-
Hlý
nærföt
sem ekki eru rakadræg; dry-fit eða ull sem er
langbest.
- Ekki klæðast bómull og á
það við um öll föt á göngu, þar sem þau rennblotna í sveittri
áreynslu og setja strax að manni kuldahroll í pásum.
- Ullarfatnaður bregst
aldrei. Hefur þann ókost að þorna seint en á þetta reynir
eingöngu í margra daga göngum á meðan það skiptir ekki máli í
dagsgöngum þar sem ullin er áfram hlý þó hún sé orðin rök. Þrátt
fyrir að þorna seint er ullin best í eins dags sem og margar
daga göngum að okkar mati.
- Göngubuxur eða dry-fit
hlaupabuxur eða álíka léttar, þægilegar útivistarbuxur. Passa að
sé ekki bómull eða nælon.
- Stuttbuxur innan undir
eða áfast göngubuxum henta vel að sumri til ef vill.
- Stuttermabolur innst á
eftir nærfötum ef vill, ekki bómull eða nælon, enn og aftur er
ullin best.
- Síðermabolur/peysa; ekki
úr bómull eða næloni. T. d. ull eða flís, 1 - 2 stk, ullin best.
- Vind- og vatnsheld hlífðarföt;
bæði buxur og jakki/stakkur; hafa
undantekningarlaust með sér í bakpokanum til öryggis óháð því
hvernig veðurútlit er eða veðurspá! Velja litaðan fatnað
frekar en dökkan, getur skipt sköpum ef verið er að leita að
mönnum í blindbyl eða svartamyrkri (og ef illa fer úr þyrlu eða
snjósleðum).
- Vettlingar og
Belgvettlingar - nauðsynlegt - ALLTAF óháð veðri
og veðurútliti/spá. Belgvettlingar eru lífsnauðsynlegir
að vetri til, til viðbótar öðrum vettlingum svo hægt sé að vera
í báðum þegar komið er frost eða vindur blæs. Eingöngu
fingravettlingar, sama hvað þeir eru hlýir eða góðir, þó þeir
séu úr leðri eða skíðahanskar eru alls ekki nóg að vetri til
og geta fljótt valdið meiri kulda á fingrum ef blautir en
nokkuð annað. Ullarvettlingar
eru langtum betri en aðrir vettlingar sama hvað þeir heita eða
kosta (heimaprjónaðir tilvaldir!), því þeir eru það eina sem
halda á manni hita þó þeir blotni. Ullarvettlingar + vindheldir
belgvettlingar yfir eru skotheld blanda og bregst ekki sama
hvernig veðrið er. Ef ull er undir virka allir vindheldir
belgvettlingar, sama hvað þeir heita eða kosta svo lengi sem
þeir hlífa vindi. NB passa að hafa
lykkju á belgvettlingunum sem er nælt utan um
úlnliðinn þannig að þegar farið er úr belgvettlingnum til að
athafna sig, þá fjúki hann ekki fram af fjallstindinum heldur
hangi fastur á úlnliðnum... því miður mörg dæmi um vettlinga sem
fokið hafa fram af fjallstindum í okkar göngum.
- Höfuðfat:
Húfa eða gott ennisband úr ull, flís eða hlýju efni. Mjög
mikilvægt! Alltaf taka með óháð veðri allt árið. Vanda meira
til höfuðfats að vetri til, það sé hlýtt og stöðugt og hafa
helst 2 - 3 stk; ennisband/buff og svo húfu,
helzt lambúshettu og passa
að hafa góða hettu á
stakknum sem skiptir sköpum í hvassri og kaldri úrkomu,
sérstaklega að vetri til eða uppi á hálendi á löngum göngum að
sumri. Ullarhúfur eru
langbestar að vetri til og þeir sem hafa prófað ýmis efni ættu
allir að geta tekið undir að ullarhúfa tekur öllu öðru fram því
hér gildir það sama og með vettlingana, hún heldur áfram á manni
góðum hita þó hún blotni á meðan flís-húfa þyngist og kólnar í
bleytu og vermir manni lítið þegar líður á í erfiðu veðri.
