rölti áleiðis niður með þá á fótunum. |
Pása
við klettanösina frá því fyrr um daginn, til að þétta
hópinn. Komin á stöku steina og möl og sólríkar lendur suðurlands neðar.
|
Ein brött brekka á niðurleiðinni sem var miklu betra að renna sér bara niður eftir eins og sumir gerðu. Verst að buxurnar slitna svolítið við þessi tilþrif... |
Halldóra
Á. að koma niður brekkuna í skríkjandi gleði. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og ágætis hvíld eftir margra klukkustunda göngu. |
Lambafellsheiði
og Lambafell svo sunnar. Hópurinn liðast niður eftir heiðinni eins langt og augað eygir. |
. Mosagrænu brekkur Seljavalla í lokin sem gáfu ljúfan vorilm í vitin. Svona ilmur er ekki kominn annars staðar á landinu er það?
Hitinn skv. mæli Roars var um +6,2 - +6,7 °C á bílastæðinu í lok dagsins og var svipaður og í upphafi ferðar um morguninn eða +5,9°C, en sú tala var líklega aðeins of há (tók tíma að lækka hitann eftir aksturinn úr bænum). Engu að síður anzi mikil hlýindi í skugganum þarna árla og síðla dags og til marks um loftslag Seljavalla svona snemma í apríl þegar frost ríkti utar allt um kring. |
Hópurinn
að tínast niður á Seljavelli að nýju lauginni þar sem
bílaflotinn beið á stæðinu fyrir lúna fætur að hvílast á
leiðinni í bæinn. Alltaf jafn merkilegt að ganga svona milli tveggja heima, úr blíðu láglendisins í hörku hálendisins. Önnur lögmál á hvorum stað fyrir sig og einstakt að geta ferðast svona milli heima á fótunum einum saman. |
Helga
Björns
bauð okkur upp á
STROH
í lok ferðar á bílastæðinu og var þessi brjóstbirta
hjartanlega kærkomin eftir strembinn dag.
Í smá kakói frá Inga rann þetta nokkuð ljúflega niður, reif kannski aðeins í eins og annað sem gerir manni samt gott en yljaði mjúklega þreyttan skrokkinn. Hann átti það sko skilið eftir erfiði dagsins. Synd að vera ekki með gistingu þarna... geta farið í heita pottinn og fengið sér vel að borða fyrir svefninn. |
. Skálað fyrir hæsta tindi hópsins til þessa og framúrskarandi góðum degi í góðra vina hópi undir dyggri stjórn einstakra fjallaleiðsögumanna. Takk Helga fyrir vel til fundinn endi á góðum degi. |
Hláturinn sem var samferða okkur allan tímann náðist loks á filmu... Guðjón, Stefán og Jón Gauti fjallaleiðsögumenn gættu okkar af sömu einstöku snilldinni og álúðinni og áður. Væntumþykja hópsins og virðing gagnvart leiðsögumönnum sínum hefur vaxið jafnt og þétt frá fyrstu göngum síðasta sumar og er dásamlegt til þess að vita að þeir skuli toppa með okkur Hvannadalshnúk eftir mánuð...
|
Við þökkum fyrir okkur Eyjafjallajökull... Það var einstakt að kynnast þér. Hnúkarnir þarna uppi eru manni hér með kunnugir af eigin raun... (mynd tekin til norðausturs úr bíl á heimleið). Að ganga nánast frá sjávarmáli á jafn tignarlega jökla og Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul í jafn fallegu veðri og gjöfulu útsýni og þessi hópur hefur gert eru hrein og bein forréttindi á heimsmælikvarða... Það ber að þakka slíkt tækifæri, að fá svigrúm til þess arna og hafa líkamlega og andlega getu til þess að klára slíkt. Varðveitum svona dag í hjarta með þakklæti til alls þess sem olli því að hann var mögulegur. |
Dagurinn gaf 16,8 km göngu á 10:04 klst. upp í 1.655 m hæð (1.651 skv Landmælingum) með 1.598 m hækkun... það hæsta sem við höfum gert hingað til og enn verður það hærra og lengra eftir mánuð þegar hæsti tindur landsins verður sigraður með reynsluna í farteskinu.
Hærra
komumst við ekki nema fara út fyrir landsteinana en
eftir eru ógrynni flottra fjalla á íslandi engu að
síður. Öll fjöll eru góður göngutúr óháð hæð... Kílómetraprófíllinn með lægri hæð en á hinum gps tækjunum. Komin upp eftir 8,3 km göngu á 7 klst. |
Gps
prófíllinn út frá
tímalengd
ferðarinnar. Takið eftir hve mikill tími fer í uppgöngu
miðað við niðurgöngu. Toppað eftir rétt tæpa sjö
klukkustundir. Niðurleiðin svo rétt um 3 klst. eða
samtals 10:04 klst. í heild. Sjá allar myndirnar úr ferðinni á síðum Toppfara (m.a. 350 stk. þjálfara) undir tenglar. |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|