Æfingar alla þriðjudaga frá janúar út mars 2009
birt í öfugri tímaröð:

Esjan 31. mars
Kerhólakambur 24. mars
Lali, Hafrahlíð, Reykjaborg, Bæjarfell og Þverfell 17. mars
Valahnúkar og Húsfell 10. mars
Helgafell Hf 3. mars
Mosfell 24. febrúar
Búrfell og Búrfellsgjá 17. desember
Esjan 10. febrúar
Raufarhólshellir 7. febrúar  með Hjölla
Esjan 3. febrúar
Esjan 27. janúar
Esjan 20. janúar
Esjan 13. janúar
Esjan 7. janúar
 


Baráttukveðjur elsku Sigga !


Mættir: Alexander, Bára, Bjarni Viðar, Björn, Gnýr, Grétar Jón, Guðjón Pétur, Gylfi Þór, Halldóra Þ., Hildur Vals.,Hjölli, Ingi, Irma, Íris ósk, Kristín Gunda, Margrét Gróa, Helga Sig., Ragna, Roar, Sigga Rósa, Soffía Rósa, Þorbjörg, Þorleifur, Örn.
Samstöðugöngumenn til heiðurs Sigríði !

24 toppfarar hittust við Esjurætur í gær, þriðjudaginn 31. mars og gengu til heiðurs Sigríði fjallakonu
eftir erfiða lífsreynslu hópsins síðasta laugardag á Skessuhorni.

Tilgangur göngunnar var að hittast öll eftir átakanlega atburði laugardagsins, bæði þau sem voru í laugardagsgöngunni en ekki síst þau sem fylgdust með í huga og hjarta úr fjarlægð og tóku atburðinn nærri sér.

Það hefur verið ólýsanlegt að finna samstöðuna í hópnum sem ríkt hefur frá því á laugardaginn og ljóst að félagar fjallgönguklúbbsins sem augljóslega gátu betur sett sig í spor félaga sinna þennan laugardag en margur annar,
standa sem einn maður þegar á reynir.

Veðrið var heldur verra en á laugardaginn, hvassara og meiri úrkoma, svo við gengum eingöngu upp að áfanga fjögur við ánna og snerum þar við. Margt var á fjallinu þetta kvöld og sáum við á eftir fjölda fólks fara allavega upp að steini þrátt fyrir krefjandi veður og um leið varð okkur ljóst að æfingar sem þessar gera okkur nákvæmlega kleift að takast á við það þegar aðstæður breytast snögglega eins og á laugardaginn.
Þau voru þung fyrstu sporin á göngu en það var nauðsynlegt að taka þau og gott að gera það í góðra vina hópi. 

Hugur allra var hjá Sigríði og menn þakklátir að fá fréttir af þessari kraftmiklu og flottu fjallakonu en margir þeirra sem ekki komust þetta kvöld sendu baráttukveðjur til félaga sinna og Siggu.
Farið var í heita pottinn á eftir og var einstaklega gott að spjalla við félagana aftur.

Elsku vinir... við þökkum hjartanlega fyrir allan þann hlýhug sem hópurinn sýndi á þessari ögurstund.

 Fjallgönguklúbburinn sendir hjartanskveðjur til Siggu og fjölskyldu...

Hugur okkar og hjarta er hjá ykkur...

 

 



Á tungunni milli giljanna... brúnir Búhamra í vestri.

Sætur sigur á Kerhólakambi !

... í vetrarveðri á uppleið en vorblíðu á niðurleið ...


Mynd frá Gylfa Þór: Við vörðuna á Kerhólakambi í 857 m hæð:
 Efri frá vinstri: Hjölli, Simmi, Sigríður Sig., Örn, Herdís S., Ingi, Íris Ósk, Hildur Vals., Ragna.
Neðri frá vinstri: Bjarni, Heiðrún, Gnýr, Sigga Rósa, Gylfi Þór, Guðjón Pétur, María, Þorsteinn og Bára tók mynd.

Tuttugu toppfarar lögðu á Kerhólakamb þriðjudaginn 24. mars á 85. æfingu hópsins í hvassri norðanátt og bítandi kulda en léttskýjuðu veðri sem hnoðaði úfnum skýjum ofan á efri hluta Esjuhlíða svo mönnum leist ekkert á blikuna í byrjun...

En elja hópsins á sér engan líka...

Lagt var af stað í kuldanum og rokinu meðfram
Gljúfurá inn Gljúfurdal og
stokkað á steinum yfir ána tvisvar á leiðinni inn dalinn...

Upp var klöngrast brekkuna sem liggur milli Árvallargils og Hestgils í ágætis færi...
...kyngimagnaður staður...


Efri frá vinstri: María, Sigríður Sig., Herdís S., Björn, Þorsteinn, Hjölli, Gnýr, Helga Sig., Sigga Rósa, Simmi, Bjarni, Ragna.
Neðri frá vinstri: Bára, Hildur Vals., Íris Ósk, Heiðrún, Ingi, Gylfi Þór, Guðjon Pétur og Örn tók mynd.

...og komið upp á tunguna í kvöldsólargeislunum  með hvassan norðnorðaustanvindinn beljandi á móti okkur...
...vindi sem brotið getur niður andann á stundum...


Útsýni til borgarinnar, Kollafjörður, Úlarsfell efst vil vinstri.

