Arnarfell við Þingvallavatn
Þingvallafjall nr. 10
þriðjudagsæfing 7. apríl 2020

Arnarfell á Þingvöllum
í kvöldsól og dásamlegu veðri
... alein í heiminum...
...
svo hljótt... ó, svo hljótt ...

Tíunda Þingvallafjallið var á dagskrá þriðjudaginn 7. apríl...
eftir að hafa verið frestað einu sinni vegna Covid-19en síðar afráðið að halda dagskránni úti eins og kostur væri
þegar ljóst var orðið að 2ja metra fjarlægð milli manna og 20 manna samkomubann var orðinn raunveruleikinn
næstu vikurnar fram á vorið og jafnvel sumarið...

Nauðsynlegt að melda sig inn á æfinguna til öryggis þar með svo þjálfarar gætu tryggt að við virtum hámark 20 manna regluna
og vorum við orðin 16 manns alls þetta kvöld þegar mest var í tilkynningum í fb-hóp Toppfara...
en þegar leið á þriðjudaginn melduðu sig nokkrir frá æfingunni
og við enduðum eingöngu sjö manns þegar á hólminn var komið...

Keyrandi úr veðurblíðunni í Reykjavík inn í éljagang og ekkert skyggni á Mosfellsheiði... leist okkur ekkert á blikuna...
sló hjartað svo hraðar og glaðar þegar aftur var keyrt inn í sólarblíðuna við Þingvallavatnið við rætur Arnarfells...
þar sem gangan hófst austan megin inn með taglinu og upp norðuröxlina...

Aðstæður með besta móti... mjúkt snjófæri... vor í lofti... sólin hátt á lofti... skyggni kristaltært...

Algerlega fullkomið kvöld... algert logn... alger kyrrð... engir bílar keyrandi um Þingvellina...
engir erlendir ferðamenn... við vorum alveg ein í heiminum... friðurinn var áþreifanlegur...
við vorum að upplifa Þingvelli á þennan friðsæla máta í fyrsta sinn í mörg ár...

Hin fjöll Þingvalla blöstu öll við þetta kvöld... enda er Arnarfellið í miðjunni á herlegheitum svæðisins...

Hér til vesturs bak við Ólaf Vigni blasir Búrfellið við, svo Botnssúlurnar og loks Ármannsfellið...

Búrfellið það eina sem er að baki í ár... hin bíða vorsins og sumarsins...

Arnarfellið er einfalt yfirferðar en samt heilmikið brölt upp og niður...

Tveggja metra fjarlægð milli manna alla gönguna nema milli hjóna...

Miðfell og Dagmálafell hér í fjarska... en það voru tvö fyrstu Þingvallafjölin á árinu...

Magnaður hryggur að sjá héðan...

Arnarfellið var glæsilegra en nokkru sinni þetta kvöld...

Það kom okkur á óvart þar sem við  eigum margar mjög fallegar minningar af þessu felli að vori, sumri og hausti...

En aldrei áður að vetri til... og það í snjó en samt í þessu skínandi fallega veðri og að kveldi til...
þetta var magnað !

Sjá Stapatjörnina hér ísilagða og með snjó ofan á ísnum..

Éljagangur í grennd... en aldrei nálægt okkur aftur þetta kvöld...
sem betur fer gekk hann yfir þegar við keyrðum á Þingvelli og var farinn þegar við gengum af stað...

Auðvelt að virða 2ja metra regluna þegar við erum svona fá...
nú fer að vora hratt og þá megum við eiga von á því að fjölgi á þriðjudagsæfingum...
... þá fer líklega að reyna á 20 manna hámarkið... en við leysum það þegar að því kemur !

Sjö manns... sorglega fáir í þessari stórkostlegu fegurð og áþreifanlega friði...
Örn, Kolbeinn, Ólafur Vignir, Bjarnþóra, Vilhjálmur og Jóhanna Diðriks.
en Bára tók mynd og Batman var skoppandi með...

Hér í mosanum áðum við... fengum okkur nesti... önduðum inn fegurðinni...
og nutum útsýnisins sem er kyngimagnað ofan af Arnarfelli á öll Þingvallafjöllin allt í kring...

Reyðarbarmarnir hér á vinstri hönd...

Botnssúlurnar og Ármannsfell... og Mjóafellin...

Hrafnabjörg, Skefilsfjöll, Hrútafjöll, Kálfstindar og Reyðarbarmar...

Dýrindiskvöld með meiru.... við vorum hugfangin og nutum hvers skrefs...

