Kirkjufell
Kirkjufellið. Líklega eitt mest
myndaða fjall í dag, tignarlegt þar sem það stendur eitt eins og
vörður yfir Grundarfirði.
Orðspor um að vera erfitt yfirferðar með
bröttu klettabeltin sín og varasamt að vera einn á ferð.
.
Ég lét langan draum rætast loksins snemma í sumar. Veðurspáin
lofaði súpergóðu veðri; sól og hita, svo ég skellti mér vestur.
Rétt undir fjallinu er bærinn Mýrar og þangað hef ég tengingu
gegnum vini mína. Þau leigja út smáhýsi og í þessu covid-ástandi var
ekkert mál að fá hús með engum fyrirvara. En vandinn var bara sá,
að ég var ein og það á víst að vera stórhættulegt að fara einn á
Kirkjufellið. Eða svo hafði ég alltaf heyrt. Þar sem ég hafði
ekkert val þá var þetta bara spuning um góðan undirbúining og það
hefur aldrei vafist fyrir mér að vaða í málin.
Daginn fyrir fastsettan dag hóf ég svo undirbúninginn. Ég sá strax
að þetta er ekki bara svona fjall sem maður „reimar á sig skóna og
hendist af stað“. Kannski truflaði það dómgreindina ákveðinn
innbyggður kvíði vegna allra sagnanna um dauðaslys og viðvaranir um
að það væri algjört „nono“ að fara einn. En þar sem ég er bara
þannig víruð að ég elska áskoranir og að finna lausnir þá vildi ég
láta á þetta reyna. Einnig er ég nú ekki alveg græn þegar kemur að
undirbúningi því ég er lærður leiðsögumaður í köfun, og þar er
undirbúningur ekki ósvipaður. Eiginlega er stóri munurinn, að þar
fer maður niður en ekki upp.
Og hvernig undirbjó ég mig svo fyrir göngu á Kirkjufellið?
• Allra fyrst athugaði ég veðurspá og þá ekki síst að athuga
með átt og styrk vinds. Ég hafði engan áhuga á að standa þarna í
klettunum ein í hífandi roki.
• Hvernig skóbúnaður hentar mér best í svona klettapríli.
Gott grip og liprir skór henta best.
• Ég skoðaði trökk og hlóð niður slóðanum á Wikiloc.
• Ekki síst þá talaði ég við Óla bónda á Mýrum þar sem hann
er þaulreyndur í göngu á fjallið.
• Skoðaði tímalengdir til að meta hvort ég þyrfti nesti og
hve mikið vatn.
• Sjúkrataska er nauðsynlegur búnaður í öllum göngum þegar ég
er ein, svo ég fór enn og aftur yfir innihaldið
• Hleðslubanki fyrir símann
Einhverjum gæti þótt þetta heldur smámunasamt, en ég vil geta
brugðist við hverju sem gæti mögulega komið upp á, því hvern annan á
ég að treysta á? Mér fannst gagnlegast að tala við Óla á Mýrum.
Hann tók úr mér allan hroll og efa um að fara þetta ein, eða eins og
hann sagði: „ég fór þetta fyrst 10 ára á gúmmítúttum“. Ég tók mér
bíltúr kvöldið fyrir og rölti upp á Brimlárhöfða til að sjá
Kirkjufellið frá öðru sjónarhorni. Já, ég vil hafa allt á tæru.
Dagurinn 9. júní rann upp eins fullkominn og hugsast getur;
heiðskyrt og logn. Ég var svakalega spennt og eiginlega þurfti að
róa mig niður og minna mig á áð það lægi ekkert á, enda ekki
tímalega séð löng ganga. Spáin átti að haldast eins allan daginn og
ég hugsaði með mér að ég ætti nú að hinkra eftir að hitastigið
hækkaði aðeins. Það var ekki miklu að pakka í pokann; vatn, sími,
nasl, hleðslutækið og sjúkrataskan. Og af stað.