... og fór enda svo að fljótlega skildi á milli fremstu og öftustu manna og Björn og Helga Sig. ákváðu að fara þennan bratta á eigin hraða. Þau tvö héldu hópinn þar til þau sneru við á að giska komin hálfa leið upp að kambi og búin að vera í sjónfæri við okkur allan tímann. Þau hringdu sig svo inn á bílastæðinu þegar hópurinn var að skila sér inn á tindinn síðar um kvöldið.


Gljúfurdalur sem endar við Þverfellshorn.

Kerhólakambsbrekkan var auð í fyrstu en smám saman snjólögð og hálli er ofar dró en aldrei svo að gorma eða brodda væri í raun þörf þó ekki mætti muna miklu...


Efstu brúnir Búhamra í vestri... hrikalegir hamrar sem við náum vonandi að skoða í sumar í framhaldi af Blikdalsleiðinni.
Herdís S., María, Sigga Rósa og íris Ósk.

Svo krefjandi var brattinn að menn gáfu sér varla tóm til að líta við og njóta útsýnisins gegnum skýjaþokuna...


Níphóll framundan.

... sem sífellt varð þykkari þó sólargeislarnir næðu að skína í gegn að mestu og gefa af sér spennandi myndefni sbr. frábæra mynd hjá Gný á fésbókinni...


Langihryggur hinum megin við Gljúfurdal.

Við Níphól í 560 m hæð fengum við okkur nesti í skjóli og áttum góðar stundir í hlátri og gleði áður en lagt var aftur af stað... enginn á því að fara ekki alla leið nema þá helst kvenþjálfarinn sem var farinn að hallast að því að nóg væri að fara upp á öxlina og láta hæsta tind bíða skárra veðurs...

Neibb, við gefumst ekki upp, við klárum þetta... og upp á öxlina var gengið um hálf harða snjóskafla í skafrenningi með lækkandi sólina skínandi gegnum skýin úr vestri eins og hvatningarlið á hliðarlínunni... komin í 760 m hæð þegar eingöngu snjóbrekkan var eftir upp á kambinn og afskaplega stutt í tindinn... bara rúmir 500 metrar á göngu og 90 metra hækkun... Enginn vildi annað en klára alla leið...


Gullinn roði kvöldsólarinnar var einstakur á þessum augnablikum.

Brekkan var ágætlega fær, ekki fljúgandi hál eins og kvenþjálfarinn hafði haft áhyggjur af... ekki var heldur frosin hálka uppi á kambinum.. bara fínasta færi í brakandi snjó... og skyndilega tókum við eftir því að ekki hreyfðist hár á höfði...

Hvað gerðist?... brúnalogn eða blankalogn skall á okkur... ha? Var þetta grín okkar á uppleiðinni um að það myndi sko "hreinsast frá" og "lægja" þegar upp væri komið að rætast?

Já, það bókstaflega rættist... við gengum frá snjóbrekkunni og upp á heiðina í stillu og tæru útsýni sem gaf þessum augnablikum þegar vörðunni var náð í 856 m hæð skv. gps (851 m) ógleymanlega upplifun...

(
Veðurguðirnir  að klappa okkur á bakið  fyrir að gefast ekki upp ?)


Tindafílingur í agleymi.. Gnýr að taka myndir og bros á öllum andlitum...

Vá, hvílík augnablik.. þetta var tindafílíngur eins og hann gerist bestur og það á saklausu en þó harðneskjulegu þriðjudagskvöldi í mars...

Ógleymanleg stund þarna uppi og synd að rafmagnsleysi myndavélar þjálfara kom í veg fyrir myndbandsupptöku sem hefði sko farið beint á vefina...


Gengið ofan af snjóbrekkunni á kambinum.

Kerhólakambur komst með þessari veðurblíðu á tindinum á lista þeirra fjalla Toppfara sem breytt hafa gjörsamlega um veðurham þegar tindinum er náð... Syðsta Súla, Snæfellsjökull...


Kollafjörður, Mosfellsbær, Úlfarsfell, Reykjavíkurborg, Grindaskörð og Langahlíð í fjarska.

Niður var svo gengið í logni og heiðskíru veðri með útsýnið óskert í flasinu á göngumönnum...


Gljúfurdalur og Langihryggur... fjær eru vetrarfjöllin okkar í Mosó... og Bláfjöll fjærst.

Sólin að setjast og hækkandi hitastig með hverjum metranum svo síðasti kaflinn var sumarlegur í gljúfrinu og árklöngrinu... mosanum og grasinu í myrkrinu...

Hrímið sem þakti allan búnaðinn uppi bráðnaði þarna niðri og dropaði af manni í funhita vorsins til samanburðar við vetrarfrostið fyrr um kvöldið...

... samruni vetrar og vors beint í æð...


Á níphól

Mergjuð kvöldstund

...með frábæru fjallgöngufólki sem ekki þarf að efast um að komast á Hvannadalshnúk eftir svona frammistöðu á marskvöldi á Íslandi við vetraraðstæður... 6,9 km á 3:34 klst. upp í 857 m hæð með 801 m hækkun...

Sjá frábærar myndir frá Gný og Gylfa Þór á fésbókinni og myndasíðu Gylfa: www.123.is/gylfigylfason
 

 


Lali - Hafrahlíð - Bæjarfell - Þverfell - Reykjaborg

...í íslensku vetrar-vor-sumar-veðri...


Á Þverfelli með útsýni til Reykjaborgar næst, Lala og Hafrahlíð vinstra megin við miðju, nánast í hvarfi og Úlfarsfells fjærst.