Gott að spjalla og deila lífsreynslunni á tímum Covid-19... allri heimavinnunni...
breytingunni á lífsskipulaginu... sjálfskipuðu heimasóttkvínni...
fyrir sum ef ekki flest okkar þá var þetta eina alvöru samveran og spjallið við annað fólk í vikunni fyrir utan fjölskylduna....

Arnarfellið er ílangt og liggur eins og Dagmálafell og Miðfell... hryggur í sömu átt...
og fjöllin hinum megin vatnsins... liggja eins... Ölfusvatnsfjöll o.fl... minnismerki um gömul eldsumbrot...
á svo víðfeðmum skala að það er ekki sjálfsagt að átta sig á því
fyrr en maður gengur um alla þessi hryggi og sér stóra samhengið...

Fegursti kaflinn hér... þjálfari tók lengsta myndbandið á þessum kafla...
og tók gönguna saman í myndband eins og allar göngur Þingvalla á árinu...
sjá tengil neðst í ferðasögunni hér...

Bókstaflega enginn á svæðinu nema við... og Leifur Toppfari sem tók með sér tvo gesti
og dró sig þá hæversklega út úr Toppfaraæfingunni en hefði vel getað komið úr því það urðu svona mikil afföll hvort eð er...
en þau fóru öfugan hring miðað við okkur og mættu okkur á miðri leið...

Dýrðin... var engu lík....

Heilmikið brölt en allt á öruggri slóð og í góðu færi...

Leifur hér með fósturmóður sína sem er frá Litháen og Anítu átta ára systur sína
sem stóð sig með prýði í göngunni greinilega..
þær eru velkomnar með okkur í næstu göngu ef þær vilja :-)
... bara heiður að fá einhvern frá Litháen í göngu með okkur :-)

Eftir heilmikið spjall héldu þau áfram til norðurs en við til suðurs...

Smá áning við þennan klett...

Myndirnar sýna engan veginn fegurðina þetta kvöld... þetta voru töfrar allan tímann....

Við gengum út allt fellið frá norðri til suðurs...

... og enduðum á suðurtaglinu með útsýni niður að vatninu...

... þaðan sem við gengum niður að litlum hól nær vatninu en létum þar við sitja og nutum útsýnisins...

Arnarfellið hér að baki...

Sýnin niður að vatninu til suðurs....

Gengum aðeins lengra niður að þessum brúnum....

Vorið er að sigra veturinn... smám saman....

Magnaður staður.. hér sátum við og nutum... í þögn og friði...

Það var rétt sem Bjarnþóra sagði...
þetta var eitt af þessum kvöldgöngum sem jafnast á við dagsferðir að gæðum
þó mun styttri séu og einfaldari yfirferðar...

Útsýnið til vesturs að vatninu...

Kindur á ferð í hjörð...

Sýnin til suðurs... skógur og bústaðir þarna niðri... við ákváðum að fara ekki alveg niður þar...

Sjá ísþokuna sem læddist upp á landið ofan af vatninu... sérstakt...
því svo leystist þokan upp síðar um kvöldið...

Við vorum ekkert að flýta okkur... dóluðum okkur allt kvöldið og áðum oft og spjölluðum...
svo gott að fá þessa kvölddgöngu mitt í Covid-fárinu....

Sólin að skína gegnum ísþokuna sem skyndilega lagðist yfir allt vatnið
og við héldum að við værum að lenda í þoku þar með...
en svo leystist hún líka upp og við fengum sólina aftur...

Í stað þess að fara niður suðurendann þá snerum við aftur upp á suðurtaglið á Arnarfelli
og fórum þaðan niður og það reyndist besta leiðin...

Hér að strauja niður taglið... sjá ísþokuna að leysast upp...

Niðri tók við slóði meðfram fellinu til baka í bílana austan megin...

Skýjafarið svo formfagurt... litirnir svo skærir... birtan svo sterk... landslagið svo fallegt...

Alls 5,2 km á 2:11 klst. upp í 244 m hæð með alls x m hækkun miðað við 124 m upphafsshækkun.

Sjá myndbandið um ferðina hér:
https://www.youtube.com/watch?v=btS3erFcGMU&t=253s

Sjá slóð fyrri ferða Toppfara á Arnarfell á wikiloc hér
(skemmtilegri leið með krók vestan megin til baka meðfram vatninu sem hentar vel í sumarfæri
og er skemmtilegri en sú sem var farin þetta aprílkvöld vegna snjófæris í brattanum norðvestan megin):

https://www.wikiloc.com/mountaineering-trails/arnarfell-thingvollum-040809-34707753

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir