Hrútsfjallstindar
maí 2010
Björgvin Jónsson
Ferðasagan á Hrútfjallstinda Landslagið þarna er hrikalegt, Skaftafellsjökull vestan megin og Svínafellsjökull að austanverðu. Í um 600 m hæð er gengið eftir hryggnum og þar eru snarbrattar hlíðar niður að Svínafellsjökli. Þegar við komumst í ca. 1000m komum við að vestari hlíðum fjallsins en þær eru mjög brattar. Þaðan er gengið áfram í áttina niður að Sveltisskarði en þar þarf að lækka sig um ca 100 – 200m eftir því hvað maður sneiðir brekkurnar mikið. Þarna er gengið í snjó og sumir settu upp því snjóþrúgur sem var reyndar ekki nauðsynlegt þarna en þeir okkar sem fóru þessa leið í fyrra sukku þá í snjó, alveg upp að hnjám og þá var þetta erfiðasti hluti leiðarinnar. Þegar komið var að því að hækka sig aftur tók við brött brekka upp úr Sveltisskarðinu með ca. 10 cm snjólagi ofan á ís. Þarna veltum við fyrir okkur hvort rétt væri að nota brodda en töldum ekki ástæðu til. Við gengum áfram upp úr þessu skarði og þegar á jökulinn varð komið eða í ca. 1350m fórum við í línu og tókum upp ísaxir. Þar kom í ljós að einn okkar var ekki með ísexi. Útsýnið hafði verið frábært alla leiðina og Hrútfjallstindar baðaðir í sól, þó Hnjúkurinn hafði verið hulin skýjum af og til. Við sáum þó að það var að þykkna upp norðan og austan megin við okkur. Þar sem við gengum eftir jöklinum sáum við Vesturtindinn en Norðurtindurinn sem við ætluðum að ganga á var komin í hvarf. Ætlunin var að ganga framhjá Vesturtindi uppá Norðurtind og taka síðan Vesturtindinn á leiðinni til baka. Þegar við gengum norðan við Vesturtind í hliðarhalla komum við að mjög brattri brekku og þar settum við á okkur broddana. Þarna kom í ljós að broddarnir sem ég var með voru ekki að virka sem skyldi við þessar aðstæður. Þarna var ca. 7 til 10 cm snjólag ofan á ís og þar sem snjórinn var á milli þá náðu broddarnir mínir ekki í gegn og ég því eins og belja á svelli. Ég reyndi því að ganga á hlið eða vera útskeifur en þar sem engin hliðarstuðningur við skóinn var á broddunum og mikil átök í gangi þá rann ég tvívegis úr broddunum. Í þessum mikla bratta þar sem allir voru í línu og ekki hægt að leggja neitt frá sér án þess að það rynni af stað, hvað þá ég sjálfur, þá var ansi erfitt að athafna sig en það tókst með hjálp þess sem var fyrir aftan mig í línu að komast aftur í broddana. Þessi brekka reyndist okkur erfið og tók sannarlega sinn tíma að komast upp hana. Þegar upp brekkuna var komið sáum við loksins Norðurtindinn aftur en sólin var þá hætt að skína á hann. Áfram héldum við og klofa þurfti yfir nokkrar sprungur sem urðu á vegi okkar. Eftir því sem ofar dró minnkaði snjórinn og ísinn var auður. Þarna virkuðu broddarnir mínir vel en tindinum náðum við kl: 14:30 í þokkalegu skyggni. Hnjúkin sáum við ekki lengur en skyggnið var betra til annara átta. Þar sem veðrið hafði leikið við okkur alla leiðina þá bjuggumst við að geta tekið nesti á tindinum en aðstæður þar buðu ekki uppá það, bratti en auk þess ský á leiðinni úr norðri og drifum við okkur því niður að Vesturtind. Austurhlíðar Vesturtinds eru með hengjum og sprungum undir eftir endilangri austurhliðinni. Þó er hægt að fara upp svo til lóðrétta ræmu sem er syðst á þeirri hlið, alveg við klettavegg ca 10-15 metra hátt en við ákváðum að geyma það þar sem við töldum okkur ekki hafa næglega reynslu í þess háttar klifri auk þess vantaði einn okkar ísexi og veðrið var að versna. Svo var einnig mikið um sprungur á vesturhliðinni á Vesturtindi þar sem við myndum fara niður. Það var því ákveðið að fara aftur í bröttu brekkuna þar sem ég myndi sýna hæfni mína á broddaskautum. Ég herti því vel upp á broddunum áður en lagt var af stað. Mjög rólega var farið í brekkuna en sama sagan endurtók sig og skautaði ég því niður hana og var fegin að vera í línu. Ég reyndi þó að forðast að nota hliðarátak í þetta skipti og héldust broddarnir því á mér. Þegar við komum vestur undir Vesturtind fórum við úr broddunum og héldum áfram niður að jökulröndinni þar sem við fórum úr línunni en þá