84. æfing var þriðjudaginn 17. mars og mættu átján manns í SA7, 6°C eða roki og rigningu, sem þó sló lítið á göngumenn og var gengið á fimm hnúka á heiðinni kringum Reykjaborg norðan Hafravatns í glimrandi göngugleði alla leiðina.


Mynd: Lali framundan.

Lagt var af stað frá malarstæði við Dísarhól og gengið fyrst á brattann upp á hnúkinn Lala (244 m). Þjálfarar drógu þá ályktun að þarna væri um Hádegisfell að ræða þegar þeir undirbjuggu æfinguna en komust svo að því við nánari skoðun að Hádegisfellið er norðar, þ. e. litla fellstungan sem liggur milli Lala og Reykjafells og við höfum þverað í fyrri göngum.


Mynd: Á Hafrahlíð:

Frá Lala var gengið á Hafrahlíðina (250 m) sem slútir yfir Hafravatn og var útsýnið ágætt í súldinni eins og myndin hér ofar sýnir.
Vatnið var ísjakalagt og snjóskaflar á svæðinu sem gaf þessu vetrarlegt yfirbragð og voru það viss vonbrigði þar sem veðrið fyrr um daginn var vorlegt í hlýjindunum... jú, reyndar hlýjindum sem gáfu smá vorneista í frostlausum mosanum og bráðnandi snjónum...


Mættir: Alexander, Linda, Soffía Rósa, Stefán A., Sigríður Sig., Heiðrún, Gylfi Þór, Ingi (í símanum),
Hugrún, Steinar, Hildur Vals., Gnýr, Örn, Hjörleifur, Guðjón Pétur, Halldóra Þ., María og Bára tók mynd.

Áfram var haldið austur að Bæjarfelli (297 m) þar sem þeir svöngustu fengu að næra sig í skjólinu neðan við fellið áður en lagt var í hann áfram. Frá Bæjarfelli var svo gengið á Þverfellið (316 m) sem stendur norðaustar á heiðinni en austan þess lá Bjarnarvatn ísilagt og Torfdalshryggur þá þar austar og Grímmannsfellið umfangsmikið norðar í sínum tveimur bungum með Katlagilið á milli. Vegna veðurs létum við Torfdalshrygg bíða betri tíðar síðar og stefndum á Reykjaborgina í bakaleiðinni.


Mynd: Gengið upp á Bæjarfell.

Takið eftir þið sem eruð með gps-tækin að nöfnin á vötnunum eru röng á Íslandskortinu - Bjarnarvatn er nefnt Borgarvatn og öfugt en við förum eftir upplýsingum frá Landmælingum og á kortum af svæðinu þar sem þau eru í samræmi við Landmælingar.


Mynd: Gengið niður Þverfellið með Borgarvatn á vinstri hönd.

Síðust á þessari kvöldgöngu var svo Reykjaborgin (302 m) sem á sínar fögru hliðar og er stöndug séð úr vestri en hér er gengið niður Þverfellið með Borgarvatn á vinstri hönd, Reykjaborg framundan út af mynd, Lala og Hafrahlíð fjær og Úlfarsfell fjærst.

Af Reykjaborginni var gengið rösklega niður heiðina og í norðurhlíðum Lala með Hádegisfell á hægri hönd norðar, um trjáræktarsvæði og loks niður að Dísarhóli í logni og hvílíkum hlýjindum að minnti á sumarið.

Frábær kvöldganga með frábæru fólki sem endaði í 7,5 km á 2:26 klst. upp í 316 m hæð hæst úr 90 m með 226 m hækkun eða samtals 465 m hækkun allt í allt.

Þjálfara tókst að missa af 31. mars í dagatalinu þegar dagskráin árið 2009 var gerð svo það vantaði eina æfingu inn í mars... við stefnum á Kambshorn Esjunnar, jafnvel Kerhólakamb ef vel viðrar næsta þriðjudag... og svo tímamælingu upp Esjuna síðasta þriðjudaginn í mars... ekkert væl... við getum þetta...

 


Valahnúkar og Húsfell
... í vindi og slyddu...

83. æfing var þriðjudaginn 10. mars og mættu 11 manns í heldur hráslagalegu veðri en ágætis göngufæri eða A5 og 2°C.
Gengið var um Valahnúka í austur og farið svo á Húsfell þrátt fyrir að vindar geysuðu hvasst þegar hópmyndin var tekin hér neðar.



Mættir voru:
Bjarni, Alexander, Ragna, Gylfi Þór, Helga Bj., Örn, Sigga Rósa, Helga Sig., Jóhanna, Sigríður Sig. og Bára.
 Hér við kletta Valahnúka austan til.

... en það voru reyndar líka mættir sex manns á Akrafjallið þetta kvöld... Ingi hringdi inn mætinguna og það hljómaði vel fannst okkur að Toppfarar héldu úti deildum "um allt land" og að æfing færi fram á fleiri en einum stað á landinu í einu...



Klöngrast var um tingarlega kletta Valahnúka og fór um suma á köflum en þetta var fínasta æfing í
klettaklöngri og stórskemmtilegt svæði að þvælast um. Í þetta skiptið lögðu allir í klifrið og enginn fór niðurleiðina um Valaból.


Mynd: Gengið niður Valahnúka með Húsfell framundan í norðnorðaustri.