-
Hlýja
sokka (1 - 2 stk). Munar miklu að vera í ullarsokkum að vetri
til. Menn þurfa að velja eftir skóstærð og vana; eitt par af
þykkum göngusokkum eða tvö
pör af þunnum göngusokkum eða eitt par þunnt og annað þykkt;
þynnri sokkar innst. Þeir sem ganga í ullarsokkum er sjaldan ef
nokkurn tíma kalt en þetta er alltaf persónubundið. Síðustu ár
hafa sumir prófað ullarinnlegg sem gæti gefið yl og einangrun í
botni skónna.
- Gönguskór uppháir/með
ökklastuðningi (mikilvægt!) með mynstursóla eða grófum sóla
sem þola grjót, bleytu, snjó og brodda á jökli. Athugið að
slitnir skór geta verið mjög sleipir, sérstaklega að vetri til.
Nauðsynlegt að ganga skóna til áður en farið er í mjög langa
göngu að ekki sé talað um margra daga göngu. Vinsælt hefur verið
síðustu ár að fara í utanvegahlaupa/gönguskóm í léttari
sumargöngur, en þeir hafa þann ókost að styðja ekki við ökklann
og dæmi eru um að við misstig getur þetta skipt sköpum upp á að
beinbrotna, svo við mælumst eindregið til þess að fara alltaf
í uppháum skóm með ökklastuðningi sama hversu "létt" gangan
er. Gönguskór eru misstífir og skilgreindir sem slíkir nú
orðið. Millistífir og alstífir skór eru nauðsynlegir
þegar farið er í brodda að vetri til því mjúkir skór beyglast og
gefa undan broddunum svo þeir losna af skónum sem getur verið
hættulegt þegar gengið er í ísuðum bratta. EF gengið er mikið á
broddum í miklum bratta og klettaklöngri getur þurft að vera
eingöngu í alstífum gönguskóm en almennt erum við ekki að fara í
slíkar göngur og því nægja millistífir gönguskór okkar ferðum
vel en mjúkir gönguskór mun síður.
- Tveir göngustafir ef
menn eru vanir þeim en þeir koma sér vel í bratta, hálku, vaði
og klöngri til stuðnings og veita ákveðna hvíld í mjög löngum
göngum. Að sama skapi er mikilvægt að sleppa stöfum reglulega
til að þjálfa jafnvægisskynið á göngu og sumir halda því jafnvel
fram að hollast sé að vera ekki með stafi vegna þessa og hafa
vanið sig á það. Þeir koma sér hins vegar oft vel, svo best er
að hvíla þá ef hægt er, en vera með þá þegar þeirra er nauðsyn.
- Legghlífar til að
verjast möl, steinum, snjó og bleytu (og vatni við vað) ofan í skó fyrir utan að
halda hlýju að fótum á löngum göngum og í pásum. Nauðsynlegt að
vetri til. Ókostur að þær geta haldið hita of mikið inni svo
menn svitna.
-
Hálkubroddar/keðjubroddar
(microspikes) - Skyldubúnaður án undantekningar á
öllum þriðjudagsæfinum að vetri til óháð veðurútliti eða
færi nær byggð, sem og gott að hafa þá alltaf með í
vetrardagsferðum þar sem jöklabroddar verða einnig notaðir.
Keðjubroddarnir hafa reynst mjög vel í fjallgönguklúbbnum að
vetri þar sem farið er um svell og hálar, einfaldar brekkur og
leiðarval miðast við að þurfa aldrei að ganga á jöklabroddum eða
"alvöru broddum". "Sjá næsta lið Jöklabroddar".
-
Jöklabroddar
og Ísexi - alltaf saman - valkvætt: Mikilvægt er að
allir geri sér grein fyrir því að notagildi keðjubroddana er
takmarkað og þegar komið er í langar, brattar og hálar
snjóbrekkur - og NB alltaf þegar gengið er á jökul eða á há
fjöll - er nauðsynlegt að vera í jöklabroddum/ísbroddum sem ná
mun dýpra taki ofan í hjarnið en keðjubroddarnir og gefa
möguleika á að fóta sig öruggur í miklum bratta.