Mér leið ótrúlega vel í kyrrðinni og fegurðinni í upphafi;
varla bíll á ferð, grösugar hlíðar og gangan hafin. Strax varð mér
svo heitt og var komin á hlírabolinn. Þetta eru nokkuð brattar
hlíðar og það var farið að rjúka úr mér af hita og eitt hafði ekki
ratað í bakpokann: Stuttbuxur! En ég var alveg ein í heiminum svo
það var ekkert annað í stöðunni en að draga af sér göngubuxurnar.
Þannig gekk ég síðan allan tímann, á nærbuxum og hlírabol.
Ég skal fúslega viðurkenna að það voru einhver fiðrildi í
mallanum á mér, en hvort þau voru af tilhlökkun eða kvíða....eða
hvoru tveggja. Þá var bara gott að nota þessa orku og beina henni í
að einbeita sér að verkefninu því ég var að koma að klettunum. Af
því þetta var svo snemma sumars þá var líklega lítið um að fjallið
hafi verið gengið, alla vega sá ég ekki hvar átti að fara nema af
því ég var að fylgja trakkinu sem ég náði í á Wikiloc.
Klettabeltinu má kannski helst lýsa sem mörgum stuttum klettasyllum
sem eru rofanar af grashillum á milli. Þannig klifrar maður aðeins
upp og gengur á grasi að næsta klifri. Ég var aldrei smeyk og þar
kemur til að ég þekki ekki og hef aldrei þekkt lofthræðslu. Er
frekar óttalaus í flestum aðstæðum. Reglulega þuldi ég með sjálfri
mér reglu númer eitt: Aldrei sleppa fæti fyrr en hinn hefur
fótfestu. Þannig passaði ég upp á að vera með annan fótinn og aðra
hendina alltaf á öruggum stað. Reyndar fannst mér gott að vera ein
og án alls áreytis. Naut hvers einasta skrefs á mínum hraða og gat
reglulega gefið mér tíma til að horfa á geggjað útsýnið sem er af
þessum merkilega staðsetta fjalli.
Þegar nær toppi kemur, þá þarf að styðjast við kaðla til að komast
upp klettabeltin. Ekkert erfitt samt. Þó er allra seinasta klifrið
upp á sjálfan toppinn bratt og í raun fannst mér ég þurfa meira að
hífa mig upp en að klifra. En þarna var ég orðin svo spennt og
gráðug í toppinn að orkan var endalaus og gleðin flæddi um mig.
Toppurinn:
Grösugur og merkilega sléttur fram eftir öllu fjallinu. Það er
djúgur spölur að ganga út fjallið. En tilfinningin að standa þarna
uppi á naríunum í svo hlýju og heiðskýru veðri er ólýsanalegt. Það
flæddi um mig kokteill tilfinninga; gleði, sigur, sjálftraust,
auðmýkt. Ég stóð þarna agndofa yfir fegurðinni í þessu öllu saman
og stóð mig að því að þakka fyrir upphátt, skælbrosandi. Það er
þessi tilfinning sem ég er svo háð eins og það sé fíkn; endorfinin
og dópamínið sem við þekkjum þegar við stöndum á toppi fjalls og
allur undirbúningurinn kemur saman í þessu augnabliki. Ég gekk um
og tók myndir, en lagðist svo niður í grasið og hallaði aftur
augunum; leyfði sólinni að skína á mig og tæmdi hugann. Þarna voru
engar áhyggjur, engin sorg, engin vandamál.
Ég segi
fyrir mig, að það eru svona augnablik sem ég þarf til að vega upp á
móti annasömu og flóknu hversdagslífi. Þess vegna nota ég hverja
stund til að ganga úti eða kafa í djúpin og ætla að gera allt sem í
mínu valdi er til að halda þessu áfram um ókomna tíð.
PS. Horfði yfir á Helgrindurnar: þangað þarf ég að fara
líka..........
|