Gengið var svo upp Húsfellið í snjósköflum og töfrandi fallegum klettum en uppi var magnað úrsýni sem ekki fékk að njóta sín fyrir úfnu veðri frekar en ofan af Helgafelli vikuna áður.

 Loks fengum við okkur nesti í klettaborginni neðar og framtíðin var rædd... m. a. ganga árið 2011 um fornu Inkaslóðina til Machu Picchu í Perú Suður-Ameríku... og jafnvel tind Mont Blanc árið 2010...?  Dúndrandi stemmning annars fyrir Skessuhorn og stefnir í mjög góða mætingu... varla er það gammmeldanskið... nei segi svona...

Skelltum okkur svo til baka með vindinn í bakið og rökkrið að læðast inn með kvöldinu. Nánast orðið myrkur í lok æfingar en engin ljós kveikt með snjóinn sem birtugjafa.

Barasta vel af sér vikið... !

 ...eða alls 8,8 km á 2:45 klst. upp í 206 m á Valahnúkum og 295 m á Húsfelli
með 
209 m hækkun frá upphafsstað eða alls 435 m hækkun.

 


Helgafell í snjóbyl

Þrettán mættu á æfingu nr. 82. á Helgafell í Hafnarfirði þriðjudaginn 3. mars eftir þunga snjókomu fyrr um daginn, en þar af var eitt nýtt andlit, hún Jóhanna sem gaf hópnum ekkert eftir en annars voru þetta þau Bára, Bjarni, Gnýr, Helga Bj., Herdís S., Hildur Vals., Hjölli, Ragna, Sigga Rósa, Sigríður S., Stefán Alfreðs. og Örn.
Þá skemmtu sér konunglega tvær tíkur sem voru með í för; Þær Dimma og svo Níka sem var á sinni fyrstu göngu með hópnum og stóð í hatrammri valdabaráttu við Dimmu mest allan tímann en allt í góðu samt...

Veðrið var gott í upphafi og gengið upp Gvendarselshæð svona til að fá meira út úr göngunni í heild en ofan af henni blasti Helgafellið við, Valahnúkar og Húsfellið sem eru á dagskrá næsta þriðjudag.

Við rætur Helgafellsins skall á snjóbylur og tvær grímur runnu á menn... þ.e. lambhúshetta og skíðagleraugu... og haldið ótrautt áfram, en á tímabili hvarflaði að þjálfurum að þetta yrði styttri ganga en ætlað var í upphafi og þeir féllu frá öllum gloríum um að fara skrítnar leiðir niður...

 Maður nokkur skar okkar leið á þessum kafla og stakk okkur svo af á hraðferð sinni og eins mættum við nokkrum karlmönnum með hunda sem höfðu farið aðra leið upp svo ekki vorum við þau einu í heiminum svona brjáluð...

Verðið batnaði er leið á uppgönguna en þó var hvasst uppi á fellinu og útsýnið frábært með fjallasýn allan hringinn.
Nestistíminn stuttur í kuldanum opg við rúlluðum niður. Skyndilega lægði og við fengum logn og ljósaskipti síðustu kílómetrana og var árshátíðin aðallega á umræðudagskrá. Viðstaddir flestir á leiðinni á árshátíðina og ákveðnir í að hittast og fara út að borða saman ef afboða þyrfti árshátíðina sem leit út fyrir miðað við þátttöku.

Gangan endaði á 6,1 km á 2:00 klst. up í 344 m hæð með 257 m hækkun.

Hressandi kvöldganga í krefjandi veðri á tímabili og því fínasta búnaðaræfing og áminning um hve veðrið skipast skjótt í lofti á Íslandi... það gerist fljótt að lambhúshetta og skíðagleraugu verði þarfaþing..

 Helgafellið er annars eitt skemmtilegra fjalla á höfuðborgarsvæðinu, hrikalegt ásýndum en auðvelt uppgöngu, liggur umkringt mikilli náttúrufegurð og státar af einstöku útsýni allan hringinn til sjávar, sveita, borgar og fjalla. Fínasti staður fyrir fjölskyldusamveru að sumri til.
 

 

 

Mosfell í mosafæri

81. æfing var þriðjudaginn 24. febrúar og mættu 20 manns í roki og rigningu... sem var spáð versnandi... en lægði svo þegar lagt var af stað í meðvindi og endaði í golu og logni í bakaleiðinni... eða A9 og 4°C.

Þjálfarar eru áður búnir að lofa þessu en lofa því enn og aftur að hafa fulla trú á sínu fólki... það mætir hreinlega sama hvað... og er greinilega komið á bragðið með hversu gott það er að fara út að ganga þó veðrið sé úfið...

Genginn var öfugur hringur frá því í fyrra eða um suðurhlíðarnar í vestur og áð í brekkunum í vestri með stórkostlegu útsýni yfir borg og bý í skjóli. Gengið var svo með norðurhlíðunum í austur með Kistufellið gnæfandi yfir og vindinn í fangið... en nei, það lægði og við gengum í fínasta veðri til baka þegar maður var búinn að stilla sig inn á rok og rigningu...

Ein sneri fljótlega við og tvær gengu hópinn uppi; Soffía Rósa í byrjun og Helga Sig. þegar við vorum að snúa til baka
en hún skaust þetta á eftir okkur á þrjóskunni og fann sína menn að lokum á (vestur)endanum...

Mættir:
Bára, Dögg, Gnýr, Guðjón Pétur, Gurra, Halldóra Á., Heiðrún, Helga B., Helga Sig., Herdís S., Hildur Á., Hildur V., Ingi, María, Roar, Simmi, Sigríður S., Sigga Rósa, Soffía Rósa og Örn.

Frábær ganga í fallegu útsýni svona gegnum vindinn...

4,8 km á 1:30 klst. upp í  289 m hæð með 211 m hækkun.
 

 


Úfið en vorlegt um
Búrfellsgjá


...úfin skýin gjörsamlega í stíl við úfið hraunið...

Fámennasta æfingin í vetur var þriðjudaginn 17. febrúar en þá mættu 11 manns, þar af tvö ný andlit, þær Dögg og Margrét í hráslagalegu veðri þennan dag sem reyndist fínasta gönguveður þegar á hólminn var komið eða þungskýjað, S10 og 9°C. Fámennið kallaði fram gamla stemmningu í klúbbnum þar sem hópurinn er þéttur og heill þegar hann rúmar ekki mikið fleiri en tólf manns og var þetta notaleg uppfijun á fyrri tímum í sögu fjallgönguklúbbsins...

Mættir voru:
Bára, Björn, Dögg, Helga Bj., Helga Sig., Hildur Vals., Margrét, Sigfús, Soffía Rósa, Stefán Alfreðs og Örn.

Menn nutu þess að ganga í hlýju veðri, auðu færi og lengstum dagsbirtu eftir frost og myrkur síðustu vikur... um nýtt umhverfi eftir sex Esjugöngur... um litríkt hraun og mosa Heiðmerkur og upp með Búrfellsgjá og eftir gígbörmum hennar.

Vortilfinningin var sterk í samanburði við myrkur og frost síðustu vikna.

Á okkur dembdist 2ja mínútna rigningarskúr í byrjun göngunnar í stíl við skúra dagsins...  þar sem við höfðum hvert og eitt okkar fylgst með veðrinu út um gluggann í vinnunni fyrr um daginn... en svo ekki söguna meir af úrkomu og lítið fór fyrir  vindinum fyrr en efst í gjánni þar sem um þrengdist og þegar gengið var um gígbarminn, en þar slógust vindhviðurnar um göngumenn eins og keilukúla án þess að fella okkur þó...

Ekkert varð úr nestispásu í gígbarminum eða þolæfingu um gíginn þar sem veðrið var úfið og bauð ekki upp á annað en að ganga í takt við skýin sem geysuðu ofan okkar í skjólinu við hraunveggina... og bókstaflega feyktu okkur niður gjánna í bakaleiðinni... og endaði æfingin í 5,7 km á 1:40 klst. eða styttra upp í 180 m hæð með hækkun upp á 74 m frá upphafsstað.

Kærkomin ganga um fallegt umhverfi í hlýjindum og auðu færi en úfnu veðri.
 

 


Esjan í heiðskíru veðri á fullu tungli

... með óvissuferð um Langahrygg á niðurleið...

Alls mættu 26 manns á síðustu Esjuæfinguna að sinni þann 10. febrúar í heiðskíru veðri, logni og frosti eða A2, -4°C undir stjörnubjörtum himni með tunglið fullt að fela sig bak við fjöllin... eða...

Bára, Gnýr, Guðbrandur, Guðjón Pétur, Guðmundur Ólafur, Gurra, Halldóra Ásgeirs., Heiðrún, Helga Bj., Helga Sig., Herdís Skarphéðins., Hjörleifur, Ingi, Irma, Jón Tryggvi, Linda Lea, Margrét Gróa, María, Ragna, Roar, Sigfús, Simmi, Sigga Rósa, Sigríður Sig., Stefán Heimir og Örn... og hundurinn Dimma sem var sko glöð að komast með...

Lagt var af stað í rósrauðum sólargeislum við sólsetur sem varð stuttu síðar og fengum við fjallatindana rauða í fangið á uppleiðinn. Færið brakandi gott og varla hálkublettir, ótrúlega mikil sólbráð síðustu daga svo Esjan var tiltölulega auð af snjó.

Helga Sig hafði farið fyrr af stað en við hittum aldrei á hana því miður, Helga Björns hafði líka farið á undan og var búin með eina ferð þegar hún fór aftur með hópnum upp að á... það er ekkert gefið eftir..., Stefán Heimir, Guðjón Pétur, Gnýr og Guðmundur Ólafur fóru hraðar og alla leið upp á Þverfellshorn í 770 m hæð og Jón Tryggvi og Halldóra Ásgeirs sneru við frá ánni en hinir fóru æfinguna í heild.


Mynd: Síðasti kaflinn upp hlíðina að steini

Brakandi blíðan í frosti, snjó og logni var slík að við steininn þar sem sólarlagið lék enn við land og láð þá stóðust þjálfarar ekki freistinguna og létu slag standa með að ganga út allan Langahrygg frá steininum og finna einhverja leið þar niður að bílastæði... og því varð niðurleiðin að nokkurs konar óvissuferð í myrkrinu þar sem grjótið var dimmt án snævar... en voru menn almennt ánægðir með þennan þvæling enda lang skemmtilegast að rölta um utan slóða... en sjá má hér á mynd hnúkinn á Langahrygg þar sem við slökktum ljósin og nutum borgarljósanna á haffletinum frá nýju sjónarhorni og svo leiðina niður þar með á hnúkana (sem eru nánast í hvarfi á myndinni) sem leiddu okkur niður í neðsta gil Esjuslóðans.

Kristaltær ganga sem gerist ekki betri en þetta að vetri til...

7,3 km á 2:33 - 2:40 klst. upp í 597 m hæð með 587 m hækkun...

Hér með lýkur undirbúningi fyrir Esjuljósagönguna...
Þetta klöngur um nýjar slóðir frá Langahrygg gáfu tóninn fyrir komandi mánuði...
Nú taka við ólík fjöll á hverjum þriðjudegi út árið 2009...
...við erum náttúrulega að safna fjöllum...
 

 

Hellaskoðun í Raufarhólshelli 7. febrúar 2009 - Hjölli:

Sjá ferðasögu Hjölla á http://www.hjolli.com/Toppfarar/

Og hjá Þorbjörgu með myndum þar sem einnig eru myndir af búningaballinu hjá Lindu Leu: http://fingurbjorg.123.is/blog/cat/2962/
 

 


Sólarlagsganga og stjörnuskoðun
á Esjunni

29 manns mættu í sólgleraugnagöngu á Esjunni þriðjudaginn 3. febrúar og nutu þess að taka æfingu í sólarlaginu í heiðskíru veðri, logni og frosti eða A1 og -3°C. Þar af var Erla 15 ára og hundarnir Dimma og Krummi:

Bára, Erla, Gnýr, Guðbrandur, Guðjón Pétur, Gylfi Þór, Halldóra Ásgeirs., Halldóra Þórarins., Heiða, Helga Bj., Helga Sig., Helgi Máni, Herdís Skarphéðins., Hildur Vals., Hjölli, Hörður, Ingi, Irma, Jón Tryggvi, Linda Lea, Margrét Gróa, María, Roar, Sigfús, Simmi, Sigríður Sig., Stefán Alfreðs., Þorbjörg og Örn.

Flestir mættir með sólgleraugu að áskorun þjálfara til að fagna fyrstu sólargeislunum í upphafi æfingar eftir dimman vetur og líka svona til upphitunar á búningaballi helgarinnar... fyrsti í búningaballi.

Veðrið var hrein dásemd... og færið brakandi gott..
Nægur snjór til að slétta út grjót og þekja hálkubletti nema allra efst við steininn.

Sólarlagið í bland við borgarljósin og skíðaljósin í Bláfjöllum var ólýsanlega fallegt úr Esjuhlíðum
og gaf þessa tæru útivistartilfinningu sem eingöngu vetrargöngurnar geta gert og valda því að vetrargöngurnar standa einhvern veginn upp úr öllum þeim fjallgöngum sem eru að baki.

Gengið var upp með Einarsmýri, brattari leiðina og niður grjótbrekkumegin sem hentaði vel þetta kvöld miðað við færið.
Halldóra Ásgeirs og Helga Sig. fóru hina leiðina og náðu svo í skottið á sínu fólki og Ingi og Gnýr skelltu sér upp á Þverfellshorn í 770 m hæð og náðu einnig hópnum á niðurleiðinni.

Gengið var fremur rösklega og æfingunni lokið á 2:07 - 2:12 klst. á 6,4 km leið upp í 603 m hæð með 589 m hækkun skv. gps.


Mynd: Fengin góðfúslega að láni af vefnum www.stjornuskodun.is - stjörnuhimininn yfir Íslandi 4. febrúar 2009

Stjörnuskoðun fór reglulega fram þetta kvöld enda gnæfði himininn yfir okkur að mestu heiðskír með Venus, Karlsvagninn, Pólstjörnuna og... en Gylfi Þór og fleiri deildu þekkingu sinni á stjörnuhvolfinu og benti Gylfi Þór á mjög áhugaverðan og góðan vef fyrir áhugsasama stjörnuskoðunarmenn: www.stjornuskodun.is

F u l l k o m i n   k v ö l d g a n g a  

...þar sem sólarlagið, stjörnurbirtan, tunglskinið af hálfu tungli og snjórinn lýstu leið okkar svo varla þurfti ljós...
 

 

Esjan í snjókomu á kafi í snjó....

ja77. æfing var þriðjudaginn 27. janúar og hófst í logni og dagsbirtu, SA6 og 0°C en breyttist í snjókomu og vind þegar ofar dró og endaði svo í logni og góðu skyggni.

Bára þjálfari leit eingöngu við í upphafi æfingar og hafði ekki heilsu til að ganga með hópnum að sinni, en vildi heilsa upp á Háusúlufara eftir svaðilförina góðu á laugardaginn, þar sem það er miklvægt að viðra svona dag saman. Örn leiddi og hélt því utan um gönguna einsamall öðru sinni í röð en naut aðstoðar hjálpsamra télaganna eins og áður.
 

25 manns mættu og var létt yfir mönnum í dagsbirtunni og veðurblíðunni í byrjun æfingar. Nokkrir höfðu farið á undan upp hlíðarnar en við áfanga fjögur sneru átta manns við en hinir héldu upp að steini.

 

Þeir skelltu á sig einni mynd neðar í hlíðunum á niðurleið svona í snjóskaflinum með borgina í baksýn
en annars mættu þetta kvöld eftirfarandi:

Bjarni, Björn, Gnýr, Guðbrandur, Guðjón Pétur, Gurra, Halldóra Á., Halldóra Þ., Heiðrún, Helga Bj., Herdís S., Hildur Á., Hildur V., Ingi, Irma, Jón tryggvi, Margrét Gróa, Ragna, Roar, Sigús, Simmi, Sigga Rósa, Sigríður Sig., Stefán Alfreðs., og Örn.