Þriðjudagsæfingar okkar eru aldrei á leiðum þar sem notast þarf
við jöklabrodda heldur duga keðjubroddar ávalt í þeim göngum, en
þeir sem vilja koma með í tindferðir að vetri til og í okkar
árlegu vorferðir á jökul þurfa að leigja jöklabrodda í hvert sinn (sem margir gera
árum saman) eða eignast þá ef þeir vilja sína eigin, (sem margir
gera á endanum). Án undantekningar skal vera með ísexi þegar
gengið er á jöklabroddum og kunna bæði broddatækni og
ísaxarbremsu, en farið er árlega í þá tækni á
námskeiðum eða
göngunum klúbbsins. Sjá neðst smá umfjöllun um keðjubrodda vs
jöflabrodda.
- Nauðsynlegt er að hafa aukapeysu
eða úlpu í farangri fyrir pásur þar sem það er kalt á
toppnum en heitt þegar maður er á hreyfingu. Gera
þarf alltaf ráð fyrir að eitthvað geti komið fyrir og halda
þurfi kyrru fyrir í langan tíma en þá sækir kuldinn fljótt að,
og gott að geta sótt sér aukapeysuna/úlpuna í bakpokann.
- Hafa alltaf með sér secondskin
eða plástur til vara í farangri. Ef fundið er
fyrir núningssærindum á fótum á göngu skal stoppa strax og
plástra, þó stoppa þurfi allan hópinn. Mikilvægt er að bíða ekki
of lengi með að plástra sig, sérstaklega ef gengið er dögum
saman í sömu ferð. Öruggara er að
fyrirbyggja hælsæri ef menn
eru gjarnir að fá slíkt, með því að bera vaselín um allt
á fætur/ og/eða setja plástra á viðkvæma staði til öryggis
(plástra sig fyrst á þurra, fitulausa húð og bera svo vaselín á
restina af fætinum, milli allra táa og upp á ökklann, þessi
smurning getur einfaldlega skipt sköpum.
-
Bakpoki
+/-10 - 35L með góðum festingum. Gott að venja sig frá upphafi
við að ganga með bakpoka og þekkja alla vasa, stillingar,
festingar og möguleika. Kemur sér vel þegar farið er í erfiðari
göngur að kunna að umgangast bakpokann sinn við allar aðstæður
þegar skyndilega er komið í erfitt veður og aðstæður krefjandi.
Best að vera með einn bakpoka í gangi almennt og hafa alltaf
allt í honum óháð því hvort farið er í létta eða krefjandi
göngu, því þannig gleymist aldrei nokkuð (höfuðljós,
keðjubroddar, varaúlpa...) og líkaminn er vanur pokanum við
allar aðstæður. Léttari göngur gefa þannig góða æfingu fyrir þær
erfiðari þó ekki sé alltaf nauðsynlegt að vera með myndarlegan
bakpoka. Mörg dæmi eru um það í okkar klúbbi að menn taka
léttari bakpokann með sér í léttari dagsferðir og grípa í tómt
þegar sækja á keðjubroddana, skíðagleraugun eða álíka af því það
var geymt í þyngri pokanum... og því gildir "einn bakpoki með
öllu klikkar aldrei".
- Vatn eða sætan drykk og
heitt á brúsa að vetri til. Pakka drykkjum við stofuhita ofan í
bakpokann að vetri til en ekki köldum úr ísskápnum þar sem verið
er að fara út í kulda og drykkir eru fljótir að frjósa.
- Takið með
nægan vökva
að drekka, ca +/- 2-3 L á mann. Þetta er
einstaklingsbundið, en miða við að þetta eru nokkrar
klukkustundir við áreynslu/hreyfingu. Lágmark 0,5 - 1 L á
þriðjudagsgöngu og lágmark 2 L í tindferð. Ef hægt er að fylla á
vatnsflöskur á göngunni þá taka minna vatn með, en annars vera
viðbúinn því að vetri til að það sé allt frosið og ekki hægt að
fylla á. Passa að spara ekki við sig vökva því vökvaskortur
veldur leyndu orkuleysi sem oft er skilgreint sem sykurskortur
að óþörfu NB. Orkuleysi skal fyrst leysa með vatni eða orkuríkum
vökva og ef það dugar ekki þá leita í mat, nasl eða aðra
orkugjafa (orkubita, súkkulaði), en ekki öfugt ! Mörg dæmi eru
um þetta í okkar göngum í gegnum tíðina.
