Úlfljótsvatnsfjall
Þingvallafjall nr 39

Vegna hertustu samkomutakmarkana í sögu landsins vegna Covid-19 í nóvembermánuði árið 2020
ákváðu þjálfarar að hafa léttustu Þingvallafjöllin sem aukaæfingu, eitt á viku fyrir utan eitt höfuðborgarfjall
og var Úlfljótsvatnsfjall aukaæfing viku 46...

Mættir alls 8 manns: Bára, Bjarnþóra, Elísa, Jóhanna D., Kolbeinn, Sigga Lár., Vilhjálmur, Örn. 

Kolbeinn og Elísa:

#Fjallorkagegnveiru Þingvallaáskorun. Úlfljótsvatnsfjall og Dagmálafell.
Við Elísa ákváðum að taka Þingvallaáskorun. Lögðum af stað austur Nesjavallaveg en komum að lokun :-( Snerum við og fórum um Mosfellsheiði. Við lögðum bílnum við afleggjarann og gengum upp Hjallhól og Gnípur og gengum eftir Úlfljótsvatnsfjalli í átt að Dagmálafelli og upp það, snerum þar við og fórum til baka, við fengum nánast allar tegundir af veðri.

Bjarnþóra og Sigga Lár:


Eftir að hafa þraukað að labba á Úlfjótsvatnsfjall lak af okkur svitinn og rauk úr okkur hitinn :-)

... svo það var ekki um annað að ræða en að skella sér til kælingar í Þingvallavatn.

Þjálfarar Bára og Örn:

Könnunarleiðangur fyrir Toppfara og Þingvallaáskorun. Fórum frá malarveginum ofan við Grafningsrétt beint upp á norðurendann og þaðan á hæsta tind og svo jeppaslóðann til baka. Vorum að flýta okkur til að ná könnunarleiðangri á Dagmálafellið í leiðinni en ætluðum ekki að fara á bæði í einu heldur taka stuttar ferðir á sitt hvort. Keyrðum fram og til baka eftir veginum í leit að malarvegi upp að Dagmálafelli sem er á kortum en allir afleggjarar eru lokaðir og vel merktir sem slíkir (einkavegir) svo við féllum frá því að fara á fellið. Þar sem við vorum í þessu veseni fannst okkur erfitt að sjá Dagmálafellið, það rennur svolítið saman við heiðina og lágar fjallsbungur sem liggja niður eftir á svæðinu.

Fjöllin sem við erum búin að ganga á skera sig öll upp úr landslaginu og eiga klárlega rétt á sér sem hluti af "Þingvallafjöllunum" en þegar við skoðuðum kort af svæðinu má finna nöfn á ýmsum bungum sem liggja ofan á heiðinni sunnarlega milli Úlfljótsvatnsfjalls og Súlufells með nokkrum fjalls- og fellsnöfnum (Villingavatns-Selfjall, Dagmálafell, Úlfljótsvatns-Selfjall, Hlíðarfjall, Háafell) og stuttu sunnar er Álútur sem er hluti af fjallgerðinum ofan við Hveragerði og fannst okkur þessi fell tilheyra í raun Klóarfjalli sem rís ofan við Gufudal ofan Hveragerðis svo til að gæta sanngirni gagnvart öllum þessum fjallsbungum ákváðum við að Dagmálafellið tilheyrði þessum fjallbálki og tengdist Hveragerðissvæðinu frekar en Þingvallasvæðinu.

Ekkert heilagt í þessu samt, en við tókum því Dagmálafellið út úr Þingvallaáskoruninni. Öll önnur fjöll og fell sem bæst hafa við í þessari áskorun eftir að við fórum að ganga á Þingvallasvæðinu eins og Sandfellið við Jórugil, Söðulhólar við Tindaskaga, Þrasaborgir á Lyngdalsheiði o.s.frv. hafa sannfært okkur um tilverurétt sinn í Þingvallafjallasafninu svo ef Kolbeinn og Elísa eða aðrir sem gengið hafa á Dagmálafellið segja að það eigi klárlega að tilheyra þessu safni, þá bætum við því við NB ! Látið í ykkur heyra !

Jóhanna D. og Vilhjálmur:

Þrasaborgir og Úlfljótsvatnsfjall voru sigruð í gær 221120 í ágætis veðri  með Vilhjálmi. Þingvallaáskorun. #fjallorkagegnveiru.

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir