Grímmannsfell í stjörnuljósum...
64. æfing var þriðjudaginn 21. október 2008 og mættu 23 manns á sérstaka rötunaræfingu í kjölfar námskeiðs sem haldið var kvöldið áður. Tvö ný andlit voru á æfingunni; Gnýr og Hólmgeir og svo Anton Örn, 5 ára með Grétari pabba sínum og loks voru hundarnir Dimma og Nemó með í för. Stefán frá Björgunarsveitinni Ársæli mætti góðfúslega til að láta okkur æfa verklega rötun sem hann kenndi hópnum deginum áður og var sú kennsla vel þegin. Veðrið skartaði sínu fegursta; logn, kalt, kvöldsól og snjóföl yfir öllu eða hálfskýjað, A2 og 0°C skv. Veðurstofu. Lagt var af stað kl. 17:43 þar sem tafir urðu á umferð á leiðinni á æfingu en samt þurftu Helga og Margrét að elta okkur uppi. |
|
Kvöldsólarbjarminn fram eftir kveldi... Þó nokkur tími fór í að æfa áttavitana og sóttist gangan seint svo úr varð þegar 1,5 klst. var liðin og toppurinn ekki enn undir fótum í um 400 m fjarlægð að láta þar við sitja og nota tímann í áttavitaæfingu. Hópnum var skipt upp í fjóra hópa og mönnum sagt að taka stefnuna að bílunum og nota fremsta mann sem viðmiðun á stefnu... Flestir náðu að æfa sig en við munum halda þessu áfram næstu æfingar og hvetjum alla til að fá sér áttavita og átta sig á þessu :) |
|
Bakaleiðin fór aðeins úr leið og endaði niður með hlíðum nyrðri bungu fellsins en kvöldið var svo fallegt og kyrrsælt að enginn var að flýta sér... Kvöldævintýrið endaði í 3:27 klst. æfingu, 8,9 km göngu, með hæsta punkt í 489 m hæð og hækkunin 411 m. Frábær æfing í fallegu umhverfi, töfrandi útsýni, vetrarlegu færi, með góðu fólki og... ... mögnuðum stjörnum þegar við mundum eftir því að líta af áttavitanum og upp í himininn... Hreinir töfrar á vetrarkvöldi... |
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|