- Kjarngott nesti: T.d.
smurbrauð, flatkökur, gott álegg, egg, harðfisk, kjötbita,
pastasalat, ávexti, grænmeti. Hafa nasl
í vasanum á lengri göngum þar sem gott getur verið að þurfa ekki
að taka af sér bakpokann til að nærast (kex, hnetur,
rúsínur,súkkulaðistykki, grænmeti, ávextir). Þó maður hafi oft
ekki mikla lyst á göngunni sjálfri er mikilvægt að nærast
reglulega allan tímann og halda blóðsykrinum eðlilegum við
langvarandi áreynslu. Góð regla að fá sér alltaf að borða í
pásum óháð svengd því hún kemur fyrr en varir þegar lagt er af
stað aftur og þá er hópurinn ekki endilega tilbúinn fyrir
nestisstopp strax aftur... og því er mikilvægt að vera
alltaf í takt við hópinn sama hvað svengdin segir.
- Mælum með að taka með banana
(orku- og næringarríkur) og borða hann við fjallsrætur í upphafi
tindferðar (eftir t. d. 1 - 2 klst. akstur frá Rvík) og jafnvel
meira að borða.
-
Salernispappír
- þurrkur (geyma í plastpoka fyrir og eftir). Gangið
alltaf mjög snyrtilega um á gönguleið hvar sem farið er og
skilja aldrei nokkuð eftir sig.
- Sólgleraugu að sumri og
allt árið á jökli og í snjó að vetri til. Snjóblinda er
raunveruleg hætta ef gengið er klukkustundum saman í snjó og
nauðsynlegt að verja augun (langvarandi brunasviðatilfinning og
roði í augun).
- Skíðagleraugu að vetri
til og á jökli gegn hvössum vindi eða skafrenningi í andlit.
Getur verið lífsnauðsynlegur búnaður að vetri til og
skyldubúnaður í vetrargöngunum, líka á þriðjudögum þar sem oft
hefur reynt á þetta í erfiðum veðrum. Í myrkri á þriðjudögum er
glært gler best til að sjá sem mest en á jökli í sól er litað
gler betra til að hlífa augum fyrir sólinni.
- Sólarvörn að sumri og á
jökli allt árið.
- Derhúfu - valkvætt til
að hlífa andliti fyrir sól eða buff til að hlífa höfði að sumri
til - ef vill. Ókostur að fýkur í vindi sem er ansi algengur í
göngum á Íslandi.
- GSM síma og
vararafhlöður í hann.
- Plastað kort af svæðinu,
áttaviti,
GPS og
vararafhlöður í það x2 umferðir til öryggis.
Reynir oft á að vera með vararafhlöður, sérstaklega ef eitthvað
kemur fyrir og gangan lengist umfram áætlun. Rafhlöður eiga til
að tæmast í kulda/frosti, bæði í tækjunum og í
vasanum/bakpokanum ef ekki varið gegn kuldanum.
- Lágmarkssjúkrabúnað með
t. d. plástrum, hælsærisplástrum, sárabindi, verkjalyfjum,
teygjubindi, neyðarskýli, þrúgusykri, varareimum á skó,
hitaplástrum o. fl. Ofantalin atriði hvert og eitt einasta
þeirra vilja allir hafa sem fara í
krefjandi ferðir allt árið og hafa lent í erfiðum aðstæðum.
- Hvað annað persónulegt
hverjum og einum...t. d. lyf nauðsynleg ef svo ber undir.