Stefán Alfreðs og Margrét Gróa komin aftur eftir hlé og var frábært að sjá þau aftur :)
 

Upp að steini var komið eftir 1:20 klst. og blés vindurinn þar uppi. Niðurleiðin gekk vel um Einarsmýri og var haldið hópinn að mestu en síðustu menn luku þessu á 2:16 klst. eftir 6,4 km upp í 597 m hæð með 587 m hækkun... svona ef einhver er búinn að gleyma þessum hæðartölum...

Næst síðasta gangan fyrir Esjuljósagönguna á Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar sem Toppfarar sjá um... skráning hafin á þeim toppförum sem ætla að vera leiðsögumenn í þeirri göngu - sjá leiðbeiningar í næstu viku... bara gaman saman og ekkert stress...

 


--- Friðsæld á Esjunni ---
 


Mynd: Eftir brúnna - Sjá borgarljósin í fjarska og snjófærið.

Alls mættu 29 manns á 76. æfingu Toppfara þriðjudaginn 20. janúar með Erni þjálfara í friðsælu veðri og snjófæri en þar á meðal var Helgi, nýr meðlimur og einnig hún Anika, 16 ára, hundurinn Krummi á sinni annarri æfingu og einnig kærkomin hún Halldóra Ásgeirs sem komst áleiðis gangandi og er vonandi komin til að vera eftir meiðslin... og eins var ánægjulegt að sjá Guðbrand aftur á göngu en líklega höfum við ekki séð hann síðan í hlíðum Mont Blanc í september rétt fyrir hrunið...

Mættir voru annars í heildina:
Alexander, Anika, Bjarni, Gnýr, Guðbrandur, Guðjón Pétur, Guðmundur Ólafur, Gurra, Halldóra Á., Helgi, Heiðrún, Herdís S., Hildur Á., Hjölli, Hörður, Ingi, Irma, Íris Ósk, Jón Tryggvi, Linda Lea, Helga Sig., Ragna, Roar, Simmi, Sigga Rósa, Sigfús, Sigríður Sig., Þorbjörg og Örn.

Nánast bjart var í upphafi æfingar og dýrmætt að mæta í þriðjudagsgöngu í dagsbirtu eftir myrkur við mætingu síðan í nóvember... það er gott að kunna gott að meta eftir skort...


Mynd: í hlíðinni að steininum

Lagt var af stað kl. 17:34 en þá voru þegar nokkrir lagðir í hann á undan hópnum, annað hvort til að vinna upp tíma eða ná alla leið upp á Þverfellshorn. Guðjón Pétur og Ingi fóru alla leið á hornið en hinir upp að steini og svo brattari leiðina niður um Einarsmýri og átti Örn fullt í fangi með að halda utan um þetta stóran hóp en það einfaldaði ekki málin að fleiri voru á Esjunni í veðurblíðunni þetta kvöld...

Niður komu fyrstu menn eftir 2:08 klst. en þeir síðustu um hálftíma síðar og var þessi kvöldganga hin notalegasta í friðsæld og góðu færi með snjó yfir öllu í viðráðanlegri hálku.
Kílómetrarnir urðu
6,4 km þessa leiðina, upp í 597 m hæð með 587 m hækkun.

Spennandi verkefni framundan á Háusúlu á laugardaginn en fjallasalur Botnssúlna er stórfenglegur í nálægð sem fjarlægð, sérstaklega í vetrarbúningnum...
sjá göngu hópsins þar um í október árið 2007 ... er virkilega orðið svona langt síðan???
 

 


Esjan í snjó og stjörnum



75. æfing var þriðjudaginn 13. janúar og mættu 27 manns í veðri sem breyttist snögglega úr heiðskíru og friðsælu síðustu daga og fram eftir þessum degi yfir í snjóhríð á leiðinni úr vinnunni og á æfinguna... svo flestir töfðust í umferð... en gengu svo af stað í logni og hálfskýjuðu veðri með stjörnurnar kíkjandi handan skýjanna... A3 og -2°C...
Færið loksins orðið snjór sem birti allt upp með tunglið hálffullt kringum skýin og skyggnið því frábært í fjallinu sjálfu og til fjalla og byggða kringum Esjuna sunnarverða.


Mættir voru:
 Bára, Björgvin, Björn, Einar Logi, Gnýr, Guðjón Pétur, Guðmundur Ólafur, Halldóra Þ., Heiðrún, Helga Bj., Herdís H., Hildur Vals., Hjörleifur, Hörður, Ingi, Irma, Jón Tryggvi, Linda Lea, Helga Sig., María, Roar, Sigfús, Simmi, Sigríður Sig., Soffía Rósa, Þorleifur og Örn (vantar 3 á mynd).
Þar af voru tvö ný andlit á æfingu; þeir Hörður og Sigfús og loks hundurinn Krummi að ógleymdum fjallastráknum mikla honum Einari 8 ára sem mætt hefur vel í vetur og gefur ekkert eftir sér eldri göngumönnum.
 

Lagt var af stað kl. 17:39 og gengið í í brakandi snjónum með hálkubungum upp eftir hlíðunum en verstur var kaflinn í miðri fjallshlíð þar sem lækjarsprænurnar renna frá Einarsmýrinni niður á slóðann.

Veðrið yndislegt og skyggnið eins töfrandi og það getur verið þegar snjófölin, stjörnur og tungl lýsa upp umhverfið í myrkrinu.