byrjaði að snjóa og fór ég því í úlpu í fyrsta skipti í ferðinni annars hafði ég bara verið á ullarbolnum og/eða peysu alla ferðina. Þegar komið var í Sveltisskarðið hafði sólbráðin náð að mýkja snjóinn í skarðinu þannig að færið var orðið verra en þegar við fórum upp og í brekkunni á leið niður fór ég að renna, enda ís undir snjólaginu og nokkur fallþungi sem fylgir mér, ég reyndi að halda jafnvæginu en þreyta og einbeitingarleysi varð til þess að ég rann hraðar og hraðar og að lokum datt ég og rúllaði nokkra metra. Við fallið rifnaði bakpokinn, mittisólin rifnaði frá og fleira. Ég tíndi saman dótið mitt í brekkunni , fórnaði einhverjum vatnsflöskum sem rúlluðu áfram því ekki vildi ég rúlla meira á eftir þeim og læddist út í klettabelti sem var þarna til hliðar. Þar sem ég var með strappa-band með mér gat ég komið bakpokanum aftur á bakið og haldið áfram. Við reyndum að lækka okkur eins lítið og hægt var því við þurftum að fara aftur upp úr skarðinu. Því var ákveðið að skáa skarðið og taka mikinn hliðarhalla á okkur. Þar sem snjórinn var blautur eftir sólbráðina rann hann auðveldlega af stað og því reyndi ég að vera eins léttstígur og ég gat því ekki vildi ég rúlla meira í þessum bröttu brekkum, lítil hætta var þó á ferðum. Ég læddist semsagt í gegnum þessar brekkur og ávinningurinn varð að við töpuðum lítilli hæð. Þegar við komum svo úr skarðinu var sólin farin að skína aftur og þá tók ullarbolurinn við af úlpunni, það snjóaði á okkur í ca klukkutíma. Útsýnið var mjög gott til vesturs en þokan var austan meginn við okkur og sáum við því hvorki Hrútfjallstinda né Hvannadalshnjúkinn lengur. Við gengum í frábæru veðri niður en þar sem brekkurnar þarna eru langar, mikið gengið í hliðarhalla og undirlendið ójafnt þá jók það á álagið og þreytuna í fótunum. Við komum í bílana kl 20:20. Við höfðum splittað hópnum eftir að við komum úr Skarðinu og helmingurinn var komin niður kl: 19:20 sem var fínt þar sem þeir höfðu lofað að byrja að elda lambalærin sem biðu okkar. Þessi ferð var frábær í alla staði og ef ég ber hana saman við Hnjúkinn sem ég fór í fyrra, þá er auðveldara að ganga á Hnjúkinn. Leiðirnar eru þó mjög ólíkar og ef ég nefni nokkur dæmi: · Þegar gengið er upp Sandfellið þá er yfirleitt gönguslóði með sléttu undirlagi en þannig er það ekki á Hafrafellli, þar er undirlagið ójafnt og mikið gengið í hliðarhalla. · Á Hnjúknum er lengi gengið í svipuðu umhverfi, löng snjóbrekka (helvítisbrekkan) og sléttan en umhverfið á Hrútfjallstindum er mjög fjölbreytt og kannski er það útsýnið sem blekkir mann þar og maður tekur því ekki eins mikið eftir löngu brekkunum. · Á Hrútfjallstindum er meira um hliðarhalla, brattar brekkur og mun lengri tími sem gengið er á broddum heldur en á Hnjúknum. Báðar leiðirnar eru þó frábærar en hver á sinn máta. Vissulega var ég þreyttur eftir þessa göngu en þó ekki eins þreyttur og eftir Hnjúkinn í fyrra og því þakka ég fjallgöngunum í vetur og löngum ferðum í Blikadalnum, Fimmvörðuháls-göngunni, ofl. Á öðrum degi eftir gönguna fann ég lítið fyrir þreytu og engin eymsl voru að hrjá mig eftir þessa ferð. Við fórum mjög rólega yfir á þessari göngu og hef ég oft svitnað meira í ferðum hjá Toppförum. Í þessari ferð var sex manna hópur og þar af einn sem ólst upp á Svínafelli og var hann vanur að smala þetta svæði og þekkti það því vel. Hann upplýsti okkur reglulega um örnöfnin á þessi svæði t.d. var smalasvæðið sem við gengum um í Hafrafelli kallað „Sigurðarsafn“. Varðandi broddana sem ég leigði hjá Fjallakofanum að þá eru þetta algengustu göngubroddarnir sem þeir eru með en ég hefði kannski þurft klifurbrodda í þessa göngu og þá með hliðarstuðningi. Broddarnir sem ég var með höfðu gula membru undir sem losaði alltaf snjóinn undan þannig að það var ekki vandamálið. Ég hefði þurft brodda með lengri göddum og með hliðarstuðningi í þessu færi. Ég var sá eini í þessum hóp sem lenti í þessum vandræðum en broddar hinna höfðu lengri gadda. Björgvin Jónsson 15. maí 2010
|
Við erum á toppnum... hvar ert
þú?
|