-
Hafa alltaf allan farangur í
þykkum svörtum plastpoka
ofan í bakpokanum svo ekkert blotni í honum þó bleyta sé á
göngu. Skipta þessum poka reglulega út eftir þörfum. Kostur
einnig að auðveldara er að leita í bakpokanum.
- Gott getur verið að hafa föt til
skiptanna í bílnum til að fara úr blautu yfir í
þurrt, þar sem slegið getur að manni á leið í bæinn sé maður
blautur og lúinn og langur akstur framundan.
- Heimleiðin getur verið
löng: Þá er gott að hafa drykk í bílnum þar sem þorstinn sækir
oft á og auðveldara um vik að komast á salerni í kjölfarið (þó
menn eigi ekki að halda í við sig með vökva á göngu!). Einnig er
gott að hafa viðbótarnasl sem er t. d. ekki það sama og borðað
var á göngunni, því oft sækir hungrið líka á eftir átökin.
- Nauðsynlegt er að nærast vel
fyrir og
eftir langa göngu og eðlilegt að vera svangur sólarhringinn
eftir krefjandi tindferðirnar.
-
Farið samviskusamlega eftir listanum og
metið hvern lið fyrir sig út frá ykkur persónulega. Þetta er
langur og tæmandi listi en ekki leyfa honum að vera yfirþyrmandi
þó hann virðist vera það !
-
Varðandi ráð gegn bómull eða nælon skal
tekið fram að maður kemst strax að því að slíkar flíkur halda
hvorki vatni né vindi og geta skemmt ánægjuna af útiverunni að
óþörfu og geta í versta falli stefnt viðkomandi í voða ef
aðstæður verða slæmar í erfiðari göngum.
-
Það er einfaldlega svo einfalt að ull
innst sem yst er það besta í göngunum og fækkar verulega þörf á
að vera í marglaga fatnaði ef góður hlífðarfatnaður er utan um
ullina.
-
Algert skilyrði er að taka með sér í allar
göngur drykk og eitthvað sætt eða orkuríkt að narta í,
góða skó, höfuðfat, vettlinga og vatns- og vindheld hlífðarföt,
þar sem veður eru válynd á Íslandi, líka á sumrin og veður og
færð breytist ört við hvern metra ofar sjávarmáli.
-
Hafa
skal í huga að aðstæður geta breyst hratt í óbyggðum, þó
ekki sé langt farið frá byggð, ekki eingöngu vegna veðurs heldur
og vegna óhappa og þess vegna er einnig mikilvægt að vera vel
búinn ef slíkt gerist. Slagveður úti í Geldinganesi steinsnar
við Grafarvoginn var sem dæmi fljótt orðið varasamt í október
2018 fyrir þá sem ekki voru með hlífðarbuxur, höfuðfat eða
vettlinga... og mörg fleiri slík dæmi í Toppfarasögunni...
-
Góð regla er að pakka alltaf niður með þann
möguleika í huga að halda þurfi kyrru fyrir í einhverja
klukkutíma ef eitthvað kemur upp á.
Einn mikilvægasti útbúnaður í fjallgöngur
eru sjálfstraust, ábyrgð, áræðni, jákvæðni, forvitni, innsæi á
eigin getu, viljastyrkur, samkennd gagnvart ferðafélögum og góða
skapið...
-
Þjálfarar eru alltaf með lágmarks fyrstu
hjálpar búnað, GPS-tæki, GSM-síma o.fl... meðferðis í
hverri ferð.
-
Skorað er á alla að búa sig ávallt sjálfstætt
óháð því hverjir eru með í göngunni til þess að þjálfa með sér
sjálfsbjörg, ábyrgð og vald á eigin aðstæðum í óbyggðum óháð
öðrum. Ekki treysta á að geta fengið lánað eða að annar beri
fyrir mann búnaðinn að hluta ef mögulegt er. Bakpokar geta
nefnilega runnið niður brekkur eða ofan í ófær gil og menn geta
orðið óvænt viðskila. Þá mælum við almennt ekki með því að
skilja bakpokann sinn eftir niðri meðan skotist er upp á
fjallstind enda nokkur sláandi dæmi til á Íslandi um hættu sem
skapast hefur við bakpokaleysi þegar aðstæður breytast snögglega
uppi og enginn er með varaföt, nesti o.s.frv.
-
Munið að þó þriðjudagsæfingarnar séu stundum
létt ganga á ekki há fjöll, eru þær hugsaðar til þess að
þjálfa alla þætti, þ.m.t. búnað. Þess vegna er gott að búa
sig alltaf skynsamlega til þess að venjast eigin búnaði,
svo manni verði það tamt að umgangast sjálfan sig, búnaðinn,
bakpokann og umhverfið við allar aðstæður. Þegar skyndilega
skellur á hvassvirði í myrkri er mjög erfitt að athafna sig og
nauðsynlegt að vera með allt sitt á hreinu og öll handtök
ósjálfráð og tamin.
-
Ef
gengið er í nokkra daga og gist í tjaldi eða skála
- með allt á bakinu eða trússaðan farangur:
-
Gönguföt
eins og þarf skv. ofangreindu en spara sem mest fyrir burð og
spá í margra daga notkun.
-
Dry-fit hlaupabuxur eru t. d. mjög góðar
göngubuxur; hlýjar, vindheldar að hluta, léttar, þjálar, ekki
skítsælar, þorna fljótt, þola allt.
-
Göngutjald,
hlýr svefnpoki og góð
dýna.
-
Gott einangrunargildi skiptir máli en einnig
þyngd ef gengið er með allt á bakinu, sem og hentugleiki við að
festa þetta allt á bakpokann.
-
Gott að slá upp
tjaldinu fyrir ferð til að tryggja að allt sé í lagi,
ekkert vanti og maður sé búinn að rifja upp hvernig skal slá því
upp og festa það á bakpokann fyrir ferðina ef bera þarf tjaldið.
-
Góðan vatnsheldan
flutningspoka (duffelbag) utan um allt sem skal
trússa svo farangur þoli flutning/þvæling t. d. með bát.
-
Nægjusemi er
nauðsynleg og gott að temja sér hana sem mest því þannig er
einfaldara að þurfa að ganga með allt á bakinu ef þarf. Það er
vel hægt að vera í sömu fötunum í 2-3 daga, bæði á göngu og
jafnvel í náttstað, þó það sé gott að hafa ullina fyrir
kvöldin... og sérlega skemmtilegt að komast að því á eigin
skinni.
-
Koddaver og
setja úlpuna(peysuna sem notuð er í náttstað sem kodda.
-
Ullarnærföt,
ullarpeysu og ullarsokka í náttstað í tjaldinu.
-
Léttir sandalar
í náttstað - hægt að hafa þá sömu og notaðir til að vaða til að
spara burð ef blotna ekki og þola vað (croccoskór er léttir en
losna frekar af fótunum í krefjandi vaði, tevur eru fastar á
fótunum en þyngri og bleytan helst meira í þeim).
-
Hafa alltaf allan farangur í
þykkum svörtum plastpoka
ofan í bakpokanum sbr. ofangreindur búnaðarlistinn. Reynir meira
á þetta í margra daga göngum en dagsferðum NB.
-
Tannbursti,
litla tannkremstúpu eða smá tannkrem kreist í álpappír til að
lágmarka farangur algerlega.
-
Lítinn þvottapoka
til að þvo sér. Blautklútar eru einnota og óumhverfisvænir svo
ekki nota þá lengur né annan einnota búnað ef mögulegt er til að
hlífa umhverfinu, hafinu, jörðinni takk fyrir ! ... þvottapoki
og vatn dugar vel :-)
-
Hárgreiða ef
þarf og annað snyrtidót en sleppa/lágmarka ef gengið með allt á
bakinu (t.d. flétta hárið og greiða það ekki).
-
Höfuðljós í
náttstað.
-
Eyrnatappar
ef þarf.
-
Verkjalyf og
plástrar.
-
Nærbuxur til
skiptanna ef vill (snúa þeim við milli daga, eða nota lítil
innlegg milli daga en það er óumhverfisvænt!).
-
Sokkar og
bolur til skiptanna ef þarf
en spara annan fatnað til skipta, ganga í sömu fötunum ef með
allt á bakinu til að spara burð.
-
WC-pappír og plastpoka
til að geyma pappírinn í fyrir og eftir notkun (ekki skilja
eftir í náttúrunni, vegur lítið og dýrmætt fyrir umhverfið).
-
Prímus,
rauðspritt, eldspýtur - ef vill elda á primus.
-
Eldhúsáhöld (disk, bolla,
hnífapör) eins og þarf miðað við mat í ferðinni, helst sem
minnst.
-
Pakka öllu í nokkra
litla plastpoka með
rennilásum, svo allt haldist sér ef eitthvað blotnar
og auðveldara er að finna allt í bakpokanum.
-
Vaðskór.
Spurning að sleppa þurrkklút ef gengið með allt á bakinu, en ef
mikil vöð, þá nauðsynlegt að hafa eitthvað til að þurrka sér.
-
Matur/nesti í 2-3 daga;
kaupa eldaðan mat í léttum umbúðum eða þurrkaðan mat sem skal
elda á primus með vatni á staðnum (sparar burð). Þjálfarar velja
oft grillaðan kjúkling fyrra kvöldið og soðið hangikjöt seinna
kvöldið í stað þess að elda á primus. Kartöflustrá í meðlæti
(mjög létt, söltuð og bragðgóð) tómata og gúrkubita ósneitt því
það helst heilt í nokkra daga í bakpokanum. Flatkökur, smjör og
ostur þolir nokkra daga veltu í bakpokanum sem og hnetur og
súkkulaði. Harðfiskur er tær snilld með smjöri, léttur, saðsamur
og próteinrík fæða. Vatn að drekka úr lækjum ef eru til staðar,
en gott að leyfa sér einn svaladrykk að kveldi til
tilbreytingar... eða bara vatnið í nokkra daga því þá er
þakklætið yfir kaldri kók eða álíka kærkomið eftir 3ja daga
göngu :-)
-
... o.fl. sem má bæta við eftir smekk og þörfum :-)
Hálkubroddar eða jöklabroddar:
Heitar umræður sköpuðumst veturinn 2011 - 2012 á
fésbókinni eftir andlát ferðamanns á Sólheimajökli í nóvember 2011
þar sem hann lést vegna ofkælingar eftir fall ofan í dæld á
hálkugormum einum saman (málmgormar á gúmmíteygju eins og hlauparar
nota og við prófuðu að nota fyrst áður en hálku(keðju)broddarnir
komu) - en hann gat ekki komið sér upp úr dældinni aftur svona
vanbúinn á jökli auk þess sem leitað var á röngu svæði.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/11/14/lest_af_voldum_ofkaelingar/
Margir þaulvanir fjallamenn deildu þá um sívaxandi
vinsældir hálkugorma og síðar hálkubrodda eða keðjubrodda
(microspikes) sem náð hafa vaxandi vinsældum samfara mikilli
aukningu fjallgöngufólks og gönguhópa allt árið um kring og vildu
sumir meina að þeir ættu alfarið ekki að sjást á fjöllum á meðan
aðrir bentu á notagildi þeirra þó takmarkað væri og umræðan fór líka
inn á ísaxarnotkun o. fl. sem var sérlega gagnlegt :-)
Í
þessum umræðum bentu þeir sem á annað borð ganga mikið á fjöll allt
árið um kring og ekki síður að vetri en sumri, ákveðnir á að
keðjubroddarnir gagnast vel á léttari leiðum og þar sem hálka er á
leiðinni til að byrja með um léttari brekkur, kringum grjót, í
mjúkum snjó o. fl. en að jöklabroddar verða svo að vera komnir á
skóna þegar komið er í langar, brattar og hálar brekkur eða svipaða
varasama staði og reynslan ein kenndi mönnum þessa ákvörðun.