Fjölmennt var á þessari annarri æfingu ársins og mikið spjallað, enginn skammdegisbeygur í mönnum eða metnaðarleysi í framtíðarplönum fyrir árið 2009...

Hér á mynd: Guðmundur Ólafur, Soffía Rósa, Helga Bj., Þorleifur, Gnýr og Linda Lea...

Tiltölulega margir á fjallinu þetta kvöld, tveir hlauparar, þrír gönguhópar og tveir stakir göngumenn allavega...

Upp að steini vorum við komin fyrstu menn eftir 1:13 klst. og síðustu 1:26 klst. en ein hafði snúið við frá áfanga fjögur.

Guðjón Pétur og Guðmundur Ólafur skutust upp á Þverfellshorn á meðan allir skiluðu sér upp að steini og var ákveðið að taka hópmynd úr því veðrið var svona gott áður en við lögðum af stað niður eftir stutta nestispásu á þessum fallega útsýnisstað á Esjunni sem nýtur sín ekkert síður í myrkri og góðu skyggni eins og þetta kvöld.

Niðurleiðin var greið og fóru menn hver á sínum hraða í litlum hópum en þjálfarar fylgdu síðustu mönnum á góðu spjalli í friðsældinni sem sannarlega ríkti á Esjunni þetta kvöld.

Frábær þolæfing sem skilaði okkur 7 km göngu á 2:32 klst. síðustu menn (aðrir fyrr) upp í 597 m mældri hæð með 580 m hækkun miðað við 17 m upphafshæð skv. gps þjálfara.

 


Esjan
...Í rigningu og slyddu en auðu færi, lygnu og hlýju veðri...

74. æfing og jafnframt sú fyrsta á árinu 2009 var þriðjudaginn 6. janúar á þrettándanum og mættu 23 manns, þar af Einar, 8 ára og ein ný, Sigga Rósa sem gaf ekkert eftir á sinni fyrstu æfingu.
Verðið var eins og síðustu daga, lygnt og hlýtt en þungbúið og rigning stóran hluta af göngunni með þoku efst;
 eða SA2 og 5°C.

Aldrei hefur myrkrið verið svartara á Esjunni en þetta kvöld, þrátt fyrir þokkalegt skyggni upp með hlíðunum og enga þoku fyrr en efst. Snjórinn var nánast enginn og himininn gaf ekki birtu fyrir rigningarskýjum sem sendu okkur bara dropana í rólegheitunum sem urðu slyddukenndir þegar ofar dró.

Mættir voru:
Bára, Björgvin, Einar Logi, Gnýr, Guðjón Pétur, Gurra, Heiðrún, Herdís, Hildur, Ingi, Irma, Jóhannes, Jón Tryggvi, Linda, Helga Sig., María, Roar, Simmi, Sigga Rósa, Sigríður Sig., Þorbjörg, Þorleifur og Örn.

Þrettándinn fór ekki framhjá okkur þetta kvöld því drunurnar heyrðust vel upp í fjallshlíðar og í fyrstu héldum við að þetta væru þrumur... eða var þetta grjóthrun?... en svo litum við við og sáum eldglæringarnar í borginni... auðvitað voru þetta flugeldar...

 Við áfanga fjögur sneru fimm við til baka en hinir gengu upp að steini og voru komnir þangað eftir 1:15 klst. göngu með reglulegum hléum. Gengið var fremur rösklega, formið gott á hópnum og nýrri félagar náðu ágætlega að halda í hópinn eins og þær mæðgur Sigríður og Herdís sem hér náðust á mynd við steininn.

Stuttu áður en komið var upp að steini tók snjólínan við og sjá má slydduna á steininum og jarðveginum á myndunum.

Golan tók einnig við þarna uppi eins og oft áður og því var staldrað stutt við í úrkomunni og haldið niður en þjálfari reyndi ekki einu sinni að ná hópmynd í þessari úrkomu þar sem við vorum þetta mörg og veðrið fráhrindandi.

Niðurleiðin var sömu leið um grjótbrekkuna og slóðann þar sem ekki þótti ráðlegt að fara um blauta Einarsmýrina en sjaldnast höfum við farið þessa sömu leið til baka sem var því  ágætis tilbreyting fyrir flesta.

Æfingin tók 2:19 - 2:26 klst. í heildina sem var vel af sér vikið á þessum árstíma. Hæðin mældist nákvæmlega sú sama og oft áður og í samræmi við skilti Esjunnar, þ. e.  úr 10 m yfir sjávarmáli frá fjallsrótum, upp í 597 m hæð með 587 m hækkun.

Góð byrjun á nýju ári en þó gott sé að hafa hlýjindin og auða færið þá eru flestir farnir að sakna snjóbirtunnar og friðsældar kvöldgangnanna síðasta vetur þegar við nutum birtunnar af léttskýjuðum himni og snjófölarinnar á fjöllum...

Þessi vetur er ólíkur síðasta vetri og það verður forvitnilegt að sjá hvort þessi ólíkindi haldi sér fram á vor. Snjóleysið sem við kvörtum nú yfir verður okkur hins vegar mjög hagstætt með vorinu, því þá er gott að hafa auða færið og komast betur um óbyggðirnar þegar birtu er farið að njóta lengur á kvöldin og snjóskaflar flækjast fyrir vorhuganum... svo það er með þetta eins og annað í lífinu... kostir og gallar á öllum hlutum...

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is