Fyrir
þá sem fara sjaldan á fjall að vetri til og hafa eingöngu vanist
jöklabroddum (keðjubroddarnir koma ekki fram fyrr en um 2009 - 2010
eða svo) er eðlilegt að vilja eingöngu notast við jöklabrodda eins
og þeir eru vanir, en mjög leitt að okkar mati ef menn snúast
alfarið gegn keðjubroddunum, því eins og nokkrir fjallamenn sögðu
sem raunverulega/virkilega eru að ganga á fjöll jafnvel vikulega eða
oftar allan veturinn eins og þessi fjallgönguklúbbur, þá hefðu
keðjubroddarnir fljótt sannað gildi sitt á léttari leiðum eða á
einfaldari hluta fjallsins þar sem hálka er til trafala jafnvel á
láglendi, en fara svo í jöklabroddana þegar brekkurnar eru orðnar
langar, hálar og brattar eða að öðru leyti varasamar.
Þarna reynir á að geyma ekki of lengi að fara í
jöklabroddana sem eru algengustu mistökin almennt varðandi
jöklabroddana, en NB þetta á við hvort sem keðjubroddar eru með í
för eða ekki, eins og margir þekkja af eigin reynslu, að vera að
renna til lengi vel á hálli leið og jafnvel verið að höggva spor
frekar en fara í jöklabrodda til að "spara broddatímann"... m. a. af
því að mönnum hefur fundist slysahættan aukast þegar menn sleppa
stöfunum og þurfa að nota ísexina. En einmitt af þeirri ástæðu... að
það getur verið orkufrekt að ganga á jöklabroddum klukkustundum
saman í halla og grjóti... þeir auka líkur á blöðrumyndun og reyna
verulega á ökkla... flækjast gjarnan í skálmum og jarðlendi... með
tilheyrandi aukinni slysahættu af öllu ofangreindu... já, einmitt af
þeirri ástæðu er
gott að hafa keðjubroddana meðferðis til að spara orku og ganga
öruggur um svellaða kafla sem eru minna brattir og ekki varasamir en
NB hafa svo vit á að fara í jöklabroddana þegar leiðin er orðin
brött eða varasöm.
Reynslan er mikilvægust í þessu að okkar mati, með
reynslunni þróa menn með sér skýrari mörk um hvenær sleppa skal
keðjubroddunum og fara í jöklabroddana - rétt eins og menn þurfa að
gæta þess að fara nógu snemma í jöklabroddana þegar þeir eru það
eina meðferðis... og sleppa þá stöfunum fyrir ísexina án
undantekningar. Við getum því miður ekki tekið undir það að
keðjubroddar eigi bókstaflega aldrei rétt á sér í fjalllendi, þar
reynir einfaldlega á reynslu og dómgreind viðkomandi í hvert sinn.
Málefnaleg og sanngjörn umræða um keðjubroddana er nauðsynleg og
alltaf hollt að velta öllum sjónarhornum fyrir sér. Því má velta
fyrir sér hvort fræðileg fjallamennska á Íslandi þurfi að skoða
raunverulega gagnsemi keðjubrodda af málefnalegri alvöru en hingað
til hefur verið og gefa frekar skýrari línur með notkun þeirra í
samhengi við jöklabrodda þar sem keðjubroddar eru án efa góðir til
síns brúks, svo langt sem þeir ná og ekki málefnalegt að okkar mati
að útiloka þá með öllu við allar göngur í fjalllendi að vetri til
:-)
Hér vantar fleiri punkta sem ekki verður farið í
hér eins og gagnsemi keðjubrodda til að þjálfa tilfinningu fyrir
jöklabroddatækni almennt á léttum leiðum sem er jákvætt að okkar
mati, spurningar um raunverulega hæfni í ísaxarbremsu þegar á reynir
og hvernig megi bæta okkur þar, hvort nota eigi ísexi alltaf með
keðjubroddum eða ekki, mögulega aukna slysahættu við að þurfa að
sleppa göngustöfum sem menn eru mjög vanir að hafa til að halda
jafnvægi (sem reynir verulega á í miklum halla) og vera kominn með
ísexi í hönd sem menn eru ekki eins vanir að hafa, en er nauðsynlegt
og á absolut að vera með jöklabroddunum og ætti þá kannski að æfa
betur með meiri notkun o. m. fl.
|